Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt vegna þessara athugasemda hv. 1. þm. Suðurl. Það er sjálfsagt alveg rétt að Norðmenn hafa brugðist rangt við þessu samkomulagi sem við höfum gert innan EFTA um fríverslun með fisk. Í því sambandi eigum við auðvitað að snúa okkur að Norðmönnum og gera þeim grein fyrir því að þeir hafi ekki haldið þá samninga sem við höfum gert við þá. ( Utanrrh.: Þeir hafa ekki brotið samninga.) Þeir hafa ekki brotið samninga, segir utanrrh. En við teljum að við höfum náð samningum um fríverslun með fisk innan EFTA og í ljósi þess þurfum við auðvitað að skoða þá styrkjapólitík sem Norðmenn reka. Þarna eru sjálfsagt ýmis grá svæði og ýmsar flækjur á leiðinni. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að þau atriði hljótum við að skoða. En ég vil ekki rugla því saman við þetta mál, sem við nú erum að tala um, þar sem við erum í rauninni að beita ríkjaheild með okkur í þeim samningum sem fram undan eru.
    Ég sagði það reyndar í mínum orðum hér áðan að það má sjálfsagt skilja, og er beint tekið fram eins og þingmaðurinn sagði í þessu Oslóarsamkomulagi, að hver einstök þjóð getur út af fyrir sig farið í tvíhliða samninga um einstök atriði ef hún vill. En það er það sem málið snýst um. Með því að gera það taka menn þau atriði út úr sameiginlegu viðræðunum. Þarna verða menn að vega og meta hvor leiðin er sterkari. Og það er það sem ég hef verið að reyna að segja hér sem mína skoðun að á þessu stigi mála tel ég sterkara að beita EFTA-heildinni, fara EFTA-sporið, leita samninganna í krafti samstöðunnar fremur en að fara þá leið sem hv. 1. þm. Suðurl. mælir hér fyrir, að taka málið út úr þeim farvegi og vera einir með það á þessari stundu.