Lokunaraðgerðir Pósts og síma
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um mál sem ekki er stórt í samanburði við þau stóru mál sem við vorum að ræða áðan, en Alþingi þarf nú líka að sinna smærri málunum. Hún er um breytta tilhögun á lokunaraðgerðum Pósts og síma og hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að breyta reglum um innheimtu Pósts og síma þannig að lokunaraðgerðir verði mildaðar. Verkinu sé lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir því að till. er flutt er sú að hér er einkarekstur á Pósti og síma og nánast hver einasti landsmaður, hvert einasta heimili og hvert einasta fyrirtæki, er áskrifandi að þessari símaþjónustu. Sem gamall heimastjórnarmaður þykir flm. mjög vænt um talsímann, þetta er jú tákn heimastjórnar í landinu, og síminn er orðinn snar þáttur í þjóðlífinu. Við hann hafa nú á síðari tímum tengst hlutir eins og símskeyti, telex, telefax og margs konar öryggisbúnaður.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að þröngt hefur verið í búi hjá mörgum að undanförnu. Það leiðir til þess að fólk á oft í erfiðleikum með að standa í skilum með afnotagjaldið af símanum. Það má nú svo sem segja að það er sama hvernig árar í þjóðfélaginu. Það er alltaf nokkur hópur sem á í erfiðleikum með að borga af hinum ýmsu ástæðum. Þess vegna er hér lagt til að innheimtuaðgerðir, lokanir, verði mildaðar á þann hátt að símanum verði lokað þannig að ekki sé hægt að hringja úr honum nema í valin öryggisnúmer, slökkvilið, sjúkraþjónustu og annað slíkt, en hins vegar sé áfram hægt að hringja í númerið. Þessi háttur tíðkast víða erlendis og þar er tekið mið af því að
síminn er ekki í dag bara talsími sem viðskiptaþjónusta, að einn maður geti hringt í annan, heldur er síminn viðurkenndur sem öryggisþjónusta. Fólk er vant að geta náð hvað í annað í gegnum símann. Síminn er það hraðvirk boðleið að þegar lokað er fyrir hann er skorið á ákaflega þýðingarmikla líflínu á milli fólksins. Þess vegna er þessi tillaga lögð fram.
    Það er trú flm. að þó að þessi háttur yrði hafður á lokunum símans í framtíðinni mundi það á engan hátt draga úr tekjum Pósts og síma. Síminn er okkur það mikilvægur að við viljum hafa af honum full not. Við mundum borga okkar gjöld eigi að síður við fyrsta tækifæri þó svo að yrði að grípa til tímabundinnar lokunar á þennan hátt.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla með því að till. fari til seinni umræðu og hv. allshn.