Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér. Ég get tekið undir það með hv. þm. Eiði Guðnasyni og einnig Salome Þorkelsdóttur að vissulega væri æskilegt að ganga strax lengra. Og ef það væri svo einfalt að taka bara ákvörðun og byrja á morgun þá stæði ugglaust hvorki á mér né ýmsum fleiri. Hins vegar, virðulegur forseti, hlýt ég að álykta sem svo að fyrst sú þáltill. sem ég vísaði í í minni framsögu, um fullnýtingu úrgangsefna, og Kvennalistinn bar hér fram fyrir tveimur árum varð ekki útrædd á þinginu, en eigi að síður var stigið skref í fyrra í þá átt að fara að safna notuðum drykkjarvöruumbúðum til endurvinnslu, þá sé e.t.v. vænlegra til árangurs að taka skrefin hvert fyrir sig og gera sér þá raunhæfa grein fyrir því í hvaða röð þau ættu að vera. En öll óskum við þess væntanlega að þau geti verið sem flest og stærst og sem fyrst.
    En ég vil, virðulegur forseti, endurtaka þakkir mínar til þeirra sem undir þessa þáltill. hafa tekið.