Reglur um stjórnir peningastofnana
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 501 um að settar verði reglur um stjórnir peningastofnana.
    Flm. till. eru allar þingkonur Kvennalistans sem hér sitja á þingi. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fjögurra manna nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða lög og reglur að því er varðar setu manna í stjórnum bankastofnana, sjóða eða annarra lánastofnana í því skyni að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
    Nefndin verði skipuð eftir tilnefningu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Lagastofnunar Háskóla Íslands, Sambands íslenskra bankamanna auk eins án tilnefningar.
    Nefndin skili áliti eigi síðar en 1. september 1990.``
    Skömmu eftir kosningu í sameinuðu þingi í desember 1989 í bankaráð Landsbanka Íslands kom fram gagnrýni á val fulltrúa Kvennalistans, Kristínar Sigurðardóttur, og efasemdir um að seta hennar í ráðinu samrýmdist störfum hennar sem innheimtustjóra hjá Kaupþingi hf.
    Kvennalistakonur ákváðu að fara þess á leit við forseta Alþingis að kanna hjá til þess hæfum aðilum hvort seta fulltrúa Kvennalistans í bankaráði Landsbankans gæti á einhvern hátt talist óeðlileg eða andstæð lögum um
viðskiptabanka. Forsetar Alþingis leituðu eftir áliti skrifstofustjóra Alþingis, Sigurðar Líndals lagaprófessors og bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Álitsgerðir þessara þriggja aðila eru fylgiskjöl með tillögunni.
    Álitsgerðirnir eru hver með sínu móti og niðurstöður ekki samhljóða. Í þeim öllum er þó rakanna leitað í lögfræðilegum skilgreiningum á almennu hæfi og sérstöku hæfi til opinberra starfa.
    Í áliti skrifstofustjóra Alþingis, Friðriks Ólafssonar, kemur fram að hann telur að seta Kristínar Sigurðardóttur í bankaráði Landsbanka Íslands sé ekki andstæð lögum um viðskiptabanka. Hann telur hana hins vegar óeðlilega með tilliti til stöðu hennar og starfa hjá Kaupþingi hf.
    Sigurður Líndal telur Kristínu, sem deildarstjóra innheimtudeildar Kaupþings hf., almennt vanhæfa til setu í bankaráði Landsbanka Íslands samkvæmt grundvallarreglum íslensks stjórnarfarsréttar.
    Þórður Ólafsson og Jóhann Albertsson, fyrir hönd bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, komast svo að enn einni niðurstöðu sem er sú að Kristín Sigurðardóttir teljist ekki vanhæf til setu í bankaráði Landsbanka Íslands þrátt fyrir starf sitt hjá Kaupþingi hf.
    Mikill fengur er að þessum álitsgerðum sem ættu að geta orðið til hliðsjónar við ástundun heilbrigðra stjórnarhátta sem væntanlega er markmið flestra. Vafalaust komast margir að þeirri niðurstöðu að nauðsyn beri til að endurskoða venjur í þessum efnum og herða á hæfiskilyrðum í stjórnsýslu hér á landi, svo vitnað sé til orða Sigurðar Líndals prófessors.

    Með tilliti til upprifjunar einstakra dæma um bankaráðsmenn, bæði í fjölmiðlum og í álitsgerð bankaeftirlitsins, má það þó teljast athyglisvert að þá fyrst þykir ástæða til gagnrýni þegar um fulltrúa Kvennalistans er að ræða. Kvennalistakonur vildu þó ekki láta það hafa áhrif á eigin niðurstöðu. Við vildum ekki að um álitamál væri að ræða í þessu efni. Niðurstaða Kvennalistans varð sú að þrátt fyrir lagalega stöðu væri ekki rétt að Kristín gegndi samtímis starfi deildarstjóra hjá Kaupþingi og sæti í bankaráði Landsbanka Íslands. Það var þó auðvitað endanlegt mat Kristínar sjálfrar hvernig hún tæki á þessu máli. Og hv. þm. þekkja væntanlega allir hvernig því máli lauk.
    Þetta mál fékk víðtæka umfjöllun í fjölmiðlum og víðar og væri það til að æra óstöðugan að rifja það allt upp hér. Þó vil ég vitna til forustugreinar Morgunblaðsins frá 29. des. á síðasta ári en þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Deilan sem nú hefur risið vekur hins vegar spurningar um fleira en þetta. [Þá er búið að rekja sögu þessa máls.] Er það svo um alla þá er sitja í bankaráðum ríkisbanka að þeir standi þannig gagnvart bönkum eða viðskiptum þeirra við einstök fyrirtæki að ekki sé ástæða til að velta því fyrir sér hvort um hagsmunaárekstra sé að ræða? Hvar á að draga mörkin í því ágreiningsefni sem hér hefur risið? Tengjast engir starfsmenn ríkisbanka fyrirtækjum, stjórnum sjóða eða jafnvel annarra bankastofnana með þeim hætti að óeðlilegt yrði talið ef farið yrði í saumana á málunum? Þegar álitamál af því tagi sem hér er til umræðu koma upp á yfirborðið hefur þess gætt, og jafnvel í vaxandi mæli hin síðari ár, að menn vilja velta einum steini og gá að því sem er undir honum en láta miklu fleiri liggja í sínum gamla stað. Af þessu leiðir síðan misrétti og tvískinnungur sem dregur úr trú almennings að hlutlægt sé tekið á viðkvæmum málum og allir séu látnir sitja við sama borð.`` Í lok þessarar forustugreinar segir: ,,Morgunblaðið telur nauðsynlegt að litið sé á mál sem þetta í heild þegar ágreiningur sprettur vegna einstaklings. Það geti einfaldlega leitt til óréttlætis að höggva nærri nýliða en láta hina
sitja áfram óáreitta sem hafa setið lengi þótt þeir hafi verið kjörnir við allt aðrar aðstæður.``
    Það álit sem þarna kemur fram er í samræmi við álit flestra þeirra sem tjáðu sig um málið, bæði í fjölmiðlum og annars staðar. Sú umfjöllun sem orðið hefur af þessu tilefni og sér í lagi sú staðreynd að niðurstöður þeirra sem leitað var álits hjá eru svo mismunandi sem raun ber vitni hefur leitt glöggt í ljós að reglur um þessi efni eru alls ófullnægjandi. Það varðar bæði reglur um sérstök tilvik þar sem eðlilegt er að stjórnvaldshafi víki úr sæti í ákveðnu máli svo og um almennt hæfi til að sitja í stjórn viðkomandi stofnunar. Í lögum um viðskiptabanka eru t.d. engin ákvæði um almenn hæfiskilyrði þeirra sem taka sæti í bankaráðum. Í 33. gr. viðskiptabankalaga er kveðið á um hvenær bankaráðsmenn mega ekki taka þátt í meðferð máls. Ákvæði eins og fram koma í þessari grein þarf að útfæra betur og setja skýrar reglur um

það hvenær hætta er á hagsmunaárekstrum vegna setu manna í stjórnum banka, sjóða og annarra lánastofnana.
    Þau álit sem gefin hafa verið vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra bankaráðsmanna og starfsmanns verðbréfafyrirtækis sýna að menn eru ekki á einu máli um hvaða fyrirtæki eru í samkeppni á fjármálasviðinu. Af þessu er ljóst að setja þarf skýr lagaákvæði og reglur þurfa að vera fyrir hendi um hæfi manna til að sitja í stjórnum banka, sjóða og annarra lánastofnana. Það er ekki síður mikilvægt með tilliti til þeirra dæma sem dregin hafa verið fram í umræðuna um val á fulltrúa Kvennalistans í bankaráð Landsbankans.
    Lagaákvæði og reglur geta þó ekki skorið úr um öll atriði. Þess utan verður að treysta á siðgæðisvitund viðkomandi og aðhald frá vakandi almenningsáliti.
    Þessi till. gerir ráð fyrir setningu reglna um stjórnir peningastofnana en það þarf jafnframt að endurskoða gildandi lög þar sem beinlínis er boðið upp á hagsmunaárekstra. Í DV í gær, miðvikudaginn 14. mars, birtist grein eftir Sigríði Lillýju Baldursdóttur, sem er varaþingkona Kvennalistans. Mig langar til að lesa smákafla úr grein hennar þar sem hún tekur dæmi um það að í raun sé boðið upp á hagsmunaárekstra í gildandi lögum. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sem dæmi um lög þar sem að mínu mati er stofnað til hagsmunaárekstra af þessu tagi eru lög um Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Fiskveiðasjóð Íslands. Í 6. gr. laga um Fiskveiðasjóð er kveðið á um hvernig skuli skipa stjórn hans. Stjórnin er sjö manna og skal samkvæmt lögum Seðlabanki Íslands, Landsbanki Íslands og Íslandsbanki tilnefna hver um sig einn fulltrúa í stjórn auk hagsmunaaðila úr röðum útvegsmanna og fiskiðnaðarnefnd og sjómannafélögunum. Í lögum um Iðnþróunarsjóð segir að iðnrh. skuli skipa fimm menn í Framkvæmdasjóð Íslands eftir tilnefningu Landsbanka Íslands, Iðnlánasjóðs og Búnaðarbanka Íslands sem hver tilnefnir einn mann og Íslandsbanki tvo samkvæmt nýsamþykktum lögum um viðskiptabanka.
    Þá kveða lög um Iðnlánasjóð á um að iðnrh. skipi sjóðnum þriggja manna stjórn, einn án tilnefningar en hina eftir tilnefningu stjórnar Landssambands iðnaðarmanna og stjórnar Félags ísl. iðnrekenda. Síðan segir í lögunum að Iðnaðarbanki Íslands, nú væntanlega Íslandsbanki, hafi á hendi daglegan rekstur Iðnlánasjóðs.``
    Það er greinilegt að víða þarf að taka til hendinni í opinberri stjórnsýslu. Í álitsgerð Sigurðar Líndals segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nú hafa ekki verið leiddar í lög hér á landi neinar almennar vanhæfisreglur í stjórnsýslu. Á hinn bóginn eru ákvæði um vanhæfi í ýmsum samböndum mjög víða í löggjöfinni, m.a. um ósamrýmanleg störf.`` Og síðast í álitsgerð Sigurðar segir: ,,Þar að auki er almennt nauðsynlegt að herða á hæfisskilyrðum í stjórnsýslu hér á landi.`` Þannig að þó að tekið sé eingöngu á reglum um stjórnir peningastofnana í þessari tillögu þarf að líta miklu víðar. En það sem hefur kannski vakið athygli upp á síðkastið er að

umræða um þessi mál hefur nánast alveg þagnað. Það má velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum standi á því. Hafa menn ekki í raun og veru áhyggjur af spillingunni sem talað var svo mikið um hér eftir áramótin? En kvennalistakonum finnst það miklu varða að sú umfjöllun sem nú hefur orðið um þessi efni leiði til úrbóta svo að dregið verði úr hættu á hagsmunaárekstrum sem frekast er unnt.
    Að lokinni umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.