Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 626 um lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi. Flm. auk mín eru hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Salome Þorkelsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Jón Kristjánsson. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að beita sér fyrir því að nefnd sú sem ráðherra skipaði í október sl. í kjölfar kjarasamninganna í apríl 1989, til að gera tillögur um hvernig jafna megi rétt kvenna á vinnumarkaði til fæðingarorlofsgreiðslna, taki jafnframt til athugunar lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi.``
    Fyrir þremur áratugum voru um 30% kvenna virkar í atvinnulífinu, þ.e. unnu a.m.k. þriðjung af venjulegum vinnutíma utan heimilisins. Atvinnuþátttaka giftra kvenna var enn þá minni eða 15--16%. Nú er svo komið að atvinnuþátttaka kvenna á barneignaraldri er um og yfir 90% og er ekki ofsagt að sú breyting sem orðið hefur á vinnu kvenna utan heimilis sé ein mesta þjóðfélagsbylting síðari tíma og áhrif þessa má merkja á flestum sviðum þjóðlífsins.
    Kröfur um aukin réttindi kvenna á vinnumarkaði hafa vaxið mjög á liðnum árum og áherslur stéttarfélaga við samningaborðið hafa tekið mið af þeim breytingum sem átt hafa sér stað. Þannig ákvað ríkisstjórnin í tengslum við kjarasamningana í apríl 1989 að skipa nefnd sem hafi það verkefni að skoða og
útfæra þá stefnumörkun er fram kemur í álitsgerð nefndar sem samdi frv. til laga um fæðingarorlof og miðar að því að konur, hvar sem þær eru í starfi, njóti jafnréttis hvað varðar fæðingarorlof. Fram kemur í grg. með þessari tillögu hverjir skipa nefndina.
    Það var stórmál þegar lögbundinn var réttur allra kvenna til töku fæðingarorlofs og það er stór áfangi að fæðingarorlof skuli nú orðið sex mánuðir. En við skulum skoða hver staðan í þessum málum er hjá konum á vinnumarkaði og hvaða samræmingu þarf að takast á við. Ég leyfi mér að tilgreina konur sérstaklega þó vissulega hafi það aukist mjög að foreldrar skipti með sér töku fæðingarorlofsins. Konur sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum halda fullum launum og fullum réttindum í fæðingarorlofi. Konur sem eru í Bankamannasambandinu halda fullum launum og réttindum fyrstu þrjá mánuði, fá 25 þús. kr. að gjöf frá viðkomandi banka í upphafi fæðingarorlofs og halda einnig öllum réttindum síðari þrjá mánuðina meðan þær hljóta fæðingarorlofsgreiðslu frá Tryggingastofnun, svo sem veikindadögum og orlofsdögum, starfsaldursálagi, bónus og orlofsuppbót. Ég sagði öllum --- nema réttinum til að greiða í lífeyrissjóð.
    Aðrar konur á vinnumarkaði taka launalaust leyfi og fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga.
    Í nýgerðum samningum ASÍ, VSÍ og VMS er tekið á réttindamálum þessara kvenna en þar segir í 4. gr.,

með leyfi forseta:
    ,,Eftir tveggja ára starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna fæðingarorlofs allt að sex mánuðum til starfstíma við mat á rétti til aukins orlofs samkvæmt kjarasamningum, útreikning desemberuppbótar, orlofsuppbótar, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests.`` --- Ekki er kveðið á um greiðslur í lífeyrissjóð.
    Fyrir rúmum mánuði fóru fram mjög gagnlegar umræður hér á Alþingi um fæðingarorlofsgreiðslur og var á það bent að foreldrar sem njóta fæðingarorlofs geta lent í því að fæðingarstyrkur og fæðingardagpeningar nemi samtals mun lægri upphæð en mánaðarlaunum þeirra áður enda fjallaði málið um rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í þeim tilvikum þar sem samist hefur um það milli aðila að atvinnurekandi greiði mismun á launum og fæðingarorlofsgreiðslum. Við það tækifæri benti ég á að auk þess að viðkomandi þiggi í mörgum tilfellum lægri greiðslur en laun missi viðkomandi jafnframt rétt til greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð meðan á fæðingarorlofi stendur. Slíkur réttindamissir verður tilfinnanlegri eftir því sem fæðingarorlofið lengist og sannarlega skulum við vona að sex mánuðir séu bara áfangi á lengri leið og því er brýnt að finna lausn á þessu máli.
    Í a-lið 26. gr. laga um almannatryggingar segir:
    ,,Foreldrar í fæðingarorlofi sem lögheimili eiga á Íslandi eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.``
    Þetta þýðir að foreldrar sem fá fæðingarorlofsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru skráðir starfsmenn á vinnustað, taka launalaust leyfi og fara út af launaskrá.
    Fram að kjarasamningunum nú nýverið misstu þeir auk þess þau réttindi sem annars hefðu áunnist í starfi en úr því hefur nú verið bætt. Eftir stendur að þessir foreldrar missa af iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóð í sex mánuði og í sumum tilfellum falla niður þennan sama tíma ákveðin réttindi sem bundin eru
iðgjaldagreiðslum í sjóðinn. Ég gæti þar nefnt lánveitingar. Tökum dæmi af sjóðfélaga í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem þó er ekki opinber starfsmaður. Stysta bið viðkomandi eftir láni er tvö og hálft ár en sú bið verður að þremur árum ef sex mánaða fæðingarorlof fellur innan biðtímans. Eins getur sjóðfélaginn lent í því hvort heldur um er að ræða töku svokallaðs A-láns, sem veitt er eftir tvö og hálft ár, eða B-láns, sem veitt er eftir átta ár, að ekki er hægt að fá lánið greitt út vegna þess að útgreiðsla láns er háð iðgjaldagreiðslu í sama mánuði en viðkomandi er kominn í fæðingarorlof og verður þar með að bíða eftir láninu þar til orlofi lýkur jafnvel allt að sex mánuðum.
    Slíkt atriði mælist ef til vill ekki stórt miðað við lífeyrisréttindin sjálf en við gerum okkur öll grein fyrir því hvaða áhyggjum og erfiðleikum það getur

valdið þegar lánið sem beðið er eftir fæst ekki afgreitt á þeim tíma sem reiknað var með því oft og tíðum áttar fólk sig ekki á þeirri stöðu sem upp kemur og hér er bent á.
    Meginforsenda lífeyrissjóðsaðildar er að sjóðfélagar afli tekna og greiði af þeim iðgjald. Á þessu eru þó þrjár undantekningar sem má telja að varði starfshlé eða undirbúningstíma. Í lögum um lífeyrisréttindi húsmæðra frá 1985 segir að félagi í lífeyrissjóði sem á rétt á fæðingarorlofi og hverfur úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti vegna barnsburðar og til heimilisstarfa getur haldið áfram aðild að sjóðnum á óbreyttum grundvelli í allt að sjö ár, enda taki félagsmaður að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin. Þá er námsmönnum sem taka lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna veittur aðgangur að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og veitir Lánasjóðurinn viðbótarlán fyrir 6% iðgjaldi en dregur 4% frá lánsfjárhæð. Í þriðja lagi er greitt í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum. Í því tilviki má líta svo á að með iðgjaldi sem atvinnurekandi greiðir til Atvinnuleysistryggingasjóðs kaupi hann rétt fyrir starfsmenn sína til lífeyristryggingar í atvinnuleysi.
    Það kom mér mjög á óvart þegar ég fór að kanna þessi mál að lögin frá 1985 um lífeyrisréttindi húsmæðra virðast ekki hafa komið til framkvæmda hjá lífeyrissjóðnum þrátt fyrir að um skylduákvæði er að ræða. Það fékkst staðfest bæði hjá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og hjá Sambandi almennra lífeyrissjóða að ekki er heimilt að greiða iðgjald af fæðingarorlofsgreiðslum, þ.e. tryggingabótum, til sjóðanna. Þar sem þau lög kveða á um að viðkomandi sjóðfélagi verður að reiða fram bæði eigin hlutfall og framlag atvinnurekandans í iðgjaldagreiðslum má reikna með að ekki hafi verið leitað eftir því við sjóðina af hálfu sjóðfélaga að þeir framfylgi þessu lögbundna ákvæði.
    Virðulegi forseti. Það er mikið hagsmunamál foreldra á vinnumarkaði að þeim verði gert kleift að viðhalda lífeyrisréttindum sínum meðan á fæðingarorlofi stendur með því að fá að greiða í lífeyrissjóð og fá mótframlag á iðgjaldi. Eins og fram hefur komið í máli mínu verður það þýðingarmeira eftir því sem fæðingarorlof lengist.
    Þegar ég ákvað að flytja þetta mál hér á hv. Alþingi stóð valið um að flytja frv. til breytingar á lögunum eða till. til þál. með þeim hætti sem ég nú hef gert. Ástæða þess að ég vel að fara þessa leið er sú að ég tel að það skipti miklu máli hvaða leið nefnd heilbrrh. velur til að ná settum markmiðum um samræmingu og að niðurstaða þess máls hafi áhrif á hvaða fyrirkomulag hentar best varðandi mótframlag og iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðanna og því hef ég valið að óska eftir að nefndinni verði falið þetta verkefni.
    Þá er einnig rétt að það komi fram hér að ég aflaði mér að sjálfsögðu upplýsinga um hvort lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi væru til umfjöllunar hjá nefndinni nú þegar og fékk staðfest að svo væri ekki.

    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og til hv. félmn.