Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Tillaga sú til þál. sem hér er til umræðu gefur, eins og fram hefur komið, tilefni til almennra umræðna og skoðanaskipta um samninga Íslendinga við Evrópubandalagið eina sér og ásamt öðrum þjóðum.
    Ég er þeirrar skoðunar, eins og reyndar kom fram í máli hv. 1. þm. Suðurl., að ekki sé ástæða til að slíta þann þátt málsins sem í þáltill. er settur fram undir fororðinu að auka við bókun 6 með fríverslunarsamningi Íslendinga og Evrópubandalagsins frá 1972 sem gekk að fullu í gildi árið 1976 úr samhengi við annað. Ég held það væri ekki hagsmunum okkar til framdráttar að fara í málið á þann einfalda hátt. Með þessu er ég ekki að segja að sú hugsun sem býr að baki tillögunni eigi ekki fullkominn rétt á sér. Auðvitað leitum við eftir sem hagstæðustum kjörum, sem bestum aðgangi fyrir útflutningsvörur okkar til Evrópubandalagssvæðisins og hins sameiginlega evrópska efnahagssvæðis. Við höfum þegar náð þeim árangri að fríverslun með fisk er undirstöðuatriði í samningaviðræðum EFTA sameiginlega og því er, á þessu stigi máls, eðlilegast að halda því máli fast fram um þann farveg.
    Þær könnunar- og undirbúningsviðræður sem nú hafa staðið um langt skeið eru svo vel á veg komnar að formlegar samningaviðræður milli EFTA og Evrópubandalagsins gætu hafist snemma á því sumri sem í hönd fer og þeim kynni að ljúka um eða upp úr næstu áramótum, ýmsir telja þetta að vísu bjartsýnisáætlun. Við þurfum brátt að móta okkur ákveðna afstöðu í þessum samningaviðræðum. Þar á meðal að skilgreina á hvaða sviðum við sækjumst eftir varanlegum undanþágum vegna lífshagsmuna okkar frá hinum almennu reglum sem gilda munu og á hvaða sviðum við leitum eftir umþóttunartíma, aðlögun að þeim rétti sem ríkja mun á hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði.
    Á þessu stigi máls leita EFTA-ríkin sex eðlilega að samnefnara í þessum efnum. Ég á frekar von á því að þau muni, þegar til hinna formlegu
samningaviðræðna kemur og í aðfararumræðum að þeim samningaviðræðum, kynna í allmörgum greinum að á tilteknum sviðum sækist mörg EFTA-ríkin eftir undanþágum, frávikum eða umþóttunartíma. Þetta er samningaaðferðin sem valin hefur verið og ég tel skynsamlegt og rétt að fylgja henni. Þetta breytir því hins vegar ekki að Íslendingar hafi samhliða uppi viðleitni til að hafa tvíhliða samband við Evrópubandalagið og einstök ríki þess. Það hefur líka verið gert um sérmál okkar og þá fyrst og fremst um aðgang íslenskrar sjávarvöru að hinum evrópska markaði.
    Ég minni á það að ég átti sem viðsk.- og iðnrh. viðræður við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í janúarmánuði sl. Það er búist við sjávarútvegsframkvæmdastjóra bandalagsins, Manuel Marin, hingað til lands til viðræðna við sjútvrh. í maí. ( Gripið fram í: Um hvað?) Til þess að ræða almennt

við Íslendinga um sjávarútvegsmál. (Gripið fram í.) Jú, virðulegi þm., ég tel að þar sem við erum hér ábyrgðarmenn íslensku fiskveiðilögsögunnar, sem góðu heilli heyrir undir okkur, allt að 200 mílum og lengra sums staðar og hv. þm. vill að hún nái mjög langt, sé þetta okkar ábyrgðarhluti í hinu alþjóðlega samfélagi sem við getum ekki rækt til fulls nema að ræða við nágranna okkar á þessu hafsvæði um það hvernig það verði best gert, okkur sjálfum og öllum þjóðum til hagsbóta. Það er ekki unnt að leysa slík mál eingöngu á grundvelli þjóðlegra athafna. Við verðum að hafa alþjóðlega samninga. Og þar kem ég náttúrlega að því sem er mjög mikilvægt, að spurningin um valdaframsal til alþjóðlegra stofnana, sem sumir kjósa að kalla yfirþjóðlegar stofnanir og hv. 2. þm. Austurl. vék nokkuð að í sínu máli, mun án efa brenna heitt á mörgum okkar á næstu missirum. Það er eðlilegt, því hvenær sem gerður er milliríkjasamningur hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar. En það er erfitt að ímynda sér hvernig hið sameiginlega evrópska efnahagssvæði getur orðið meira en orðin tóm ef ekki verður komið á fót ýmsum sameiginlegum stofnunum. Ég nefni sem dæmi dómstól til að fjalla um viðskiptadeilur milli ríkja og milli einstaklinga sem eiga viðskipti við aðila í öðru ríki en þeir eru sjálfir búsettir í. Þessi mál eru hin yfirþjóðlegu mál. Þau verður að athuga vandlega og fordómalaust og ég vil leyfa mér að minna hv. 2. þm. Austurl. á það enn á ný að réttur smáríkja og réttur þegna smáríkja er jafnan best tryggður með formlegum alþjóðasamningum. Þangað sækja þau sinn rétt, þau sækja sinn rétt í þjóðaréttinn, í alþjóðlega löggjöf. Það er sjónarmiðið sem býr að baki þeim orðum sem hv. þm. gerði mér þann greiða að vitna til áðan og ég er viss um að lýsir rétt afstöðu Íslendinga til hins væntanlega sameiginlega evrópska efnahagssvæðis.
    Við skulum jafnan hafa í huga að fram undan eru ákaflega flóknir samningar sem við þurfum að búa okkur vandlega undir. Við verðum jafnframt að vinna að undirbúningi að ýmsum breytingum hér sem við þurfum að gera hvort sem samningar nást við Evrópubandalagið eftir þeim farvegum sem nú eru farnir eða ekki. Það er einfaldlega þannig að við þurfum að búa okkur undir viðskipti, búa okkar atvinnulíf undir viðskipti sem einkennast munu af Evrópubandalaginu og þeim samningum sem það gerir við önnur ríki, þær viðskiptareglur, þá
viðskiptahætti sem munu verða alls ráðandi á okkar mikilvægasta markaðssvæði þegar kemur fram í ársbyrjun 1993.
    En ég vík aftur að máli hv. 1. þm. Suðurl. Það vakti í máli hans að ríkisstjórnin hefði hafnað því að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið, ég hygg að ég muni rétt það sem hann sagði. Ríkisstjórnin hefur ekki hafnað því. Ég minni á það að í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 23. nóv. 1989, ef ég man daginn rétt, var einmitt ítrekað að halda skyldi áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um hagsmunamál Íslendinga sérstaklega um leið og Íslendingar tækju þátt í EFTA- og

Evrópubandalagsviðræðunum.
    Ég vil líka víkja að öðru. Hv. 1. þm. Suðurl. sagði hér áður að ég hefði sagt að það yrði að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagsbanka á þessu ári til að við gætum tekið þátt í þessum samningum. Þetta er ekki alls kostar rétt. Ég hef vissulega sagt það og stend við þá skoðun mína hvar og hvenær sem er að það sé æskilegt að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagsbanka sem í upphafi yrðu áfram í eigu ríkisins. Eignarhald á þeim gæti síðan e.t.v. færst frá ríkinu eftir því sem þeir þyrftu að afla sér viðbótarstofnfjár með sölu hlutabréfa til almennings eða fyrirtækja. Ég er viss um að þetta sjónarmið verður ofan á í fyllingu tímans. Það er erfitt að koma auga á aðra leið sem getur útvegað bönkunum aukið eigið fé í samræmi við alþjóðlegar reglur sem er ætlað að tryggja öryggi innstæðueigendanna og getu bankanna til þess að veita atvinnulífinu frambærilega þjónustu. Þetta er hins vegar ekki mál sem er beinlínis tengt Evrópubandalagsviðræðunum þótt það sé skylt þeim. Það þarf að vanda undirbúning þessa mikla máls og tryggja hvert skref í því og ætla til þess góðan tíma. Ég teldi æskilegt að stefna í málinu yrði mótuð fyrir lok þessa árs, en alls ekki hef ég nokkurs staðar sagt eða mun halda því fram að slík breyting þurfi að vera um garð gengin fyrir lok þessa árs, ella gætum við ekki staðið við okkar hlut í væntanlegum samningum við Evrópubandalagið. Hafi það mátt skilja af einhverju því sem ég hef sagt vil ég leiðrétta það. En ég endurtek að ég er þessarar skoðunar, eins og kom fram hér í máli hæstv. samgrh., það get ég staðfest.
    Líku máli gegnir um gjaldeyrismálin. Ég hef, frá því að ég tók við starfi viðskrh., tvívegis staðið fyrir rýmkun þeirra reglna og veitt t.d. almennar heimildir til vörukaupalána. Ég hef líka látið semja drög að nýrri reglugerð um skipan gjaldeyrismála í heild þar sem gert er ráð fyrir því að gjaldeyrisreglurnar verði rýmkaðar, ýmist við gildistöku slíkrar reglugerðar eða í áföngum. Þar hef ég í huga alllangan tíma, t.d. fram til ársins 1993 að Íslendingar yrðu á þeim tíma búnir að samræma sínar reglur þeim sem algengastar eru í löndunum hér í kring. Það er hins vegar mikilvægt að þessi tímasetta áætlun verði þá fyrst mótuð til fulls að við höfum mat á framvindu samningaviðræðnanna, m.a. við Evrópubandalagið innan EFTA-hópsins. Það mál mun væntanlega skýrast á þessu vori og að sjálfsögðu verður að móta afstöðu í þessum málum sem og öðrum. Ég held að þetta mál allt, fjármagnsmarkaðsmálið, sé allvel á vegi en bið menn að sýna biðlund með því að þær tillögur birtist í einstökum greinum, þar til við sjáum hvernig vindur fram samningunum innan EFTA-hópsins og milli hans og Evrópubandalagsins á næstu mánuðum.