Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Hæstv. forseti. Nú dámar mér ekki, hæstv. utanrrh. virðist ekki vera hér í salnum en við höfum sameiginlega liðkað mjög til í þessu máli og margsinnis hefur forseti haft það á dagskrá. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. mun vera á leiðinni og ekki nema spurning um mínútur þangað til hann gengur í salinn.)
    Ég fagna því að hæstv. utanrrh. er á leiðinni. Eins og menn vita hefur þetta mál ekki verið tekið fyrir þó liðnir séu fjórir mánuðir síðan till. var flutt og hefur margt valdið því. En ég vil sérstaklega taka fram að þar er ekki við forseta að sakast því að þessi dráttur kom til vegna þess að verið var að taka tillit til manna sem þurftu að vera við umræðuna en við hæstv. forseti höfum leyst þetta mál fram á þennan dag með ljúfmennsku okkar á milli og teygt okkur langt til þess að allir þeir sem vildu vera við umræðuna gætu það. Að loknum þessum formála vík ég að till.
    Till. til þál. er um samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972. Hún hefur verið lengi á borðum hv. alþm. og
að henni hefur raunar verið vikið í umræðum um skyld mál hér í þinginu. Satt að segja hélt ég að í meginefnum mundi nást samkomulag um þetta mál í utanrmn. í nóvembermánuði sl. og þá einnig væntanlega á Alþingi. En svo fór því miður ekki enda sprungu mál með eftirminnilegum hætti í loft upp hér á þingi. Till. er svohljóðandi, með leyfi forsta. Hún er auðvitað örstutt:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsrh. og utanrrh. að undirbúa nú þegar í samráði við utanrmn. beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972.``
    Menn reka kannski augun í það að hér er rætt um tvo ráðherra sem gætu tekið þetta mál upp, þ.e. hæstv. forsrh. og utanrrh. Það er að mínu mati alls ekki á færi annarra ráðherra að fjalla um þessi mál, tollamál og viðskiptamál. Og kannski síst á færi hæstv. sjútvrh. Það hef ég bæði sagt við hann og héðan úr þessum ræðustól því hér er ekki verið að ræða um sjávarútvegsmál Íslendinga og kemur ekki til greina að ræða þau við Evrópubandalagið.
    Í sömu mund og þessi till. var flutt bar ríkisstjórnin fram bókun hér í þinginu sem felur í sér að hæstv. ríkisstjórn styðji tvíhliða viðræður Íslendinga við Evrópubandalagið til að tryggja tollfrjálsan aðgang íslenskra sjávarafurða að mörkuðum Evrópubandalagsins. Ætla mætti að hér hefði náðst fullkomin samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu um þá hyggilegu leið að taka upp tvíhliða viðræður sem auðvitað ættu að byggjast á því að viðauki yrði gerður við bókun 6. Því miður hefur síðan orðið mikið fjaðrafok og yfirlýsingar verið gefnar út og suður, bæði innan lands og utan, misjafnlega tímabærar og misjafnlega skynsamlegar. Þetta hnútukast þekkja allir og hef ég takmarkaðan áhuga á að taka þátt í því.
    Við höfum æðioft heyrt þær staðhæfingar að hætta væri á að Evrópubandalagið mundi krefjast viðræðna

um allt önnur málefni en þau sem við Íslendingar óskum að ræða, jafnvel gera kröfur til veiðiréttinda á Íslandsmiðum sem auðvitað er enginn grundvöllur fyrir. Því hefur jafnvel líka verið bætt við að einhver sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins, eins og það er kallað og þar vitnað til Rómarsáttmálans sem gerður var 1957, væri þess efnis að þegar rætt væri um viðskiptamál við Evrópubandalagið skyldi það ætíð, ég endurtek, skyldi það ætíð krefjast veiðiheimilda. Þessi endaleysa var vakin upp á síðustu missirum þótt veiðiheimildir hafi aldrei verið nefndar á nafn í samningum um bókun 6 frá 1972 sem gildi tók að loknum þorskastríðunum 1976. Þar var einmitt verið að fjalla um að engar veiðiheimildir yrðu veittar á Íslandi. Það var liður í lausn deilu okkar við Breta eins og allir vita. Síðan hefur aldrei verið talað um fiskveiðiheimildir Efnahagsbandalagsins við Íslandsstrendur fyrr en síðustu missirin og eru jafnvel íslenskir ráðamenn farnir að taka þátt í slíkum viðræðum eða efna til þeirra.
    Hitt vita allir menn að Evrópubandalagið hefur frá fyrstu tíð tekið þátt í fjölmörgum samningum um viðskiptamálefni án þess að nokkrum heilvita manni dytti í hug að flétta veiðiheimildum inn í slíka samningagerð enda hljóta t.d. svonefnd landlukt ríki, þ.e. ríki sem ekki eiga land að sjó, að verða að beita nýstárlegum töfrabrögðum ef þau ættu að láta fiskveiðiréttindi koma í stað tollfríðinda eða viðskiptasamninga við Evrópubandalagið. Hundruð samninga hafa verið gerðir við slík ríki og þá á Evrópubandalagið alltaf að hafa heimtað fiskveiðiheimildir. Þetta er sagt hér í þingsölum. Þessi þráhyggja, vægara orð er varla hægt að nota, íslenskra manna er mér gjörsamlega óskiljanleg. En nóg um það.
    Mér er kunnugt um að á fundum GATT nýverið þreifuðu efnahagsbandalagsríki fyrir sér um stuðning við það hvort einhvers konar alþjóðasamkomulag gæti náðst um að veiðiheimildir í efnahagslögsögu mætti ... Þá býð ég hæstv. ráðherra velkominn. Ég er rétt að byrja svo hann hefur ekki enn þá misst af miklu. Ég var að ræða um að mér væri kunnugt um það að á fundum GATT nýverið hefðu Evrópubandalagsríkin þreifað fyrir sér um stuðning við það hvort einhvers konar alþjóðasamkomulag gæti náðst um að veiðiheimildir í
efnahagslögsögu mætti tengja tollfrelsi eða viðskiptamálum yfir höfuð og fengu auðvitað ekki stuðning neinna þjóða.
    En líka nóg um þetta. Því allir skilja sem vilja skilja að veiðiheimildir verða ekki tengdar viðskiptamálum. Þótt það kunni að mega nefna tvö eða þrjú dæmi þess að um slíkt hafi verið samið þá er það liðin tíð sem aldrei kemur aftur. Kanada samdi t.d. víst eitt ár um þetta og hætti því svo að sjálfsögðu. Slíkra réttinda verður ekki krafist, ekki fremur en utanaðkomandi ríki getur krafist vinnslu olíu eða málma úr hafsbotni þeirra landa sem hann eiga langt, langt út fyrir 200 mílurnar, hvað þá innan

200 mílnanna.
    Það sem málið snýst um er einfaldlega og nákvæmlega efni þeirrar till. sem hér er til umræðu og ég hef lesið upp. Í till. er þess auðvitað rækilega gætt að minnast hvergi á að rætt verði um sjávarútvegsmál og síst af öllu fiskveiðiheimildir í slíkum viðræðum. Það mun Alþingi Íslendinga aldrei samþykkja né heldur hefur það nokkru sinni frá 1972 léð máls á því, fyrr en þá nú, að einhverjar veiðiheimildir handa Evrópubandalaginu kunni að vera falar. Það er þess vegna fullkomlega á misskilningi byggt þegar hæstv. utanrrh. segir í lok ræðu sinnar hér í þessum stól 12. mars sl., með leyfi hæstv. forseta: ,,Í tvíhliða viðræðunum værum við auðvitað fyrst og fremst að ræða sérmál Íslands og sjávarútvegsmálefnin sérstaklega.`` Við höfum ekkert við Evrópubandalagið að ræða um sjávarútvegsmálefni og síst náttúrlega um veiðiheimildir.
    Í ræðu sinni varpaði hæstv. utanrrh. fram spurningu sem var svona: Hvaða verði værum við reiðubúnir að kaupa tollaívilnanir? Og hann bætir við að eitthvað þurfi menn að leggja á borð með sér. Þessum spurningum er auðsvarað. Við höfum þegar fyrir nærri tveim áratugum lagt með okkur þau gjöld sem Evrópubandalagið stundum krefst, þ.e. eitthvað fyrir eitthvað. Gagnkvæmni í samningum. Í samningunum 1972 og allar götur síðan höfum við veitt Evrópubandalagsþjóðum nánast tollfrjálsan innflutning á öllum meginframleiðsluvörum þeirra, þ.e. iðnaðarvörum. Við höfum í staðinn notið tollfríðinda af þeirra hálfu sem báðir samningsaðilar hafa talið sanngjarna lausn þar til nú að mjög hallar á Íslendinga vegna breyttra hlutfalla og nýtilkominnar tollheimtu við inngöngu Spánar og Portúgals í Evrópubandalagið. Þetta er svo augljóst mál að um það ætti ekki að þurfa að ræða. Ég lofa því hér og nú að ég skal éta hatt hæstv. utanrrh. óþveginn ef Alþingi Íslendinga einhvern tímann fellst á þau sjónarmið að til mála komi að veita Evrópubandalagsþjóðum fiskveiðiheimildir í íslenskri efnahagslögsögu til endurgjalds fyrir fullkomlega eðlilega sanngirniskröfu um þann viðauka við bókun 6 sem farið er fram á.
    En hættan er ekki þarna á ferðum. Þetta er svo augljóst að menn láta ekki glepjast. Hættan er í því fólgin að nú er farið að tala um að kannski --- bara kannski sé rétt að Evrópubandalagsríkin fái einhver veiðiréttindi hjá okkur gegn því að við fáum veiðiréttindi hjá þeim. Þetta gæti svo sem verið bara til málamynda eða nokkurs konar sýndarsamkomulag er sagt. Nógu ísmeygilegt er það engu að síður og þess vegna þurfa hv. alþm. þegar í stað að svara þessu og mitt svar er: Nei og aftur nei. Þegar það svar liggur skýrt og skorinort fyrir þá mun enginn sem nokkur áhrif hefur í Evrópubandalaginu orða slíkt. Þótt þeir auðvitað gleypi við því að smeygja litla fingrinum inn fyrir hjá okkur ef þeim er boðið upp á það, sem ég vænti að ekki verði.
    Þá er ég kominn að því sem ánægjulegast var í ræðu hæstv. utanrrh. hér um daginn þegar hann margendurtók að það væri ekki annaðhvort eða, ekki

önnur leiðin eða hin, heldur eigum við að fara báðar þessar leiðir, sagði hann, þ.e. að halda áfram samstarfi við EFTA-ríkin í viðræðum við Evrópubandalagið og leita jafnframt eftir tvíhliða samningum við það. Þetta tek ég auðvitað undir. Þessar skýru yfirlýsingar ráðherrans eru mér í sjálfu sér alveg nægilegar og ég veit að við getum sameinast um þær enda verði fullt samstarf haft við utanrmn. og Evrópustefnunefnd um undirbúning og ákvarðanir í þessu efni.
    Nú ætla ég að biðja menn að ruglast ekki í ríminu. Í umræðunni er nefnilega alltaf verið að hræra saman algerlega óskyldum málum. Við Evrópubandalagið höfum við gildandi samninga sem við óskum breytinga á eða viðauka við. Við óskum aðeins fullkominnar sanngirni þar sem viðhaldið verði þeirri gagnkvæmni sem ríkti við gerð þessara samninga. Gagnkvæmni og sanngirni. Meiri og ósanngjarnari er nú þessi ósk ekki. Aðalráðherrar Alþfl. hér eru nú að brosa að þessu sýnist mér og þurfa kannski ekkert á þetta að hlusta, þeir vita allt betur en allir aðrir. ( Utanrrh.: Það er sérfræðingur Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum sem er að trufla oss.) Þið voruð að skjóta saman nefjum áður en hann kom.
    Ef Evrópubandalagið kynni að segja nei við þessu, sem ég get ekki ímyndað mér, þá tökum við því. Ef þeir hins vegar ætla að beita okkur einhverjum harkalegum úrræðum fyrir það eitt að setja fram þessa sanngjörnu ósk eða blanda einhverjum öðrum málum inn í það, nú þá tökum við því líka. Ef einhver er hér inni sem ekki er reiðubúinn til þess að taka því gefur hann sig væntanlega fram. Ef það á að beita okkur einhverjum bolabrögðum vegna þess að við förum fram á viðræður um sanngjarnar breytingar eða viðauka við bókun 6
til samræmis við það sem efni hennar var á þeim tíma sem hún var gerð, ætli við Íslendingar þorum þá ekki að segja okkar orð? Ég vona að það sé enginn hv. alþm. svo deigur orðinn.
    Að hinu leytinu erum við svo í samstarfinu við EFTA til þess að fylgjast með og hafa áhrif á hvað gæti orðið efni eða innihald einhvers konar samkomulags um svonefnt efnahagssvæði Evrópu. Um það veit auðvitað enginn með neinni vissu nú. Og þó, eitt vitum við með fullri vissu, inn í slíkt samkomulag verður aldrei blandað neinu ákvæði sem gæti þýtt að Evrópubandalagið seildist til áhrifa í íslenskri fiskveiðilögsögu. Það byggist öðrum þræði á þeirri hraðfara þróun hafréttarins þar sem 3 / 4 hlutar þjóða heims, þ.e. strandríkin, eru að taka rétt sinn og hins vegar á því að EFTA-ríkin öll hafa samþykkt fríverslun með fisk. Það var því mikið heillaspor þegar sameinaður fundur utanrmn. Alþingis og Evrópustefnunefndar lagði forsrh. til það veganesti, þegar hann fór á Oslóarfundinn í fyrra, að halda þeirri kröfu til streitu til síðustu stundar. Það ætti a.m.k. að vera ljóst að hin svokallaða sameiginlega fiskveiðistefna eða sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins nær ekki til evrópsks efnahagssvæðis í heild.
    Þótt auðvitað sé rétt að við séum að fjalla um

einhver þau flóknustu mál sem Alþingi hefur þurft að glíma við er það sem ég hef sagt hér alveg ljóst í mínum huga og hlýtur að vera ljóst öllum þeim sem nenna á það að hlýða eða hugsa um það.
    Ég vænti þess því að málið verði að lokinni þessari umræðu sent hv. utanrmn. og þar verði um það fjallað, en ríkisstjórninni er skylt lögum samkvæmt að hafa fullt samráð við nefndina um stórmál sem þetta og auðvitað er málið líka til umræðu í Evrópustefnunefnd.
    Með leyfi hæstv. forseta les ég nú upp örstutta grg. með tillögunni sem skýrir málið best og á þá enginn að fara í neinar grafgötur um það hvað er verið að ræða hér um og hvað ekki. En grg. er svohljóðandi:
    ,,Fríverslunarsamningur Íslands og Evrópubandalagsins var undirritaður 22. júlí 1972 og tók gildi 1. apríl 1973, nema bókun nr. 6 um sjávarafurðir sem ekki öðlaðist gildi fyrr en 1. júlí 1976, að afloknum fiskveiðideilum. Bókun 6 var Íslendingum mjög mikilvæg frá upphafi og er enn þýðingarmikil. En við stækkun Evrópubandalagsins, einkum eftir inngöngu Spánverja, Portúgala og Grikkja, fer hins vegar mestallur saltfiskútflutningur Íslendinga til EB-ríkja en saltfiskur fellur ekki undir bókun 6 og nýtur því ekki tollfrelsis innan bandalagsins nema að hluta. Heildartollgreiðslur til bandalagsríkjanna eru nú hærri hlutfallslega en þær voru áður en bandalagið stækkaði og fleiri ríki fengu aðild að því.
    Í samskiptum okkar við Evrópubandalagið hlýtur að teljast eðlilegt að meginútflutningsvara okkar, fiskur og fiskafurðir, njóti svipaðra viðskiptakjara á mörkuðum bandalagsins og það nýtur við innflutning iðnaðarvara til Íslands. Í þessu sambandi þarf að athuga hvort Íslendingar geti fellt niður tolla á vörur frá Evrópubandalaginu í enn ríkara mæli en
orðið er með það að markmiði að tollfrjáls viðskipti verði milli Íslands og bandalagsins.
    Flutningsmenn telja enga ástæðu til að ætla annað en að ráðamenn Evrópubandalagsins muni vera fúsir til að taka tillit til breyttra aðstæðna og því sjálfgefið að hefja beri viðræður við þá um málið nú þegar.``