Þingfundarstörf í efri deild
Föstudaginn 16. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Öll þessi umræða sem hafin er af hv. 2. þm. Norðurl. e. kemur mér óneitanlega mjög spánskt fyrir sjónir og eyru. Á þriðjudag í þessari viku er lagt hér fram frv. það sem nú á að fara að ræða. Á miðvikudag er umræðu um það frestað að sérstökum tilmælum fulltrúa Sjálfstfl. hér í þessari deild og er auðvitað ekkert við það að athuga. Nú koma fram athugasemdir af hálfu hv. þm. Halldórs Blöndals, mjög sérkennilegar, þegar hann kemur til fundar í deildinni. Ég held það verði að mælast til þess við hv. þm. Halldór Blöndal að hann ræki betur samband sitt við forustu síns þingflokks þannig að hann viti um hvað er samkomulag og hvernig vinnubrögðum er háttað hér í deildinni en sé ekki hlaupandi hér upp um þingsköp að algerlega tilefnislausu hvað eftir annað eins og við megum þola hér í þessari hv. deild.