Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. samgrh., varaformaður Alþb., yrði viðstaddur þessar umræður (Gripið fram í.) og nú kallar hann úr hliðarsal að svo sé, að hann hlýði hér á umræðurnar. En það er einmitt nauðsynlegt að forustumenn og ráðherrar Alþb. taki þátt í umræðum um þetta mikilvæga umræðuefni. Eins og menn hafa tekið eftir þá hafa þeir mjög svo skotið sér undan því í þeim miklu umræðum sem hér hafa farið fram í vetur. Þeir hafa gjarnan hlaupið úr þingsal eða séð einhverjar ástæður til þess að vera fjarverandi þegar þetta mál hefur komið til umræðu. En nú hefur hv. 2. þm. Austurl. talað með svo skýrum og afdráttarlausum hætti um þetta viðfangsefni að óhjákvæmilegt er að kalla eftir viðhorfum ráðherra Alþb.
    Það var athyglisvert að hv. 2. þm. Austurl. skyldi taka með svo ákveðnum hætti undir þá þáltill. sem hér er til umræðu með því að hæstv. ríkisstjórn hefur gengið svo langt fram í að hafna því að taka upp beinar tvíhliða viðræður til þess að tryggja útflutningshagsmuni Íslendinga á Evrópumarkaði. Og í fljótu bragði hefði maður haldið að þetta markaði kannski einhver tímamót og úr röðum stjórnarliðsins kæmi þá öflugur stuðningur við alhliða stefnu í Evrópumálefnunum, en hún byggist auðvitað á því hvoru tveggja, að halda áfram viðræðum á þeim grundvelli sem lagður hefur verið í samningum EB og EFTA og hins vegar að taka upp tvíhliða viðræður vegna okkar sérstöðu og okkar sérstöku útflutningshagsmuna með sjávarafurðir.
    Það er alveg ljóst að það mál sem hér er til umræðu er hluti af stærri heild. Það verður ekki slitið úr tengslum við heildarafstöðu okkar til Evrópubandalagsins. Það er líka jafnljóst að við getum ekki tryggt okkar hagsmuni nema við förum þessa tvíþættu leið, annars vegar í samfloti með öðrum ríkjum fríverslunarsamtakanna á þeim grundvelli sem þar hefur verið lagður og hins vegar í beinum viðræðum til að gæta okkar sérhagsmuna sem ekki eru þáttur
í hinu svonefnda fjórþætta frelsi sem er aðlögun okkar að löggjöf Evrópubandalagsins um innri markað. Það veldur þess vegna miklum vonbrigðum að hv. 2. þm. Austurl., eftir að hann hefur tekið undir óskir hér um tvíhliða viðræður, skuli lýsa svo neikvæðri afstöðu til þess þáttar málsins sem lýtur að hinum almennu EB--EFTA viðræðum.
    Allt varpar þetta enn skýrara ljósi á þá miklu erfiðleika sem hæstv. ríkisstjórn virðist þurfa að glíma við innan dyra vegna þessara mikilvægu hagsmuna. Þar sýnast sjónarmiðin ganga út og suður og hæstv. ríkisstjórn virðist ekki fram til þessa hafa náð því að marka skýra stefnu sem ótvíræður stuðningur sé við í stjórnarliðinu. Nú kemur hv. 2. þm. Austurl., fulltrúi eins stjórnarflokkanna í þeirri nefnd sem Alþingi hefur kosið til að fjalla um stefnumörkun af hálfu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu, og segir fullum fetum að hæstv. ríkisstjórn verði að endurskoða afstöðu sína til

EB--EFTA samninganna, kemur hér í þessari umræðu og segir að hæstv. ríkisstjórn verði að endurskoða afstöðu sína í þessum efnum. Hann segir fullum fetum að þar séu menn á villigötum og hann varar mjög sterklega við því ferðalagi, að halda áfram á þeirri braut. Og er þetta nú enginn aukvisi eða utangarðsmaður í röðum stjórnarflokkanna, heldur fulltrúi áhrifamesta flokksins í ríkisstjórn fram til þessa í Evrópustefnunefndinni.
    Hv. þm. heldur því jafnframt fram í ræðu sinni að tvísýnt sé um skynsemina í fríverslunarviðræðunum sem svo hafi verið nefndar með sjávarafurðir og fleiri vöruflokka á grundvelli hinna almennu EB--EFTA viðræðna, að þar kunni að felast hættur. Og hann fer háðungarorðum um þá fyrirvara sem hæstv. utanrrh. hefur gert fyrir Íslands hönd í þessum viðræðum og segir að þeir ,,tryggi hvergi nærri hagsmuni Íslands``, eins og ég hygg að hann hafi komist að orði. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þeir fyrirvarar sem hæstv. utanrrh. hefur gert séu í fullu samræmi við þá meginstefnu að við ætlum okkur að vera í alvöru þátttakendur í þessum viðræðum og ef þeir fyrirvarar verða víðtækari sé vafasamt að unnt sé að tala um það í alvöru að við séum þar þátttakendur.
    Hv. 2. þm. Austurl. ítrekar hér, að því er virðist, þá fyrirvara sem þingflokkur Alþb. hefur gert og reyndar birt þar sem fram kemur að Alþb. segist hafa algjöran fyrirvara að því er varðar alla samninga um fjármagnsflutninga í hinum væntanlegu samningum við Evrópubandalagið. Hæstv. utanrrh. hefur margsinnis lýst því yfir að hann ætli að hafa þessa samþykkt að engu og hann hafi með öllu hafnað þeirri kröfu Alþb. að kynna þessa fyrirvara sem hluta af stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir samstarfsaðilum okkar í fríverslunarsamtökunum og viðsemjendum okkar í Evrópubandalaginu.
    Nú vil ég óska eftir því við varaformann Alþb. sem hæstv. samgrh., sem lætur svo lítið að vera viðstaddur þessa umræðu, að hann geri hér fulla grein fyrir afstöðu ráðherra Alþb. í þessum efnum. Er það rétt sem hæstv. utanrrh. hefur gefið í skyn að ráðherrar Alþb. framfylgi allt annarri stefnu en þingflokkur Alþb.? Er það rétt að ráðherrar Alþb. hafi samþykkt þá útfærslu á fyrirvörum af okkar hálfu sem hæstv. utanrrh. hefur lýst og hafi þar með með öllu hafnað þeim fyrirvörum sem þingflokkur Alþb. gerði með samþykkt sem birt var hér
opinberlega og lesin af formanni flokksins 29. nóv. sl. hér á Alþingi? Það er nauðsynlegt í framhaldi af ræðu hv. 2. þm. Austurl. að varaformaður Alþb., hæstv. samgrh., geri í þessari umræðu skýra grein fyrir þessu.
    Það liggur í augum uppi að við það verður auðvitað ekki unað að hér sitji ríkisstjórn, þegar svo mikilvægir samningar eru í húfi, sem hefur jafnfjölbreytilegar skoðanir og ólíkar á þessu mikla verkefni. Auðvitað vænti ég þess að hæstv. samgrh. staðfesti hér að ráðherrar Alþb. hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir muni ekkert gera með fyrirvara þingflokksins í þessu efni heldur styðji þeir þá fyrirvara sem hæstv. utanrrh. hefur gert. Ég vænti þess

að hæstv. samgrh. geti staðfest að svo sé því að það skiptir auðvitað miklu fyrir Ísland út á við að þeir þverbrestir séu ekki af hálfu íslenskra stjórnvalda sem draga úr trausti á því að Ísland sé í alvöru í þessum viðræðum. Það er hins vegar óhjákvæmilegt, eftir þá ræðu sem hér hefur verið flutt, að hæstv. samgrh. svari skýrum spurningum um þetta efni: Hverjir eru þessir fyrirvarar? Hafa ráðherrar Alþb. fallið frá fyrirvörum þingflokkins? Hafa þeir samþykkt fyrirvara hæstv. utanrrh.? Um þetta þurfa að fást hér alveg skýr svör. Er það stefna Alþb., sem hv. 2. þm. Austurl. var að lýsa, að það eigi einvörðungu að fara í beinar tvíhliða viðræður um afnám tolla vegna útflutnings á sjávarafurðum og líta á hinar almennu EB--EFTA viðræður sem meiri háttar hættuspil? Er það líka stefna ráðherra Alþb. eða fylgja þeir stefnu hæstv. utanrrh. í því efni? Eru þeir andvígir sjónarmiðum hv. 2. þm. Austurl. að þessu leyti og samþykkir hæstvirtum utanríkisráðherra? Með hverjum standa ráðherrar Alþb.?
    Alþingi getur ekki sætt sig við að þeir hlaupi hér út úr þingsalnum í hvert skipti sem þessi mál koma til umræðu og að þeir geri ekki grein fyrir afstöðu sinni í þeim efnum. Það er kominn tími til að þeir taki þátt í umræðunni og svari þessum spurningum.
    Það er líka nauðsynlegt að þeir svari fyrir sitt leyti hvaða afstöðu þeir taka til allra þeirra stóru mála sem við þurfum að taka á og fylgja beint í kjölfarið á samningunum við Evrópubandalagið. Mörg þeirra eru reyndar þess eðlis að við þurfum að taka ákvarðanir áður en formlega verður gengið frá samningum við Evrópubandalagið. Ég minni hér á að hæstv. viðskrh. hefur sagt fullum fetum að það verði að breyta ríkisbönkum í hlutafélög á þessu ári til að bankakerfið verði undirbúið, verði búið undir að mæta erlendri samkeppni þegar gengið hefur verið frá samningunum við Evrópubandalagið og tengsl okkar við löggjöf innri markaðar Evrópubandalagsins.
    Er hæstv. samgrh., varaformaður Alþb., tilbúinn að styðja nauðsynlegar lagabreytingar í þessu skyni? Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir margsinnis, vikum og mánuðum saman, að hann sé tilbúinn með tímasetta áætlun til að breyta gjaldeyrisreglunum, til að koma gjaldeyrisreglunum í sambærilegt horf við það sem Norðurlöndin ætla að vera búin að gera um mitt þetta ár og er óhjákvæmilegt að gera í tengslum við þessa samninga. Er hæstv. samgrh. tilbúinn að samþykkja þetta? Eða er hugsanlegt að ástæðan fyrir því að hæstv. viðskrh. kemur ekki fram margendurteknum yfirlýsingum sínum um þetta efni sé sú að ráðherrar Alþb. hafi verið að þvælast þar fyrir? Það er líka nauðsynlegt að hæstv. samgrh. svari spurningum af þessu tagi í umræðunni.
    Ég vildi svo að lokum leggja á það áherslu að það verður æ skýrara hversu mikilvægt er að móta ákveðna stefnu og framfylgja henni að því er varðar samningana við Evrópubandalagið. Það er mjög mikilvægt að viðurkenna að sá ferill þarf að vera tvíþættur, annars vegar hinar almennu viðræður sem nú fara fram á vegum EFTA og EB og hins vegar

beinar viðræður til að tryggja hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum. Við verðum að fá viðurkenningu á því að sjávarafurðir Íslendinga jafngilda iðnaðarvörum annarra þjóða. Það skiptir þess vegna höfuðmáli fyrir okkur að fá viðurkenningu á því af hálfu viðsemjenda okkar innan Evrópubandalagsins. Þessir samningar eru margþættir og hafa mjög mikil áhrif á íslenska hagsmuni. Þeir eru auðvitað miklu víðtækari en einvörðungu að því er varðar útflutning á sjávarafurðum og koma beint við marga þætti efnahags- og fjármálastjórnar í landinu, en hjá því verður aldrei komist að útflutningur sjávarafurða verður uppistaða í verðmætasköpun landsmanna. Við verðum því að fá þær viðurkenndar með sama hætti og aðrar þjóðir fá iðnaðarvörur viðurkenndar í þeim frjálsu vöruviðskiptum sem fram eiga að fara á evrópska efnahagssvæðinu. Vænlegast í því efni er að halda á málum með þeim hætti sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til og horft verði á málið frá víðum sjónarhóli.
    Þetta vil ég fyrst og fremst leggja áherslu á hér að lokum, frú forseti, en ítreka óskir mínar til varaformanns Alþb., hæstv. samgrh., að hann svari hér fyrir hönd Alþb. um afstöðu ráðherra flokksins í þessum efnum. Það er kominn tími til eftir margra mánaða umræðu að hún komi loksins fram í dagsljósið.