Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Tillaga sú sem við ræðum hér um samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972 kom fram um sama leyti og fjallað var um skýrslu hæstv. utanrrh. um Evrópumálefni síðari hluta nóvembermánaðar sl. og gott ef þessi tillaga kom ekki fram sama daginn og ríkisstjórnin gerði bókun 29. nóv. sl. um þessi efni þar sem hæstv. utanrrh. var fengið umboð til þess að standa að undirbúnings- og samningaviðræðum með öðrum EFTA-ríkjum við Evrópubandalagið um hið svokallaða evrópska efnahagssvæði.
    Þegar hv. flm. kynntu mál þetta í utanrmn. í aðdraganda þess að tillagan var flutt hér á Alþingi lýsti ég því yfir fyrir mína hönd og vitnaði í nýgerða samþykkt landsfundar Alþb. þann 19. nóv. sl. að ég væri efnislega sammála því að leggja beri ríka áherslu á að taka upp beinar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um okkar hagsmuni með það í huga að fá fram hið fyrsta endurbætur, lagfæringar, Íslandi í hag, á bókun 6 frá 1972 og önnur sanngirnisatriði sem við eigum kröfu á við Evrópubandalagið. Ég er fyllilega sammála þeirri hugsun og hef reyndar oft flutt hana hér í sölum Alþingis að við eigum að setja fram kröfur um fullt viðskiptafrelsi með okkar sjávarafurðir gegn viðskiptafrelsi í sambandi við iðnvarning hinna þróuðu ríkja og í þessu tilviki í sambandi við innflutning á fullunnum vörum frá Evrópubandalagsríkjunum til Íslands. Það er á þessum grunni sem á að flytja þetta mál við Evrópubandalagið en ekki taka á móti kröfum af þeirra hálfu um að fá íhlutunarrétt og nytjarétt á íslenskum náttúruauðlindum á okkar fiskimiðum og öðru því sem vissulega tengist sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins eins og hún hefur verið kynnt um árabil.
    Ég tel að íslensk stjórnvöld ættu þessa dagana og undanfarna mánuði að hafa einbeitt sér að því að undirbúa beinar og milliliðalausar viðræður við
Evrópubandalagið um þessi hagsmunamál Íslands í stað þess að eyða kröftum og tíma í þær samningaviðræður sem í undirbúningi hafa verið á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, við Evrópubandalagið. Ég vek athygli á því að það er hins vegar mikill skoðanamunur milli mín og hv. 1. flm. þessa máls og Sjálfstfl. eins og hann flytur sitt mál, a.m.k. formaður hans, hér inni í sölum Alþingis varðandi samningaviðræður á vegum EFTA við Evrópubandalagið. Það er ástæða til að vekja athygli á því að forusta Sjálfstfl. og hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa tjáð sig hér í sölum Alþingis um þessi mál hafa viljað ganga mjög langt í því að fallast á hin svokölluðu fjögur frelsi sem eru inntakið í væntanlegum samningaviðræðum við Evrópubandalagið ef út í þær verður farið, vilja opna þar allar gáttir og þar kannsi fremstur í flokki eða framarlega í flokki hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson.
    Það er einkennileg þversögn sem birtist okkur í þessum málflutningi. Annars vegar vilja menn knýja á um beinar tvíhliða viðræður og ekki taka í mál að

ræða í því samhengi um aðgang að okkar náttúruauðlindum. Að hinu leytinu vilja hinir sömu opna hér allt upp á gátt í sambandi við fjármagn og fjárfestingar erlendra aðila í íslensku atvinnulífi en allir þeir sem hafa tjáð sig um þessi mál og gerst mega þekkja til í íslensku atvinnulífi, þar á meðal framámenn í samtökum í sjávarútvegi, viðurkenna og staðhæfa að ekki verði komist hjá í reynd að erlendir aðilar fái hér ítök bakdyramegin í íslenskum sjávarútvegi, þar á meðal í fiskveiðum landsmanna. Ég vek athygli á þessu vegna þess að í málflutningi þessara aðila birtist mikill misskilningur og vanmat á þessari samningsstöðu og Sjálfstfl. er hér, eins og í mörgum fleiri málum, að leika tveimur skjöldum á Alþingi Íslendinga og í sambandi við þessa grundvallarhagsmunni. Það breytir hins vegar ekki því að við getum reynt að stilla okkur saman og eigum að reyna að stilla okkur saman um það sem samstaða er um. Og ég tek undir kröfuna, og hef gert það oft og það gerir minn flokkur, um beinar milliliðalausar tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins.
    Ég held að það væri farsælt að forráðamen þessara mála í ríkisstjórn landsins og hæstv. utanrrh. fremstur í flokki endurskoðuðu hið fyrsta afstöðu sína til þeirra viðræðna sem nú eru í undirbúningi á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu við Evrópubandalagið, viðræðna sem æ ljósara má vera að eru að leiða okkur afvega, eru ekki í þágu íslenskra hagsmuna, að knýja þær fram á þeim grundvelli sem þar er lagður og sá grundvöllur má öllum vera ljós sem kynna sér málið, þ.e. að opna fyrir fjármagnshreyfingar, fjárfestingar, búferlaflutninga, rétt til stofnunar fyrirtækja og annað það sem tengist innri markaði Evrópubandalagsins, án þess að nokkrir skýrir fyrirvarar liggi fyrir nema í örfáum atriðum, og þar sem þeir liggja fyrir er ólíklegt að þeir haldi í reynd.
    Ég vek athygli á því sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. í umræðu í Sþ. 12. mars sl. þar sem ráðherrann vék sérstaklega að fyrirvörunum og undirstrikaði í máli sínu að þeir ættu nú ekki að vera margir og þyrftu ekki að vera margir að hans mati. Hvað nefndi hæstv. utanrrh. þá? Hann nefndi fríverslun með
fiskafurðir og fór um það mörgum orðum, og lýsti raunar inn í það sem hæstv. ráðherra er að verða ljóst eins og mörgum öðrum, að sú krafa er svo að vægt sé til orða tekið tvísýn miðað við íslenska hagsmuni ef hún væri útfærð eins og hún var borin fram upphaflega. Auk þess nefndi hæstv. ráðherra spurninguna um fjármagnsmarkaðinn, þ.e. atvinnurekstrarréttindi, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, erlendra aðila til þess að nýta auðlindir okkar, þ.e. til þess að eiga í fyrirtækjum eða fjárfesta í fyrirtækjum sem nýta okkar auðlindir. Og síðan í þriðja lagi nefndi ráðherrann fyrirvarann að því er varðar fólk og vitnaði til þess sem varðar norræna vinnumarkaðinn og þeirra fyrirvara sem Ísland setti á sínum tíma þar að lútandi. ,,Þetta``, sagði hæstv. ráðherra, ,,eru raunverulega þeir fyrirvarar sem við höfum gert og sem skipta máli. Annað kynnu að vera

samningar sem eru með venjuleg, tímabundin ákvæði um aðlögunartíma eins og alkunna er af samningum annarra þjóða við Evrópubandalagið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að gera neina fleiri fyrirvara.``
    Það er minnst hér, af hálfu hæstv. ráðherra, á atvinnurekstrarréttindi erlendra aðila til að nýta auðlindir okkar, til að eiga í fyrirtækjum eða fjárfesta í fyrirtækjum sem nýta okkar auðlindir. Á sama tíma og þessi málflutningur er uppi hafður hér á Alþingi er nefnd á vegum stjórnvalda, undir forustu ráðuneytisstjóra í viðskrn., að ég hygg, að móta tillögur um fjárfestingu erlendra aðila í íslensku atvinnulífi, þar á meðal að hleypa útlendingum inn í fiskiðnaðinn í landinu til jafns við Íslendinga, inn í fiskiðnaðarfyrirtækin í landinu. Og halda menn að það verði greið gata að halda útlendum hagsmunum utan við fiskveiðarnar ef þeir eru orðnir helmingseigendur að fiskiðnaðarfyrirtækjum hér á landi? Svari hver fyrir sig. Þetta eru nú fyrirvararnir sem þarna eru uppi hafðir. Og hæstv. viðskrh., sem stendur þessu máli nærri, hafði uppi málflutning á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda þann 15. mars, þremur dögum seinna en hæstv. utanrrh., varðandi efnahagssamrunann í Evrópu, gerði hann að umtalsefni og ræddi þar sérstaklega um þá fyrirvara sem uppi hafa verið í málflutningi manna, hér á Alþingi m.a., þar á meðal hæstv. forsrh., þar sem varað er við því sem við köllum yfirþjóðlegt vald. Hæstv. viðskrh. gerði það að sérstöku efni í ræðu sinni og undirstrikaði það undir lok hennar að hann gerði nú ekki mikið úr þessum fyrirvörum og leitaðist við að gera þá aðila broslega sem eru að vara við því í tengslum við samningaviðræður um hið evrópska efnahagssvæði að gangast ekki undir yfirþjóðlegt vald, afsala ekki löggjafarvaldi í landinu og dómsvaldi í þessu landi, valdi frá Alþingi og dómstólum á Íslandi. Til að menn skilji við hvað er átt ætla ég, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í örstuttan kafla úr ræðu hæstv. viðskrh. þennan dag á nefndu ársþingi:
    ,,Við þurfum að meta hvaða afleiðingar efnahagssamruninn í Evrópu hefur fyrir Íslendinga. Er ekki hugsanlegt að nauðsynlegt og eðlilegt sé að endurmeta inntak og merkingu hugtaka eins og sjálfstæðis og yfirþjóðslegs valds? Sjálfur er ég sannfærður um það að viðurkenning á yfirþjóðlegu valdi á vissum sviðum efnahagsmála mundi í reynd styrkja sjálfstæði þjóðarinnar. Mér virðist að sjálfstæði þjóða muni í vaxandi mæli ráðast af menningar- og félagslegum gildum.``
    Þetta er örlítill kafli í ræðu hæstv. ráðherra. Og hann sagði fleira og kom mér þá í hug ræðan sem flutt var í Þjóðminjasafni Íslands 16. febr., held ég að það hafi verið, 1963 af viðsk.- og menntmrh. á þeim tíma, Gylfa Þ. Gíslasyni, ræða sem fræg varð að endemum en gengur hér aftur ljósum logum í málflutningi hæstv. ráðherra Alþfl., þarna hjá hæstv. viðskrh.
    Ég vil hér og nú vara eindregið við þessu ferðalagi sem þarna er lagt upp í því að það er skammt undan

ef þær kröfur og óskir ganga upp sem hæstv. utanrrh. ber fram, öðrum fremur, þ.e. að ganga inn á þennan grundvöll fjórfrelsisins svokallaða í samningaviðræðum við Evrópubandalagið á vegum EFTA. Hann gerir sér það ljóst a.m.k., hæstv. viðskrh., að það muni fela í sér verulegt valdaafsal fyrir Ísland og fyrir þá sem taka þátt í slíku samstarfi sem þarna er verið að móta. Ég spyr talsmenn Sjálfstfl.: Hvernig líta þeir á þessi mál? Ég spyr hv. 1. flm. þessarar tillögu sem við ræðum hér: Hvert er hans viðhorf til þessara mála, til samninganna á vegum EFTA við Evrópubandalagið þar sem uppleggið er þetta og þar sem við blasir að krafan um aðgang að náttúrauðlindum mun ekkert síður mæta okkur en í beinum milliliðalausum tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið?
    Virðulegur forseti. Ég vildi vekja athygli á því, af tilefni umræðu um þessa tillögu, sem ég tel vera kjarnann í þeim málum sem við erum hér að fást við og sem brenna senn á Alþingi Íslendinga, a.m.k. á stjórnvöldum. Ég vil vekja athygli á því að Evrópubandalagið hefur ekki hafnað tvíhliða viðræðum eins og fram hefur verið haldið af ráðherrum ítrekað undanfarin missiri. Margnefndur Jacques Delors tók það sérstaklega fram í ræðu sem hann flutti í Strasbourg 26. sept. sl. að EFTA-ríkin ættu auðvitað leið í gegnum tvíhliða viðræður að sínum hagsmunum gagnvart Evrópubandalaginu, og Evrópubandalagið er önnum kafið þessa mánuðina í tvíhliða viðræðum við ríki í Austur-Evrópu og hefur gert við
þá tvíhliða samninga, að ég hygg við Sovétríkin, Pólland og Ungverjaland, og er með í undirbúningi samninga við önnur ríki þeim megin, þ.e. í austurátt. Eru það ekki tvíhliða viðræður? Hvernig dettur íslenskum stjórnvöldum í hug að bera það á borð að þetta bandalag muni til lengdar hafna því að taka upp slíkar viðræður við Íslendinga? Hitt er annað mál að við þurfum að gera okkur ljóst hvers er að vænta í þeim viðræðum og hvernig við ætlum að bregðast við. Þar eigum við að halda þétt um okkar hagsmuni, vísa frá öllum kröfum um aðgang að náttúruauðlindum á Íslandi og reisa kröfur okkar á sanngirni og því sjónarmiði að fiskafurðir eru okkar iðnvarningur, eru sá varningur sem við höfum að bjóða í viðskiptum og rökstyðja okkar mál með því að um það eigi að gilda hið sama og í sambandi við fullunnar iðnaðarvörur og annan varning sem við hleypum tollfrjálst inn til Íslands. Á þessum málum þarf að taka en menn eiga ekki að rasa um ráð fram þó að málið sé brýnt, þó að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni sem reiknað er á annan milljarð hvað snertir tolla t.d. af saltfiskafurðum og ferskum flökum, þá eigum við Íslendingar að gæta okkar í þessum samskiptum og ekki láta kaupa okkur til þess með nokkrum hætti að afsala okkur grundvallarþáttum í okkar sjálfstæði og í okkar yfirráðum á þeim auðlindum sem eru undirstaðan undir mannlífi í þessu landi.