Heimsverslunarmiðstöð á Íslandi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson vék hér að till. til þál. um fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll, sem hann hefur flutt og hefur verið dreift hér, vildi ég vekja athygli hv. þm., sem ekki hefur átt mjög lengi sæti á Alþingi, á því að árið 1984 var samþykkt hér á Alþingi þál. um fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll, sem er nokkurn veginn hið sama og hér er verið að ræða um, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason flutti og hafði flutt alloft áður en hún náðist samþykkt. Þessi samþykkt Alþingis hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að gera athugun á hvort hagkvæmt sé að koma á fót fríiðnaðarsvæði hér á landi, t.d. á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar þar sen henta þætti. Við gerð slíkrar athugunar verði haft samráð við samtök iðnaðarins.``
    Hér hefur því hv. þm., af því að hann vék að þessu máli sérstaklega í sinni ræðu, flutt mál sem þegar hefur í rauninni verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi.
    Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram hér, virðulegi forseti.