Þingfundarstörf í efri deild
Föstudaginn 16. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hef ekki verið í bænum og mér var ókunnugt um að þingfundir hæfust hér kl. 10. Sérstaklega var mér ókunnugt um það fyrr en seint í gærkvöldi að ekki stæði til að ræða hér skýrslur í sameinuðu þingi eins og gert er ráð fyrir í starfsáætlun þingsins. Fyrsta mál á dagskrá er frv. ríkisstjórnarinnar um Húsnæðisstofnun. Þetta er frv. sem ég hef ekki haft tíma til að kynna mér, hefði getað gert það nú árdegis ef þingfundarstörf hefðu verið með eðlilegum hætti og byrjað kl. 2. En það er auðvitað ekki kjarni málsins heldur hitt að gert var ráð fyrir því að það yrði þingfundur í sameinuðu þingi.
    Ég veit að hæstv. forseti vill taka tillit til stjórnarandstöðunnar og ég hef ekki athugasemdir við það að gera þó hæstv. félmrh. geri grein fyrir þessu frv. Mér er sagt að fundir verði til kl. 2 í dag og um það hafi náðst samkomulag. En ég fer á hinn bóginn fram á það að hæstv. forseti verði við eðlilegri ósk minni um að umræðu ljúki ekki í dag, þannig að mér gefist kostur á því að kynna mér efni þessa frv. og gera við það mínar athugasemdir eftir helgi. Ég er sannfærður um að þetta eru eðlileg vinnubrögð þar sem brotið er gegn þeirri áætlun sem lögð var fram um starfsemi þingsins. En eins og forsetar hafa tekið fram þá er það þeirra markmið að fylgja þeirri áætlun í stóru sem smáu.