Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að hefja mál mitt á því að óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra verði viðstaddur umræðuna. Svo mjög hefur nú legið á að koma þessu máli í gegnum öll stig þess. --- Þá gengur hæstv. ráðherra í salinn og ég fagna komu hans.
    Þegar þetta mál var hér til umræðu fyrir nokkru síðan og þar sem ég flutti mitt mál endaði ég ræðu mína einhvern veginn á þá leið að ég mundi vera með fyrstu mönnum til að óska hæstv. þáv. hagstofuráðherra til hamingju með nýja embættið, umhverfismálaráðherra, og ég ætla þá að leyfa mér að gera það hér með. Ég tel að það sé vel þess virði að óska mönnum til hamingju þegar tímamót verða í sögunni eins og hæstv. ráðherra hefur kallað það. Það eru hins vegar ,,tímamót`` í mínum huga innan gæsalappa og hægt að hafa um það langt mál.
    Hins vegar er það ljóst að sú greiðsla sem Borgfl. átti inni hjá ríkisstjórninni fyrir að veita henni aukinn liðsstyrk hefur nú verið greidd og ráðuneytið komið í hendur hv. þm. Júlíusar Sólnes.
    Ég stend að minnihlutaáliti ásamt hv. þm. Ólafi G. Einarssyni og Friðjóni Þórðarsyni og mun ekki fjalla um þær brtt. sem við stöndum saman að, enda tel ég að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hafi gert það mjög vel þó í stuttu máli hafi verið. Ég hins vegar hef ýmislegt um þetta mál að segja en mun engu að síður reyna að verða stuttorður. Ég vil kannski fyrst eyða örfáum orðum á nefndastörfin sem hafa verið svona vægt til orða tekið nokkuð einkennileg. Á fyrri stigum málsins þegar verið var að samþykkja stofnsetningu ráðuneytisins urðu hér miklar umræður um nefndarstörfin og hvernig það frv. var knúið í gegn og svipuð orð, þó ekki kannski jafnsterk, mætti hafa um nefndarstörfin varðandi þetta frv.
    Þetta frv. var sent út til fjölmargra aðila til umsagnar og bárust svör frá allnokkrum, ég hef ekki nákvæma tölu á hve mörgum, og verulegur fjöldi kom síðan til viðræðna við nefndina. Það er því mikil vanvirða við bæði þá aðila og stofnanir sem lagt hafa mikla vinnu í að svara og gefa umsagnir um þetta frv. að ekkert tillit skuli vera til þeirra tekið og í raun þeirra umsagnir tæplega lesnar og ég hygg alls ekki lesnar af stjórnarliðum, sjálfsagt þó af formanni nefndarinnar en ég hygg að ég fari ansi nærri sannleikanum með að segja að hann sé eini stjórnarliðinn sem hafi lesið þær umsagnir.
    Hv. formaður nefndarinnar varð góðfúslega við því að afgreiða málið þó ekki út úr nefnd fyrr en búnaðarþing hafði gefið sína umsögn. Því var málinu frestað um 2--3 daga og kann ég vel að meta það við formanninn. Við höfum hins vegar gagnrýnt það á fyrri stigum og gerum enn að þessi tvö frumvörp skyldu ekki fá að verða samferða í gegnum þingið sem þau vissulega áttu að vera enda lagt af stað með þau sem slík. Þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir þeim mælti hann fyrir þessum báðum frumvörpum samtímis þannig að sú skoðun hæstv. forsrh., sem ég vil líka senda hamingjuóskir því að nú er hann orðinn hæstv.

hagstofuráðherra, ruddi brautina en síðan var ekki farið nánar eftir því. Ég tel því að okkur beri að sýna þeim sem gáfu okkur skriflegar umsagnir þá virðingu að yfir þær sé farið. Ég hygg að hv. þm. Ólafur G. Einarsson hafi nokkuð farið yfir umsagnir, ég veit þó ekki hverjar, en ég mun eyða nokkrum tíma í að gera slíkt hið sama.
    Ég vil að það komi fram að ég er ekki sammála öllu því sem fram kemur í umsögnunum enda væri það óeðlilegt ef svo væri. En þær sýna að það er veruleg óeining og miklar efasemdir og ágreiningur um þetta mál. Það væri heldur ekki úr vegi að fara vel yfir þær og reyndar miklu fleiri en ég hyggst gera til þess að stjórnarliðar fái að heyra skoðanir umsagnaraðila á málinu, enda varla hæfari menn til þess að gefa álit heldur en þeir aðilar sem þessir málaflokkar heyra undir. Ég vil því, hæstv. forseti, áður en ég fer út í efnisatriði og þá punkta sem ég hef hér sett á blað fá að fara í umsagnirnar og önnur bréf hugsanlega sem nefndinni hafa borist. En áður en ég byrja á því vil ég fara yfir skilgreiningu á því hvað er umhverfi að mati Freysteins Sigurðssonar. Það er úr erindi sem hann flutti á ráðstefnu um umhverfismál á vegum Félags ísl. náttúrufræðinga, að ég hygg á hótelinu Holiday Inn, 24. nóv. 1989, og tel ég það ágætis inngang í málið. Hans erindi er eftirfarandi og ber yfirskriftina: Hvað er umhverfi?
    ,,Í víðustu merkingu er umhverfi mannsins allur heimurinn í kringum hann. Í þrengri merkingu er það sá hluti umheimsins sem að manninum snýr og hann verður var við. Líta má á umhverfið frá því sjónarhorni að maðurinn er í eðli sínu dýr sem lifir í náttúrunni og á náttúrunni. Tækni mannsins og samfélag er að miklu leyti sprottið af viðleitni mannsins til að auðvelda sér nýtingu náttúrunnar og móta hana sem umhverfi á geðfelldari hátt. Efnislegur hagur mannsins er háður arðnýtingu hans á auðlindum náttúrunnar. Líf hans í umheimi náttúrunnar er háð umhverfinu. Þrátt fyrir alla framþróun í tækni og samfélagsháttum þá er náttúran enn undirstaða atvinnulífs mannsins því að ekkert verður til úr engu hve oft sem því er velt og breytt. Á sama hátt er náttúran burðarþátturinn í umhverfi mannsins þó hún sé þar samofin við tæknina
og samfélagslífið. Náttúran er líka grunnþátturinn í hættu þeirri sem manninum stafar af umhverfinu, náttúruógnun og hollustuspjöllum. Nýting náttúrunnar er hins vegar grunnþátturinn í hættu þeirri sem umhverfinu stafar af manninum, arðráni og umhverfisspjöllum. Rétt eins og maðurinn vinnur að arðnýtingu náttúrunnar þá vinnur hann að mótun umhverfis síns einn sér eða í samfélaginu. Þessi vinna að umhverfismótun er viðfangsefni umhverfismála.``
    Ég ætla að gera hér örstutt hlé á skilgreiningunni á hvað er umhverfi, hæstv. forseti, vegna þess að ég spurði þann sem í forsetastól sat fyrir örfáum mínútum um framgang þessa fundar, hversu lengi stæði til að halda áfram og varð við þeirri ósk þess forseta að bíða með þá fsp. þangað til forsetaskipti hefðu orðið. ( Forseti: Forseti skal leitast við að svara

þessari spurningu. Fyrirhugað er að kl. 10 fari fram atkvæðagreiðsla um ábyrgðadeild fiskeldislána, 1. dagskrármál þessa fundar. Forseti hefur orðið við mjög ákveðinni beiðni hv. fjárveitinganefndarmanna um að taka því næst til stuttrar umræðu 5. dagskrármálið, fjárgreiðslur úr ríkissjóði, svo stjórnarandstaða og andstæðingar frv. fái að láta álit sitt í ljós. Þeirri umræðu verður væntanlega haldið áfram til kl. 11.30. Þannig mun dagskráin verða í grófum dráttum og fer ég þess vinsamlega á leit við hv. ræðumann sem í stól stendur að hann fallist á að fresta máli sínu kl. 10.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir svör hans. Ég skil það svo að fundi hér muni ljúka kl. 11.30 hvort sem sú umræða sem boðuð var verður búin þá eða ekki en það verður þá haldið áfram með þessa umræðu til 11.30. ( Forseti: Nei, forseti vill að þetta verði alveg skýrt. Það er fyrirhugað að að atkvæðagreiðslu lokinni verði tekið fyrir 5. dagskrármálið, fjárgreiðslur úr ríkissjóði, og það fái tímann frá því að atkvæðagreiðslu lýkur og til kl. 11.30. Hins vegar verður umhverfismálaumræðunni haldið áfram kl. 10 á föstudag og þá gæti ræðumaður sem í stól stendur fengið að halda áfram máli sínu.) Þá er það alveg ljóst.
    Ég held þá áfram með skilgreininguna á hvað er umhverfi, enda tel ég rétt og nauðsynlegt að það sé nokkuð ljóst. Ég bar nú reyndar fram þá spurningu til hæstv. umhvrh. hér á fyrri stigum þessa máls að hann gerði grein fyrir því hvað að hans mati væri umhverfi og umhverfisvernd og nánari skilgreiningu á þeim hugtökum en það þvældist eitthvað fyrir að svara þannig að þetta erindi Freysteins Sigurðssonar upplýsir ráðherrann væntanlega eitthvað.
    ,,Náttúran er í stöðugri þróun og sífelldum breytingum undirorpin. Umhverfi mannsins breytist því stöðugt af náttúrulegum orsökum. Umhverfisvernd er því óframkvæmanleg sem frysting á núverandi ástandi náttúrunnar. Hún verður að vera stýring á þróun náttúrunnar. Umhverfisvernd er í raun umhverfismótun sem byggist á að beina þróun náttúrunnar í þá átt sem maðurinn helst kýs og ræður við. Í því felst ekki bara að afstýra umhverfisspjöllum af mannavöldum né hindra eða hefta óæskilega þróun náttúrunnar sjálfrar heldur einnig að stuðla að þeirri þróun hins náttúrulega umhverfis sem æskileg er talin.
    Umhverfismótun byggist á umhverfisstýringu. Til að geta stýrt mótun umhverfisins, verndað það eða varðveitt, þarf að þekkja umhverfið. Maðurinn verður að ráða yfir umhverfisþekkingu. Sú þekking er að verulegu leyti þekking á náttúrunni sjálfri. Þessi undirstöðuþekking á náttúrunni er um leið grundvöllur að skynsamlegri arðnýtingu hennar. Þessari undirstöðuþekkingu hefur verið mjög ábótavant hér á landi og hefur það komið niður á umhverfismálum jafnt sem arðnýtingu náttúruauðlindanna. Úr því þarf að bæta samhliða skipulegum opinberum afskiptum af umhverfismálum. Það er svo hagkvæmnisatriði hvar þessum rannsóknum er valinn sess í stjórnkerfinu. Umhverfisrannsóknir, umhverfiseftirlit og

umhverfisaðgerðir byggjast á þeim en einnig beinar nýtingarrannsóknir, nýtingareftirlit og nýtingaraðgerðir.
    Umhverfismálum hefur ekki verið sinnt skipulega í hinu opinbera stjórnsýslukerfi hér á landi. Þar hefur því víða verið pottur brotinn. Hin mismunandi ráðuneyti hafa fjallað um einstaka og afmarkaða þætti, oft án teljandi samvinnu og samræmis. Mörgum sviðum hefur ekki verið sinnt. Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis ætti að leiða til skipulegrar og alhliða umsýslunar um umhverfismál. Af því ætti að leiða stóraukna hagræðingu sem fyrst og fremst sýnir sig í auknum afköstum við stýringu hinna ýmsu þátta umhverfismála. Þar þarf þó enn víða að efla starfið því að þessir þættir hafa margir verið stórlega vanræktir. Einnig þarf að hefja starf við þau svið sem ekki hefur verið sinnt. Það er því ljóst að skipuleg umsýslan umhverfismála kallar á aukið starfslið og aukið fjármagn. Í staðinn fæst mun betri og virkari stýring umhverfismála og mun betra, heilbrigðara og geðþekkara umhverfi en ella hefði orðið.``
    Þannig var erindi Freysteins Sigurðssonar og hans skilgreining á umhverfi sem ég tel þarft innlegg í þessa umræðu.
    Á sömu ráðstefnu flutti Halldór Þorgeirsson, frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, erindi. Þar segir:
    ,,Grundvallarbreyting er að verða á umræðu um umhverfismál um heim allan. Hún
er ekki lengur bundin við togstreitu andstæðra afla, þ.e. verndunarsjónarmiða annars vegar og stundarhagsmuna hins vegar. Megináhersla er núna á að finna leiðir til að samræma markmið atvinnuuppbyggingar og umhverfisverndar. Í þessu samhengi er vistfræðin jafnmikilvæg og hagfræðin við mörkun stefnu í atvinnuþróun. Nauðsynlegt er að umhverfissjónarmið komi inn í meðferð mála á öllum sviðum þjóðlífsins. Umhverfisrannsóknum má skipta í fjóra meginflokka eftir tilgangi.
    Í fyrsta flokk rannsóknir á mengun. Rannsóknir á mengun fela m.a. í sér mælingar á uppsöfnun mengunarefna í lífríkinu og hinu ólífræna umhverfi, t.d. með reglubundnum mælingum á ákveðnum mengunarefnum í lofti, vatni eða sjó. Slíkar mælingar hafa að markmiði að koma í veg fyrir að mengunarefni hafi óæskileg áhrif á lífríkið. Þessu samfara eru gerðar tilraunir til að rekja mengunarefni til uppsprettunnar og finna leiðir til að draga úr mengun.
    Í öðru lagi rannsóknir á náttúruauðlindum. Rannsóknir á náttúrauðlindum ná bæði til beinna nýtingarrannsókna sem beinast að því að gera auðlindanýtingu hagkvæmari og rannsókna á ástandi og afkastagetu þeirra. Rannóknir á ástandi auðlinda eru umhverfisrannsóknir sem miða að því að tryggja að auðlindanýting spilli ekki auðlindinni.
    Í þriðja lagi rannsóknir tengdar almennri náttúruvernd. Rannsóknir á áhrifum mannvirkjagerðar, ræktunar, útivistar og annarra aðgerða mannsins á náttúrufar, með verndun dýralífs, gróðurfars og grunnvatns að markmiði.
    Og í fjórða lagi rannsóknir á hnattvíðum

umhverfisbreytingum. Ýmislegt bendir til þess að samanlögð umhverfisáhrif alls mannkyns gætu valdið umtalsverðum breytingum á veðurfari á jörðinni, eiginleikum heiðhvolfsins og ástandi hafsins. Rannsóknir á þessum hnattvíðu umhverfisbreytingum hafa þann tilgang að meta þau áhrif sem þær munu hafa á aðstæður hér á landi.`` ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann sé tilbúinn að fresta ræðu sinni innan fárra mínútna svo að forseti geti hringt til atkvæðagreiðslu.) Hæstv. forseti, ég er tilbúinn til þess eftir u.þ.b. eina mínútu.
    ,,Þær eru nauðsynlegar til að við getum metið aðstæður af þekkingu og beitt áhrifum okkar á alþjóðavettvangi. Allar umhverfisrannsóknir eiga sér sameiginlega undirstöðu í góðri þekkingu á íslenskri náttúru. Skortur á undirstöðuþekkingu gerir rannsóknir á áhrifum mannsins á náttúruna mjög erfiðar. Allar krefjast þessar rannsóknir samfelldni í tíma og rúmi og gefa ekki svör í einni andrá. Umhverfisrannsóknir verða því aðeins að gagni að hagsmunaaðilar og stjórnvöld séu tilbúin að taka við niðurstöðum og beita þeim í stefnumörkun. Mikið skortir á að umhverfisrannsóknir hér á landi geti mætt þörf fyrir upplýsingar um umhverfi í nútíð hvað þá framtíð. Umhverfisrannsóknir hafa verið mjög fjársveltar hér á landi.``
    Hæstv. forseti. Þetta eru þau tvö erindi sem ég vildi að þingheimur heyrði af. Enda tel ég þau mikilvægt innlegg í þessa umræðu og skilgreini vel um hvað við erum hér að ræða. Ég mun hins vegar verða við tilmælum forseta og fresta hér ræðu minni.