Reglur um stjórnir peningastofnana
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið þátt í og verið viðstaddur þessa umræðu sem mér láðist að geta um áðan. Ég vil upplýsa það hér að þegar verið var að semja þessa tillögu var það alls ekki ljóst fyrir mér hvort frekar ætti að láta forsrh. skipa í þessa nefnd eða viðskrh. en niðurstaða okkar var að eðlilegra væri að það væri forsrh. vegna þess að það væri ekki einungis um að ræða bankaráð heldur einnig aðrar peningastofnanir. Það vill þannig til að í marga sjóði skipar iðnrh. sem er sami maðurinn í þessu tilfelli og bankamálaráðherra þannig að ég lít ekki á það sem nokkurt aðalmál hvort þarna yrði breytt um og viðskrh. skipi í þessa nefnd. Aðalatriðið er að á málinu verði tekið og ég verð að lýsa ánægju minni með að hæstv. viðskrh. skuli hafa brugðist svo skjótt við og að nú sé verið að vinna að samningu frv. í hans ráðuneyti um skipun í stjórnir fjárfestingarlánasjóða.
    Ég tel mjög nauðsynlegt að það verði kveðið skýrara á um þessi mál og núgildandi lögum verði breytt. Ég get ekki fallist á það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að það væru skýrar reglur í 33. gr. viðskiptabankalaganna um hvenær bankaráðsmenn séu hæfir. Álitsgerðirnar sem beðið var um sýna að það virðist vera mjög á reiki hvaða fyrirtæki eru í samkeppni á fjármálasviðinu, alla vega að dómi þeirra sem eru beðnir um álit. Sjálfsagt eru fleiri skoðanir uppi um þetta en ég tel að ekki sé nægilegt að þetta skuli vera svo mikið álitamál að hægt sé að komast að svo margvíslegum niðurstöðum eins og í ljós hefur komið. Ég tel það eðlilegt að jafnframt því að fagna beri að verið er að taka á stjórnum fjárfestingarlánasjóðanna og lögum um þá þurfi að taka á reglum um setu í öðrum peningastofnunum og svo, eins og hv. 18. þm. Reykv. talaði um áðan, í stjórnkerfinu í heild. Ég verð að segja að ég vona bara að þetta mál detti ekki upp fyrir eins og mér hefur fundist vera varðandi fjölmiðla og umræðuna í þjóðfélaginu og
vona að það sem verið er að gera í viðskrn. varðandi þessi mál sé ekki eingöngu verið að vinna þar heldur einnig annars staðar og að við fáum fljótt að sjá reglur sem kveða skýrt á um hvernig þessum málum skuli fyrir komið.