Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Með því að hæstv. samgrh. fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar hann freistaði þess að svara hér nokkrum einföldum spurningum sem fyrir hann voru lagðar þá óska ég eindregið eftir því að hann verði á ný kallaður til þessarar umræðu og svari frekari fyrirspurnum þar að lútandi. En fyrst vildi ég, frú forseti, víkja örfáum orðum að ræðu hæstv. utanrrh. sem hér var að ljúka máli sínu.
    Ég verð enn að segja að ég verð fyrir vonbrigðum með afstöðu hans til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og mælir fyrir um beinar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið vegna útflutningshagsmuna okkar á sjávarafurðum. Þó ber að geta þess sem gott er og skynsamlegt. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra öðru hvoru upp á síðkastið og í þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan að nú geti það verið spurning um hvenær beinar viðræður verði teknar upp. ( Utanrrh.: Hvort.) Hvort og hvenær. Það er rétt, hvort og hvenær, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. En ljóst er að hæstv. ráðherra sagði þetta mikilvæga orð, hvenær. Í því felst auðvitað svolítið viðurkenning, ekki síst í ljósi þess hvernig hæstv. ríkisstjórn brást við fyrst þegar þessi ósk var sett fram. Þá ætlaði allt af göflunum að ganga hér í Alþingi og í fjölmiðlum með meiri hneykslunar- og upphrópunarræðum en í langan tíma eða jafnvel áratugum saman hafa heyrst hjá forustumönnum í íslenskum stjórnmálum. Svo hneykslaðir voru hæstv. ráðherrar á þessari kröfu. En því meir sem járnið hefur verið hamrað, þá viðurkenna þeir smám saman meginrökin á bak við þessa tillögu. Og nú er svo komið að þeir eru farnir að tala um hvenær að þessu komi. Vilja enn tengja það skilyrðinu hvort, en ég er sannfærður um að því meir sem járnið verður hamrað áfram, þá mun það mikilvæga orð falla niður úr þeirra orðasafni í þessu samhengi og á endanum hljóta þessir ágætu menn að fallast á þá stefnumörkun sem hér er lögð til.
    Hæstv. ráðherra segir auðvitað réttilega að hæstv. ríkisstjórn hafi átt tvíhliða kynningarviðræður við einstaka aðila innan Evrópubandalagsins og ég dreg ekki úr mikilvægi þeirra. Ég lít svo á að þær hafi haft mjög mikla þýðingu og þeim á að halda áfram. En það er reginmunur á slíkum tvíhliða kynningarviðræðum og beinum viðræðum um hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum og viðurkenningu á því að um þær gildi sömu reglur og iðnaðarvörur annarra landa. Það er verið að óska eftir þessum beinu viðræðum og ég vænti þess, þó að stolt hæstv. ráðherra sé mikið, að þeir taki ekki allt of langan tíma í það að kyngja þessari einföldu staðreynd því við höfum ekki yfir að ráða allt of miklum tíma í þessum efnum.
    En rökin sem hæstv. ráðherra flutti gegn því að fara í þessar viðræður strax voru þau að við mundum í fyrsta lagi taka á okkur of mikinn þunga í þessari kröfugerð og létta, ef ég skildi hann rétt, þunganum af fríverslunarsamtökunum.
    Að þessum ummælum sögðum vil ég fyrst og

fremst minna á að þunginn í þessari kröfu mun alltaf hvíla á Íslendingum, ekki síst eftir að Norðmenn fóru að auka styrki sína í sjávarútvegi þrátt fyrir Oslóarsamkomulagið í fyrra um afnám styrkja. Það erum við fyrst og fremst sem höfum hagsmuna að gæta og við getum ekki vænst þess að aðrar þjóðir muni leggja mikinn þunga þar í. Það gildir þess vegna einu hvaða leið er farin. Þunginn mun alltaf hvíla á okkur og við eigum ekkert að vera að skjóta okkur undan því að axla þá byrði.
    Í annan stað færði hæstv. ráðherra þau rök gegn því að við færum í þessar umræður strax að við mundum þá opna fyrir kröfu Evrópubandalagsins um fiskveiðiheimildir. Ég vil bara minna hæstv. ráðherra á að hann hefur sjálfur opnað fyrir þessa kröfu með óskinni um fríverslun með sjávarafurðir. Vegna þess að um leið og hún var lögð fram af EFTA-ríkjunum svaraði Evrópubandalagið um hæl og sagði: Ef þið óskið eftir almennum viðræðum um fríverslun með fisk þá óskum við eftir viðræðum um sameiginlega fiskveiðistefnu okkar. Þessi rök eru gjörsamlega út í bláinn vegna þess að Evrópubandalagið svaraði um hæl, um leið og EFTA setti fram kröfuna um fríverslun með fisk: Þá viljum við fá umræður um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu. Þannig að hæstv. ráðherra er búinn að opna fyrir þessa umræðu. Hún skiptir hins vegar nákvæmlega engu máli eins og hér hefur margsinnis verið bent á, m.a. af hv. 1. flm. till.
    Það liggur ljóst fyrir að Íslendingar ætla ekki að veita Evrópubandalaginu veiðiheimildir hér eða gefa eftir rétt sinn til fiskveiðilögsögunnar. Það sjónarmið er að öðlast viðurkenningu smám saman innan Evrópubandalagsins að það verði að virða og viðurkenna þessa sérstöðu Íslendinga. Það hefur komið fram í ummælum ýmissa forystumanna Evrópubandalagsins og ýmissa ríkja Evrópubandalagsins og að því leyti hafa hinar tvíhliða könnunarviðræður verið til góðs. Það skal lögð áhersla á að þær hafa gert að verkum að margir
forystumanna Evrópubandalagsins hafa næmari skilning á stöðu Íslands. Þess vegna hygg ég að tími sé kominn til að hefja, jafnhliða hinum almennu EB-EFTA viðræðum, beinar tvíhliða viðræður um þessa sérstöku hagsmuni okkar Íslendinga.
    Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að svari samgrh. hæstv., varaformanns Alþb. Hann vísaði í þá sérstöku bókun sem þingflokkur Alþb. gerði og ef ég hef
skilið hæstv. ráðherra rétt lítur hann svo á að hin sérstaka bókun þingflokks Alþb. sé hluti af heildarsamþykkt ríkisstjórnarinnar eða, eins og hann orðaði það, hún er grundvöllur að afstöðu Alþb. til samþykktar ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum, hæstv. samgrh. hefur vísað á bug skilningi hæstv. utanrrh. sem hefur lýst því yfir að samþykkt þingflokks Alþb. og sérstök bókun hans í ríkisstjórn og tilkynning hér á Alþingi sé algjörlega marklaus. Hæstv. utanrrh. hefur hvað eftir annað lýst því yfir að þetta sé algjörlega marklaust plagg sem hann þurfi ekki að taka tillit til og því síður að kynna útlendingum.

    Ég er ákaflega feginn því að hæstv. utanrrh. hefur ekki gerst sendiboði Alþb. í þessum efnum. Því þessi samþykkt er auðvitað engin útflutningsvara eins og ég hef margsinnis bent á. En þarna koma fram alveg gagnstæð sjónarmið tveggja hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni um það hvað hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt í þessum efnum. Og úr þessu geta þessir tveir hæstv. ráðherrar ekki greitt í þessari umræðu. Það er auðvitað þetta sem er alvarlegt fyrir Ísland, að hér skuli sitja ríkisstjórn sem ekki veit hvað hún vill. Það má hæstv. utanrrh. eiga að hann hefur lýst mjög skýrt og skilmerkilega þeim fyrirvörum sem Ísland hefur gert en þeir eru allt annars eðlis en þeir fyrirvarar sem felast í sérafstöðu Alþb.
    Nú segir hæstv. samgrh., í veikburða tilraunum sínum til að draga fjöður yfir þann ágreining sem ríkir á milli stjórnarflokkanna, að hann vilji ekki taka endanlega afstöðu til þess hvaða fyrirvara Ísland eigi að gera fyrr en viðræðurnar eru lengra komnar. Ég hefði haldið að við ættum að gera okkur fulla grein fyrir því, áður en þessar viðræður hefjast formlega, hvaða fyrirvara við viljum gera, að hvaða markmiðum við stefnum í þessum viðræðum. Þess vegna finnst mér að hæstv. utanrrh. hafi haldið ljómandi vel á málinu að þessu leyti. Skýrt alveg skilmerkilega í hverju þessir fyrirvarar eru fólgnir, hversu víðtækir þeir eru og hvers eðlis þeir eru. En hæstv. samgrh. sem talar hér fyrir hönd ráðherra Alþb. segir: Við viljum geyma það að taka afstöðu til þessa verkefnis þangað til einhvern tímann síðar.
    Þetta er einmitt meginástæðan fyrir því að Alþingi hefði þurft að taka á þessu máli með því að samþykkja ályktanir um hvert Ísland ætlaði að stefna. Þegar heill ríkisstjórnarflokkur getur ekki tekið slíka afstöðu og vill endilega bíða eftir því að einhverjar aðrar þjóðir taki afstöðu í þessum málum. Alþb. vill endilega bíða með að taka afstöðu í þessum efnum þangað til aðrar þjóðir hafa gert það. Það liggur alveg nægjanlega mikið fyrir úr hinum vönduðu könnunarviðræðum. Eins og hæstv. utanrrh. benti á liggja allar staðreyndir þar um á borðinu til þess að við getum tekið endanlega afstöðu til hvað við viljum. Svo verður það að koma í ljós í samningunum hversu miklu við fáum áorkað og hvaða tillit verður tekið til sérsjónarmiða okkar. Á það reynir einfaldlega í samningum. Við hljótum að vita fyrir fram að hverju við viljum stefna og það er afar kyndug afstaða að geta ekki sagt það fyrir fram og vísa á að bíða þurfi eftir því að aðrar þjóðir komist að niðurstöðu og sökkva sér bara niður í töflulestur á meðan. Það er býsna kyndug afstaða af hálfu ráðherra Alþb. Þess vegna óska ég eftir því við hæstv. ráðherra að hann hér og nú geri Alþingi skýrari grein fyrir afstöðu Alþb. í þessu efni. Fellir hæstv. samgrh. sig við þá fyrirvara sem utanrrh. hefur gert eins og hann hefur lýst þeim? Hæstv. utanrrh. hefur ekkert látið standa á sér í þessum efnum og lýst nákvæmlega fyrirvörum af Íslands hálfu en hæstv. samgrh. telur sig þurfa að bíða eftir því að aðrar þjóðir taki afstöðu.
    Nú segi ég við hæstv. samgrh.: Látum liggja á

milli hluta hvað aðrar þjóðir gera í þessu efni. Hæstv. utanrrh., þeirrar ríkisstjórnar sem hann sjálfur situr í, hefur tekið afstöðu og lýst því hvað hann vill gera í þessu efni. Getur hæstv. samgrh. komið hér upp og sagt: Ég styð fyrirvarana eins og hæstv. utanrrh. hefur lýst þeim? Það er raunverulega spurningin. Getur hann komið hingað upp í þessari umræðu og sagt: Ég styð fyrirvarana eins og hæstv. utanrrh. hefur lýst þeim? --- Ef hann getur það ekki er hér enn á ný staðfestur sá ágreiningur sem lengi hefur legið í loftinu að væri á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Það er auðvitað býsna alvarlegt mál.
    Varðandi ýmis hliðarmál, sem beint og óbeint tengjast heildarsamningum okkar við Evrópubandalagið, kemur líka fram í þessum umræðum að ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna. Hæstv. samgrh. skaut sér í bankamálunum á bak við þá afstöðu hæstv. forsrh. að ekki kæmi til greina að gera breytingar á rekstrarformi ríkisbankanna meðan þessi ríkisstjórn situr. Og hæstv. viðskrh. er byrjaður að draga í land með stefnumörkun og yfirlýsingar sínar. Hann sagði fyrir skömmu á Alþingi að þessi breyting væri nauðsynleg vegna aðlögunar að Evrópubandalaginu og það þyrfti að koma þeim málum fram og taka þær ákvarðanir á þessu ári. Það þyrfti að styrkja eiginfjárstöðu ríkisviðskiptabankanna til þess að mæta erlendri samkeppni.
    Um leið og hæstv. forsrh. hafði skotið þetta í kaf fór hæstv. viðskrh. að tala um að hann væri að vísu ekki horfinn frá stefnu sinni í málinu en að draga þurfi málið á langinn. Það þurfi mjög vandaðan undirbúning og ekkert liggi á.
    Þetta mál liggur alveg ljóst fyrir. Eins og í ýmsum öðrum efnum verður þessum framfaramálum ekki komið fram fyrr en þessi hæstv. ríkisstjórn hefur lifað daga sína. Og mér sýnist að ummæli hæstv. viðskrh. staðfesti enn þá skoðun að hann treystir sér ekki til að láta brjóta á jafnmikilvægu máli og þessu.
    Að því er gjaldeyrisreglurnar varðar hefur hæstv. ráðherra margsinnis lýst því yfir að hann hafi fullbúna tímasetta áætlun um breytingar en nú heyrist það hljóð úr því horni að þetta þurfi að meta eftir framþróun þessara mála innan EFTA-hópsins. Ég veit ekki betur en Norðurlandaþjóðirnar innan EFTA hafi tekið ákvörðun um að fullkomið frelsi í gjaldeyrismálum eigi að taka gildi um mitt þetta ár og sumar jafnvel stigið það skref að ná þessu að mestu leyti nú þegar. ( Viðskrh.: Þetta er ekki rétt.) Og sú efnahagsáætlun sem Norðurlandaþjóðirnar gerðu miðar að því að ná þessu marki. Ég veit ekki hvers vegna við þurfum að bíða eftir einhverju nýju samráði innan EFTA-hópsins þegar fyrir liggur samstaða Norðurlandaþjóðanna um tímasetningar í þessu efni og aðeins ríkisstjórn Íslands hefur sett þar fyrirvara. Það er, að ég hygg, fyrst og fremst til þess að bíða eftir því að kjósendur fái tækifæri til þess að steypa þessari hæstv. ríkisstjórn í kosningum. En fari þær fram á lögmæltum tíma er fulllangt að bíða eftir nauðsynlegum ákvörðunum. Því það er alveg rétt sem hæstv. viðskrh. sagði í umræðunum að við þurfum að undirbúa okkur undir

að gera breytingar af því að það liggur ljóst fyrir, á hvorn veg sem samningaviðræðurnar fara, að við þurfum að sníða okkar viðskiptareglur eftir þeim viðskiptaháttum og viðskiptareglum sem almennt verða í gildi í Evrópu. Ég tek heilshugar undir þetta sjónarmið með hæstv. viðskrh. og er reyndar sammála honum um flest stefnumarkandi atriði. En mér sýnist hann ætla að taka þrönga sérhagsmuni Alþb. og vinstri armsins í Framsfl. fram yfir það að komast að skynsamlegri niðurstöðu og taka afstöðu til mála um leið og þess er kostur á Alþingi Íslendinga.
    Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma þessum sjónarmiðum á framfæri í þessari umræðu. Ég legg enn á ný áherslu á að við verðum að líta á þessi mál í heild sinni og jafnmikilvægar og almennu EB-EFTA viðræðurnar eru skiptir miklu að við stöndum að okkar sérhagsmunum með tvíhliða viðræðum. Auðvitað er alltaf matsatriði hvenær á að hefja slíkar viðræður. En ég er þeirrar skoðunar að sá tími sé kominn að við getum hafið þær og að hæstv. ríkisstjórn sé að þverskallast við kannski fyrst og fremst vegna þess að hæstv. ráðherrum urðu á mistök þegar þeir brugðust við þessum hugmyndum í upphafi. Offors þeirra var of mikið og þeir hafa á tilfinningunni af þeim sökum að þeir þurfi lengri tíma til þess að kyngja málinu. En við sjáum á ræðu hæstv. utanrrh. að hann er að byrja að skilja og viðurkenna nauðsyn þessa og þó lítið sé hljótum við að fagna því skrefi.
    Á hinn bóginn er ástæða til að hafa áhyggjur af því að ummæli og umfjöllun ýmissa talsmanna ríkisstjórnarflokkanna upp á síðkastið eru á þann veg að það er eins og dragi úr stuðningi við hinar almennu EB-EFTA viðræður. Þó að þeir séu ekki margir í þingsalnum sem lesa dagblaðið Tímann daglega hefur það ekki farið fram hjá þeim sem það gera að á undanförnum vikum hefur mjög dregið úr stuðningi blaðsins við málsmeðferð hæstv. utanrrh. Það blað lýsir afstöðu forustuflokks ríkisstjórnarinnar á þann veg að ríkisstjórnin stefni einungis að því að auka fríverslun hér á þeim grundvelli sem hún hefur verið rekin en stefni ekki að víðtækari efnahagslegri samvinnu sem öllum má vera ljóst að er grundvöllur EB-EFTA viðræðnanna. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum umræðum og margt bendir til að hæstv. utanrrh. hafi ekki nægan stuðning í röðum ríkisstjórnarinnar til þess að fylgja eftir þeirri stefnu sem hann hefur markað í þessu efni.