Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er í raun ekki mörgum orðum að bæta við þá ræðu sem hér var flutt rétt í þessu. En ég vil, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., þakka utanrmn. fyrir að afgreiða þessa tillögu með þeim hætti sem gert var og ég get tekið undir allt sem hann sagði hér um kjarnorkuafvopnun og nauðsyn hennar á höfunum hér í kring. Ég vil einnig minna á ýmsan annan eiturúrgang sem okkur getur stafað hætta af. Vestnorræna þingmannaráðið hefur á fundum sínum einnig fjallað um fyrirhugað kjarnorkuúrgangsver í Dounreay og það eru ekki beint tíðindi til að vekja okkur bjartsýni sem berast um Norðursjóinn þessa dagana. Því er full þörf á að taka með festu á þessum málum. Ég vil benda sérstaklega á varðandi samþykkt þessarar viljayfirlýsingar á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Stykkishólmi síðasta sumar um kjarnorkuafvopnun á höfunum, það var reyndar í annað skipti sem þessi samþykkt var gerð, að í Vestnorræna þingmannaráðinu eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálasamtaka sem sitja á þingum þessara þriggja landa og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem öll stjórnmálasamtök ná samkomulagi um að samþykkja tillögu sem þessa, þ.e. að skora á stjórnvöld í löndunum þremur að hvetja stórveldin til að hefjast handa við að semja um afvopnun á höfunum. Það er reyndar von mín að í framhaldi af þessari tillögu náist slík samþykkt fram hér á Alþingi.
    Ég ætlaði ekki að hafa um þetta fleiri orð, get reyndar bent á ýmsar fleiri tillögur sem fylgja þessari tillögu frá Vestnorræna þingmannaráðinu. Vil ég þá sérstaklega undirstrika hugmynd um að efna til sérstaks Vestnorræns árs árið 1992 þar sem sérstök áhersla yrði einmitt lögð á umhverfismál, jafnréttismál og æskulýðsmál í þessum þremur löndum. Í hugmyndum Vestnorræna þingmannaráðsins er gert ráð fyrir að þeim hugmyndum verði fylgt eftir með því að halda ráðstefnur um þessi þrjú meginatriði, þ.e. jafnréttismál, umhverfismál og æskulýðsmál í löndunum þremur það ár. Vil ég láta koma fram þá skoðun mína hér, vegna þess að innan Vestnorræna
þingmannaráðsins, eins og reyndar í Norðurlandaráði, hefur farið fram nokkur umræða um gildi þessa samstarfs og hversu mikil áhrif þessi ráð geta haft og hvernig tillögum er fylgt eftir, að ég tel einmitt þessa tillögu um árið 1992 sem sérstakt Vestnorrænt ár vera prófstein á það hvort hægt er að fylgja eftir tillögum sem þar koma fram oogframkvæma þær. En eftir sem áður hlýtur að standa eftir sem mikilvægasta yfirlýsing þessa fundar tilmæli og áskorun til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands um að beita stórveldin þrýstingi til þess að setjast að samningaborðinu og hefja samningaviðræður um kjarnorkuafvopnum og afvopnun á höfunum.