Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Vissulega er það af hinu góða að sett skuli í lög ákvæði til að draga úr slysahættu og annað varðandi starf barna og ungmenna á vinnustöðum. En það kemur samt upp í huga mér svona ákveðinn efi að stjórn Vinnueftirlitsins geti metið hvað er hættulegt á hverjum stað. Það er til að mynda ábyggilega hættulegt fyrir ungling sem aldrei hefur komið í fiskverkunarstöð að vera settur þar á ákveðnar vélar, en fyrir ungling sem aftur á móti hefur alist upp við vinnustað og á vinnustað er það ekki eins hættulegt. Ég er hrædd um að það gæti farið svo að t.d. humarvinnsla sem yfirleitt er að stærstum hluta og jafnvel öllum í höndum unglinga á aldrinum 14--16 ára, ýmsir þættir þeirrar vinnslu væru taldir hættulegir af stjórn Vinnueftirlits þó skýrslur sýni að þar hafa aldrei átt sér stað nein slys. En það hafa verið gerðar athugasemdir varðandi ákveðnar vélar sem unglingar eru látnir vinna við. Og einnig er það svo, a.m.k. við sjávarsíðuna, að þar sækja unglingar 15--16 ára í það að vera á sjó yfir sumartímann. Það mundi áreiðanlega flokkast undir hættulegan vinnustað sem væri þá settur í bann. Ég held að eðlilegra væri að það væri á ábyrgð atvinnurekenda að þau börn og unglingar sem hjá þeim vinna verði ekki sett á vélar sem þeim væri talin stafa hætta af. Það yrði til þess, sem er reyndar í dag á flestum vinnustöðum, að atvinnurekendur, verkstjórar og aðrir pössuðu upp á þessa hluti mjög vel.
    Ég vil svo líka benda á það að með þessu frv. til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru fylgiskjöl. Það er t.d. 41. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Þar virðist skipta máli hvort um er að ræða stúlkubarn eða dreng vegna þess að hér segir: ,,Eigi má hafa yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára við vinnu í skipum, nema skólaskipi eða æfingaskipi. Yngri menn en 18 ára mega ekki vera kyndarar eða kolamokarar, og eigi mega yngri menn en 19 ára starfa við vélgæslu á skipum. Eigi má ráða yngri karlmenn en 15 ára og eigi yngri konur en 18 ára til vinnu í loftfari. Til iðnaðarnáms má eigi ráða barn yngra en 16 ára.``
    Þarna er sem sagt túlkunaratriði hvort 14 eða 15 ára unglingur, karlkyns eða kvenkyns, er hæfur og hvort þarf þá að greina á milli hvort þeirra megi taka að sér störf við vélgæslu eða við vélavinnu t.d. í fiskvinnslu. En það er ákaflega afstætt hvað er hættulegt og hvað ekki. Það sem börnin alast upp við reynist þeim hættulítið eða hættulaust, en það sem er þeim ókunnugt getur reynst þeim hættulegt. Ég held það sé mjög vafasamt að fá stjórn Vinnueftirlitsins í hendur að setja um þetta reglur sem skulu vera algildar.