Landgræðsla
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það hefur lengi verið tíska að kenna sauðfé um allan óförnuð. Ég hygg nú samt að þeir sem vilja skoða þessi mál af rósemi átti sig á því að það er maðurinn sjálfur sem er að eyðileggja mestan gróður í þessu landi og stærsta ákvörðun í þeim efnum er að sjálfsögðu Blönduvirkjun. Ég held jafnframt að við bætum ekki þessa umræðu með því að menn standi hér upp og haldi þrumandi ræður um hluti sem þeir hafa kynnt sér illa. Ástæður fyrir gróðurrýrnun á öræfum eru af ýmsum toga spunnar. Náttúran sjálf vinnur þar mikið verk.
    Ég hygg að ekki sé deilt um það hér í þinginu að menn vilja ekki að með beit sé gróðri á öræfum spillt, en hins vegar er sú þekking almennt til staðar að menn vita að grasið sölnar á haustin og deyr. Og margur hefur spurt sjálfan sig hvort það væri einhver verri meðferð þó að það væri þó étið síðla sumars.
    Varðandi athugasemdir hv. 3. þm. Norðurl. e. að hrossaupprekstur skaði mjög afrétti er það nú svo að víðast hvar er hann aflagður. Ég hugðist fá hjá honum upplýsingar um hvar hann væri, en honum varð svarafátt og verð ég víst að fara í einkatíma hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. til þess að fá svör við því þó hugsanlegt sé að fleiri viti.
    Ég held að allur heitingastíll um þessa umræðu sé ákaflega barnalegur og það er jafnbarnalegt að gera ráð fyrir því að hægt sé að halda uppi sauðfjárrækt í landinu með því að girða allt sauðfé af innan ákveðinna girðinga. Ef mönnum virkilega dettur þetta í hug, þá hygg ég að þeir hinir sömu ættu að setjast niður og reikna út hvað kjötkílóið mundi kosta ef þetta yrði tekið upp sem stefna.
    Við erum í stóru og strjálbýlu landi og aðstæður eru mjög misjafnar á hinum ýmsu stöðum. Við verðum að taka ákvarðanir í þessum efnum í samræmi við mismunandi aðstöðu. Það er ekki hægt að setja bara undir sig hausinn og segja: Svona skal þetta vera. En hvað rausnarlegt tilboð Áburðarverksmiðjunnar snertir, þá er það nú ekki rausnarlegra en svo, ef menn vilja vera raunsæir, að þeir treysta sér ekki til að selja áburð úr landi á því verði sem þeir eru að bjóða. Og það er þá raunverulega verið að segja að áburðarframleiðslan í landinu sé minnst 20% dýrari en heimsmarkaðsverð á áburði.