Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um könnun á magni endurnýtanlegs pappírs, söfnun hans og endurnýtingu. Till. er á þskj. 692 og er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna hve mikið fellur til árlega af endurnýtanlegum pappír og með hvaða hætti væri unnt að safna honum skipulega saman og endurnýta.``
    Í grg. með þessari till. kemur fram að á síðasta ári hafa verið flutt til landsins rúmlega 15 þús. tonn af pappír. Þar er þó einungis talinn dagblaða-, prent- og skrifpappír og pappi. Við þessa tölu má síðan bæta því magni sem flutt er til landsins af pappírsvörum ýmiss konar, umbúðum og fleiru. Sáralítið af því magni hefur verið endurnýtt. Ýmsir aðilar hafa verið með tilburði í þá átt að safna saman pappír til útflutnings eða endurvinnslu, en nú er einungis einn aðili sem safnar pappírsúrgangi og endurvinnur, fyrirtækið Silfurtún hf. Þar eru framleiddir eggjabakkar og plöntuhlífar úr afskurði frá prentsmiðjum og stefnir nú í að með þeim hætti verði á þessu ári nýtt 200 tonn af pappírsúrgangi sem ella hefðu farið á haugana. Við þá framleiðslu starfa sex manns og má af því ráða að ef vel er að staðið gætu nokkuð mörg atvinnutækifæri verið fólgin í endurvinnslu, atvinnutækifæri sem
sett eru á haugana með öllum pappír sem þangað fer. Það er dýrt að flytja allt þetta magn af pappír til landsins og dýrt að koma honum öllum á sorphauga eða í brennslu þegar notkun í einni mynd er lokið.
    Tvö hundruð tonn eru lítill hluti af öllum þeim pappír sem árlega er fluttur til landsins og fullyrða má að mun meira mætti nýta til endurvinnslu ef skipulega yrði staðið að könnun á því magni sem til fellur af pappírsúrgangi og með hvaða hætti væri unnt að safna honum saman og þeim möguleikum sem eru til staðar varðandi framleiðslu úr endurnýtanlegum pappír.
    Vaxandi fjölda fólks ofbýður sú sóun sem á sér stað daglega á auðlindum jarðar. Við Íslendingar höfum ekki enn verið knúnir til alvarlegrar umhugsunar um afleiðingar þeirrar græðgi sem felst í lífsmunstri og venjum okkar Vesturlandabúa. Á því er þó að verða breyting. Þrátt fyrir að helstu auðlindir okkar séu endurnýjanlegar og mengun sé lítil miðað við það sem gerist í þéttbýlum iðnríkjum er vaxandi skilningur á nauðsyn þess að staldra við og reyna að bæta fyrir þau spjöll sem unnin hafa verið á náttúru landsins og að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu.
    Ýmsar aðrar þjóðir sem daglega horfa upp á og finna áþreifanlega fyrir afleiðingum tillitslausrar umgengni við umhverfið hafa með ýmsum ráðum reynt að sporna gegn frekari eyðileggingu og sóun. Liður í þeirri viðleitni eru markvissar aðgerðir til endurnýtingar þeirra efna og gæða sem endurnýtanleg eru.
    Margir Íslendingar sem dvalið hafa erlendis þekkja til söfnunar á pappír og reyndar fleiru sem til fellur af endurnýtanlegum efnum á hverju heimili. Þeir sem

eru meðvitaðir um að jörðin er ekki óþrjótandi nægtabúr og að framtíð hennar og þar með okkar ræðst ekki hvað síst af því að við umgöngumst náttúruna af meiri virðingu vilja gjarnan fá að leggja sitt af mörkum til meiri nýtingar þess sem endurnýtanlegt er.
    Hér á landi var stigið skref í rétta átt þegar farið var að safna notuðum drykkjarvöruumbúðum til endurvinnslu. Næsta skref ætti að vera skipuleg söfnun pappírs til endurnýtingar. Með slíkum aðgerðum er ekki aðeins verið að bjarga verðmætum, heldur felst í slíkri viðleitni ákveðið viðhorf og siðferði gagnvart náttúruauðlindum sem ekki hvað síst hefur gildi gagnvart uppvaxandi kynslóð.
    Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum lögðu þingkonur Kvennalistans fram þáltill. um fullnýtingu úrgangsefna. Sú tillaga varð ekki útrædd. Ég vænti þess að þau verði ekki örlög þessarar þáltill. en hún tekur einungis til hluta þess sem reifað var í fyrrnefndri tillögu Kvennalistans og ætti því að vera aðgengilegri að ýmsu leyti. Það yrði hinu nýja umhverfisráðuneyti til vegsauka að taka með festu á málum sem þessum því eins og ég vék að áðan felst ekki bara í því minni sóun verðmæta heldur uppeldislegt gildi fyrir uppvaxandi kynslóð.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til atvmn. og síðari umr.