Heimsverslunarmiðstöð á Íslandi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli, og þetta er alveg rétt. Um þetta vissi ég, að sjálfsögðu. Árið 1984 samþykkti Alþingi þál. eins og hv. þm. las upp áðan og, ef ég man rétt, þrem árum seinna lét forsrh. gera skýrslu um hvort hrinda ætti þessari hugmynd í framkvæmd og sú skýrsla var neikvæð. Það var ekki talið rétt á þeim tíma að stofna sérstakt fríhafnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.
    Í dag eru aðstæður breyttar. Flugvallaryfirvöld á Keflavíkurflugvelli hafa skipulagt mikið svæði í nágrenni við nýju flugstöðina þar sem m.a. er gert ráð fyrir vörugeymslum við flugbrautina. Stutt er í allar helstu lagnir og búið að leggja skolp o.fl. inn á svæðið og því er ekkert að vanbúnaði að byrja. Þessi tillaga er ekki flutt alveg gjörsamlega út í bláinn af manni sem vaknar einn góðan morgun og fær þá snjöllu hugmynd að flytja tillögu af þessu tagi, heldur er hún flutt eftir samvinnu við flugvallarstjórann á Keflavíkurflugvelli, Pétur Guðmundsson, og að hans áeggjan því að af hálfu flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli er ekki eftir neinu að bíða og þau eru þess mjög fýsandi að taka þetta skref, að Íslendingar stígi þetta skref inn í alþjóðleg viðskipti, inn í framtíðina, og af þeirra hálfu er ekkert að vanbúnaði til þess að svo megi verða á flugvellinum.
    Á sama hátt var haft samráð við Verslunarráð Íslands, framkvæmdastjóra þess, Vilhjálm Egilsson, um flutning þessarar tillögu. Verslunarráð hefur mjög látið þessi mál til sín taka árum saman og núna síðast á aðalfundisínum fyrir skömmu þar sem ályktað var um þörfina fyrir möguleika af þessu tagi. Karl Steinar Guðnason, hv. alþm., flutti þessa tillögu á sínum tíma. Hann á heiður skilið fyrir það. Hér er hvergi reynt að ræna þeirri fjöður úr hatti hans. Hv. þm. hefur haft forgöngu um að flytja þetta mál á Alþingi. Forsrh.
lét síðan kanna það og sú skýrsla var neikvæð fyrir framvindu málsins. Ég er eingöngu að taka hér upp þráðinn.
    Ég þakka hv. alþm. Eiði Guðnasyni fyrir að hafa vakið máls á þessu. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að láta hlut forgöngumanna í þessu máli liggja óbættan. Ég minntist á þessa tillögu í málflutningi mínum um heimsverslunarmiðstöð sem hluta af framtíðinni í viðskiptum. En að sjálfsögðu mun þetta allt saman verða rakið í málflutningi fyrir hinni tillögunni um Fríhöfnina sjálfa.