Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 16. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Í frv. því sem hér er lagt fram um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er að finna árangurinn af starfi sérstakrar nefndar sem félmrh. skipaði til að gera tillögur um endurskipulagningu og framtíðarskipan félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Hæstv. félmrh. hefur skýrt ástæðurnar fyrir þessu og tilgang endurskoðunarinnar. Vikið hefur verið að þróun húsnæðismálanna með sérstöku tilliti til félagslegra íbúðabygginga. Minnt hefur verið á að á undanförnum árum hafi verið gerðar ýmsar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og sérstaklega getið breytinganna sem gerðar voru árið 1989, með setningu laga um húsbréfaviðskipti og þar áður með tilkomu kaupleiguíbúða. Sagt hefur verið að sú mikla breyting sem fylgja muni húsbréfakerfinu kalli á að horft sé yfir íbúðalánakerfið í heild og reynt að skoða þörfina í ljósi nýrra aðstæðna.
    Allt er þetta gott og blessað. En sérstaklega vil ég taka undir að horft sé yfir íbúðalánakerfið í heild. Það er einmitt það sem svo sannarlega þarf að eiga sér stað og þá ekki einungis að horfa á ástandið í dag, heldur og þá þróun mála sem til þess hefur leitt. Það er einmitt þetta sem ég finn þörf hjá mér að gera þegar frv. það sem við nú ræðum kemur til meðferðar.
    Ég kem þá fyrst að ástandinu í dag. Ég skal vera stuttorður. Ég nefni engar tölur eða tölulegar upplýsingar. Öllum hv. þm. er kunnugt um ástandið í meginatriðum. Um fátt er meira talað og fátt snertir fleiri einstaklinga en ástandið í húsnæðismálunum. Langar biðraðir eftir húsnæði er nöpur staðreynd, biðraðir sem ná til margra ára líkt og í kommúnistaríkjunum fyrir austan járntjald sem einu sinni var. Fólkið bíður eftir lánum til hvers konar íbúða, hvort heldur er í almenna húsnæðislánakerfinu eða til félagslegra íbúða. Biðtími leggst eins og mara á hvern og einn þar til röðin kemur að þeim sem þreyir þorrann. Það er þó undir hælinn lagt hverjar afleiðingar drátturinn á
lánveitingum kann að hafa haft í för með sér í erfiðleikum og vandræðum sem geta jafnvel hafa komið í veg fyrir eða hindrað fyrirætlanir viðkomandi um að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Slíkt mega allir búa við sem eru háðir hinu opinbera húsnæðiskerfi hvar í stétt eða stöðu sem þeir eru, ungir og aldnir.
    Það er þetta ófremdarástand sem við er að búa í dag. Og ástandið í húsnæðismálunum er nú á allra vörum. Þetta ástand snertir flestar fjölskyldur í landinu beint eða óbeint. Það er þess vegna sem ástand húsnæðismálanna fer ekki fram hjá neinum. En slíkt hefur ástandið ekki alltaf verið sem í dag. Það hefur aldrei verið verra ástand en í dag og aldrei hefur verið meira talað um endurbætur í þessum efnum en á síðustu árum. Hvernig má þetta vera? Það er af þessu tilefni sem nú er vissulega ástæða til að horfa yfir íbúðalánakerfið í heild.

    Það er rétt að lánveitingar hins opinbera til félagslegra íbúðabygginga hér á landi eiga sér orðið langa sögu eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. Og meira að segja er þessi saga mun lengri sögu hins almenna húsnæðislánakerfis. Ég ætla mér ekki að fara að rekja alla sögu þessara mála. Ég ætla ekki hér að fara að tala um upphaf félagslegra íbúðabygginga né tilkomu hinnar merku löggjafar um Byggingarsjóð verkamanna. En ég tek þar til þegar lögin um húsnæðismálastjórn og almenna veðlánakerfið voru sett árið 1953.
    Það var árið 1953 sem urðu þáttaskil í húsnæðismálunum. Löggjöfin frá því ári lagði grundvöllinn að því kerfi almennra húsnæðislána sem við búum við enn þann dag í dag. Af þessu kerfi er mikil saga og þróun þess lærdómsrík. Það var farið hægt af stað en strax mörkuð sú stefna að sníða verkefni þessa lánakerfis eftir því fjármagni sem til umráða var. Kerfið tók ekki á sig meiri skyldur en hægt var að standa undir. Með þessu móti voru ekki gefin fölsk fyrirheit til húsbyggjenda og endalausum biðröðum lánsumsækjenda var þess vegna ekki til að dreifa.
    Hins vegar var kerfið ekki fullkomið og langt frá því til að byrja með. Fjármagnið sem úr var að spila var of lítið. En ráðið við því var að takmarka þá úrlausn sem hverjum lánsumsækjanda var veitt. Sú takmörkun kom fram í lánsupphæðinni, lánstímanum og vaxtakjörum. Þá voru lánveitingum sett takmörk með íbúðarstærð og lán bundin við að lánsumsækjandi ætti ekki íbúð fyrir. Það var ekki gengið út frá að allir ættu rétt eða kröfu til láns úr kerfinu, hvernig svo sem högum lánsumsækjenda var háttað.
    Þetta gekk allt upp með því að það voru viðurkennd sannindi að ekki var mögulegt að gera betur við lánsumsækjendur en efni stóðu til. Samt sem áður var alla tíð brýnt verkefni að efla hinn almenna byggingarsjóð. Það var gert smám saman með því að fá sjóðnum sjálfstæða tekjustofna, svo sem skyldusparnaðarfé og tekjur af launaskatti. Eftir því sem Byggingarsjóði ríkisins óx fiskur um hrygg voru lánskjörin bætt innan þeirra marka sem
fjárhagur sjóðsins leyfði. Ég endurtek, innan þeirra marka sem fjárhagur sjóðsins leyfði. Þannig var upphæð íbúðarlánanna hækkuð, lánstími lengdur og vaxtakjörin bætt. Þetta var mikilvægt því að lánskjörin áttu að vera slík að hægt væri að standa undir íbúðarlánum frá Byggingarsjóði ríkisins af almennum
launatekjum. En þetta er nauðsynleg forsenda fyrir sjálfseignarstefnunni í húsnæðismálum, að sem flestar fjölskyldur og einstaklingar í þjóðfélaginu geti eignast íbúð og búið í eigin húsnæði og notið þess öryggis og sjálfstæðis sem því fylgir. Með þessum hætti var unnið markvisst að því að styrkja hið almenna íbúðalánakerfi, efla Byggingarsjóð ríkisins og bæta lánskjör lántakenda. Og þetta skilaði þeim árangri að hægt var með skipulegum hætti að svara þörfum fyrir almenn húsnæðislán eftir því sem þjóðartekjur leyfðu.
    Að sjálfsögðu var á þessum árum ekki allt fullkomið í þessum efnum, margt var ógert, en fólk

sætti sig við ástandið, bæði af því að það fann að ekki var verið að blekkja það með fölskum fyrirheitum og svo að það vissi af reynslunni að það var stöðugt verið að endurbæta og styrkja húsnæðiskerfið.
    Þessi lýsing sem ég hef hér gefið af framkvæmd og þróun hins almenna íbúðalánakerfis á við aldarfjórðung eða um 25 ár af þeim tíma sem það hafði verið við lýði.
    En um 1980 fer að gæta örlagaríkra breytinga á framkvæmd þessara mála. Þá fer að gæta allt annarra viðhorfa í framkvæmd en áður var og keyrir svo síðan um þverbak. Þá voru höfð endaskipti á hlutunum. Í stað þess að miða verkefni íbúðalánakerfisins við tekjur þess var farið að ákveða fyrst hver verkefni skyldu vera og láta kylfu ráða kasti um hvort tekjur reyndust nægar til þess að standa undir verkefnunum. Hér var asninn kominn inn í herbúðirnar.
    Afleiðingarnar létu ekki á sér standa og hafa komið fram í síauknum mæli eftir því sem árin hafa liðið. Byggingarsjóður ríkisins hefur verið gerður vanmátta til að svara þeim verkefnum sem á hann hafa verið lögð. Fjáröflunarleiðir sjóðsins hafa grafið undan efnahag hans og stefnt í gjaldþrot. Biðraðir lánsumsækjenda hafa stöðugt lengst, fölsk fyrirheit orðið ferlegri og blekkingavefurinn þéttari. Þetta er sýnin sem blasir við okkur í dag.
    Undirrót þessa vandræðaástands er sú að menn hafa fallið í freistni. Menn hafa viljað gera og lofa meiru en þeir hafa getað staðið við. Menn hafa viljað gera meira en þeir hafa ráðið við. Til að skilja þetta verða menn að hafa í huga séreðli húsnæðismálanna.
    Engin mál snerta fólkið, hvern einstakling, meir en einmitt húsnæðismálin. Það vill svo til að allir verða að hafa þak yfir höfuðið með einum eða öðrum hætti. Gott húsnæði er skilyrði fyrir velferð og jafnvel góðri heilsu. Húsnæði er grundvöllur heimilislífsins. Húsnæði er nauðsyn ungu fólki sem vill tengjast framtíðarböndum og húsnæði er skjól hinna öldnu. Ef eitthvað bjátar á í húsnæðismálunum getur það valdið ómetanlegum skaða, raskað stöðu manna, búið ömurleg örlög og gert drauma og fyrirætlanir að engu, lagt lífið í rúst.
    Það er því engum hægt að gera meira gagn en þeim sem er í nauðum staddur vegna heilsuspillandi húsnæðis, húsnæðisþrengsla eða húsnæðisleysis. Það er vinsælt verk að koma hjálpandi hendi í húsnæðismálunum. Þess vegna er það mikil freisting að leggja gott til húsnæðismála. Þess vegna hendir það að menn sjást ekki fyrir og lofa meiri framförum og úrbótum í húsnæðismálum en þeir geta staðið við og ætla að gera meira en þeir ráða við. Og þegar slík viðbrögð setja mark sitt á húsnæðislöggjöfina er ekki von á góðu. Það er einmitt þetta sem hefur hent hér á landi.
    Ábyrgðarlaus yfirboð og blekkingar hafa allt of oft sett mark sitt á löggjöf síðustu ára í húsnæðismálunum. Það er ekki einungis að oft og tíðum hefur yfirlýstur tilgangur aðgerða ekki náð tilætluðum árangri, heldur hafa tilburðirnar grafið

undan lánakerfinu, veikt það og lamað. Þannig hefur þá jafnvel reynst svo stundum að þeir sem eru mestir í orði í áhuganum fyrir endurbótum eru á borði mestu óþurftarmennirnir.
    Ég beini þessum orðum mínum ekki að neinum ákveðnum einstaklingum. Ég talaði um að menn féllu í freistni en ekki um vísvitandi skemmdarverk. En ég undanskil engan stjórnmálaflokk um ábyrgð á þeirri ömurlegu þróun húsnæðismálanna sem ég hef hér lýst. Ég undanskil engan. Hins vegar er mér ljúft að lýsa þeirri skoðun minni að allir stjórnmálaflokkarnir hafa á sinni tíð staðið að og borið ábyrgð á þeirri uppbyggingu sem fyrrum var í íbúðalánakerfinu og ég áður greindi frá.
    Ég hef hér sérstaklega vikið að hinu almenna íbúðalánakerfi þó að sumar athugasemdir mínir eigi við húsnæðismálin í heild og þá einnig félagslega íbúðalánakerfið. Skal ég nú víkja að félagslega kerfinu, enda verður það ekki aðskilið frá öðrum þáttum húsnæðismálanna.
    Hvernig er nú umhorfs á þessum vettvangi? Það er talað um að þörfin fyrir félagslegar íbúðir sé langt umfram framboð eins og kom fram í ræðu hæstv. félmrh. hér áðan. Umsóknir um verkamannabústaði og kaupleiguíbúðir eru víðast hvar margfalt fleiri en þær íbúðir sem eru til úthlutunar. Sú staðreynd að lán vegna greiðsluerfiðleika hafa verið viðvarandi í húsnæðislánakerfinu og að einstaklingar hafa jafnvel þurft greiðsluerfiðleikalán í tvígang er talin sýna að á milli félagslega kerfisins og almenna kerfisins sé bil sem þurfi að brúa. Bent er á að of margir reyni við kaup á almennum markaði sem ekki ráða við þau og það fólk þyrfti að eiga aðgang að félagslegum lánum.
    Hæstv. félmrh. vék að öllum þessum þáttum hér í ræðu sinni áðan. En þetta er ekki beint fögur lýsing á ástandinu í dag. Sama sagan og í almenna íbúðalánakerfinu. Félagslega kerfinu er ætlað að sinna meiri verkefnum en það ræður við. Það er ekki nóg með það. Talað er um að fleira fólk þyrfti að eiga aðgang að félagslegum lánum. Það á að bæta fleiri verkefnum við félagslega kerfið þó að það sé allsendis ófært um að sinna því sem því er ætlað í dag. Og hvar lýkur þá þeim verkefnum sem ættu samkvæmt þessu að heyra til félagslega kerfinu?
    Það er talað um að of margir reyni að kaupa á almennum markaði sem ekki ráða við þau kaup. Það er verið að gera því skóna að félagslega kerfið sinni þessu fólki og þá er því lýst yfir að eftirspurnin eftir greiðsluerfiðleikalánunum sé svo mikil að nauðsynlegt sé að brúa bilið milli almenna kerfisins og félagslega kerfisins eins og það er orðað og ég hef þegar vikið að. Og hvað þýðir þetta annað en að þeir sem þurfi greiðsluerfiðleikalán fái félagslega aðstoð og falli þá undir félagslega lánakerfið?
    Margur þarf nú á aðstoð að halda, og við megum aldrei gleyma því að tilgangur félagslega húsnæðislánakerfisins á að vera að hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Við megum ekki gleyma þessu. Það er engin spurning. Þeim sem eru hjálpar þurfi þarf að hjálpa. Það er af hinu góða.

    Hins vegar er það ekki af hinu góða að svo margir skuli vera hjálparþurfi sem raun ber vitni í dag og þeim skuli sífellt fara fjölgandi. Það er ekki keppikefli að sem flestir verði hjálpar þurfi. Þess vegna getur það ekki verið markmið í sjálfu sér að félagslega íbúðakerfið nái til sem flestra. Það er þess vegna raunalegt þegar það er t.d. sett sem markmið að ekki minna en 30% af íbúðabyggingum í landinu verði á félagslegum grundvelli. Það má alltaf setja markið hærra og hærra þar til svo væri komið að meginhluti íbúðabygginga væri á félagslegum grundvelli, ekki óáþekkt því sem gerðist undir ríkisforsjá kommúnismans austan járntjalds sem einu sinni var.
    Ég vil ekki ætla neinum að vilja slíka þróun mála hér á landi. En söm er gerðin ef húsnæðisstefnan veldur því að svo margir íbúðarbyggjendur þurfi á félagslegri aðstoð að halda. Og það er meginatriði. Það hlýtur að leiða til þess að félagslega kerfið tekur yfir sem aðallánaformið í íbúðabyggingum í landinu. Til þess er ekki enn komið í húsnæðismálunum. En langt höfum við gengið í þessa átt á undanförnum árum og göngum hröðum skrefum frá þeirri stefnu sem áður var fylgt og ég hef lýst hér nokkuð.
    Með húsnæðislöggjöfinni 1953 var lagður traustur grunnur að sjálfseignarstefnunni í íbúðabyggingum. Forsenda þeirrar stefnu var sú að Íslendingar vilja yfirleitt eiga þak yfir höfuðið og búa í eigin íbúðum. Í fáu hefur einkaframtakið sýnt betur mátt sinn og megin en í íbúðarhúsabyggingum og því þjóðhagslega grettistaki sem lyft hefur verið á þeim vettvangi.
    Þetta var hins vegar ekki hægt að gera svo almennt sem raun ber vitni nema menn gætu staðið undir lánum Byggingarsjóðs ríkisins af almennum launatekjum. Ég bið hv. þm. að hafa í huga að þetta er grundvöllurinn sem allt hvílir á.
    Aftur á móti voru ekki allir svo settir í lífinu að þeir gætu staðið undir hinum almennu lánskjörum íbúðarlána og svo hlýtur jafnan að vera. Þeir þurftu á aðstoð að halda. Þar kom til hið félagslega kerfi, Byggingarsjóður verkamanna. Það var keppikefli að búa svo um hnútana að sem flestir réðu við sín mál með lánakjörum almenna veðlánakerfisins, lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Eftir því sem færri þurftu að leita til Byggingarsjóðs verkamanna gat félagslega kerfið betur hjálpað þeim sem hjálpar þurftu við. Og sú var tíðin að 5--10% húsbyggjenda í landinu fengu lán í verkamannabústaðakerfinu.
    Nú er öldin önnur. Hvað er nú til ráða út úr þeim vanda sem við er að glíma í húsnæðismálunum? Það er að ráðast gegn rótum vandans, orsökum vandans. Það þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á að efla almenna íbúðalánakerfið með það fyrir augum að meginhluti landsmanna megi njóta þess með því að geta staðið undir lánum þess af almennum launatekjum. Einungis með því móti verður vegið að rótum þess vanda sem nú er við að glíma í húsnæðismálunum. Þá verður leyst úr læðingi sjálfsbjargarviðleitni margra sem nú mega sig ekki hræra nema með aðstoð frá félagslega kerfinu. Þá fækkar þeim sem eru aðstoðar þurfi. Þá er líka hægt

að gera betur en nú við þá sem eru hjálpar þurfi og njóta aðstoðar félagslega kerfisins.
    Frv. það sem við nú ræðum ræðst ekki til atlögu við orsakir vandans í húsnæðismálunum. Það er haldið áfram á sömu braut sem gengin hefur verið
undanfarin ár. Það er verið að fást við afleiðingar en ekki orsakir. Um frv. segir að það feli í sér endurbætur á fyrirkomulagi lánveitinga til félagslegra íbúða. Hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir þeim þáttum sem hér er um að ræða. Ég geymi mér að ræða þær endurbætur. En ég vil nú við 1. umr. málsins leggja áherslu á meginatriðið sem varðar þróun og ástand húsnæðismálanna í dag. Ég lýsi þeirri skoðun minni að við séum á villigötum í þessum málum. Við stefnum alltaf í meiri og meiri vanda. Ef ekki er að gert vöðum við beint af augum út í foraðið.
    Þess vegna er það mál málanna í dag að hverfa af þeirri braut sem við nú erum að fara í þessu efni. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann og leggja áherslu á þá stefnu og framkvæmd í húsnæðismálum sem eflir almenna íbúðalánakerfið og best tryggir að sem flestir geti eignast íbúð og búið í eigin húsnæði. Þá getum við jafnframt svo best sýnt hug okkar í verki til þeirra sem eru hjálpar þurfi og félagslega íbúðalánakerfið á að koma til bjargar.
    Herra forseti. Ég efast ekki um góðan vilja og einlægan áhuga hæstv. félmrh. á húsnæðismálunum. Ég vara hana hins vegar við og hvet til heildarendurskoðunar á húsnæðismálalöggjöfinni með hliðsjón af þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég hef hér gert að umtalsefni.