Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessari umferð um samskipti Íslands við Evrópubandalagið. En eftir ræðu 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar hlaut ég að standa upp vegna þess að ég tel að sú afstaða sem kom fram í ræðu þessa fulltrúa Framsfl. í umræðunni geti verið okkur Íslendingum afar hættuleg. Sérstaklega með það í huga að mér virtist hæstv. utanrrh. vera farinn að nálgast þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á. En samhliða því sem við erum í þessum EFTA-viðræðum þurfa Íslendingar að viðurkenna það sem staðreynd að til þess getur komið fyrr en síðar að þeir verði að taka upp tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið.
    Ég get tekið undir sjónarmið hæstv. utanrrh. að okkur getur síðan greint á um einstök atriði hvernig þær viðræður skuli fara fram. En það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu öðruvísi en að vara við, ég vil segja vara við þeirri oftrú á EFTA-leiðinni sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar hér áðan. Oftrú, með þeim hætti sem kom fram í ræðu hv. þm., getur verið og er Íslendingum mjög hættuleg.
    Ef hv. þm. heldur það eða trúir því, þrátt fyrir að sú augljósa staðreynd blasi við að Norðmenn fara sínu fram án tillits til heildarhagsmuna EFTA-ríkjanna í sambandi við fríverslun með fisk og þar á ég við hina auknu styrkjastefnu þeirra í sambandi við sjávarútveg, ef hv. þm. heldur að það sé samstöðuleið sem muni skila Íslendingum árangri þá er það mikill misskilningur. Það lýsir ekki samstöðu og það lýsir ekki styrk EFTA-ríkjanna að Norðmenn skuli haga sér með þeim hætti sem þeir gera. Það veikir samstöðu EFTA-ríkjanna, sérstaklega í því atriði sem er til umfjöllunar varðandi stöðu og sérstöðu Íslands í sambandi við fiskveiðar og sölu sjávarafurða. Þar með er raunverulega búið að veikja, því miður hæstv. utanrrh., þá samstöðu sem ég
veit að hæstv. utanrrh. vildi og vill stefna að fyrir hönd Íslands í sameiginlegum viðræðum EFTA-ríkjanna.
    Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, ítreka það að Íslendingar mega ekki hafa oftrú á EFTA-leiðinni. Við eigum að leggja áherslu á það að í tvíhliða viðræðum fáum við okkar sérstöðu viðurkennda og þá samninga sem skipta máli fyrir Ísland.