Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að þakka hv. flm. fyrir að bregðast skjótt við og taka á þessu máli sem, eins og hv. 1. flm. sagði, athyglin beindist að að hluta til fyrir u.þ.b. mánuði er annar angi réttinda foreldra í fæðingarorlofi var til umræðu.
    Fæðingarorlof á launum er sem betur fer nú orðið viðurkennt sem réttindi sem foreldrar, oftast mæður, eiga skýlausan rétt á að njóta. Svo sem hv. 1. flm. þessarar tillögu gat um er það enn svo að foreldrar njóta ekki allir fullra launa allan fæðingarorlofstímann. Þegar þar á ofan bætist að foreldrar glata lífeyrisréttindum sínum þann tíma sem um er að ræða þá er ljóst að hér þarf að bæta úr og sú leið sem í þessari þáltill. er lagt til að farin verði tel ég að sé sú besta sem við eigum kost á og eðlilegt að leita einmitt þessarar leiðar.
    Mig langar að koma með örlitla ábendingu, mál sem vakin var athygli mín á en ég hafði því miður ekki fyrir þessa umræðu möguleika á að kanna hvort rétt væri. Það eru mismunandi reglur lífeyrissjóða um öflun réttinda til lántöku úr lífeyrissjóðum. Þær eru misjafnar. Í sumum tilvikum miðast réttindi til lántöku, eftir því sem mér var bent á, við samfelldan undanfarandi starfstíma. Þessar reglur má því túlka svo að verði rof, t.d. sex mánaða rof, glatast lífeyrisréttindi eða þau réttindi til lántöku t.d. sem miða við samfelldan undanfarandi starfstíma og viðkomandi verður að byrja aftur á byrjuninni þegar komið er t.d. úr sex mánaða fæðingarorlofi. En eins og ég gat um þá hef ég ekki fengið staðfest dæmi um slíkt, einungis ábendingar um að svona kunni að vera í pottinn búið og mér þykir full ástæða til þess að kanna það og treysti því að í vinnslu málsins verði þetta einnig tekið fyrir.
    Það hlýtur að vera kappsmál að foreldrar njóti sem fyllstra og bestra réttinda á meðan á fæðingarorlofi stendur og ég tel þessa þáltill. mjög stórt og mikilvægt skref í þá átt.