Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 16. mars 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Á síðari tímum hafa umræður um mengun og umhverfismál farið mjög vaxandi hér á landi. Þetta á einnig við um mörg önnur lönd, svo sem Norðurlönd og flest ríki í Evrópu. Raunar má segja að þessi vakning hafi náð meira og minna um alla heimsbyggðina, a.m.k. að því leyti sem Sameinuðu þjóðirnar hafa látið þetta mál til sín taka. Um öll Norðurlönd hafa fundir og ráðstefnur fjallað um þessi mál. Ég nefni sérstaklega alþjóðlega ráðstefnu um mengun sjávar sem kölluð var saman í Kaupmannahöfn á vegum Norðurlandaráðs 16.--18. okt. á liðnu hausti og þing Norðurlandaráðs hér á landi nú nýlega. Fjöldamarga aðra fundi og ráðstefnur mætti nefna sem hafa aðallega snúist um umhverfismál.
    Það væri hægt að hafa mörg orð um sögu þessara mála hérlendis á síðari árum. Eitt og annað hefur verið gert. Menn hafa ekki setið auðum höndum. Að þessum
málum hefur verið unnið mjög víða. Við eigum nú sem betur fer mörgu dugmiklu fólki á að skipa sem hefur brennandi áhuga á að láta hendur standa fram úr ermum í umhverfismálum. Ég vil sérstaklega mótmæla ummælum hv. 12. þm. Reykv. þegar málið var rætt hér síðast, að umhverfismálin væru hornreka í öllum ráðuneytum. Það er ekki rétt, á þeim hefur víða verið tekið af allmiklum myndarbrag.
    Að því er varðar núverandi skipan umhverfismála á Íslandi hefur hún þótt nokkuð gölluð og of dreifð. Umhverfismál hafa heyrt undir átta ráðuneyti a.m.k. og raunar jafnvel flest ráðuneytin. En veigamestu málaflokkarnir hafa verið í höndum fimm ráðuneyta, en þau eru heilbr.- og trmrn., menntmrn., samgrn., landbrn. og félmrn. Svo er og að nokkrar stofnanir, bæði rannsókna- og eftirlitsstofnanir, starfa að umhverfisvernd á vegum hins opinbera. Þessum stofnunum er falið að sjá um ákveðna þætti umhverfismála auk annarra verkefna. Nefna má Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Siglingamálastofnun ríkisins, Skógrækt og Landgræðslu og Skipulagsstjórn ríkisins. Enn fremur sinna Hafrannsóknastofnun, sem starfar á vegum sjútvrn., Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem starfar á vegum landbrn., svo og Geislavarnir ríkisins og eiturefnanefnd, sem starfa á vegum heilbr.- og trmrn., ýmsum verkefnum sem tengjast umhverfisvernd. Það má því ljóst vera að svið svonefndra umhverfismála er ákaflega vítt. Þau koma víða við sögu og eru vissulega fyrirferðarmikil í þeim mörgu ráðuneytum þar sem þau hafa numið land og skipað sér til sætis á liðnum árum.
    Það er langt síðan menn veittu því athygli að e.t.v. væri full þörf á að athuga og samræma þennan málaflokk og skipuleggja betur. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til lagasetningar. Það mun hafa verið fyrir hartnær hálfum öðrum áratug að hafist var handa um könnun á nýskipun og yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands. Þann 4. mars 1975 skipaði Geir

Hallgrímsson, þáv. forsrh., níu manna nefnd undir formennsku Gunnars G. Schram til að vinna að heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála. Nefndin samdi frv. til laga um umhverfismál sem þáv. félmrh. Gunnar Thoroddsen lagði fyrir Alþingi vorið 1978. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, mörg frumvörp verið samin. Þau hafa ýmist verið lögð fram á Alþingi eða ekki náð lengra en á borð ráðuneyta og ráðherra.
    Að mínum dómi er líklegt að ekki hafi verið fyrir hendi raunverulegur vilji á Alþingi fyrir því að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti. Það skýrir málið eins og það hefur gengið til á liðnum árum. Menn hafa óttast að slíkt ráðuneyti mundi stækka og þenjast út á skömmum tíma, það mundi verða dýrt í rekstri og þungt á fóðrum. Meiri þörf væri e.t.v. á því að fækka ráðuneytum en fjölga. Vafasamur hagnaður gæti orðið af því að brjóta upp ráðuneyti sem þróast hefðu í tvo áratugi samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands frá 1969 og flytja stóra málaflokka fram og til baka milli ráðuneyta. Ástæða væri til að fara varlega í þessum efnum og flýta sér hægt. Sannleikurinn er og sá að löggjafinn á ekki að gera sér að leik að breyta lögum breytinganna vegna, allra síst lögum sem telja má til grundvallarlaga næst stjórnarskránni sjálfri, svo sem lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Það skal skýrt og greinilega tekið fram að við sjálfstæðismenn erum áhugasamir umhverfisverndarmenn svo sem orð okkar, samþykktir og gerðir bera glöggt vitni um. En við töldum ekki tímabært að hleypa nýju ráðuneyti af stokkunum á þessum vetrarmánuðum svo sem við höfum gert ljósa grein fyrir. En nú verður að horfast í augu við þá staðreynd að búið er að segja á fót umhverfisráðuneyti og krýna umhverfisráðherra, ef svo má segja. En þá verður að sjá til þess að þetta nýja ráðuneyti fái nóg að starfa, fái einhver verkefni, að nægilega mörg vötn falli til þessa nýja ráðuneytis. Þetta verkefnaval þarf mjög að vanda og gefa þarf sér góðan tíma til að ákvarða hvaða málaflokkar verði færðir til hins nýja ráðuneytis. Umfram allt verður að gæta þess að rífa ekki málaflokk, sem búinn er að rótfesta sig í einu ráðuneyti, upp með rótum og kasta honum í hugsunar- og ábyrgðarleysi í annan stað. Eða kljúfa stofnanir í tvennt, kasta frá sér öðrum bitanum en halda
hinum kyrrum á sama stað og verið hefur.
    Ég leyfi mér að benda á að hæstv. umhvrh. virðist nú þegar hafa allnokkrum verkefnum að sinna. Ég leyfi mér að vitna í auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á breytingu á reglugerð nr. 96 frá 31. des. 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Forseti Íslands hefur hinn 23. febr. 1990 samkvæmt tillögu forsætisráðherra staðfest svohljóðandi reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 96 frá 31. des. 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum.`` Þar hljóðar 1. gr. svo:
    ,,Við bætist ný 13. gr. og töluliðir síðari greina breytist til samræmis. Nýja greinin orðist svo:
    Umhverfisráðuneyti fer með mál er varða:

    1. Alhliða umhverfisvernd, eftirlit með náttúruvernd, gróðurvernd og mengunarvörnum, svo og gerð landnýtingaráætlana í samráði við önnur ráðuneyti, sveitarstjórnir og stofnanir.
    2. Samræmingu aðgerða ráðuneyta, ríkisstofnana og sveitarfélaga við framkvæmd umhverfismála, svo sem varðandi löggjöf um losun úrgangsefna og varnir gegn loft-, hávaða-, titrings-, geislunar-, ljós-, varma- og lyktarmengun.
    3. Fræðslu- og upplýsingastarfsemi um umhverfismál.
    4. Umhverfisrannsóknir í samstarfi við stofnanir sem starfa að umhverfismálum.
    5. Alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála.``
    Í 3. gr. þessarar auglýsingar segir: ,,Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, öðlast þegar gildi.`` Samkvæmt því er hægt að ganga þegar til starfa að þessum margbreytilegu málum.
    Samkvæmt þessu tel ég að hið nýja umhverfisráðuneyti hafi þegar næg verkefni á sinni könnu, a.m.k. á meðan verið er að kryfja þessi mál öll betur til mergjar. Þá má spyrja: Hvers vegna er þörf á því að kanna þessi mál öll nánar? Svarið við þeirri spurningu er að finna í þeim fjölmörgu umsögnum og bréfum sem allshn. Nd. hafa borist um þessi frumvörp sem varða samsöfnun allra umhverfismála í eitt og sama ráðuneytið. Þær umsagnir sem sendar hafa verið til okkar, og eru fjölmargar svo sem fram hefur komið, eru nær allar á einn veg. Þær eru andvígar því að efni og anda að nýtt umhverfisráðuneyti safni til sín öllum málum er varða umhverfi og umhverfisvernd. En þar sem talsmaður minni hl. hv. allshn. í þessu máli, hv. 2. þm. Reykn., aðalframsögumaður minni hl., hefur rakið allmjög þær umsagnir sem borist hafa, skal það ekki endurtekið hér að neinu marki. Væri þó full ástæða til að hv. alþm. heyrðu eða læsu þessar umsagnir oftar en einu sinni ef þær mættu festast þeim í minni. Ég get þó ekki látið hjá líða að fletta ögn minnisblaði um umsagnir sem borist hafa allshn. vegna þingmála nr. 4, 128 og 129.
    Þegar hinir ýmsu aðilar voru beðnir um að láta umsagnir í té var málið lagt fyrir þá mjög greinilega að mínum dómi. Þeim var aðallega bent á að svara fjórum meginspurningum sem voru þessar:
    1. Hver er afstaða umsagnaraðilans til stofnunar sérstaks umhverfisráðuneytis?
    2. Hver er afstaða viðkomandi til flutnings einstakra stofnana milli ráðuneyta? --- Í mörgum tilvikum er einungis tekin afstaða til flutnings þeirra stofnana sem varða umsagnaraðila.
    3. Hverjar eru helstu breytingartillögur sem umsagnaraðilinn vill koma á framfæri?
    4. Hver er afstaða viðkomandi til þingsmáls nr. 4 um samræmda stjórn umhverfismála?
    Þannig var búið um hnútana að svörin færu ekki út um víðan völl, enda eru þau mjög markviss og hnitmiðuð mörg hver. Ég leyfi mér að grípa ofan í þessi svör svona af handahófi. Eitt sem vakti alveg

sérstaka athygli nefndarmanna og ég held flestra aðila sem hafa skoðað þessi mál var sú tillaga að færa Veðurstofu Íslands frá samgrn. til hins nýja umhverfisráðuneytis. Það væri auðvitað sök sér ef við réðum að einhverju leyti veðri og vindum en því er nú ekki svo farið. Ég held að fá rök finnist fyrir því að hreyfa Veðurstofuna úr sæti úr því ráðuneyti þar sem hún hefur verið áratugum saman, enda hníga umsagnir í þá átt.
    Í umsögn frá Dýralæknafélagi Íslands er talað um að félagið telji stofnun ráðuneytis varhugaverða þar sem ekki er sett fram umhverfisstefna. Þeir leggja til að stofnað verði heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti. Í bréfi frá Rannsóknaráði ríkisins kemur fram að ráðið telur ekki tímabært að stofna umhverfisráðuneyti. Hér gríp ég niður í eina umsögn þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Er á móti stofnun umhverfisráðuneytis þar sem óskynsamlegt er að aðskilja yfirstjórn nýtingar og verndunar auðlindanna. Ráðuneytið auki á miðstýringu og sé of kostnaðarsamt.`` Og hér gríp ég niður í umsögn frá Stéttarsambandi bænda. Þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Stéttarsambandið leggur áherslu á að hlutverk væntanlegs ráðuneytis á sviði landgræðslu og skógræktar verði einskorðað við eftirlit með ástandi gróðurs og fræðslu um
gróðurverndarmál. Framkvæmdaþáttur gróðurverndar og aðgerðir til landfriðunar verði áfram undir stjórn landbrn. Sama gildi um málefni skógræktar ef frá er talið eftirlit með náttúrulegum birkiskógum.``
    Og hér er umsögn frá landbrn. Þar segir svo m.a., með leyfi forseta: ,,Ráðuneytið og viðkomandi stofnanir hafa eindregið varað við því að öll verkefni stofnananna yrðu flutt úr landbrn. og telja að af því hefði getað orðið stórslys.`` Benda þessir aðilar á ósamræmi í tilflutningi verkefna þar sem öðrum ráðuneytum en landbrn. er ætlað forræði yfir þeim auðlindum er undir þau heyra. Vitnað er til Brundtland-skýrslunnar og talið að sú skipan sem er á umhverfismálum í dag sé í anda hennar. Ráðuneytið telur eðlilegt að gróðureftirlitið verði í umhverfisráðuneyti í samstarfi við stofnanir landbrn., þ.e. Landgræðslu og Skógrækt, en gróðurrannsóknir og gróðurvernd eigi að vera vistaðar hjá viðkomandi fagráðuneyti og stofnunum þess. Þannig mætti lengi lesa.
    Hér segir í útdrætti úr umsögn frá Búnaðarfélagi Íslands: ,,Búnaðarfélag Íslands telur brýnt að sem víðtækust samstaða náist um stjórn umhverfismála, bæði innan stjórnsýslunnar og meðal alls almennings.`` Og vissulega er það mikið atriði sem er bent á, að þegar staðið er að slíkum breytingum sem hér um ræðir ríki um það nokkurn veginn einhugur þeirra manna sem þar koma aðallega við sögu og taka eiga á málunum til frambúðar.
    Í umsögn frá Bændaskólanum á Hólum segir svo: ,,Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis ber keim af friðþægingu og er spor af leið ef eitthvað er. Ekki kemur fram nein sérstök stefnumótun í umhverfismálum og skilgreining þeirra er of þröng. Eðlilegt væri að slá öllum ráðuneytum í eitt

umhverfisráðuneyti þar sem mengun og ræktun lands og lýðs verður ekki aðskilin.`` Og í umsögn frá Bændaskólanum á Hvanneyri kemur fram að forráðamenn hans telja að í eðli sínu eigi umhverfismál ekki að vera í sérstöku ráðuneyti þar sem aukin hætta er á miðstjórn. Einnig sé best að saman fari ábyrgð og framkvæmd. Með slíku ráðuneyti eykst hætta á árekstrum milli þéttbýlisbúa og bænda. Þannig mætti lengi telja.
    Við íslenska lagasmíð er oft og iðulega höfð hliðsjón af norrænni löggjöf. Eins og allir vita er oft mjög náin samvinna, svo sem alkunna er. Ekki þykir þó gott að taka allt upp eftir frændum okkar á Norðurlöndum að lítt athuguðu máli. Þvert á móti þarf oft að skoða ítarlega hvort þetta ákvæði eða hitt muni henta alls kostar hér á landi. Það er því fróðlegt að virða ögn fyrir sér hvernig skipan þessara mála er háttað um Norðurlönd. Ég er ekki nákunnugur þeim málum en ég hygg að það sé með nokkuð mismunandi hætti hver séu helstu verkefni umhverfisráðuneyta á Norðurlöndum. Og eftir því sem ég veit best eru þau mál í athugun, a.m.k. í Danmörku og e.t.v. víðar.
    Á Norðurlöndum er gert ráð fyrir tilteknum stjórnarstofnunum sem fara með tiltekið vald á ákveðnum þáttum umhverfismála. Valdsvið þessara stofnana eða stjórna þeirra virðist vera mjög margbreytilegt. Þá virðist gert ráð fyrir nokkuð formbundnu starfi ráðuneyta og má sjá að nauðsyn þess er fyrst og fremst talin sú að umhverfisþættir verði þegar á frumstigi kannaðir sérstaklega og vægi þeirra í töku ákvarðana metið þegar í byrjun. Að vísu eru starfandi ráðuneyti á öllum Norðurlöndum, sérstök umhverfisráðuneyti, en það er allmjög breytilegt hvaða verkefni þeim eru falin. Í annan stað eru mörg verkefni sem snerta umhverfismál í öðrum ráðuneytum en þeim sem sérstaklega bera heitið umhverfisráðuneyti. Og eins og ég vék að munu þessi mál vera sérstaklega í endurskoðun í Danmörku, hvernig eigi að haga þeim, hver eigi að vera helstu verkefni og hvernig skipulag umhverfisráðuneytis eigi að vera. Ekki verður því sagt að sú íslenska skipan sem hér er gert ráð fyrir að upp verði tekin hafi fastákveðnar eða fastmótaðar fyrirmyndir um Norðurlönd.
    Hv. 2. þm. Reykn. gerði í ræðu sinni nákvæma grein fyrir brtt. þeim sem minni hl. allshn. hefur gert og vísa ég til nál. og brtt. okkar á þskj. 725 og 726. Verður því ekki farið mjög miklu nánar út í umræðu um þau efni hér. Ég mun ekki heldur ræða frekar hinar mörgu skriflegu umsagnir sem látnar hafa verið í té af ýmsum aðilum. Þar er þó enn af nógu að taka.
    Fróðlegt var að ræða við alla þá sem kallaðir voru eða komu sérstaklega á fund allshn. Á engan er hallað þó að sérstaklega sé nefndur ráðuneytisstjórinn í landbrn. en auðheyrt var að hann hafði skoðað þessi mál mjög vandlega og aflað sér mikils fróðleiks um þau málefni. Þá var og mjög lærdómsríkt að taka á móti og fá tækifæri til að ræða málið við fjóra fulltrúa af búnaðarþingi því sem lauk í gær. Þeir

komu í stutta heimsókn á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins en um það fjölluðu þeir einmitt meðal annarra mála á búnaðarþingi. Afstaða fulltrúanna fjögurra var glögg og greinileg eins og fram kemur í ályktun þingsins og greinargerð. Ég leyfi mér að vitna í nokkrar setningar í ályktun og greinargerð búnaðarþings um þetta mál. Það er þá fyrst:
    ,,Búnaðarþing skorar á Alþingi að vanda undirbúning og val á þeim verkefnum sem umhverfisráðuneyti er ætlað að vinna.`` Í öðru lagi er í greinargerð, eins og ég raunar gat um í máli mínu hér áðan, vikið að því að nágrannalöndin hafi
reynslu af umhverfisráðuneytum. Í skýrslu sem kennd er við Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsrh. Noregs, og oft og iðulega er vitnað í, er varað við að taka ákveðin framkvæmdarverkefni frá viðkomandi fagráðuneyti. Farsælla reynist að umhverfisráðuneyti sé fyrst og fremst til eftirlits. Og loks er bent á þá grundvallarreglu sem ríkt hefur í stjórnsýslu hér á landi, að atvinnuvegir hafi forræði yfir þeim auðlindum sem þeir byggjast á.
    Með hliðsjón af öllu því sem ég hef nú nefnt tel ég mikið óráð að ætla sér að knýja fram þær breytingar allar sem hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar ætla að ná fram hvað sem það kostar. Ólíkt hyggilegra teldi ég að vinna málið betur og reyna að ná meiri og einlægari samstöðu um það meðal alþingismanna og landsmanna allra. Hæstv. umhvrh. hefur þegar næg verkefni fyrst um sinn, eins og áður er vikið að. Þess vegna er vel hægt að gefa sér góðan tíma til að skoða málið betur og ráða fram úr því eftir leiðum sem fleiri geta fellt sig við og sætt sig við en nú virðast nokkrar horfur á vera.