Reglur um stjórnir peningastofnana
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það væri betur af stað farið en heima setið ef það mál sem er eiginlega uppspretta þessa þingmáls yrði til þess að ýmislegt í stjórnsýslu okkar væri fært til betri vegar. Hæstv. viðskrh. hafði orð á því að þetta hefði þegar verið gert hvað varðaði stjórnir og ráð í viðskiptabönkum með lögum um viðskiptabanka í fyrra. Þau ákvæði reyndust ekki haldbetri en það, eins og hv. 12. þm. Reykv. nefndi hér áðan, að þeir þrír aðilar sem leitað var álits hjá komust að þrem mismunandi niðurstöðum svo að eflaust er einhverra úrbóta þörf þar líka.
    Auðvitað er þetta miklu víðfeðmara viðfangsefni en bara í stjórnum og ráðum peningastofnana. Það eru auðvitað ótal aðrir staðir í þjóðfélaginu þar sem hagsmunaárekstrar af ýmsu tagi geta orðið en hvergi er það brýnna en einmitt í þeirri opinberu sýslan með fé sem getur ráðið mjög miklu um framgang bæði einstaklinga, fyrirtækja, heilla byggðarlaga o.s.frv.
    Það mun sitja að störfum nefnd sem er að endurskoða sveitarstjórnarlög á Íslandi og jafnframt hefur sú nefnd það hlutverk að athuga lög um stjórnsýslu. Því miður er reynsla af því hér að því er mjög oft borið við þegar hreyft er málum að nefnd sé að störfum og því þurfi ekki að huga að neinu vegna þess að niðurstaða nefndar sé væntanleg. Ég hef eftir því sem tök eru á reynt að kynna mér á hvaða stigi vinna þeirrar nefndar er og satt að segja hafa þau svör sem ég hef fengið verið þess eðlis að ég held að ekki sé ástæða til þess að ætla að árangur þeirra nefndarstarfa birtist okkur hér innan skamms. Því væri alls ekki úr vegi að brúa bil með þeirri nefndarskipan sem hér er lögð til.
    Ég vil taka það fram af því að hæstv. viðskrh. virtist kunna því fremur illa að hann væri hér en ætti ekki að bera ábyrgð á þessari nefndarskipan að seinast þegar þessi tillaga var hér á dagskrá höfðu kvennalistakonur farið fram á
nærveru þriggja hæstv. ráðherra en eins og er nú háttað með annríki þeirra hefur ekki verið auðvelt að koma því fyrir og því hefur málinu verð frestað æ ofan í æ. Og ég vil nú ekki kalla það neyðarlausn að hafa hæstv. viðskrh. hér staddan, en við óskuðum eftir því að tala við fleiri ráðherra.
    Það er auðvitað ljóst að sú óvissa sem upp kom varðandi þetta mál er vegna óljósra laga og þó að ekki sé hægt að setja lög um alla mannlega hegðun er samt ljóst að lögleysa er ekki afsökun og ekki andsvar við því að ekki sé hægt að setja lög um allt milli himins og jarðar.
    Tímaritið Úlfljótur sem er gefið út af Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, helgaði eitt rit sitt árið 1986 að miklum hluta til ritgerðum um almennt hæfi stjórnsýsluhafa. Í formála að þeirri ritgerð segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hinn 1. janúar 1987 gengu í gildi almenn stjórnsýslulög í Danmörku. Hafa nú öll Norðurlöndin nema Ísland sett sér almenn stjórnsýslulög. Svíar voru fyrstir til þess að huga að undirbúningi lagasetningar

um málsmeðferð í stjórnsýslunni. Var aðalmarkmið þeirra að samræma málsmeðferðarreglur í stjórnsýslunni og gera þær ítarlegri í ýmsu tilliti og auka réttaröryggið. Þrátt fyrir það að Svíar og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafi haft tiltölulega fastmótaðar stjórnsýslureglur, byggðar á venjum og stjórnvaldsúrskurðum, þótti þörf á að setja skýrar, almennar reglur í lög á þessu sviði.
    Ef litið er til Íslands má spyrja hvort ekki sé þörf á almennum stjórnsýslulögum hér á landi. Á örfáum áratugum hefur stjórnsýslan tekið stakkaskiptum. Starfsemim hefur aukist ár frá ári og starfshættir hafa um margt breyst. Hér er lítið til af stefnumarkandi stjórnvaldsúrskurðum og því rík tilhneiging verið í þá átt að leysa mál á óformlegan hátt og vegna þess hversu seinvirk og kostnaðarsöm dómstólaleiðin er hefur hún lítið verið farin. Þetta hefur orðið til þess að hér hafa ekki orðið til fastmótaðar stjórnsýslureglur né fordæmi sem hefur svo leitt til þess að veruleg réttaróvissa ríkir um marga þætti í stjórnsýslunni. Það má því segja að hér sé nú enn meiri þörf á að setja heildstæð stjórnsýslulög en var á hinum Norðurlöndunum þegar þau settu sér slík lög.
    Einn er sá þáttur sem oft hefur ríkt mikil óvissa um en það eru reglur um sérstakt hæfi stjórnvaldshafa. Hér er í þessu blaði reynt að varpa nokkru ljósi á þær reglur sem taldar eru gilda um það og eftir lestur þeirra ættu menn að sannfærast um nauðsyn lagasetningar á þessu sviði. Hér í blaðinu fylgir einnig ritgerð um almennt hæfi stjórnsýsluhafa. Er þar gerð úttekt á almennum hæfisskilyrðum sem gerð eru í lögum til stjórnsýsluhafa.``
    Þetta skrifar Páll Hreinsson ritstjóri. Þegar síðan að er gáð hvað nánar er skrifað um hæfi er því gjarnan skipt í jákvætt og neikvætt hæfi. Jákvætt hæfi tekur til hugsanlegra kosta viðkomandi til starfs en þegar kemur að neikvæðum hæfisskilyrðum þá er sérstaklega tiltekið hér í þessari ritgerð að ,,þótt stjórnsýsluhafi sé almennt búinn þeim persónulegum kostum sem lög áskilja til að tryggja hlutlæga ákvarðanatöku kann í tengslum hans við fyrirliggjandi mál að vera svo farið að hætta sé á að hann fái ekki litið hlutlaust á það. Við
þessu vandamáli er brugðist á tvenns konar hátt. Reynt er að tryggja að fyrir fram sé minni hætta á því að stjórnsýsluhafi sé í slíkum tengslum við úrlausnarefni þau sem kunna að verða lögð fyrir hann að draga megi í efa hlutlægni hans við meðferð þeirra mála. Þetta er gert m.a. með því að banna tiltekin aukastörf og koma þannig í veg fyrir starfstengsl við mál sem kunna að verða lögð fyrir stjórnsýsluhafann.``
    Því vitna ég nú til þessarar mgr. í ritgerðinni að í tengslum við bankaráðsmálið var einmitt lögð fram fyrirspurn hér á Alþingi fyrir nokkrum vikum þar sem beðið var um upplýsingar um alla þá sem sæti eiga í stjórnum og ráðum peningastofnana á vegum ríkisins. Og fyrirspurnin hljóðaði svo:
    ,,Hverjir sitja í stjórnum og ráðum peningastofnana ríkisins og hvaða öðrum störfum gegna þeir? Tilgreind skulu bæði aðalstörf og aukastörf eins nákvæmlega og

unnt er, einkum ef þau tengjast öðrum fjármálafyrirtækjum.``
    Niðurstaðan eða svörin við þessari spurningu voru á þá leið að þau voru hreint ekki viðunandi, því svona gróft sagt var nánast einungis um nafnaþulu að ræða og gaf því tilefni til ítarlegri spurninga um sama efni, þ.e. að reyna að fá upplýsingar um hugsanleg tengsl við þær stofnanir eða stjórnir sem viðkomandi eru falin störf við.
    Hæstv. ráðherra gerði hér að umtalsefni áðan að svo gæti fólk verið tortryggið að það í rauninni yrði vanhæft fyrir fram til þess að meta hæfi annarra ef það blindaðist af tortryggni. Mig langar til þess að benda hæstv. ráðherra á að einmitt svona óljós svör við mikilvægum spurningum eru til þess fallin að vekja þá tortryggni að maður álíti sem svo að eitthvað búi að baki annað en að svara hreinskilnislega og heiðarlega þeim spurningum sem fyrir eru lagðar og því kunni að leynast einhverjar upplýsingar sem gætu komið einhverjum illa ef betur væri að gáð.