Landgræðsla
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Hér er merkt mál á ferðinni og ég get ekki að mér gert að leggja örfá orð til þessarar umræðu sem hér fer fram. Ég held það sé áríðandi að hafa heildarsýn í landgræðslumálum sem allir hafa að sjálfsögðu áhuga á. Allir hafa áhyggjur af því ef landið blæs upp og gróðureyðing vex. Ég held það leysi ekki vandann að banna með einu pennastriki lausagöngu búfjár. Það getur verið nauðsynlegt á ákveðnum svæðum en það eru önnur svæði á landinu sem þola beit. Ég vil benda á að kjötgæði þess fjár sem gengur á afrétti og nærist á fjallagróðri eru mjög mikil og það er viðurkennt. Ég held að sauðfjárræktin verði að byggjast á því áfram. En auðvitað verður að fara eftir aðstæðum í þessum efnum.
    Menn verða að líta líka á aðra þætti í þessum málum. Ég átti nýlega viðræður ásamt nokkrum öðrum þingmönnum við landgræðslumenn. Þeir hafa mjög vaxandi áhyggjur t.d. af hrossabeit og umferð hestamanna um hálendið, telja að þar verði að vera skipulag. Þeir telja að ekki eigi að banna slíka umferð heldur þurfi að standa að þeim málum með skipulegum hætti. Að með hópum reiðhrossa sem fara yfir hálendið að sumarlagi þurfi að hafa fóður þannig að ekki þurfi að beita þeim á viðkvæmar gróðurvinjar á hálendinu. Af þessu og aukinni hrossaeign í þéttbýli hafa menn vaxandi áhyggjur. Það verður ekki litið fram hjá þessu og þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um landgræðslu og gróðureyðingu.
    En það sem ég vildi undirstrika í þessu efni er að sú landeyðing sem er langstórtækust er af völdum veðra og vinda, það er sandfokið á hálendinu. Af því að t.d. Mývatnsöræfi voru nefnd hér áðan, þá er það náttúrlega dæmigert landsvæði þar sem sandfok herjar. Við höfum ekki nægjanlegan mannafla enn til þess að safna melfræi sem er það eina sem getur stöðvað þetta sandfok. Þar kreppir skórinn að. Í skjóli melgresisins kemur upp annar gróður. Þetta er málefni sem þarf að gera stórátak í. Þessu melfræi þarf að safna hér innan lands. Það er ekki á markaði, við getum ekki flutt það inn. Því þarf að safna hér og til þess þarf mannafla fyrst og fremst. Þetta er upplagt mál að beita sér að og setja aukinn mannafla í á þeim tímum sem melfræið er skorið. Þarna er stórverkefni að vinna í landgræðslunni og ég vildi minna á þetta vegna þess að gróðureyðingin sem stafar af uppblæstri og sandfoki er langsamlega stórtækust og þó að menn girði inni eitthvað af sauðfé í landinu, sem þar að auki hefur stórfækkað á undanförnum árum, hefur það ekkert að segja hjá þessum ósköpum. Ég vil bara vara við því að líta ekki á heildarmynd þessara mála. Mér finnst allt of mikið gert af því að taka einn þátt út úr og segja: Af þessu stafar gróðureyðingin, þetta þurfum við að gera til að hefta hana en sleppa öðrum þáttum sem eru jafnvel miklu, miklu stærri.