Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að verða við óskum hv. 1. þm. Suðurl. og fara yfir afgreiðslu á þessu máli eins og hún snýr að Alþb. Og ekki er nema sjálfsagt og ljúft og skylt að verða við því í hvert sinn sem hv. 1. þm. Suðurl. gengur í lið með okkur alþýðubandalagsmönnum og hvetur okkur til þess að koma okkar afstöðu og málflutningi á framfæri og vera honum innan handar við það.
    Ráðherrar Alþb. áttu aðild að bókun í ríkisstjórninni. Þegar sú bókun var afgreidd um mánaðamótin nóvember-desember sl. samþykktu þeir hana á grundvelli og með vísan til samþykktar sem þingflokkur Alþb. hafði þá gert, um áframhald könnunarviðræðna EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins 29. nóv. 1989. Þar er einfaldlega skýrð sú afstaða þingflokks Alþb. til áframhalds málsins sem síðan hefur verið við lýði og er við lýði, að það skuli meta á hverju stigi, eftir því hver framgangur könnunarviðræðnanna er, hvernig haldið verði á málinu áfram.
    Eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt dregur ekki til þess að sest verði niður í eiginlegar samningaviðræður fyrr en síðla vors eða snemma sumars að haldið er. Fram að þeim tíma eru í gangi undirbúnings- og könnunarviðræður og málin skýrast væntanlega dag frá degi og viku frá viku. Þingflokkur Alþb., ásamt ráðherrum flokksins, hefur áskilið sér rétt til að skoða málið á hverju stigi í ljósi framvindu þess og eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um einstök atriði út frá þeim könnunarviðræðum.
    Þetta á hv. 1. þm. Suðurl. að geta skilið eins og aðrir sem felur þetta í sér sem ég hef nú hér lýst. ( Gripið fram í: Hvað um fyrirvarana?) Varðandi fyrirvara af Íslands hálfu liggur það fyrir að það er einmitt viðfangsefni þessara vikna að útfæra þá í ýmsum greinum og skýra í könnunarviðræðunum í hverju þeir felast í smáatriðum, eða ítarlegri atriðum en dregin voru upp þegar
fyrirvararnir voru fyrst settir fram. Sérstakir vinnuhópar, einir fimm að tölu, hafa það viðfangsefni þessa dagana að koma afstöðu Íslands og fyrirvörum á framfæri að þessu leyti.
    Um önnur atriði þessa máls sem hv. 1. þm. Suðurl. spurði hér um, svo sem þau hvort ekki þyrfti að rjúka upp til handa og fóta og breyta ríkisbönkunum í hlutafélög, vegna þess að það væri nauðsynlegur undirbúningur að þessum samningum við Evrópubandalagið, hafa engar ákvarðanir verið teknar um það. Ekkert liggur fyrir í formi niðurstöðu í ríkisstjórninni um að vilji sé yfirleitt fyrir því að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög frekar en orðið er. Vísa ég þar m.a. til yfirlýsingar sem hæstv. forsh. hefur gefið um það efni og þarf ekki frekari orð um það að hafa í raun og veru. Enda hef ég ekki skilið að það væri eitthvert skilyrði sem ekki yrði fram hjá komist, þó svo að til einhverra samninga kæmi, að ekki mættu vera til ríkisbankar. Aldrei hef ég heyrt

það fyrr og væru það þá ný vísindi og fróðlegt að fá þau fram ef svo væri. Hins vegar kann hæstv. viðskrh. að hafa þá skoðun að æskilegra væri að þeir væru hlutafélagabankar, en þá er það hans skoðun og á eftir að útkljá það mál.
    Mér finnst það líka heldur bráðræðislegt að rjúka til breytinga á stjórnkerfi eða skipan mála hjá okkur eins og það liggi nú þegar fyrir og sé sjálfgefið að af einhverri tiltekinni samninganiðurstöðu verði í þessu ferli. Er ekki rétt að fá þær niðurstöður fyrst fram og grípa í framhaldinu til þeirra ráðstafana sem þá kunna að verða nauðsynlegar af þeim sökum? Ég held að málið sem slíkt sé í eðlilegu ferli. Það hefur verið afstaða meiri hluta þingflokks Alþb. að ekki væri skynsamlegt að hverfa frá þessum viðræðum að svo stöddu, það væri eðlilegt að láta þær halda áfram. En það er gert á grundvelli þeirrar samþykktar sem þingflokkurinn gerði og stendur enn. Þetta er afstaða þingflokksins og studd af ráðherrum hans enda áttu þeir aðild að samþykktinni, eða a.m.k. þeir þeirra sem í þingflokknum sitja með atkvæðisrétti.