Vinnubrögð forseta
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég held að ekki verði undan því vikist að ræða, vissulega af rósemd en verulegri festu, um þingsköp og störf forseta. Eins og allir vita er kosið af Alþingi á haustdögum hverjir skuli gegna hér æðstu trúnaðarskyldum. Ekki er það svo að þingmenn gangi til þeirrar kosningar án þess að ríkjandi stjórnarflokkar á hverjum tíma hafi áður gert með sér samkomulag um hvernig skipta skuli þeim embættum. Vissulega ríður á miklu að þeir þingflokkar sem fá hin ýmsu embætti reyni að velja úr sínum röðum til þeirra starfa þá sem hæfastir eru eða þannig að ásættanlegt sé fyrir allan þingheim að búa við. Og oftast nær gerist það að þó nokkurs fums gæti e.t.v. á fyrsta starfsári forseta þá stækka þeir með starfi sínu þannig að þetta verður vandræðalaust. Nú hefur núv. hæstv. forseti ekki átt því láni að fagna að ná þeirri breidd í stuðningi til kjörs á haustdögum sem oft hefur orðið áður þegar forsetar hafa setið vissan tíma.
    Ég held að rétt sé að það komi fram að mér finnst ekkert einfalt mál hvort það skuli gert eftir á að færa til bókar hvort afbrigði hafi verið veitt fyrir máli sem var þess eðlis að trúlega er í dag búið að senda heillaóskaskeyti til ákveðins þjóðþings án þess að afgreiðsla málsins hafi farið fram með lögformlegum hætti hér í þinginu. Slíkt verður náttúrlega ekki aftur tekið.
    Samkvæmt þeirri venju sem er hér ríkjandi er reglan sú að mál fari til nefndar. Nú gerist það stundum að þingnefndir flytji mál og er ekkert nema gott um það að segja. Þá er ætlast til þess að ein nótt líði frá því að málinu
er útbýtt og þar til það kemur til umræðu. Forseti hefur leyfi til að leita afbrigða hjá þinginu til að mega hafa annan hátt á. Það gerði hæstv. forseti. En gert er ráð fyrir því að tvær umræður fari fram. Og nú er gert ráð fyrir því, samkvæmt þingsköpum, að enn líði ein nótt á milli áður en næsta umræða fari fram, ella sé leitað afbrigða. Það gerði hæstv. forseti aftur á móti ekki, heldur bar málið upp. Og má segja að með vinnubrögðum sínum hafi hann gerst brautryðjandi í því að ryðja burtu tveimur öryggisventlum sem ætlað er að hafa í þinginu til að koma í veg fyrir að mál séu afgreidd eins og á venjulegum fjöldafundi úti í bæ, þar sem einhverjum dettur kannski í hug að bera upp tillögu og svo er klappað fyrir henni á eftir. Auðvitað hvílir sú skylda á forseta, öllum öðrum fremur, að gæta þess að hinar eðlilegu síur þingsins séu ekki á þennan hátt fjarlægðar og óvönduð vinnubrögð tekin upp í staðinn.
    Ég verð að segja það að þetta á í sjálfu sér ekkert skylt við umræðu um efnisatriði þeirrar tillögu sem samþykkt var hér. Þetta er fyrst og fremst spurning um það hvort forsetinn viðheldur vönduðum vinnubrögðum eða hvort hann með flaustri afgreiðir mál þannig að ekki er hægt að una því.
    Mér er ljóst að íslenska þjóðin mótmælti því á sínum tíma þegar Litáar voru innlimaðir í Rússland. Og ég held að það fari ekki á milli mála að það

viðhorf hefur ekkert breyst hjá íslenskri þjóð. Það er aftur á móti spurning hvenær hægt er að óska mönnum til hamingju og vissulega sló það mig allilla þegar ég hlustaði á fréttirnar úr sænska þinginu í gær. Samt sem áður er þetta ekki það sem flokkast undir umræðuna um þingsköp. Það er hitt: Hverjar eru skyldur forseta í þessum efnum? Ég get ekki unað þessum vinnubrögðum. Ég vil að það komi hér fram, ég get ekki unað þessum vinnubrögðum. Og ég tel að forseti hafi brugðist því trausti sem ég ber til hans í þessum efnum.
    Ég ætla að víkja að öðru atriði sem ég tel nauðsynlegt að ræða hér einnig. Oft hitnar í kolunum í sölum Alþingis og oft gerist það að menn telja að þeir þurfi að bera af sér sakir vegna ummæla sem fallið hafa. Nú má vel vera að hæstv. forseti hafi á því á hinum ýmsu tímum allt aðrar skoðanir en sá sem óskar eftir að fá að bera af sér sakir. Ég minnist þess aftur á móti ekki að það hafi komið fyrir að því hafi verið neitað hér í þingsölum nema af einum hæstv. forseta. Það gerist einnig oft að menn una ekki hvernig staðið er að störfum hjá forseta og óska eftir því að fá orðið um þingsköp. Og þá er það veitt, að því er ég ætla undantekningarlaust. Forsetar gera svo að sjálfsögðu grein fyrir sínum viðhorfum úr ræðustóli á eftir og það er misjafnt hvort þeir taka tillit til þess sem þingmaðurinn hefur að segja um þingsköp eða ekki. En spurningin er ákaflega einföld: Er það viðhorf forseta að alveg eins og ritfrelsið er einn af grundvallarhornsteinum lýðræðis sé réttur þingmanna til athugasemda í þessum efnum virtur hér í þinginu? Eða er það viðhorf forseta að hann sé nánast í sömu aðstöðu og kennari í skólastofu sem eigi að stjórna hér fundi ákveðinn mínútutíma og svo eigi liðið að fara út og athugasemdir þurfi engar að taka til greina eða leyfa umræðu um?
    Ég held að við séum komnir hér að kjarnanum í lýðræðishugsun. Að mínu viti höfum við valið okkur verkstjóra til þess að stjórna vinnubrögðum hér á þinginu. Við höfum ekki valið okkur dómara sem ætlar sér að breyta hefðum Alþingis Íslendinga á þann veg að hann úrskurði hiklaust á þann veg að málfrelsið í þessum efnum, til að bera af sér sakir eða segja örfá orð um þingsköp, sé af mönnum tekið. Mér er aftur á móti ljóst að það er oft vandi á
höndum að stýra valdi forseta þannig að umræða verði ekki of löng. Og þar eru ýmsar reglur settar inn, m.a. réttur til að takmarka ræðutíma.
    Ég hef látið hér falla alvarleg orð til hæstv. forseta. Ég vona aftur á móti að það dyljist engum að bak við þau liggur enn þá meiri alvara.