Meðferð mála á Alþingi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég vann eitt sumar á Hótel Valhöll með manni sem heitir Guðmundur Angantýsson, og er núna látinn fyrir nokkuð mörgum árum, en þjóðin þekkir hann kannski betur sem Lása kokk. Mér er ákaflega minnisstætt eitt kvöldið þegar ég var að spjalla við hann um þá frægustu sögu sem um Lása hefur spunnist. Þegar hann var til sjós og skipið var að farast og Lása var tilkynnt um sjávarháskann, þá sagði hann: ,,Ó, Jesús minn almáttugur, ég sem á eftir að þvo upp.`` Þessi saga er landsfleyg og ég veit að hana þekkja allir Íslendingar.
    Ég spurði Lása að því, skiptir það raunverulega máli, Lási, hvort leirtauið fór í djúpið þvegið eða óuppvaskað? Þá sagði Lási þetta, sem mér hefur alltaf verið svo minnisstætt: ,,Já en elsku vinur, maður verður alltaf að klára það sem manni er trúað fyrir. Annars kemst maður ekki til himna. Það fer enginn með óvaskað til himna,,, sagði Lási. Þetta er mér alltaf minnisstætt.
    Alþingi, ekkert síður en Lási, verður að klára það sem því er trúað fyrir, hvorki meira né minna. Ég vil ekki ganga svo langt að fara að velta fyrir mér himnavist alþingismanna í framhaldi af því. En þetta er kjarni málsins. Þetta skildi Lási sem var einfaldur maður, hlýr og góður. Þetta skildi hann. Ef hann kláraði ekki það sem honum var trúað fyrir átti hann ekki vísa himnavist. Í þeim anda hef ég lagt fram þessa tillögu að Alþingi klári það sem það tekur að sér að gera. Ég hef oft fundið það á minni starsfsævi, sem að vísu er ekki mjög löng, að það hefur yfirleitt leitt mig í ógöngur ef ég hef ekki lokið hverjum vinnudegi áður en ég byrjaði á þeim næsta. Klárað það sem ég er með á skrifborðinu hjá mér eða á borðinu hjá mér eða hvar sem er áður en næsti dagur byrjar þannig að þessir tveir dagar rekist ekki á. Það er vont að byrja nýjan vinnudag á því að klára daginn á undan. Það er mjög erfitt mál. Þess vegna hef ég lagt til að Alþingi ljúki þeim störfum sem hér eru hafin áður en þinglausnir verða í vor og það gildi ekki bara um þetta ár, heldur
verði þetta starfsvenjan á þinginu. Það er sjálfsagt ýmsum annmörkum háð, en ég er þess fullviss að það er hægt. Þetta er bara spurning um vinnu og vinnubrögð. Alþingi er í þessu fari núna að sjálfsagt þykir að láta mál liggja í nefndum. Það þykir sjálfsagt að láta þau liggja þar langtímum saman og engin ástæða til þess að afgreiða málin, til þess að klára dagskrána. Að vísu skal ég fúslega viðurkenna það ánægður að hér í Sþ. hefur dagskráin iðulega verið tæmd og mál afgreidd áfram og ég er mjög ánægður með þá framvindu. T.d. eins og ég sagði áðan að þetta mál var lagt fram í þessari viku og svo rösklega um gengið að það kemur á dagskrá í sömu viku og það er lagt fram og það er mjög gott. En það breytir ekki því að vinnubrögðin hér eru allt of seinvirk. Að sjálfsögðu er hægt að vinna þetta hraðar og það á bara ekkert að ljúka störfum fyrr en þetta er búið. Það á að gefa ákveðinn tíma á hvert mál í nefnd og síðan

á að ræða það aftur. Og það á ekki að gefa þingmönnum kost á að leggja fram mál 10. apríl þegar aðeins einn fundur er eftir í Sþ. Því það er alveg vita vonlaust að það geti farið fram tvær umræður og nefndastörf á þeim tíma. Það verður að fjölga fundum.
    Forsetar Alþingis, forseti sameinaðs þings og deildanna, geta skipulagt þinghaldið þannig að alltaf sé einn af forsetunum til þess að ljúka því starfi sem er hafið. Það mætti þá fjölga varaforsetum. Því að ég tel að í rauninni sé verið að gera grín að alþm. ef þeim er gefinn kostur á að leggja fram mál sem aldrei eru borin upp til atkvæða. Það á að vera skylda Alþingis að ljúka hverju máli.
    Margt af því sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði er að sjálfsögðu hluti af þeim vandamálum sem verður að leysa áður en þetta vinnulag kemst á. Ein leiðin er að takmarka málflutning. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort ástæða sé til þess að hafa ótakmarkaðan málflutning því að það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að menn komi með fleiri hundruð mál inn á þingið og þá vandast nú kannski að vinna úr þeim. Það skal ég fúslega viðurkenna. En þá er aftur spurning hvernig eigi að takmarka, hvort það eigi að takmarka málflutning við þingflokka þannig að það sé kvóti á hvern flokk, kvóti er nú í tísku í dag, eða hvort það eigi bara hreinlega að láta þetta allt vera opið, galopið, og afgreiða öll mál því að það kemst örugglega á jafnvægi. Frelsið leiðir yfirleitt til jafnvægis. Það merkilega við frelsið er að það finnur yfirleitt leiðina að jafnvæginu.
    Það er nauðsynlegt að varamenn fái að kveðja sér hljóðs og flytja sín mál og varamenn eiga í rauninni að koma oftar inn á þing. Og það má kannski taka það fram hér að þegar ég kom inn sem varamaður var mér ekki einu sinni leiðbeint hér á salernið. Mér var ekkert sagt til um þingsköp eða hvaða réttindi og skyldur ég hefði hér sem alþm., ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er eitt af því sem á að gera. Það þarf að halda námskeið fyrir þá sem hugsanlega koma inn á þing sem varamenn í upphafi kjörtímabils til þess að kenna þeim mannganginn. Það kemur enginn með mannganginn með sér hingað inn. Þetta er eitt af því sem þarf að gera. Og varaþm. eiga að sjálfsögðu að fá tækifæri til að tala fyrir málum hér á hv. Alþingi, enda hefur það komið í ljós í dag að varamenn luma á
hinum bestu málum og hér hefur einn varamaður flutt betri mál í dag en ég hef heyrt þingmenn, sem eru þó fastir þingmenn hér allt árið, flytja þann tíma sem ég hef setið hér í vetur. Svo að það er vissulega þörf á því að varamenn fái að flytja sín mál og finnst mér eðlilegt að ráðherrar einbeiti sér að sínu framkvæmdarvaldsstarfi í ráðuneytum og afsali sér þingmennsku á meðan til varamanna. Kostnaðurinn er sá sami. Varaþingmaðurinn fær þingfararkaupið og ráðherrann fær ráðherralaun. Þannig á þetta að vera svo að þingstörf geti gengið hér óhindruð þó að ráðherrar séu í ráðuneytunum því að þar eiga ráðherrar að vera. Það er ekkert hjáverk að vera

ráðherra á Íslandi. Ég get ekki skilið að það sé hægt að túlka það sem hjáverk, að menn eigi að hlaupa í það þegar þingstörfum lýkur og heldur ekki að þingstörf séu hjáverk hjá ráðherrum, að menn skjótist niður í þing á milli þess sem þeir eru að sinna málum í sínum ráðuneytum. Það er óvirðing við bæði störfin. Ég veit ekki til að þau mikilmenni hafi fæðst enn þá sem megi gera úr það marga menn að þeir geti sinnt þessum málum báðum svo að vel fari. Ég hef ekki séð þau mikilmenni enn þá og veit ekki til þess að þau séu hér í landinu.
    Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir minntist hér á að sumir flutningsmenn vilji frekar láta málin sofna í nefndum en láta bera þau undir atkvæði. Þetta er bara hlutur sem Alþingi getur ekki tekið inn á sína dagskrá. Þingmenn hljóta að leggja sín mál fram til þess að þora að láta þau koma undir atkvæði. Ég get ekki séð að þingmaður megi missa kjarkinn þó hann telji að málið sitt fái ekki þá umfjöllun sem hann vill. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég veit að ég þarf að syndga pínulítið upp á náðina en ég skal vera fljótur að ljúka þessu.
    Sú staðreynd að þingmál fá ekki lokaafgreiðslu héðan frá Alþingi setur mjög orðið svip sinn á gerð þingmála. Þingmenn eru hættir að leggja mál fram til þess að fá lokaafgreiðslu. Þeir leggja fram mál til að birta í fjölmiðlum. Þingmál eru núna sniðin að þörfum fjölmiðla frekar en að þörfum þjóðarinnar af því að málin eru ekki afgreidd. Þess vegna er verið að leggja hér fram fullt af málum til þess að vekja athygli á einu eða öðru en ekki til þess að ná árangri landinu og þjóðinni til heilla. Það eitt er stórkostlegt vandamál að Alþingi sé að breytast úr málstofu í fjölmiðlastofu.