Undirmálsfiskur
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þátill. á þskj. 685, um undirmálsfisk, en ályktunin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að undirbúa löggjöf sem feli það í sér að útgerðarfyrirtæki séu skylduð til að gera sjómönnum kleift að hirða allan undirmálsfisk sem um borð kemur. Slíkur afli yrði eign sjómanna og ekki inni í hlutaskiptum. Sama eigi við um það sem litið hefur verið á sem fiskúrgang, svo sem lifur.``
    Áður en fyrstu kvótalög voru sett var allur undirmálsfiskur gerður upptækur. Ef hann fór yfir tiltekna prósentu af afla var sektum beitt. Á þeim árum var í verndarskyni jafnframt verið að færa ofar og ofar stærðarmörk fisks, þannig að t.d. þorskur taldist smáþorskur ef hann var undir 43 sm, síðan 45 og loks 50 sm og þannig er það enn. Í þá daga bárust iðulega fregnir af því að svo og svo miklu af undirmálsfiski væri hent og sjómenn kunnu af því ýmsar sögur. Ég sé ástæðu til að rifja þetta upp, virðulegi forseti, vegna þess að þegar umræður hófust nú nýverið um það hvort og þá hve miklu af undirmálsfiski væri hent urðu ýmsir til þess að kenna það stjórn fiskveiða, þ.e. kvótanum. Það væri sú stjórn fiskveiða sem væri upphaf og endir þess að sjómenn sæju sér ekki hag í því, þrátt fyrir skyldu í þá veru, að hirða allan þann undirmálsfisk sem um borð kæmi.
    Við togveiðar kemur undirmálsfiskur einatt með í mismiklum mæli. Hve miklum munum við ekki staðreyna fyrr en öllum þeim afla sem á dekk kemur er landað. Samkvæmt reglugerð nr. 585/1989, um stjórn botnfiskveiða árið 1990, er skylt að koma með allan afla að landi af kvótabundnum fisktegundum og nýtanlegum fisktegundum sem markaður er fyrir. Jafnframt er það svo að 1 / 3 af
undirmálsfiski sem kemur í land er talinn í kvóta viðkomandi skips nema hlutfallið fari yfir 10% í veiðiferð, þá telst allt í kvóta. Þá hefur verðlagningu á undirmálsfiski verið háttað í þá veru að það hefur ekki verið fýsilegur kostur fyrir sjómenn að hirða hann þar sem sá tími sem fer í að meðhöndla hann um borð er í öfugu hlutfalli við stærðina. Þannig hlýtur alltaf að koma að þeim punkti að sjómenn séu farnir að vinna kauplaust og sé magnið orðið svo mikið að það sé jafntframt farið að ganga á kvóta skipsins skyldi engan undra þótt það freisti manna að opna lensportið. Við í landi getum hneykslast og haft á því ýmsar skoðanir hvaða siðferði það sé að sóa verðmætum með þeim hætti, en það vill bara þannig til að sjómenn eru í engu frábrugðnir öðrum stéttum hvað það varðar að þeir vilja fá kaup fyrir sína vinnu. Spurning um siðferði eða þjóðarhag ein og sér er ekki nægjanleg umbun fyrir þann hóp frekar en svo marga aðra. En veiddur fiskur er dauður fiskur og við erum öll sammála um að hann eigi að koma í land. Stærðarmörk þess hvað telst undirmálsfiskur, mörk sem fyrst og fremst voru sett sem verndunarmörk, segja ekkert um það hvaða verðmæti fiskvinnslan getur gert úr þessu hráefni. Og ef þó ekki væri nema

hluti þess sem vísbendingar eru um að hent sé kæmi til vinnslu er augljóst að um umtalsverð verðmæti gæti verið að ræða.
    Við minnkandi veiðiheimildir er brýnna en áður að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að tryggja að allur veiddur afli berist á land. Sú hugmynd sem ég tala hér fyrir er að þeir sem þurfa að auka vinnu sína um borð í skipunum til að hirða undirmálsfiskinn eigi hann. Undirmálsfiskur komi ekki til venjulegra hlutaskipta, útgerðin fái ekkert heldur eigi sjómenn allan fiskinn og skipti andvirði hans jafnt á milli sín. Enginn þarf að efast um að ef einhverjir sjá sér hag í því að hirða undirmálsfisk verður hann hirtur.
    Kostirnir sem því fylgja að þessi afli berist á land eru ekki bara þeir að vinnslan fengi aukið hráefni og þannig yrði til meiri vinna í landi og verðmæti, heldur og hitt að sjómenn gætu bætt hag sinn með aukinni vinnu og fiskifræðingar fengju raunverulega vitneskju um aflasamsetningu og gætu ráðlagt í samræmi við það. Sem sagt, bættur hagur okkar allra þegar upp er staðið. Skylda þyrfti útgerðina til að gera sjómönnum þetta kleift með því að láta þeim í té ókeypis ís, kassa, umbúðir eða annað það sem við á. En er þá ekki hætta á að lagst verði í veiðar á smáfiski, okkur öllum til enn meira tjóns og hagur útgerðar auk þess fyrir borð borinn? Ég tel að svo verði ekki, þvert á móti. Í fyrsta lagi er hægt að hafa skipstjórann fyrir utan þannig að hann hafi engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra sem eru sameiginlegir hagsmunum útgerðar. Það er þó ljóst að til þess að andrúmsloftið um borð yrði betra, spennan minni, væri að mörgu leyti betra að skipstjóri ætti jafnan hlut á við aðra í áhöfninni, enda má reikna með að hann, engu síður en aðrir, þurfi að leggja á sig aukna vinnu á stundum. Þetta er þó álitamál. Hitt er ljóst að engum skipstjóra væri stætt á því gagnvart útgerð að koma með hátt hlutfall undirmálsfisks í land, verðlausan fyrir útgerðina en að sumu leyti á hennar kostnað vegna íss, umbúða og þess háttar. Það má því reikna með að þegar áhöfnin vill allt hirða leggi hann enn aukna áherslu á að halda sig frá veiðisvæðum þar sem óeðlilegs magns undirmálsfisks gætti í afla. Þannig gæti falist í þessu fyrirkomulagi virk verndunarstefna og auk aðhalds útgerðar ---
hvaða skipstjóri hefur áhuga á að koma í land með óeðlilegt magn undirmálsfisks? Við hljótum áfram að geta treyst á aðhald fjölmiðla og almennings í þeim efnum. Og þó hálfs metra þorskur sé e.t.v. ekki beinlínis smáfiskur eru allir meðvitaðir um að þau stærðarmörk eru ákvörðuð með tilliti til verndunarsjónarmiða.
    Sama fyrirkomulag gæti einnig átt við hvað varðar fiskúrgang. Við höfum væntanlega öll lesið margar lærðar greinar um þá verðmætaaukningu sem í því gæti falist að hirða og nýta fiskúrgang sem til fellur um borð í fiskiskipum. Aðstaða til að taka á móti slíku til vinnslu er þó hvorki fyrir hendi í öllum fiskiskipum né í landi. Verðlagningu er og þannig háttað að sjómenn sjá sér ekki hag í úrganginum og halda því fram að aukin vinna við meðferð hans svari

ekki kostnaði. Það er þó svo að þar sem sjómenn eiga einir þá lifur sem til fellur er hún hirt. Ef það yrði almenna reglan að sjómennirnir ættu úrganginn mundu þeir í auknum mæli hirða hann og jafnvel þrýsta á um aðstöðu til vinnslu um borð í skipunum og í landi, enda grundvöllur fyrir því hugsanlega kominn með auknu magni.
    Ég hef hér reifað það fyrirkomulag sem líklegast er til að koma í veg fyrir þá verðmætasóun sem ítrekað er haldið fram að eigi sér stað. Í greinargerð með tillögu minni vísa ég m.a. í fréttir af niðurstöðum könnunar sem Kristinn Pétursson alþm. lét vinna fyrir sig. Ég hef aðallega verið að hugsa um togarana í því sambandi og teldi mikilvægast ef þessi leið yrði farin að þar yrði byrjað. Togarar eru stórvirkustu veiðitæki okkar og þar er mest hætta á að smáfiskur slæðist með. Jafnframt eru útilegur þeirra lengri og meira fellur til af slógi. Ef vel tækist til mætti síðan huga að fleiru, svo sem netabátum, því þó netamorka sé ekki talin hæf til hefðbundinnar fiskvinnslu eru þó e.t.v. möguleikar á að gera úr henni einhver verðmæti. En byrjum á togurunum og reynum að vinna gegn því að sameiginlegir skyndihagsmunir útgerðar og sjómanna valdi því að verðmætum sé hent. Það má orða það svo að ef sjómennirnir fá að eiga undirmálsfiskinn sem er aðalmálið, þá komi í hlut þeirra það smáa, en það stóra kemur í hlut þjóðarbúsins, okkar allra.
    Það er einnig svo með ýmsan annan fisk sem berst um borð sem ekki er smáfiskur heldur svokallað aukfiski að fyrir þann fisk hefur hvorki verið greitt né markaður en ef menn hafa fylgst með sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, þá kom þar fram að verið er að vinna í markaðsmálum fyrir slíkar fisktegundir og er það vel.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu mæla með því að þessari till. verði vísað til hv. atvmn. og síðari umræðu.