Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Ég vil láta það koma fram hér við 1. umr. málsins að ég er andvígur þessu frv. og lögfestingu þess, enda er þetta frv. um tíu fjármálaráðherra til viðbótar við þennan eina sem mér finnst nú vera nóg að hafa í landinu. Það er að vísu rétt að stundum hefur verið farið frjálslega með aukafjárveitingar og það er eðlilegt að skerpa þær reglur sem viðgengist hafa. Hæstv. núv. fjmrh. hefur lagt sig fram um að færa það til betra horfs. En þetta frv. gengur allt of langt. Engin leið er að reka þetta þjóðfélag ef öll fjárráð eru undantekningarlaust tekin af ríkisstjórninni eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Stjórnarskráin, sem um það getur að engar fjárgreiðslur megi inna af hendi úr ríkissjóði nema samkvæmt fjárlögum, er sett í annars konar þjóðfélagi og við allt aðrar aðstæður en ríkja í nútímanum. Þar af leiðir að eðlilegt er að hafa þann hátt á að samþykkja fjáraukalög og eðlilegt að fjmrh. hafi vald til þess í samráði við einhvern hóp að ákveða aukafjárveitingar, leita síðan eftir á staðfestingar Alþingis á gjörningi sínum. Núv. fjmrh. hefur gert það á sama ári og það er til fyrirmyndar. Það kann vel að vera að fjármálaráðherrar í framtíðinni fagni því í aðra röndina ef svona frv. yrði lögfest, sem ég vænti nú að verði ekki, þar sem þeir gætu þá vitnað til þess að þeir mættu ekki standa að aukafjárveitingum og þyrftu ekki að taka á sig ábyrgð af því að taka vandasamar ákvarðanir. En auðvitað verður að vera einhver sveigjanleiki því annars rekur þjóðfélagið í strand.
    Löggjafarþinginu ber að vanda fjárlagagerð, áætla sem réttast og raunhæfast og halda sig sem best innan ramma fjárlaga. En jafnvel þó að mjög vel sé staðið að fjárlagagerð geta ófyrirséð tilvik orðið. Ég tel þess vegna að fjmrh. verði að hafa heimild, e.t.v. þrönga heimild, til að bjarga málum ef í nauðir rekur. Ég er tilbúinn til að standa að því að auka aðhald fjmrh., t.d. að hann þurfi að boða áformaðar aukafjárveitingar í ríkisstjórn, eða að hann yrði að fá samþykki formanns og varaformanns fjvn. fyrir aukafjárveitingum sem síðan yrðu afgreiddar sem fjáraukalög fyrir árslok.
    Nú er það engum ljósara en mér að hv. fjvn. er ákaflega mikilhæf og vel skipuð. Þar eru fjórir fyrrv. ráðherrar og hinir eru allir líkleg ráðherraefni alveg á næstu árum. Mér þykir ótrúlegt ef þessir fjórir sem verið hafa ráðherrar hafa aldrei í sinni ráðherratíð þurft að leita til fjmrh. um aukafjárveitingar.
    Ég held að með þessu fái fjvn. vald yfir ríkisstjórninni og yrði æðri en ríkisstjórnin. Þegar fjvn. er komin yfir ríkisstjórnina þarf auðvitað að vanda enn þá betur valið á fjárveitinganefndarmönnunum en gert hefur verið og m.a. að þeir séu duglegir og hugkvæmir, ekki bara að þeir séu duglegir og hugkvæmir að gera hrossakaup hver við annan.
    Það hefur stundum vafist fyrir okkur að mynda ríkisstjórn. Ég sé fram á að það verður mikill viðbótarvandi að mynda fjvn. ef þetta frv. verður að lögum.

    Ég vil svo að endingu benda á enn eitt atriði þessa frv. sem ég felli mig ekki við. Það er að kjarasamninga verði að afgreiða hér á Alþingi. Ég held að það væri stórt spor aftur á bak og líklegt til hins mesta ófarnaðar ef sá háttur yrði upp tekinn aftur. Einu sinni var það hér fyrr meir að kjarasamningar opinberra starfsmanna urðu að hljóta staðfestingu Alþingis.
    Ég þarf ekki að hafa þetta lengra. Ég er andvígur þessu frv. Mér finnst ekki skynsamlegt að lögfesta það og það vildi ég láta koma fram hér við 1. umr. málsins.