Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 16. mars 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég átti þess kost að vera nefndarmaður í þeirri nefnd sem samdi frv. og segi það hér að sjaldan hef ég tekið þátt í jafnánægjulegu nefndarstarfi. Verkefnið var það að gera úrbætur á félagslega kerfi Húsnæðisstofnunar, gera þær úrbætur sem nauðsynlega þurfti, samræma lánareglur, gera lánin skilvirkari og einfaldari. Það gerðist sem gerist mjög sjaldan í svona nefndum að það náðist algjört samkomulag um efnisatriði og um frv. sem hér liggur fyrir.
    Nefndin kallaði til alla þá aðila sem hugsanlegt var til ráðuneytis í málinu, og sérstaklega stjórnir verkamannabústaða og marga, marga fleiri, þar sem nefndarmönnum var greint frá því hvað helst mætti betrumbæta. Flestallt ef ekki allt var tekið til greina sem til bóta mátti horfa og frv. sem hér liggur fyrir ber þess vitni.
    Ég tel ástæðulaust að fara ítarlega í frv., enda gerði félmrh. það mjög rækilega hér áðan, en ég vil leggja áherslu á það að hagur fólks sem þarf á félagslegum íbúðum að halda batnar með frv. og kerfið verður skilvirkara. Ég tel líka að nú verði unnt að byggja meira af félagslegum íbúðum vegna þess að það er gert auðveldara fyrir sveitarstjórnirnar að taka þátt í slíku. Það eru nokkur sveitarfélög hér á landi sem hafa verið mjög andvíg þessu kerfi. Kannski er það af fjárhagslegum ástæðum en oft og tíðum er það af hugsjónaástæðum einum. Og ég bendi á að það eru ýmis sveitarfélög sem ekki hafa viljað byggja svona íbúðir eða nota félagslega kerfið. Þau hafa ekki viljað ,,þetta fólk``, eins og sumir sveitarstjórnarmenn hafa látið sér um munn fara, ekki viljað sinna því félagslega hlutverki sem sveitarstjórnir eiga að gera. Í dag þurfa sveitarstjórnir að greiða 10% af kostnaðarverði sem framlag. Samkvæmt þessu frv. þarf viðkomandi sveitarsjóður þess í stað að kaupa skuldabréf frá Húsnæðisstofnun fyrir sömu upphæð en fær þau auðvitað greidd til baka þegar lánstímanum er lokið þannig að ég held að auðveldara verði fyrir sveitarstjórnirnar að fást við þessi mál.
    Ég vil líka benda á að breyting er gerð á stjórnun þessara mála. Stjórnir verkamannabústaða, eins og þær voru nefndar, eru lagðar niður en í stað þess eru settar á stofn húsnæðisnefndir sem falin eru meiri verkefni en stjórnir verkamannabústaða höfðu. Þær hafa þau verkefni sem stjórnir verkamannabústaða höfðu en annað bætist við. Ég tel að með þessu fyrirkomulagi verði málin mikið skilvirkari en áður hefur verið. Möguleikarnir hafa líka aukist og það er rétt að það sé ein nefnd sem fjallar um þetta, samræmingaraðili sem hefur yfirsýn yfir allt.
    Það var nokkuð rætt um það hver ætti að vera hlutur verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Vafalaust er öllum hv. deildarmönnum ljóst að verkalýðshreyfingin hefur haft mikið frumkvæði í þessu máli og það var fyrir tilstilli hennar, og reyndar Alþfl. líka, að verkamannabústaðir voru í upphafi
byggðir. Lögin um verkamannabústaði urðu þannig til.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismálin og þá einkum félagslega húsnæðiskerfið. Og það er líka rétt að mestallir peningar sem í það kerfi fara koma frá lífeyrissjóðum verkafólks, þess fólks sem á að njóta þessara bygginga. Það varð niðurstaðan að áfram yrðu sterk tengsl verkalýðshreyfingar við þetta kerfi og nú verða húsnæðisnefndirnar fimm manna, þrír kosnir af sveitarstjórn en tveir af stærstu launþegasamtökum. Er ég sannfærður um að þetta fyrirkomulag verður kerfinu til góðs og ég hygg að verkalýðshreyfingin hafi betri skilning en margir aðrir á því hvar skórinn kreppir.
    Menn geta skipst í hópa um það hvernig eigi að fjármagna íbúðir. Sumir eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera með þetta félagslega kerfi. Ég er mjög andvígur þeirri skoðun og tel að akkillesarhæll þessa kerfis hafi verið sá að allt of lítið hafi verið byggt af þessum íbúðum. Þess vegna hafi skapast togstreita og hvíslingar um spillingu og annað slíkt sem alltaf fylgir allri skömmtun. Það er alveg sama hvar skömmtun á sér stað, slíkar raddir koma upp. Á Norðurlöndum þar sem þessi mál eru í hvað bestu lagi þurfa menn ekki að bíða árum saman eftir þessum íbúðum heldur eiga þennan kost þegar þeir þurfa á að halda.
    Ég vil líka benda á það í tilefni af ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar að mjög vel hefur verið gert í þessum málum nú á allra síðustu árum. Í dag eru félagslegar íbúðir um 8% af öllum íbúðum landsmanna. Á árunum 1980--1987, eða á átta ára tímabili, voru byggðar 1764 félagslegar íbúðir, en á árunum 1988--1989 voru byggðar 1237 slíkar íbúðir sem er stórkostleg aukning. Og ég bendi á líka að á síðasta ári, 1989, voru lán til félagslegra íbúða 45% af byggingarlánum Húsnæðisstofnunar, og hafa aldrei farið hærra. Einnig má geta þess að frá árinu 1986 hafa útlán til félagslegra íbúða aukist um 134% að raunvirði. Þetta segir okkur það að þarna hefur verið miklu betur staðið að verki en nokkru sinni fyrr.
    Það er alveg rétt að málið er ekki leyst að fullu í húsnæðiskerfinu og seint verður það kannski gert. Menn reyna hér á Alþingi og í ríkisstjórn að gera það
eins vel og kostur er á hverju sinni. Ég get alveg fallist á það að ýmis mistök hafa verið gerð. Ég minnist þess að 1986 átti ég þátt í kjarasamningum sem boðuðu nýja tíma í húsnæðismálum og gerðu ráð fyrir að allir ættu sinn rétt, án tillits til þarfa, og verkalýðshreyfingin lagði fram ótrúlega mikið fé, eða lífeyrissjóðirnir, til þess að það væri unnt. Aldrei nokkurn tíma hafði eins miklu fé verið komið í Húsnæðisstofnun eins og þá.
    En við sáum það ekki fyrir sem gerðist. Það urðu til biðraðir sem enn eru fyrir hendi, biðraðir sem er andstyggilegt að hafa, og ég er sannfærður um að það var fjöldinn allur sem sótti um sem ekki þurfti á að halda og aðrir sem þurftu á að halda urðu þess vegna að bíða. Þess vegna varð húsbréfakerfið til, og ég trúi því að þegar húsbréfakerfið fer að virka á sinn góða hátt, þá komi þessi kúfur til með að lækka, þá komi

biðraðirnar til með að minnka og hverfa.
    Ég minni á það að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson greiddi því atkvæði 1986, ásamt mér, að þetta yrði að lögum. En við höfum sjálfsagt báðir séð hverjar afleiðingarnar urðu. ( ÞK: Ætli við höfum ekki treyst á okkar ríkisstjórn, báðir saman?) Jú, við gerðum það og við treystum því að við værum að gera rétt.
    Það er auðvitað alveg á sínum stað að erfiðleikar í húsnæðismálum eru víða miklir. En ég tel, og reyndar gerir verkalýðshreyfingin það líka, að mjög nauðsynlegt sé, einmitt til að koma til móts við þá sem verst eru staddir, að efla félagslega kerfið. Það er verið að gera með þessu frv. Það er verið að betrumbæta það sem illa var gert áður og ég treysti á fylgi hins ágæta þingmanns Þorv. Garðars Kristjánssonar að greiða atkvæði því sem vel er gert.
    Mér hnykkti þó við þegar hv. þm. talaði um óþurftarmenn í þessu kerfi eða óþurftarmenn sem skiptu sér af húsnæðismálum. Ég hygg að ekki sé um það að ræða. Ég held að allir sem hafa komið nálægt þessu hafi viljað vel. En það er líka rétt hjá hv. þm. að menn þurfa að sjá fyrir peningum í þetta kerfi. Það hefur reyndar verið gert, á þann hátt að aldrei hefur farið meira til húsnæðismála, en það þarf að gera betur og það þarf að tryggja það að sjóðirnir sem lána út fari ekki á hausinn eins og hv. þm. réttilega benti á. Hvernig verður það gert? Ég minni á það að vextir eru verulega greiddir niður. Það á þátt í því að staða sjóðanna er svona slæm og svo fullyrði ég að þessir sjóðir fá ekki að vera í friði fyrir öðrum ráðherrum en félmrh. sem þarf að berjast með oddi og egg fyrir því að fá fjármagn til þessara hluta.
    Það er rétt sem kom fram hér áðan að umsóknir í félagslega kerfinu eru miklu fleiri en hægt er að ráða við. Auðvitað er það svo. Það er ekki hægt að fullnægja öllu í dag. Það er líka staðreynd að ýmis byggðarlög og staðir sækja um miklu fleiri íbúðir en þeir ráða við að byggja. Og ég er mjög gagnrýninn á það hvernig þessu fé hefur verið úthlutað á undanförnum árum. Ég tel að veruleg breyting hafi orðið á því sem verður þar að vera því að það þarf að byggja þessar íbúðir fyrir fólk en ekki fyrir iðnaðarmenn til þess að fá vinnu sem ég tel að margir telji að þurfi að vera. Ég tel að neyðin í húsnæðismálum sé mest hér á Reykjavíkursvæðinu og ég minni á að þáttur félagslegra íbúða í Reykjaneskjördæmi er ekki nema um 10% meðan hann er jafnvel yfir 40% í hinum ýmsu byggðarlögum. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt að nefna þessa tölu, 10%, því að það eru ýmis sveitarfélög sem hefur verið stjórnað af öflum sem hafa verið á móti þessu kerfi og þess vegna látið undir höfuð leggjast að sækja um að fá að byggja félagslegar íbúðir.
    Ég mótmæli því alveg að við séum á villigötum í húsnæðismálum. Ég tel að við séum einmitt að reyna að rata rétta leið í þessum efnum og ég tel að frv. sem hér liggur fyrir sé mjög stórt skref í þeim efnum. Og ég tel nauðsynlegt að það gangi sem allra fyrst í

gegnum þingið til þess að þær úrbætur sem í því felast og hægt væri að tíunda í marga klukkutíma verði að veruleika. Í nefndinni var mikið rætt um það hvað þessi sjóður ætti að heita eða hvað þessi gjörð ætti að heita. Þessar byggingar hafa verið kallaðar verkamannabústaðir og er söguleg hefð fyrir því. Nú er þetta kallað félagslegar eignaríbúðir en sjóðurinn heldur áfram nafninu Byggingarsjóður verkamanna. Ég er einn þeirra sem töldu nauðsynlegt að hafa þarna söguleg tengsl, en það er alveg ljóst að miklu fleiri en verkamenn fá úthlutað félagslegum íbúðum. Allir þeir sem eru á þeim tekjumörkum sem rætt er um eiga kost á því að fara í þetta kerfi. Og ég legg áherslu á að það er alveg nauðsynlegt að styrkja það miklu meira þótt betur hafi tekist nú en nokkru sinni áður, og er ástæða til að fagna sérstaklega að við gerum þetta kerfi miklu eðlilegra og sjálfsagðara fyrir allan almenning ef fólk þarf ekki að lúta skömmtun, ef hægt er að sinna þörfum allra sem á þurfa að halda.
    Eitt atriði er það sem kemur fram í þessum lögum og vafalaust einhver fettir fingur út í. Það er það að nú verður ekki lengur lánað 100% til íbúða. Það eru nokkrir sem hafa átt kost á því að fá það í sérstökum undantekningartilvikum. Það er fellt niður núna vegna þess að það hefur ekki reynst vel, að lána allt andvirði íbúðar. Margur hefur farið flatt á því að leggja þá byrði á sig og það er hugsunin, að þeir sem ekki geta gert slíkt geti átt kost á leiguhúsnæði og það er bent á ýmsar leiðir til þess að koma á leiguíbúðum, að auka
möguleika fólks á að fá íbúðir til leigu, t.d. með því að lækka eignarskatta á þeim sem leigja út og líka með því að byggja fleiri leiguíbúðir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekki rétt að menn fái 100% lán allra hluta vegna. Menn eiga á einhvern hátt að sýna einhvern lit hvað eign snertir ef menn ætla á annað borð að eignast íbúð. Það er svona grundvallaratriði, finnst mér, en menn eiga að eiga val, menn eiga að eiga aðra kosti.
    Ég ætla ekki að tala mikið lengur. Ég vil þó benda á það að nefndarstörfin hafa verið rædd í Alþýðusambandinu og Verkamannasambandinu og Verkamannasambandið, sem er mjög á því að það þoli enga bið að þessi lög verði afgreidd á þessu þingi, samþykkti svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:
    ,,Framkvæmdastjórn Verkamannasambands Íslands hefur kynnt sér tillögur um frv. til breytinga á húsnæðislögum sem settar hafa verið fram af nefnd sem félmrh. skipaði á sl. sumri. Framkvæmdastjórnin telur að í tillögunum felist mikil réttarbót til þess fólks sem þarf á félagslegri aðstoð í húsnæðismálum að halda. Þá er lánafyrirkomulagið einfaldað og félagslega íbúðakerfið gert skilvirkara. Af eldri lögunum eru sniðnir ýmsir agnúar sem verið hafa til ama við framgang þeirra og sett inn mörg nýmæli sem bæta stöðu þeirra sem laganna eiga að njóta.
    Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að frv. um félagslegan hluta laganna verði lagt fram á Alþingi nú þegar. Framkvæmdastjórnin mun, þegar eftir því verður leitað, gefa frekari efnislega umsögn um frv.

en telur mjög brýnt að það verði að lögum á því þingi er nú situr, m.a. með tilliti til væntanlegra sveitarstjórnarkosninga og kosningar í húsnæðisnefndir að þeim loknum.``