Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. allshn. um þetta frv., 128. mál. Álit minni hl. er á þskj. 725. Ég mæli einnig fyrir brtt. sem minni hl. flytur og eru þær á þskj. 726.
    Auk mín standa að minnihlutaálitinu hv. þm. Friðjón Þórðarson og Ingi Björn Albertsson.
    Sú staðreynd liggur nú fyrir að stofnað hefur verið umhvrn. Það var gert með lögum frá Alþingi nú í lok febrúarmánaðar sl. Núna ræðum við hins vegar frv. sem fjallar um þau verkefni sem flytja á frá hinum ýmsu ráðuneytum til hins nýja umhvrn.
    Í umræðum um hið fyrra frv., þ.e. stofnun ráðuneytisins, varð auðvitað ekki hjá því komist að ræða einnig þau verkefni sem hið nýja ráðuneyti skyldi fá. Þessi mál varð að sjálfsögðu að ræða í samhengi. Málflutningur okkar, andstæðinga frv. um stofnun sérstaks ráðuneytis, beindist eðlilega í þá átt að sýna fram á að stofnun nýs ráðuneytis væri óskynsamleg ráðstöfun og raunar óþörf.
    Á sama tíma og ráðagerðir voru uppi hjá hæstv. ríkisstjórn um fækkun ráðuneyta, a.m.k. niður í tíu, vann þessi sama ríkisstjórn að því að fjölga ráðuneytum í 14. Sérstaklega er athyglisverður þáttur hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. í þessu máli. Hann hefur klifað á því í tíma og ótíma hver nauðsyn sé að fækka ráðuneytum, ekki niður í tíu heldur niður í sjö. Þennan málflutning hefur hæstv. ráðherra haft uppi á fundum sínum úti um land og í fjölmiðlum. Þar er hann auðvitað að gera sig góðan í augum kjósenda en á Alþingi styður hann hins vegar fjölgun ráðuneyta upp í 14. Það er lítið samræmið þarna í orðum og athöfnum.
    Í umræðunni fyrr í vetur leiddum við fram, máli okkar til stuðnings, marga aðila sem látið höfðu í té umsagnir um þessi mál og töluðu af langri og
verðmætri reynslu. Á þennan málflutning var ekkert hlustað af hálfu stjórnarliðsins. Látum það vera þótt stjórnarliðið taki ekkert tillit til þess sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar segjum. En fyrirlitningin sem sýnd er þeim sem lagt hafa mikla vinnu í umsagnir sínar og miðla af margra ára þekkingu og reynslu er dæmalaus. Og það er ekki aðeins svo að hæstv. ráðherrar sýni stjórnarandstöðunni og umsagnaraðilum þennan dónaskap, þeir hundsa einnig skoðanir einstakra þingmanna í stjórnarliðinu og ætlast til þess af þeim einstaklingum sem sjá hvílík mistök hér er verið að gera að þeir þegi og greiði atkvæði eins og þeim er sagt að gera. Sjálfsagt gera þeir það. Hvers vegna þetta ofurkapp að samþykkja frv. nánast óbreytt og einmitt í þessu formi? Á því er aðeins ein skýring. Það er loforð ráðherranna til Borgfl. á haustdögum að með þessum hætti skyldi greiðslan vera fyrir atkvæðin fimm á Alþingi. Það rennir stoðum undir þessa skýringu að sumir þeirra sem sömdu frv. höfðu áður staðið að tillögum um allt aðra skipan umhverfismála, þ.e. þá samræmdu stjórn sem við sjálfstæðismenn lögðum til með frv. okkar sem flutt var hér í upphafi

þings og er 4. mál þingsins.
    Herra forseti. Staðreyndirnar eru þessar: Umhvrn. hefur verið stofnað og frv. um yfirfærslu verkefna til hins nýja ráðuneytis er hér til umræðu. Þetta frv. ber þess ljós merki að hæstv. ríkisstjórn telur alveg bráðnauðsynlegt að koma sem mestu af verkefnum frá núv. ráðuneytum til hins nýja. Þessi árátta helgast sjálfsagt af því að mönnum sýnist nauðsynlegt að starfsmenn hins nýja ráðuneytis hafi eitthvað að gera. Það verður sem sagt að réttlæta stofnun ráðuneytisins með því að hrúga á það einhverjum verkefnum og þá sjást menn ekki fyrir. Út í þetta er í raun og veru anað í stríði við allt og alla. Mál eru tekin frá ráðuneytum sem eðli máls samkvæmt eiga að hafa þau áfram. Stofnanir skulu heyra undir tvö ráðuneyti í stað eins áður. Tvöföldu kerfi skal komið upp sem víðast. Skilvirkni í stjórnun er sagt stríð á hendur og kostnaður skal aukinn. Talað er um að umhverfisráðuneytið skuli vera lítið ráðuneyti. Áætlanir benda til annars. Og auðvitað fer þetta hér sem alls staðar annars staðar, hér rís upp bákn í engum tengslum við atvinnuvegaráðuneytin, gefandi fyrirskipanir á allar áttir. Hvað kemur mönnum til að ætla að þróunin verði allt önnur hér en í nágrannalöndunum? Við erum að ganga inn í kerfi sem aðrir eru að reyna að losa sig úr en gengur erfiðlega.
    Hér er ætlunin að steypa öllu er varðar umhverfismál í eitt nýtt ráðuneyti. Menn láta jafnvel eins og ekkert hafi verið gert á vegum hinna einstöku ráðuneyta í umhverfismálum á undanförnum árum. Það er rangt, sannleikurinn er sá að mikið hefur verið unnið að umhverfismálum í hinum einstöku ráðuneytum á undanförnum árum. Og hæstv. nýi umhvrh. talar um tímamót í Íslandssögunni við stofnun þessa ráðuneytis. Með ýmsu móti ætla menn sér sérstakan sess í þeirri sögu. Það er kannski von ef menn í raun halda að það gangi upp að öll umhverfismál geti átt heima í einu ráðuneyti og hvergi annars staðar.
    Ég hef hér í höndum upplýsingar um fjárveitingar norska ríkisins til umhverfismála árið 1989. Þar er eitt elsta umhvrn. Þar kemur fram að fjárveitingar til umhverfismála fara til 16 ráðuneyta. Það er að vísu svo að
umhvrn. fær hæstu fjárveitinguna, rúmar 1600 millj. nkr. af tæpum 6400 millj. sem til umhverfismála fara. En samgrn. fær litlu minni upphæð eða 1543 millj. Ráðuneytið fyrir þróunarhjálp fær tæpar 1000 millj. og svona mætti lengur telja. Olíu- og orkumálaráðuneytið fær tæpar 400 millj., varnarmálaráðuneytið yfir 300 millj., menningar- og vísindaráðuneytið fær tæpar 300 millj. og sjávarútvegsráðuneytið einnig tæpar 300 millj., félagsmálaráðuneytið líka tæpar 300 millj. kr. Þetta er vegna þess að menn hafa séð það af reynslunni í Noregi að ekki er hægt að setja þennan mikilvæga málaflokk undir eitt ráðuneyti og menn eru að losa sig úr þeirri klemmu sem þar er komin.
    Ég hef látið í ljós þá skoðun áður að með umhvrn. muni ríkisbáknið þenjast út og að ekki gæti heldur

verið eðlilegt að þau ráðuneyti sem hingað til hafi haft umhverfismálaflokka á sinni könnu yrðu losuð undan þeirri ábyrgð sem þau ættu að hafa áfram. Ég ítreka þessa skoðun mína. Hún er líka í fullu samræmi við þá meginstefnu um dreifingu ábyrgðar sem nú er að komast á um allan heim í umhverfismálum. Þessi stefna byggir m.a. á tillögum nefndar sem starfaði á vegum Sameinuðu þjóðanna undir forustu Gro Harlem Brundtland, þáv. forsrh. Noregs. Í áliti þeirrar nefndar kemur fram að reynslan sé ekki góð af þeirri tilhögun sem gilt hefur við stjórn umhverfismála frá því fyrst var farið að stjórna þeim úr umhverfisráðuneytum upp úr árinu 1970. Umhverfisráðuneytin hafi þá tekið við afleiðingum af ákvörðunum og háttsemi annarra og reynt að bæta úr umhverfistjónum sem hafi orðið. Það fyrirkomulag telur Brundtland-nefndin að hafi ekki gefist nógu vel.
    Í þessu nál. er mælt með að allir þeir sem með gerðum sínum eða aðgerðarleysi geta haft áhrif á umhverfið og valdið umhverfistjóni verði gerðir meðvitaðir um ábyrgð sína, hvort sem um er að ræða stjórnvöld, stofnanir eða einstaklinga. Á þann hátt verði þess alls staðar gætt við framleiðslu og nýtingu auðlinda að ekki sé gengið á þær og jafnframt stefnt að aukningu þeirra. Ég minni líka, og hef reyndar gert það áður úr þessum ræðustóli, á einkaviðtal sem þýski jafnaðarmannaleiðtoginn Oskar Lafontaine átti við Alþýðublaðið laugardaginn 2. sept. sl. Í þessu blaðaviðtali er haft eftir honum: ,,Lafontaine lagði enn fremur mikla áherslu á heildræna stefnu í umhverfismálum. Hann sagði til að mynda að það gengi ekki að umhverfismálum væri steypt í eitt ráðuneyti og þar væri unnið að þeim meðan önnur ráðuneyti héldu óbreyttri stefnu. Leggja þyrfti áherslu á að allir væru jafnábyrgir.`` Einhvern tímann hefðu nú kratarnir viljað fara eftir því sem þessi gúrú þeirra, Oskar Lafontaine, segir og kannski átta þeir sig þegar svona ummæli eru rifjuð upp.
    Ég minnist greinar eftir hæstv. iðnrh. og viðskrh. Jón Sigurðsson, sem hann skrifaði í Morgunblaðið á haustdögum, ég held í nóvember. Þar koma fram nokkuð önnur sjónarmið en ég hef hér verið að greina frá. Hann segir í þessari grein: ,,Tillögur Sjálfstæðisflokksins um samræmda yfirstjórn umhverfismála sem falin væru einu núverandi ráðuneyta en dreifðar ábyrgðir á framkvæmdinni eru gallaðar að því leyti að almenningur veit þá ekki hvert hann á að snúa sér með umhverfiserindi.`` Þessi ummæli, bæði mín og hæstv. iðnrh., urðu ráðuneytisstjóranum í landbrn., Sveinbirni Dagfinnssyni, tilefni til blaðaskrifa. Mig langar til að vitna hér nokkuð í grein ráðuneytisstjórans. Hann víkur fyrst að ávarpi sem Kristján heitinn Eldjárn, þáv. forseti Íslands, flutti árið 1972 þar sem hann gat um lífbeltin tvö, í sjó og á landi. Þar sagði forsetinn: ,,Bersýnilegt er að fyrr en varir verður það talin ein af frumskyldum allra þjóða að taka virkan þátt í að friða, rækta og vernda land og sjó. Vernda náttúruna um leið og þær nytja hana og lifa á henni.`` Og síðan segir: ,,Það má með sanni tala um lífbeltin tvö, grónu

ræmuna eða beltið upp frá ströndinni og sjóræmuna með ströndum fram.`` Og enn segir: ,,Sumir óttast að hugmyndir um gróðurvernd séu hættulegar fornum atvinnuvegum. En þau ráð er hægt að finna með nútímaþekkingu og tækni og raunar blasir alls staðar þetta sama við að samræma nýtingu og vernd. Um þetta ættu allir að geta verið sammála.`` Hér lýkur tilvitnun í ávarp forsetans. En hann er þarna í raun og veru að kynna sömu sjónarmið og eru meginstefnumiðin í skýrslu Brundtland-nefndarinnar sem kom 15 árum síðar, 15 árum eftir að forsetinn sagði þessi orð.
    Ráðuneytisstjórinn vitnar hér í þessa grein hæstv. iðnrh., sem ég vitnaði í áðan, og tekur þar upp eftir ráðherranum: ,,Ísland er girt tveim lífbeltum, sjónum og gróðurlendinu. Við þurfum að gæta að þeim báðum.`` Hann nefnir ekki hvernig við skulum gæta lífbeltisins í sjónum en nefnir sitthvað varðandi lífbeltið á landi og segir: ,,Afskipti stjórnvalda af búskaparháttum í landinu verða að breytast í þá átt að hlífa landinu við ofbeit. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti en stöðvun lausagöngu búfjár er mikilvægasta skrefið. Einnig á þessu sviði þarf að leita leiða að málamiðlunum sem líklega verða samofnar úr efnahagslegri hvatningu og beinum tilskipunum.`` Ráðuneytisstjórinn nefnir að Íslendingar hafi þegar um fjölda ára haft afskipti af búskaparháttum til þess að hlífa landinu við ofbeit. Beitartími á afréttum hefur verið styttur og er stjórnað eftir ástandi gróðurs. Bændur hafa, með sárafáum undantekningum,
löngu sætt sig við árlegar tillögur Landgræðslu ríkisins og gróðurverndarnefnda í þeim efnum. Upprekstri er hætt á nokkra afrétti og er næsta lítill á öðrum og í markmiðssetningu Landgræðslu, landbrn. og Skógræktar, sem nýlega hafa verið kynntar er gert ráð fyrir að innan fárra ára linni beitarálagi með öllu á viðkvæmum afréttarlöndum. Vinna að þessum viðfangsefnum er komin vel á veg og felst m.a. í því að kanna hag og stöðu hvers bónda og greiða fyrir breyttum búháttum hjá þeim sem þess þurfa með.
    Ráðuneytisstjórinn fellst á það með ráðherranum að stöðvun lausafjárgöngu búfjár muni færa margt til betri vegar og hefði mátt vera komin til framkvæmda á fleiri svæðum landsins en þegar er. Undir það tek ég að sjálfsögðu. En hann segir hér: ,,Beinar tilskipanir eru önnur þeirra leiða sem ráðherra nefnir í grein sinni sem leið til þess að takmarka ofbeit. Þeir sem farið hafa með framkvæmd þessara mála hafa til þessa leitað allra annarra leiða við beitarstjórnun og takmörkun á beitarálagi frekar en að beita tilskipunum. Dæmi eru um að þeim hafi verið beitt en oftast með takmörkuðum árangri. Næsta erfitt er að fylgja eftir tilskipunum af þessum toga ef menn tregðast við að hlíta þeim. Lögreglu og hundum hefur ekki verið beitt,,, segir ráðuneytisstjórinn í grein sinni.
    Hann segir einnig að ráðherra nefni ekki í grein sinni leiðina sem best hefur gefist til þessa en það er fræðsla. Hann minnir á að á aðalfundi Landverndar 10. nóv. sl. mætti meðal annarra ráðuneytisstjóri

umhverfisráðuneytisins norska, Oddmund Graham. Fram kom hjá honum að mikil áhersla væri lögð á fræðslu. Gildi hennar taldi Graham það mikið að kæmist fullnægjandi fræðsla til allra og þeir tileinkuðu sér hana þyrfti tæpast umhverfisráðuneyti. Ráðherrann bendir á tvö dæmi í þessari grein sem vitnað hefur verið til, að í hans ráðuneytum sé unnið að umhverfismálum: söfnun áldósa og mengunarvörnum við álbræðslu. Ráðherrann segir: ,,Það er auðvitað skilyrði fyrir því að ráðist verði í aukna álbræðslu að mengunarvarnir verði viðunandi.`` Af orðum ráðherra er ljóst að hann ætlar sér og ráðuneyti iðnaðar að gæta þess við samninga um álverksmiðju eða aðrar verksmiðjur að mengunarvarnir og tæknilegur búnaður þeirra vegna sé fullnægjandi og á þann hátt fara með umhverfismál að þessu leyti.
    Iðnrh. hefur líka alveg nýlega, ef ég veit rétt, skipað nefnd til þess að meta umhverfisáhrif iðjuvera. Það bendir til þess að hann ætli sér að hafa áfram eitthvað um þessi mál að segja og um það er ekkert nema gott eitt að segja. Þannig á það einmitt að vera.
    Það sem ég er hér að segja rennir stoðum undir þær brtt. sem ég mun gera nánari grein fyrir á eftir. Ég minni á í því samhengi að norræna ráðherranefndin hefur samþykkt ýmislegt um þessi efni. Hún hefur samið nýja áætlun um samvinnu Norðurlanda í umhverfismálum. Í áætluninni er settur framtíðarrammi og markmið fyrir framtíð í umhverfismálum. Áætlunin er byggð á þeim grundvallarreglum sem alþjóðanefnd Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál hefur sett fram. Þessar grundvallarreglur eru að á umhverfismálum sé tekið í tengslum við aðrar pólitískar ákvarðanir í hinum ýmsu faggeirum og að umhverfisvernd, hvar sem er í heiminum, varði alla jarðarbúa. Í áætluninni er einnig lögð áhersla á þá ábyrgð sem yfirvöld í hinum ýmsu faggeirum bera.
    Ráðherranefndin telur að best verði unnið að forvörnum í umhverfismálum með því að tengja sjónarmið varðandi umhverfismál öllum faggeirum þjóðfélagsins. Þessi sjónarmið verði forsenda þess að lífvænleg þróun geti orðið og þar með geti orðið til samfélag sem sé í betra jafnvægi við náttúruna. Og það segir enn fremur: Það er nauðsynlegt að kalla þá til samvinnu sem tengjast málaflokkum eða starfsemi sem umhverfisvandamálin stafa af. Menn í hinum ýmsu faggeirum bera ábyrgð á því að tryggt sé að leiðbeiningar þeirra og áætlanir stuðli að þróun sem bæði er lífvænleg fjárhagslega og vistfræðilega. Ráðherranefndin mun beita sér til að auka skilning á undirstöðu vistkerfa og hlutverki þeirra. Einnig mun ráðherranefndin beita sér fyrir að það teljist eðlilegt og ríkjandi viðhorf að meta hvaða afleiðingar framkvæmdir í orkugeiranum, landbúnaði, flutningastarfsemi og iðnaði geti haft á umhverfið. Ég vona að hæstv. umhverfisráðherra misvirði það ekki við mig þó að ég sé að rifja hér upp það sem norræna ráðherranefndin hefur samþykkt. Honum er að sjálfsögðu vel kunnugt um þetta sem samstarfsráðherra, en ég er að tala hér til fleiri aðila

en hans.
    Ég hef minnst á Brundtland-skýrsluna og ég vil taka aðeins örfá atriði upp úr henni. Þar segir m.a.: Alþjóðlegum stofnunum og innanlandsstofnunum hefur
verið komið upp á grundvelli þröngra hagsmuna og tilgangur þeirra takmarkaður. Með þeim stofnunum sem nú eru til er því erfitt að ná markmiðinu um lífvænlega þróun og að glíma við markmiðin sem fylgja því að tengja saman umhverfismál og þróunarmál. Það segir hér áfram: Flestar þær stofnanir sem þurfa að horfast í augu við þetta eru yfirleitt sjálfstæðar og tættar í litlar einingar. Starfsumboð þeirra er yfirleitt þröngt og ákvarðanir eru teknar í samræmi við föst, lokuð ferli. Það eru aðrar stofnanir sem bera ábyrgð á fjármálum en þær sem bera ábyrgð á náttúruauðlindum og verndun umhverfis. Í raunveruleikanum
eru vistfræðin og fjármálin nátengd og það á ekki eftir að breytast. Og enn segir hér: Þær stjórnardeildir sem bera ábyrgð á fjármálum og faggreinum hafa oft takmarkað starfsumboð. Meginhugmyndin í nýju hugsjóninni, eins og þetta er nefnt, er að láta ráðuneytin bera ábyrgð á gæðum á þeim hluta umhverfis fólks sem ákvarðanir þeirra hafa áhrif á.
    Herra forseti. Minni hl. allshn. er andvígur frv. eins og meiri hl. nefndarinnar vill samþykkja það. Þetta frv. var tekið fyrir á fjölmörgum fundum allshn. Hv. formaður nefndarinnar, sem gerði hér grein fyrir áliti meiri hl. í gær, upplýsti að það hefði verið á 14 fundum. Það er vafalaust rétt, fyrst þann 5. febr. og síðast á tveimur fundum þann 12. þessa mánaðar. Formaður nefndarinnar gerði hér ítarlega grein fyrir því hverjir hefðu komið til fundar við nefndina og frá hverjum umsagnir hefðu borist. Mér telst til að 26 aðilar hafi komið til fundar við nefndina og flestir þessara aðila, --- ég vil ekki segja allir, en flestir höfðu alvarlegar athugasemdir fram að færa við frv. Umsagnir bárust frá 52 aðilum sem margir hverjir, mjög margir, höfðu margt við frv. að athuga. En á þessa aðila var ekkert hlustað, nákvæmlega ekki neitt og reyndar höfðu sumir stjórnarliðar í allshn. yfirleitt ekki tíma til þess að hlusta á þá gesti sem kvaddir voru á fund nefndarinnar. Á þessa menn var sem sagt ekki hlustað og þaðan af síður tekið tillit til athugasemda þeirra.
    Ég á kannski ekki að segja það en ég segi það samt að ég hef miklar efasemdir um að þeir sem hugsa sér að greiða frv. atkvæði, eins og meiri hl. leggur til að gert verði, hafi hugmynd um hvað í þessum umsögnum stendur. Ég hef ástæðu til að ætla að þeir viti það ekki. Ég held að þeir hafi ekki gefið sér tíma til að kanna þessar umsagnir og það er einnig ástæða til að ætla að þær hafi ekki verið kynntar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst það svo ótrúlegt að það skuli ekkert tillit vera tekið til þeirra aðila sem mest vita um umhverfismál. Mér virðist það benda til þess að málin hafi alls ekkert verið rædd í stjórnarflokkunum. En þar sem ekki var hlustað á

okkur, stjórnarandstæðinga í nefndinni, og heldur ekki umsagnaraðila, þá gerum við tilraun, enn eina hér í hv. þingdeild til að fá fram breytingar á þessu frv.
    Eins og ég sagði áðan eru brtt. okkar í minni hl. á þskj. 726. 1. brtt. lýtur að 1. gr. frv. Við leggjum til að breytt verði ákvæðum 2. mgr. 1. gr. Greinin í frv. fjallar um Náttúruverndarráð og hljóðar svo:
    ,,Ráðið skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs.``
    Við leggjum til að orðin ,,vinna að gróðurvernd og`` falli brott og þá yrði málsgreinin svona: ,,Ráðið skal ásamt Landgræðslu ríkisins hafa eftirlit með ástandi gróðurs.`` Á sama hátt leggjum við til breytingu við 3. mgr. sem er svona í frv.: ,,Ráðið skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.`` Tillaga okkar er að orðin ,,vinna að verndun og eftirliti`` falli brott en í staðinn verði mgr. svo: ,,Ráðið skal ásamt Skógrækt ríkisins hafa eftirlit með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.``
    Þá leggjum við til að 4. mgr. greinarinnar falli brott. Við hana hefur meiri hl. nefndarinnar gert brtt. og þessi tillaga okkar á að sjálfsögðu við um brtt., að hún falli brott. Við föllumst sem sagt heldur ekki á brtt. fremur en tillöguna eins og hún er í frv. sjálfu.
    Ég vil grípa niður í nokkrar umsagnir sem borist hafa og varða einmitt 1. gr. frv. Fyrst verður hér fyrir mér ný ályktun búnaðarþings, ályktun sem gerð var á því búnaðarþingi sem nú situr. Ég les hér ályktunina, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Búnaðarþing skorar á Alþingi að vanda betur undirbúning og val á þeim verkefnum sem umhverfisráðuneyti er ætlað að vinna. Þingið leggur ríka áherslu á að atvinnuvegirnir beri ábyrgð á þeirri starfsemi sinni gagnvart umhverfinu undir eftirliti umhverfisráðuneytis eða stofnana sem lúta að stjórn þess. Þar sem þessara grundvallarsjónarmiða hefur ekki verið gætt og mikill ágreiningur er um málið í þjóðfélaginu leggur búnaðarþing eindregið til að málið verði athugað nánar og reynt að ná um það sátt. Verði Alþingi ekki við þessari ósk treystir búnaðarþing því að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:"
    Ég er ekkert að lesa þær upp vegna þess að þær eru hinar sömu og ég hef hér gert grein fyrir að eru tillögur okkar í minni hl. nefndarinnar, þ.e. að breytt verði ákvæðum 2. og 3. mgr. og 4. mgr. falli brott. Þessari ályktun búnaðarþings fylgir greinargerð sem ég leyfi mér að taka nokkra þætti úr:
    ,,Við athugun á þessu máli í búnaðarþingi varð fulltrúum þess ljóst að í þessu frv. um tilfærslur verkefna milli ráðuneyta eru ákvæði sem munu leiða til þess að dómi þingsins að starfsemi stofnana sem að hluta eru færðar undir nýja húsbændur verður ómarkviss og hætta er á að til ágreinings komi. Mun meiri kostnaður verður við stjórnsýslu en þörf er á.
    Nágrannalöndin hafa reynslu af umhverfisráðuneytum. Í skýrslu sem kennd er við Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, er varað við að taka ákveðin framkvæmdaverkefni frá viðkomandi fagráðuneyti. Farsælla reynist að

umhverfisráðuneytið sé fyrst og fremst til eftirlits. Þær breytingar sem búnaðarþing leggur til í ályktuninni beinast að Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Gróðurvernd Landgræðslunnar felst í verklegum aðgerðum til að styrkja gróðurfar með því að hefta sandfok með sáningu, áburði og friðun, gera varnargarða fyrir straumvötn og ná samkomulagi við umráðamenn lands um uppgræðslu og friðun þar sem þess er þörf. Fyrir atbeina Landgræðslu ríkisins hefur náðst mikilvægur árangur í landgræðslu og gróðurvernd þótt knappur fjárhagur hafi háð starfseminni. Eins er um Skógrækt ríkisins. Hana ber að efla í tengslum við landbúnað.
    Sú grundvallarregla hefur ríkt í stjórnsýslu hér á landi að atvinnuvegir hafi forræði yfir þeim auðlindum sem þeir byggjast á. Með lögum er Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins veitt heimild til að grípa inn í ef alvarleg gróðureyðing á sér stað. Allt sem gert er í því efni getur haft áhrif á stöðu landbúnaðar. Því er rökrétt að yfirstjórn framkvæmda sé í höndum landbrh. Það er einnig í samræmi við nýtingu og vernd auðlinda í sjávarútvegi og iðnaði. Skipting á verkefnum Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins milli tveggja ráðuneyta væri því til þess fallin að auka kostnað og lama starfsemi stofnunarinnar.``
    Svo segir hér í lokin: ,,Að lokum er vert að leggja áherslu á að búnaðarþing hafði nauman tíma til að fjalla um þetta mál. Þess vegna var valin sú leið að takmarka afgreiðslu þingsins einkum við þátt Landgræðslu og Skógræktar en ákvæði frv. um þá málaflokka eru af hálfu bændastéttarinnar með öllu ósættanleg.``
    Þetta segir í ályktun búnaðarþings.
    Fleiri aðilar hafa tjáð sig um þennan þátt. Ég gríp hér niður í umsögn sem borist hefur allshn. frá Jóni Bjarnasyni á Hólum í Hjaltadal. Hann segir hér:
    ,,Þó svo frumvörpin`` --- hann er líka að tala um frv. um stofnun ráðuneytisins --- ,,geri ráð fyrir flutningi ýmissa málaflokka undir umhverfisráðuneyti kemur það ljóst fram að það er fyrst og fremst stofnað um gróðurnýtingu, gróðurvernd, nýtingu og ráðstöfun lands utan þéttbýlis. Þessi áhugi er góðra gjalda verður.
    Föðurland vort hálft er hafið,,, segir hann. ,,Þeirri röksemd var m.a. beitt við útfærslu landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar að nýting, verndun og ræktun fiskstofna færi best í höndum þeirra sem mest eiga undir því að þær auðlindir séu skynsamlega nýttar. Þversögn kemur greinilega fram þar sem hliðstæðir málaflokkar sjávarútvegs tilheyra áfram því ráðuneyti en ættu að fara undir umhverfisráðuneytið, væri gætt fulls samræmis. Og hvað með hvalveiðarnar?`` spyr hann. ,,Ábyrgð, nýting, verndun og ræktun eiga að fara saman. Sé þetta skilið að býður það heim alvarlegri hagsmunaárekstrum en annars. Málefni er varða nýtingu, verndun og ræktun lands og gróðurs eiga alfarið að vera í höndum landbrn. og hliðstæð mál á öðrum sviðum að heyra undir nærtækasta atvinnuráðuneyti.``
    Hann segir hér síðar í umsögn sinni: ,,Stofnun

umhverfisráðuneytis býður heim þeirri hættu að þeir sem raunverulega ráða ferðinni og bera framkvæmdalega ábyrgð geti skotið sér undan mikilvægri ábyrgð á þeirri forsendu að þessi hlið málsins heyri undir annað ráðuneyti. Hætta er á að umhverfisráðuneytið verði gagnslítið skrifstofubákn og nöldursráðuneyti í litlum tengslum við atvinnuvegi og þjóðlíf í landinu. Næg er fjarlægðin orðin milli höfuðs og ilja,,, segir hann. ,,Fyrir mér er verndun, ræktun lands og lýðs umhverfismál. Fyrir mér er það umhverfismál hvernig land okkar er byggt, auðlindir þess verndaðar, bættar og nýttar. Fyrir mér er vellíðan og fullnægja fólks í lífinu umhverfismál til lengri og skemmri tíma. Fyrir mér er það umhverfismál hvort óhætt sé að ganga á götum miðborgar Reykjavíkur þegar skyggja tekur.
    Þrenging á hugtakinu ,,umhverfi`` er hættuleg framtíðarþróun. Nefnd eru sem rök fyrir stofnun umhverfisráðuneytis að umræða um þau mál sé mikil. Nefndir starfa á vegum stjórnvalda undanfarinn áratug eða meir. Þessi umræða bendir miklu frekar á óánægju með stefnu stjórnvalda í umhverfismálum, atvinnumálum, þjóðmálum yfirleitt, í því hvernig landið skuli byggt, auðlindir nýttar, hvers konar þjóðlíf vaxi og dafni á Íslandi. Nýtt ráðuneyti breytir þar ekki um.
    Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis ber keim af friðþægingu og er spor af leið ef eitthvað er,,, segir Jón Bjarnason í sinni umsögn.
    Þá gríp ég hér niður í umsögn Sveins Hallgrímssonar á Hvanneyri. Hann segir hér almennt: ,,Í eðli sínu tel ég að umhverfismál eigi ekki að vera í sérstöku ráðuneyti. Þau eigi að heyra undir viðkomandi fagráðuneyti. Þannig fari best saman ábyrgð og framkvæmd. Þó má vel hugsa sér að einhver ein skrifstofa fari með eftirlitshlutverk eða yfirstjórn þessa mikilvæga málaflokks. Víða erlendis hefur sérstakt ráðuneyti umhverfismála leitt til meiri miðstýringar og sömuleiðis til mikils skrifstofubákns. Búandi utan Reykjavíkursvæðisins
hræðist ég of mikla miðstýringu sem hæglega leiðir til ofstjórnunar. Ég tel þetta sérstaklega hættulegt í gróðurverndarmálum, m.a. af eftirfarandi ástæðum:
    a. Miðstýring flytur valdið frá þeim sem nýta landið og um leið ábyrgðina. Beri viðkomandi ekki ábyrgð hlýtur það að leiða til að hann umgengst landið á annan hátt.
    b. Mun meiri hætta er á árekstrum milli þéttbýlisbúans og bóndans með þessu móti þar sem hætt er við að mörgum þyki erfitt að taka við skipunum að ofan. Mikinn mannafla þyrfti einnig til að sinna þessum málum frá einni stofnun með mikið vald.
    c. Mjög algengt er í umræðu um gróðurvernd á Íslandi að litið er á friðun sem nauðsynlegan undanfara verndunar. Þetta er alrangt. Gróður getur verið og er í langflestum tilfellum jafnsterkur þótt beitt sé. Gróður breytist hins vegar við beit. Aðrar tegundir verða ríkjandi. Nýtingarsjónarmiðið verður því að viðurkenna. Ég tel að yfirstjórn gróðurverndar

eigi að vera í landbrn. og sömuleiðis skógrækt. Landbúnaður, þar með talin skógrækt, er nýting gróðurs,,, segir Sveinn Hallgrímsson í sinni umsögn.
    Landgræðsla ríkisins sendi einnig allshn. ítarlega umsögn. Ég skal sleppa því að rekja hana nákvæmlega en ég kem hér að nokkrum meginatriðum sem landgræðslustjóri lagði áherslu á þegar hann kom til fundar við allshn. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir:
    ,,Í 1. gr. ofangreinds frv. er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð skuli ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og gróðureftirliti. Í lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, eru þessi hugtök skilgreind: Gróðurvernd sem stuðlar að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu. Gróðureftirlit sem fylgist með notkun gróðurs, vinnur gegn ofnotkun hans og hvers konar skemmdum á gróðurlendum. Gróðurvernd er óaðskiljanlegur hluti af landgræðslu og í flestum tilvikum byggjast gróðurverndaraðgerðir á nýtingu tækja, mannafla og sérþekkingar sem Landgræðslan hefur yfir að ráða. Gróðurverndin er mjög umfangsmikið framkvæmdastarf sem felst í margháttuðum verklegum framkvæmdum. Forræði gróðurverndar á að vera hjá fagráðuneyti sem hefur með nýtingu gróðurs og jarðvegs að gera. Nauðsynlegt er að þeir sem taka ákvarðanir í þágu gróðurverndar beri einnig ábyrgð á afleiðingum þeirra, t.d. gagnvart byggðarlögum og atvinnurekstri.
    Landgræðslan telur að það verði málefninu ekki til framdráttar að Náttúruverndarráði verði formlega falið framkvæmdahlutverk í gróðurverndarmálum. Landgræðslan hefur tiltrú almennings og þorra bænda á því sem verið er að gera. Það hlýtur að orka tvímælis að fela tveimur opinberum aðilum sama hlutverkið á sama tíma og verið er að efla gróðurverndarstarf Landgræðslunnar í framhaldi af nýrri markmiðssetningu. Slík tvískipting býður auk þess heim hættu á árekstrum og skorti á skilvirkni og ábyrgðarkennd.
    Gróðureftirlit hefur aðallega verið fólgið í virku eftirliti með nýtingu afréttar og heimalanda um land allt, en þó með aðaláherslu á beitilönd á eldfjallasvæðum landsins. Landgræðslan telur að visst gróðureftirlit á vegum umhverfisráðuneytis sé til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það kynni að minnka þá tortryggni sem verið hefur í garð landbúnaðar um meðferð gróðurs og jarðvegs. Skynsamlegt virðist að umhverfisráðuneyti hafi eftirlit með gróðurskemmdum sem verða vegna ferðamennsku, mannvirkjagerðar o.s.frv. En um það hefur verið ágæt samvinna milli Náttúruverndarráðs og Landgræðslunnar.
    Enn fremur er gert ráð fyrir í ofangreindu frv. að Náttúruverndarráð geti falið gróðurverndarnefndum gróðureftirlit. Þær hafa starfað samkvæmt lögum um landgræðslu frá 1965 í öllum sýslum landsins og síðan 1983 í öllum kaupstöðum landsins. Þær hafa gróðureftirlitsskyldu nú þegar samkvæmt lögum um landgræðslu.``
    Þetta voru nokkur atriði sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri vildi leggja sérstaka áherslu á þegar

hann kom til fundar við nefndina. Ég sé að ég er ekki með með mér umsögn Skógræktar ríkisins sem hefur að sjálfsögðu skoðun á þessu máli og er andvíg ákvæðum frv. En Jón Loftsson skógræktarstjóri kom til fundar við nefndina og hann lét í ljós þá skoðun á fundi nefndarinnar að svo virtist sem ætti að skilja að þætti sem ekki verða skildir í sundur, ræktun nytjaskóga og verndun skóga sem friðaðir eru. Hann sagði að unnið hefði verið í góðri samvinnu við bændur að skógræktarmálum. Þess vegna væri mjög misráðið ef þetta samband við fagráðuneyti bændanna yrði rofið. Fagráðuneyti bænda og skógræktar á að vera hið sama er skoðun skógræktarstjóra. Og hann sagði enn fremur að ræktun skóga gerðist ekki í alvöru nema bændur væru þar með í för.
    Hann lét reyndar í ljós þá skoðun að það væri auðvitað unnt að gera Skógræktina að stofnun sem sæi bara um friðun en þá mundu líka algerlega rofna tengslin við bændur. Skógræktarstjóri upplýsti okkur um það að í Danmörku, sem væri eina landið á Norðurlöndum þar sem skógrækt heyrði undir umhverfisráðuneyti, ætti sér nú stað alvarleg umræða um að flytja þann málaflokk aftur til landbrn. Skógræktarstjóri nefndi líka að það væri fráleitt að skilja Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá frá Skógræktinni. Ef það
yrði gert yrði Skógrækt ríkisins einfaldlega að koma sér upp nýrri rannsóknastöð.
    Þetta sem ég var að segja var tilvitnun í orð skógræktarstjóra á fundi allshn. Af því að ég minntist á Rannsóknastöð Skógræktinnar þá nefni ég hér að allshn. barst núna alveg nýlega bréf frá stjórn þessarar rannsóknastofnunar sem mér þykir rétt að lesa hér upp. Og það er vegna þess að forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar, Jón Gunnar Ottósson, hafði látið í ljós ákveðnar skoðanir á þessu máli og þær skoðanir fara ekki saman við skoðanir stjórnarmanna stofnunarinnar. Ég ætla þess vegna að lesa bréfið:
    ,,Á fundi sínum 2. mars fjallaði stjórn Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá um minnispunkta sem forstöðumaður stöðvarinnar, Jón Gunnar Ottósson, lagði fyrir allshn. Nd. Alþingis í tilefni af umræðum um verkefni nýstofnaðs umhverfisráðuneytis. Minnispunkta þessa kynnti forstöðumaður ekki fyrir stjórn stöðvarinnar eða skógræktarstjóra áður en hann lagði þá fram. Á fundinum kom fram verulegur munur á skoðunum stjórnar og forstöðumanns á þessu máli. Af þessu tilefni telur stjórnin rétt að taka eftirfarandi fram:
    Í 2. gr. reglna frá 1968 um rannsóknastöðina segir svo: ,,Rannsóknastöðin skal fyrst og fremst starfa að rannsóknum sem hafa hagnýta þýðingu fyrir skógrækt og trjárækt á Íslandi. Helstu verksvið eru:
    1. Að afla trjátegunda og trjákvæma til landsins og rannsaka þau við mismunandi skilyrði.
    2. Að rannsaka þær trjátegundir sem til eru í landinu svo og að annast stofnræktun úrvalstrjáa.
    3. Rannsaka ræktunaraðferðir.
    4. Rannsaka vaxtarskilyrði.
    5. Að vinna að kynbótum trjáa.

    6. Að kynna innlendar og erlendar niðurstöður rannsókna sem þýðingu hafa fyrir skógrækt á Íslandi.``
    Samkvæmt þessari grein er ótvírætt að meginverkefni rannsóknastöðvarinnar er að þjóna hagnýtri skógrækt og trjárækt, þekkingaröflun, þróunarstarfi og ráðgjöf. Aukinn almennur skógræktaráhugi og ný markmið Skógræktar ríkisins til stóraukinnar skógræktar auka verulega þörfina fyrir virka rannsóknastarfsemi. Stjórnin telur brýnt að slík rannsóknastörf verði áfram unnin í nánu samstarfi við framkvæmdaaðila í skógræktarstarfi á Íslandi. Með vísan til þess sem að framan greinir er stjórnin ekki samþykk þeirri hugmynd forstöðumanns að rannsóknastöðin færist undir umhverfisráðuneyti og sameinist þar viðfangsefnum sem nú eru unnin á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Stjórnin vill taka fram að ýmis rannsóknaverkefni sem stöðin vinnur að nýtast einnig markmiðum hins nýja umhverfisráðuneytis. Má t.d. nefna umfangsmikið verkefni sem lýtur að ástandi og eðli hins íslenska birkiskóglendis sem rannsóknastöðin og Rannsóknastofnun landbúnaðarins vinna að og sem lýkur á þessu ári. Þetta verkefni mun leggja grunninn að ákvörðunum um nýtingu og meðferð þessara skóglenda um leið og það mun veita margar gagnlegar upplýsingar sem munu nýtast ræktunarstarfinu.
    Um leið og stjórnin ítrekar mikilvægi þess að rannsóknir í þágu skógræktar verði efldar lýsir hún sig fúsa til samstarfs við umhverfisráðuneytið og væntanlegar stofnanir þess um verkefni sem falla að markmiðssetningu rannsóknastöðvarinnar.``
    Undir þetta rita Sveinbjörn Dagfinnsson, Hulda Valtýsdóttir, Indriði Indriðason, Þorsteinn Tómasson og Jón Loftsson.
    Skógræktarfélag Íslands hefur einnig lýst sínum skoðunum á ákvæðum 1. gr. frv. Ég gríp hér aðeins niður í umsögn Skógræktarfélagsins. Þar er bent á að óviðunandi ósamræmis gæti vegna flutnings á verkefnum úr landbrn. til hins nýja umhverfisráðuneytis sem varðar gróðurvernd og landnýtingu en öðrum fagráðuneytum, þ.e. sjútvrn. og iðnrn., ætlað að hafa forræði þeirra auðlinda sem þeirra atvinnugreinar byggjast á. Að mati Skógræktarfélags Íslands á gróðurvernd og allir þættir skógræktar þar með taldir heima í sínu fagráðuneyti, þ.e. landbrn., en eftirlitshlutverkið á hins vegar að vera vistað í umhverfisráðuneyti.
    Í frv. er verksvið umhverfisráðuneytisins ekki vel skilgreint og þar gætir mótsagna, segir í umsögn Skógræktarfélagsins. Jafnvel er látið að því liggja að það eigi að annast ýmis framkvæmdaatriði sem eru betur sett hjá fagstofnunum sem fyrir eru. Skógræktarfélagið ítrekar umsögn sína sem send var Alþingi í desember 1989 en þar segir:
    ,,Stjórn Skógræktarfélags Íslands bendir á að málefni Skógræktar ríkisins eru nátengd starfi skógræktarfélaganna í landinu en þau eru um 50 talsins. Á undanförnum árum hefur tekist náið samstarf milli skógræktarfélaganna, samtaka bænda og fjölmargra einstaklinga í bændastétt. Forsendan fyrir

þessari ánægjulegu þróun er sú staðreynd að fagráðuneyti landbúnaðarins hefur jafnframt farið með málefni Skógræktar ríkisins. Telur stjórn Skógræktarfélags Íslands að með því fyrirkomulagi sem fyrrgreint frv. gerir ráð fyrir verði rofin þau tengsl sem myndast hafa á undanförnum árum milli skógræktarmanna
annars vegar og bænda og samtaka þeirra hins vegar. Því leggur stjórn Skógræktarfélags Íslands eindregið til að málefni Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaganna verði framvegis sem hingað til óskipt í landbúnaðarráðuneytinu.`` Það segir svo hér áfram:
    ,,Að mati Skógræktarfélags Íslands er það mikið óþurftarverk að sundra þeirri samvinnu sem tekist hefur á milli landbrn., Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaganna. Með frv. virðist löggjafarvaldið ætla að virða að vettugi þá samstöðu sem tekist hefur að skapa á þessu sviði í sl. 10--15 ár og með því bjóða væringum heim. Það er þó deginum ljósara að án samstöðu næst enginn marktækur árangur í skógrækt og gróðurvernd. Skógræktarfélag Íslands telur ástæðu til að minna á, í þessu tilefni, þá sérstöðu sem ríkir hér á landi að því er varðar skógrækt og gróðurvernd og á sér hvergi hliðstæðu hjá nágrannaþjóðum okkar og þótt víðar væri leitað. Hvergi hefur eyðing skóglendis verið látin viðgangast svo langt fram eftir 20. öldinni eins og hér. Hvergi hefur uppblástur og jarðvegseyðing verið sambærileg við það sem hér hefur verið. Hvergi er jarðvegur eins fokgjarn og ófrjór og á eldgosasvæðum á Íslandi. Hvergi er meiri þörf á úrbótum í gróðurfarsmálum að því er varðar trjáa- og skógræktina hér. Það virðist því mikill ábyrgðarhlutur að draga mikilvæga þætti er snerta framkvæmdir á þessu sviði út úr fagráðuneytinu og skapa þannig togstreitu sem hamlar gegn öllum raunhæfum úrbótum.``
    Ég læt þetta nægja úr umsögn Skógræktarfélagsins þótt þar sé reyndar margt fleira nefnt sem styður það sem við höfum hér verið að segja og flytja tillögur um.
    Stéttarsamband bænda hefur sent allshn. umsögn sína og vísar til síðasta aðalfundar Stéttarsambandsins og bókunar á fundi stjórnar Stéttarsambandsins 25. okt. sl. Þar leggur Stéttarsambandið áherslu á að hlutverk væntanlegs umhverfisráðuneytis á sviði landgræðslu og skógræktar verði einskorðað við eftirlit með ástandi gróðurs og fræðslu um gróðurverndarmál. Framkvæmdaþáttur gróðurverndar og aðgerðir til landfriðunar verði áfram undir stjórn landbrn. Sama gildi um málefni skógræktar ef frá er talið eftirlit með náttúrulegum birkiskógum. Stéttarsambandið bendir á að framkvæmdaþættir þessara mála eru nátengdir framkvæmd landbúnaðarstefnunnar í heild. Veruleg hætta er því á að aðskilnaður þeirra frá ýmsum þáttum landbúnaðarmála muni leiða til togstreitu og árekstra sem mjög geti spillt fyrir framgangi þeirrar framleiðslubreytingar sem nú er unnið að í landbúnaðinum og tafið fyrir árangri á sviði gróðurverndar. Stéttarsambandið telur að landbætur og gróðurvernd þurfi að verða mun ríkari þáttur í

framkvæmd hinnar almennu landbúnaðarstefnu hér eftir en hingað til hefur verið. Því er sérstaklega varað við öllum breytingum á skipan þessara mála sem spillt geti fyrir árangri í þessum efnum.
    Undir þetta bréf ritar fyrir hönd Stéttarsambands bænda Hákon Sigurgrímsson.
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur einnig tjáð sig og segir hér í þeirra umsögn: ,,Það er mat stofnunarinnar að ekki sé rétt að skipta verklegum þætti Landgræðslu ríkisins milli ráðuneyta eftir því hvort hafa megi af aðgerðunum beinar nytjar eða ekki, enda mun slík greining torunnin. Það sama á við um starfssvið Skógræktar ríkisins að ekki þykir rétt að skipta því milli ráðuneyta.``
    Það sem ég hef hér lesið úr umsögnum er í sjálfu sér alveg nægilegur rökstuðningur fyrir þeim brtt. sem við í minni hl. flytjum við 1. gr. frv. Og það má satt að segja vera alveg með ólíkindum ef hv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn lokar alveg eyrunum fyrir því sem hér er verið að segja. Svo hefur verið gert til þessa. Eins og ég sagði áðan var ekkert tillit tekið til þessara umsagna í hv. allshn. eða ég kalla það ekki að taka tillit til þess þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar af hálfu meiri hl. á 4. mgr. 1. gr. En að öðru leyti er sem sagt ekkert tillit tekið til allra þessara aðila sem þarna hafa tjáð sig bæði á fundum nefndarinnar og með ítarlegum umsögnum. Og þetta eru þeir aðilar sem mest og best hafa unnið að gróðurverndarmálum í landinu og skógræktarmálum í góðri samvinnu við bændastéttina í landinu. Með því að fara þessa leið sem frv. gerir ráð fyrir er verið að segja bændastéttinni stríð á hendur og það er verið að fara hér inn á braut sem er gersamlega ófær í raun og veru. Það er verið að efna til styrjaldar í landinu. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og þinglið stjórnarinnar að taka tillit til þessara ábendinga. ( Forseti: Nú nálgast ískyggilega venjulegan þingflokksfundatíma og ég vildi spyrja hv. 2. þm. Reykn. hvort hann vilji gera hlé á ræðu sinni, fresta henni til kvöldfundar eða hvort hann hyggst ljúka henni.) Já, ég þigg það að gera hlé á ræðu minni og það hentar vel því að ég er búinn að fara hér yfir fyrstu brtt.