Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 16. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Forseti hefur mjög ríkan skilning á þörf hv. þm. fyrir viðveru hæstv. ráðherra hér í deildinni. Hæstv. ráðherrar eru mannlegir og geta vart verið á tveimur stöðum í einu. Forseti ber þá virðingu fyrir hæstv. ríkisstjórn að hann vill ekki trufla fundi ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að allir þeir hv. deildarmenn sem verið hafa ráðherrar skilji vel að það er ekki vel þegið að þingið trufli ríkisstjórnarfundi.
    Forseti mun af þessum sökum og vegna orða tveggja síðustu ræðumanna fresta þessari umræðu í um það bil 10 mínútur og kanna hvernig gengur með umræður á ríkisstjórnarfundi og hvenær von er á hæstv. ráðherrum hingað í þingsali svo að við megum halda áfram umræðum. Hins vegar er það svo að forseti gerir sér fulla grein fyrir því og hafði af því áhyggjur fyrir þennan fund að þessir fundir mundu skarast, þ.e. fundir ríkisstjórnarinnar og fundir í deildum. Það væri alveg ljóst og kynni að fara á báða vegu með framgang mála vegna þess arna. En forseti frestar nú fundi í 10 mínútur. Ef ráðherrar geta hins vegar ekki komið til fundar á skikkanlegum tíma, því að ekki var áætlað að hafa þennan fund mikið lengur en til hádegis, þá verður forseti að grípa til þess ráðs að slíta fundi hér í deildinni. Fundinum er frestað í 10 mínútur.