Sala fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það er oft haft á orði að ráðherrar okkar séu ferðaglaðir, að þeir liggi í landaflakki, og hef ég sjálfur iðulega tekið undir þá skoðun að vel megi draga úr ferðalögum ráðherra eins og annarra opinberra starfsmanna sem ferðast á ríkisins kostnað. Hins vegar skal ég játa að stundum kemur það fyrir að ég óska þess að ráðherrar ferðist bæði oftar og lengur en þeir gera og sérstaklega þegar við fáum jafngóðan liðsauka í þingsali eins og núna í fjarveru hæstv. samg.- og landbrh.
    Hér hafa verið til umræðu tvær þáltill. sem eru vissulega spor í þá átt sem Íslendingar hljóta að þurfa að feta sig, að nýta hvert bein úr sjó og að selja allan sinn fisk sjálfir. Stutt er síðan sá þingmaður sem nú hefur orðið lagði fram á hv. Alþingi frv. til laga um bann við að fleygja matvælum eða farga þeim á annan hátt. Till. til þál. frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur lýtur að sama máli, þ.e. að gera sjómönnum kleift að hirða allan undirmálsfisk sem um borð kemur. Það er sama hugsunin að baki, að fleygja ekki fiski heldur koma með hann í land og nýta hann þjóðinni til hagsbóta. Það er kjarni málsins. Á sama hátt á í rauninni að banna yfir höfuð að fleygja aðskotahlutum í sjó. Við eigum að venja okkur af þeim hugsunarhætti að sjórinn í kringum landið sé öskutunna. Það hefur því miður viðgengist frá upphafi byggðar hér á landi að menn hafa litið á sjóinn sem einhverja eyðandi kvörn sem tekur á móti öllu en skilar alltaf jafnfersku sjávarfangi á land í staðinn. Seinni tíma rannsóknir og staðreyndir hljóta náttúrlega að leiða það í ljós að sjórinn sem skellur á ströndum Íslands er sami sjórinn og sverfur klettana í Evrópu þannig að úrgangur eða olía sem fer í sjó frá meginlandi Evrópu berst hingað fyrr eða síðar. Það er ekkert hólf sem skilur á milli. Ef við höldum áfram að líta á sjóinn sem sorpílát, hvort sem það er að fleygja ónýtum fiski eða látum allan okkar úrgang fara
þangað í gegnum skolp og öskutunnur eða þá að það sé jafnan sjálfsagður hlutur að fara með gömul skip út á sjó og sökkva þeim þar í djúpið, hljótum við fyrr eða síðar að taka okkur gröf á þennan hátt, vota gröf. Og þessi tillaga er tvímælalaust liður í að breyta hugarfari hjá fólkinu gagnvart bæði matvælum og umhverfi okkar. Á sama hátt er þetta hin merkasta tillaga um sölu á öllum fiski í gegnum íslenska fiskmarkaði. Við erum með kvótanum búin að gefa nokkrum mönnum allan fiskinn í sjónum hringinn í kringum landið. Þeir fara með hann að vild sinni, hann er orðinn eign þeirra í bókhaldi og þeir selja hver öðrum hann þegar þeim sýnist. Tillagan um sölu fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði mundi ég segja að væri nokkurs konar millispil þangað til persónukvótiinn kemur þannig að hver og einn einasti Íslendingur fái sendan heim til sín sinn hluta af fiskinum sem hann á í sjónum um hver áramót. Við getum ekki búið við það að nokkrir menn fái að slá eign sinni á fiskinn og ráðskast með hann að vild

sinni, sigla síðan með fiskinn til annarra landa og selja hann þar óunninn.
    Ég vil ítreka þakklæti mitt til flm. fyrir þessi tvö ágætu mál.