Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til að taka undir efni þessarar þáltill. Þó neita ég því ekki að það hvarflar að mér hvort ekki hefði í rauninni verið æskilegt og nauðsynlegt að ganga hér töluvert lengra. Ég held nefnilega að það þurfi ekki að kanna sérstaklega með hvaða hætti er unnt að safna endurnýtanlegum pappír skipulega saman og endurnýta hann. Ég held það þurfi bara að taka ákvörðunina um að gera það. Ég held það sé í rauninni mjög einfalt mál og ég held að við komumst ekki hjá því öllu lengur. Kannski ætti það að verða fyrsta og brýnasta verk nýstofnaðs umhvrn. að beita sér fyrir því að settar yrðu reglur um flokkun sorps. Um leið og byrjað er að flokka sorp, á heimilum og annars staðar, kemur þetta í rauninni af sjálfu sér. Rökin fyrir endurvinnslupappír eru hér á borðunum allt í kringum okkur í þessum þingsal.
    Ég hef tekið eftir því að hér í höfuðborginni hefur verið gerð tilraun til að flokka sorp. Komið hefur verið fyrir gámum á opnum svæðum þar sem borgarbúar geta farið með sorp og rusl sem til fellur af ýmsu tagi í stað þess að flytja það upp á öskuhauga eins og menn áður þurftu. Þar er einn gámur sem merktur er ,,aðeins fyrir timbur`` og annar sem merktur er ,,aðeins fyrir málma``. Hvernig sem á því stendur virðast þeir sem þessa þjónustu notfæra sér annaðhvort ekki kunna að lesa eða ekki vilja lesa vegna þess að það virðist ákaflega lítið eftir þessu farið, því miður.
    Þarna er auðvitað mikið fræðslustarf óunnið en það er engin spurning að tiltölulega auðvelt og einfalt er að nýta verulegan hluta af þessu aftur. Möguleikar skapast til að nýta málma þegar farið verður að bræða bílhræ hér í járnbræðslunni suður undir Straumi. Timbrið er hægt að nýta eins og hv. síðasti ræðumaður, 12. þm. Reykv., vék að. Rætt hefur verið um að nota það á Grundartanga. Það er hugsanlega líka hægt að nýta það til brennslu í ofni Sementsverksmiðju ríkisins með kolum. En forsenda þess væri nú kannski að komin væru göng undir Hvalfjörð til að auðvelda þá flutninga, en þar mætti nota timbur sem eldsneyti að einhverju leyti. Um þetta eru í gangi samtöl og athuganir.
    Ég held að svo góðra gjalda verð sem þessi till. er þá eigum við að ganga miklu lengra, við eigum að setja strangar og ítarlegar reglur um flokkun sorps. Það vottar fyrir því, eins og ég sagði áðan, að byrjað sé á því núna. Og mjög virðingarvert framtak hefur verið gert varðandi það að safna saman notuðum rafhlöðum sem margar hverjar hafa að geyma mjög mengandi þungmálma. Ég vék að þessu hér í ræðustól fyrir allmörgum árum vegna þess að slík söfnun og samantekt á útslitnum rafhlöðum hefur verið í gangi á Norðurlöndunum í mörg ár. Ber vissulega að fagna því að það skuli nú komið í framkvæmd og virðist, eftir því sem mér er tjáð, ganga allvel. Hér er sem sagt mál á ferðinni þar sem við þurfum að taka enn þá betur á en þessi till. annars gerir ráð fyrir.