Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef nýlega, við lok umræðna um skýrslu utanrrh., gert allrækilega grein fyrir mínum viðhorfum til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir þannig að ekki er þörf á að bæta við mjög mörgum orðum. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli er m.a. mörkuð í bókun þeirri í ríkisstjórn sem forsrh. kynnti hér á Alþingi fyrir áramótin og lýsir tvennu. Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin samþykkir og felur utanrrh. að halda áfram þátttöku fyrir Íslands hönd í undirbúnings- og samningaviðræðum þeim sem fram undan eru á grundvelli niðurstaðna könnunarviðræðnanna, eins og þær voru tilgreindar fyrst og fremst í tveimur skjölum, þ.e. í sameiginlegri skýrslu stjórnarnefndar beggja aðila, EFTA og EB, sem birt var 20. okt. og í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherranna þann 19. des. Jafnframt var því lýst yfir, eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh., að ríkisstjórnin vildi halda áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um sérmál Íslands og ekki hvað síst okkar sjávarútvegshagsmuni. Ef menn vilja draga þá ályktun af þessum tillöguflutningi og umræðum sem spunnist hafa af honum um að mikill ágreiningur sé um þetta tvennt, þ.e. að það eigi að velja annars vegar EFTA-leiðina eða tvíhliða viðræður, þá er það á misskilningi byggt.
    Ríkisstjórnin hefur í orði og verki lýst því yfir að við sækjum fram í þessu máli eftir báðum þessum leiðum. Annars vegar er EFTA-leiðin sem tekur til miklu víðtækara sviðs, hins vegar eru tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið sem eru út af sérmálum Íslendinga. Í raun og veru er spurningin aðeins ein: Hvort og hvenær er þá tímabært að óska eftir formlegum tvíhliða samningaviðræðum við Evrópubandalagið um sérmál Íslands? Það er ljóst að af hálfu ríkisstjórnarinnar er það mat ráðandi að ekki sé tímabært að svo stöddu að leita eftir formlegum samningaviðræðum. Hins vegar hefur aldrei verið útilokað að til þess kunni að koma en það liggur ekki fyrir nú.
    Í annan stað er þess að geta þegar þetta er metið að ef við óskum eftir formlegum samningaviðræðum við Evrópubandalagið um tollamál þýðir það einfaldlega að við erum að beina því erindi til framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins sem hefur ein umboð til að semja um þau mál af hálfu Evrópubandalagsins, þ.e. um ívilnanir eða lækkanir á tollum. Og þá er jafnframt vitað að ef við erum að ræða um ívilnanir eða lækkun á tollum vegna innflutnings fiskafurða til Evrópubandalagsins, þá hefur framkvæmdastjórnin lýst þeirri stefnu sinni í samskiptum við aðrar þjóðir að hún semji um tollaívilnanir varðandi fiskafurðir á grundvelli kröfu bandalagsins sem byggð er á hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu um veiðiheimildir í staðinn. Þannig að ef menn spyrja: Hvers vegna er ekki tímabært að setja fram þessa kröfu nú þegar? þá kemur tvennt til: Forsrh. hefur vísað til þeirra raka að það kunni að spilla samningsstöðu okkar í hinum almennu

samningaviðræðum ef við, um leið og við óskum eftir atfylgi EFTA-ríkjanna, og höfum reyndar fengið það, í hinum almennu samningum að baki kröfunnar um fríverslun með fisk, tökum á sama tíma upp tvíhliða formlegar samningaviðræður um það mál kynnum við þar með að vera að gera þeim lífið heldur auðvelt í stuðningi við okkur um það mál. Með öðrum orðum, þeir gætu brugðist við með þeim hætti að segja: Þið hafið þegar efnt til tvíhliða formlegra samningaviðræðna um það mál. Þýðir það ekki ósköp einfaldlega að þið hafið tekið það að ykkur? Og þar með telji þeir sig vera lausa mála við að styðja þessar kröfur við samningaborðið fyrir hönd EFTA-ríkjanna í heild.
    Hin meginástæðan fyrir því að þetta er álitaefni er auðvitað sú hvort við viljum bjóða upp á framsetningu á kröfunum um veiðiheimildir á þessum tíma. Sá sem fer fram á formlegar samningaviðræður um tollaívilnanir verður að sjálfsögðu að vera við því búinn að fá þær kröfur fram. Hann getur reyndar gengið að því sem gefnu, en ef hann er ekki reiðubúinn að svara því á annan veg en þann að hann vilji ekki einu sinni hlusta á slíkan málflutning þá ná slíkar viðræður væntanlega ekki mikið lengra. Og ef þetta yrði til þess að opinbera sundrungu í okkar röðum held ég að það væri ekki til þess fallið að styrkja samningsstöðu okkar á viðkvæmu augnabliki.
    Þetta er held ég það sem ástæða er til að árétta beinlínis að gefnu tilefni þessarar þáltill. Að sjálfsögðu er hægt að fara út um víðan völl um þessi mál sem ég ætla ekki að gera hér. Ég árétta einungis þá stefnu sem mótuð hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar og það umboð sem utanrrh. byggir á, þ.e. bókun sem felur í sér þetta tvennt, umboð til að halda áfram undirbúnings- og samningaviðræðum annars vegar og jafnframt til að halda áfram þessum tvíhliða viðræðum. En við áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til þess að meta það hvenær það þjónaði best hagsmunum Íslands að óska eftir formlegum tvíhliða viðræðum.
    Að því er varðar spurninguna um hvað kunni að gerast að 20 árum liðnum, árið 2010, og hverjir eru reiðubúnir að éta hattinn sinn út af veðmálum um það efni held ég að menn eigi ekki að hafa um það stór orð. Það hefði vafist fyrir flestum að spá fyrir um þróun mála í Austur-Evrópu á miðju síðasta ári og það er hverju orði sannara sem sagt hefur verið að atburðarásin í Evrópumálefnum
er svo hröð að það er ekki á margra færi að slá neinu föstu um það hversu hratt hlutirnir gerist. Hitt er svo annað mál að allir samningar milli þeirra ríkja sem utan Evrópubandalagsins standa við það, hvort sem þeir fara fram með tvíhliða viðræðum eða ekki, snúast um sömu málin. Þeir snúast um það að viðkomandi ríki geri ráðstafanir og semji um það að laga sig að grundvallarreglum samrunaferilsins í Evrópu. Með öðrum orðum, það eru samningar um fríverslun, það eru samningar um tolla, það eru samningar um einn fjármagnsmarkað, það eru samningar um einn þjónustumarkað, það eru samningar um búsetu- og

atvinnuréttindi og það eru samningar um samstarfsverkefni eins og við þekkjum t.d. af Lúxemborgarferlinum.
    Sá sem heldur því fram að líkur bendi til að unnt sé að ná fyrr niðurstöðum eftir tvíhliða leiðinni hefur held ég ekki hugsað það mál til enda. Í raun og veru er hér um sama viðfangsefnið að ræða. Það tekur óhjákvæmilega langan tíma. Við þekkjum það af reynslunni hversu langan tíma það tók fyrir ríki sem stóðu utan Evrópubandalagsins á þeirri tíð að semja sig inn í bandalagið. Það er því með öllu ósannað mál og reyndar afar ólíklegt að ríki sem hæfi slíka tvíhliða samninga gæti náð niðurstöðum fyrr. Samkvæmt opinberum yfirlýsingum Evrópubandalagsins er það reyndar svo að Evrópubandalagið er ekki reiðubúið til þess nú að taka upp slíkar viðræður, nema í undantekningartilvikinu Austur-Þýskaland, og hefur vísað til þess að slíkum samningum verði naumast sinnt að neinu ráði fyrr en eftir 1993. Í reynd þýðir það að ný ríki sem sækja um nú verða ekki komin með fulla aðild fyrr en 1995 vegna þess að það er alla vega tveggja ára mál að ljúka slíkum samningum.
    Hvort heldur menn vilja líta á þá samningaleið sem EFTA-ríkin hafa valið sér eða einhverja fræðilega möguleika á tvíhliða viðræðum eru viðfangsefnin hin sömu. Og tíminn sem það tekur að ná slíkum samningum væntanlega svipaður. Munurinn er bara sá að við erum búnir að ljúka í EFTA-viðræðunum ítarlegum könnunarviðræðum. Að baki þeirri vinnu liggja þúsundir blaðsíðna af vinnuskjölum. Vandamálin hafa verið skilgreind. Löggjöf hefur verið borin saman. Lausnir hafa verið lagðar fram og það er orðið samkomulag um yfirgnæfandi meiri hluta af þeim málefnum sem um á að semja. Um leið og við lýsum okkur reiðubúna til þess að fallast á hin sameiginlegu lög og reglur Evrópubandalagsins á samningssviðinu sem lagalegan grundvöll evrópsks efnahagssvæðis þýðir það ósköp einfaldlega að efnisleg yfirferð yfir samningssviðið er að verulegu leyti búin. Þegar góðviljaðir menn vilja gerast ráðgjafar okkar og veðja hattinum sínum um það að öll Evrópuríki sem nú standa utan EB verði komin inn í það bandalag eða orðin aðilar að nánu evrópsku samstarfi 20 árum seinna. Það má vel fara svo að á það reyni miklu, miklu fyrr. En það geta líka verið samningar um nýtt sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði sem tekur til miklu fleiri ríkja en þeirra 18 sem við ræðum mest um nú, þ.e. Evrópubandalagið og EFTA-ríkin, vegna þess að ef við erum bjartsýn á að Austur-Evrópuríkin nái sér á tiltölulega skömmum tíma aftur á legg og þeim takist vel að stýra sínum málum frá miðstýrðum ríkisbúskap yfir til markaðskerfis og blandaðs hagkerfis, fjölflokkalýðræðis og réttarríkis, þá getur það gerst miklu fyrr en margir nú hugsa að þessi ríki finni aftur sinn sess í Evrópusamstarfi framtíðarinnar.