Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að koma hér til að þakka þær sérlega góðu undirtektir sem þessi tillaga hefur hlotið. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni atvmn. Árna Gunnarssyni fyrir hans góðu og ítarlegu ræðu þar sem hann gaf hv. þm. innsýn í þær umsagnir sem birst höfðu með tillögunni. Þá er ekki síður ástæða til að minnast á umsagnirnar, hversu vandaðar þær voru. Í þeim tveimur umsögnum sem birtar eru sem fskj. með nál. er að finna ýmsar mikilvægar upplýsingar og má segja að í öllum umsögnunum sé að finna annars vegar greiningu á aðstæðum í atvinnulífinu hér á landi og hins vegar ábendingar og hugmyndir sem tengjast starfsemi fjarvinnustofa eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. minntist hér á að hann teldi að e.t.v. væru það huglægar hindranir sem gætu orðið einn erfiðasti þröskuldurinn. Ég held það sé rétt hjá honum og þess vegna er mjög mikilvægt að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og reyni að flytja sín verkefni og sýna fram á að hægt sé að vinna þau annars staðar en eingöngu hér á höfuðborgarsvæðinu. Er það von mín að með samþykkt þessarar tillögu opnist augu fólks fyrir þeim fjölþættu möguleikum sem ný fjarskiptatækni gefur okkur til þess að stíga yfir margar þær hindranir sem áður hafa verið í veginum vegna fjarlægðar.
    Það er einnig mjög mikilvægt að landsmenn allir eigi greiðan aðgang að nýrri tölvu- og fjarskiptatækni. En það er nú svo, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, að framtíð byggðarinnar í landinu er háð því hvort okkur tekst að byggja þar upp fjölbreyttari atvinnu og þá ekki síst fyrir konur, eins og einnig hefur komið fram í umræðunni. Það er von mín að þessi tillaga verði innlegg inn í þá umræðu sem nú er um atvinnumál landsbyggðarinnar og að hún verði til þess að menn komi auga á þá mikilvægu og fjölþættu möguleika sem
eru í starfsemi slíkra fjarvinnustofa. Ég vil enn og aftur ítreka að tillaga þessi er einmitt borin fram hér á Alþingi til þess að ríkið taki frumkvæði og sýni fram á að hægt sé að flytja verkefni á þess vegum til. Þá er öruggt að fleiri munu fylgja í kjölfarið. Það er svo að oft er verið að vinna ýmis verkefni í stofnunum í yfirvinnu eða þá að þau eru alls ekki unnin því ekki er mannafli til þess. Það mætti hugsa sér að alls kyns skýrslugerð og því um líkt gæti verið það fyrsta sem ríkið gæti fært til fjarstofa. Eins og fram hefur komið, þá eru þegar starfandi nokkrar slíkar stofur eða eru að hefja starfsemi sína og vonandi nýtist samþykkt þessarar tillögu þeim í uppbyggingarstarfinu sem fram undan er.