Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem fram fór hér í gær og löng var og ítarleg skýrðust ýmsir þættir þessa máls. Ég fjallaði um fjögur af þeim meginatriðum sem ég taldi vera kjarnann í þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar hafði flutt. Eins og fram kom hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni hafa flm. till. fallist á að draga þrjú af þessum efnisatriðum til baka. Hins vegar hefur ekki gefist nægilegur tími til þess frá þeirri umræðu sem lauk hér seint í gær til þess að kynna þessi efnisatriði fyrir hv. fjh.- og viðskn. og þingflokkum. Ég teldi þess vegna nauðsynlegt áður en atkvæðagreiðslan fer fram að óska eftir því við virðulegan forseta að það verði gefinn tími til þess í dag að fjh.- og viðskn. komi saman. Ég vil bera fram þá ósk hér að hún komi saman sem allra fyrst nú á eftir til þess að fjalla um þessar hugmyndir svo að eðlileg umfjöllun geti farið fram í nefndinni og í þeim þingflokkum sem þess óska áður en atkvæðagreiðslan fer fram.