Hlutafélög
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil fyrst þakka nefndinni skjóta afgreiðslu þessa frv. sem ég er flutningsmaður að og forseta fyrir að greiða frv. leið væntanlega í gegnum þessa hv. deild í dag vona ég ef menn eru sammála um efni þess, sem ég efa raunar ekki. Ég hygg að þingmenn allir geti sæst á að hér sé um að ræða frv. sem lætur að vísu lítið yfir sér en getur þó haft veruleg áhrif til góðs í sambandi við hlutafélagarekstur.
    Þó ég vilji ekki tefja tímann held ég að rétt sé að fara örfáum orðum um frv. og raunar um sögu hlutafélaga sem nú gegna hvað þýðingarmestu hlutverki í hinum vestræna heimi eins og allir vita. Stór og mikil hlutafélög gegna lykilhlutverki í atvinnurekstri bæði Íslendinga og annarra. Þó hefur farið svo hjá okkur að árangurinn hefur kannski ekki orðið eins mikill og víða annars staðar. Það er raunar um hlutafélögin að segja að þau eru ekki nýtt fyrirbæri. Þau voru undirstaða þróunarinnar þegar t.d. Hollendingar og Bretar á 17. öld byggðu upp flotaveldi sitt og iðnað. Síðan gerðist það, eins og verða vill stundum í verkum mannanna, að ýmislegt fór úr skorðum. Þar var um að ræða ýmiss konar fjármálaspillingu og gjaldþrot sem leiddi til þess að hlutafélög voru nánast gerð útlæg úr hinum engilsaxneska heimi í upp undir heila öld frá 1720. En þetta félagaform sýndi sig síðar vera meginuppistaðan í atvinnulífi og uppbyggingu t.d. Bandaríkja Norður-Ameríku og síðar Evrópuríkja.
    Við Íslendingar höfum kynnst þessu og raunar í langa tíð því sannleikurinn er sá að Innréttingar Skúla fógeta, sem voru í nágrenni við okkur og stofnaðar um miðja 18. öldina, þar var um að ræða félagsform með hlutabréfum og býsna góðri skipan. Þó að illa færi um reksturinn var hann þó vísir að því sem meira varð síðar. Og kannski er Eimskipafélag Íslands það hlutafélag sem frá upphafi, fremur en nokkurt félag annað þótt leitað væri víða um veröld, var hægt að kalla almenningshlutafélag. Hugsjónaeldur fór um landið og svo
margir gerðust hluthafar á árunum 1914 og 1915 að þeir urðu 13.000 talsins, hvorki meira né minna, en þjóðin var þá innan við 100.000 manns. Þannig að menn geta reiknað hvað margir hluthafar gætu nú orðið í slíku félagi. Að vísu fór svo að þetta félag, eins og svo mörg önnur, gekk í gegnum ýmiss konar vandræði og menn kunnu kannski ekki nægilega vel á þetta félagsform. Það er dálítið athyglisvert að löggjöf um félagarétt hefur mjög oft í sögu Alþingis snúist í senn um samvinnufélög og almenningshlutafélög eða hlutafélög stofnuð af fjölda manna. Og forverar okkar gerðu sér grein fyrir því að þessi tvenns konar rekstur gat farið saman og átti gjarnan að fara saman en í báðum félagsformunum hefur orðið misbrestur á því að menn næðu þeim tilætlaða árangri að fólkið yrði raunverulegir eigendur og stjórnendur félaganna. Þar hefur vald oft þjappast saman. En þetta er ekkert sérstakt fyrir Ísland.

    Fræðigreinar og fræðibækur svo hundruðum ef ekki þúsundum skipta fjalla um sögu hlutafélaga og það sem gerst hefur í þeim rekstri. Menn hafa gjarnan skipst í tvo hópa. Þeir, sem hafa verið kallaðir íhaldssamir, sem vilja gjarnan að félögin séu öflug félaganna vegna og að það eigi að styrkja þau innan frá af einhverju öruggu miðstýringarvaldi. En aðrir benda á að félögin séu eign hluthafanna allra og að það beri að vernda rétt þeirra sem eiga minni hlut en þeir sem stærstir eru og að meginskylda stjórnenda hlutafélaga sé auðvitað að gæta hags eigendanna, þ.e. allra hluthafa.
    Þess vegna hafa komið fram, ekki bara kenningar heldur líka löggjöf víða, um að réttindi minni hlutans skuli tryggð og er það helst gert með því að minni hlutinn hafi áhrifavald á aðalfundum félaganna og geti komið sínum fulltrúum þar að. Þetta er sums staðar gert með hlutfallskosningu og hana þekkjum við en annars staðar er gjarnan notuð svokölluð margfeldiskosning. Á Íslandi hefur verið fest í lög frá 1978, þar sem mörg nýmæli voru upp tekin einmitt til þess að vernda minni hlutann, að margfeldiskosning geti gengið framar venjulegri hlutfallskosningu.
    Þar sem margfeldiskosning er ekki útbreidd hér á landi er kannski afsakanlegt að ég lesi örlítið, með leyfi forseta, úr bók eða bæklingi sem út kom 1968 um þetta kosningafyrirkomulag. Þar segir: ,,Miklar umræður hafa verið um það hvort og þá hvernig tryggja ætti rétt minni hlutans til að hafa áhrif á stjórn hlutafélaga. Hinir íhaldssamari telja óheppilegt að minni hlutinn fái mann eða menn kosna í stjórn. Nauðsynlegt sé að stjórn hlutafélags sé samhent svo hún geti leyst úr daglegum viðfangsefnum og auk þess sé óheppilegt að lítill minni hluti sjái sér fært að stofna til óeiningar á aðalfundum félagsins.
    Hinir frjálslyndari segja aftur á móti að minni hlutinn eigi að hafa rétt til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á stjórn félagsins. Þess vegna þurfi að tryggja að sæmilega samstæður minni hluti geti fengið mann kjörinn til stjórnarstarfa og vist hans í stjórninni sé ekki líkleg til að skaða félagið heldur þvert á móti að með nýjum mönnum komi ný sjónarmið og hluthafar almennt treysti stjórninni betur þegar mismunandi skoðanir fá þar að heyrast.
    Þá sé ekki heldur óæskilegt að raunverulegar kosningar fari fram á aðalfundum. Það sé einmitt líklegt til að örva stjórnendur félagsins og jafnframt veki það áhuga hluthafa og gefi félaginu nýtt líf og nýjan þrótt. Sú leið sem oftast hefur verið farin til þess að tryggja rétt minni hlutans er sérstök tegund hlutfallskosninga sem hér er nefnd margfeldiskosning ,,kumulativ`` kosning á erlendum málum. Hlutfallskosningar eins og við þekkjum þær hér á landi eru ekki allsendis æskilegar við kjör á stjórnarmönnum í hlutafélög þótt við þær sé unað í stjórnmálum. Þegar ákveðinn listi er kosinn í pólitískum kosningum er ekki einungis verið að kjósa einstaklinga heldur líka stjórnmálastefnur. Þess vegna una menn röðuðum lista þar sem fyrsti maður fær flest atkvæði, annar næstflest o.s.frv. Og er það þó

þegar gagnrýnt hér á landi eins og kunnugt er að fólk hafi ekki nægilega frjálsar hendur til að kjósa ákveðna einstaklinga.
    Við kosningu í stjórn í hlutafélagi er venjulega verið að velja þá menn sem hver og einn treystir best til hagsýnna áhrifa vegna dugnaðar, réttsýni og hæfileika. Venjuleg hlutfallskosning er þess vegna óheppileg því að gera má ráð fyrir að ráðandi öfl í hlutafélaginu muni bregðast þannig við er vitað væri um aðgerðir til að koma fram breytingum að stilla þeim manninum efst á listann sem mest hætta væri á að félli og útiloka þannig þá breytingu sem minni hlutinn helst æskti.
    Þegar kosið er margfeldiskosningu er kosið á milli einstaklinga. Slíkri kosningu er þannig háttað að gildi hvers hlutar (atkvæðis) í félaginu er margfaldað með tölu þeirra manna sem kjósa skal og fer athvæðagildi hvers hlutar þannig eftir því hve marga stjórnarmenn á að kjósa. Síðan er heimilt að verja öllu atkvæðamagninu, hvort heldur er á jafnmarga menn eða færri en kjósa skal. Ef kjósa á fimm stjórnendur hefur hver hlutur fimmfalt atkvæðamagn. Hluthafinn getur varið öllu atkvæðamagninu á einn mann eða skipt því á þann hátt sem hann óskar. Á þennan hátt getur hluthafi eða hluthafar sem eiga meira en 16 2 / 3 atkvæðamagnsins fengið einn mann kosinn í fimm manna stjórn hvernig svo sem atkvæði annarra hluthafa falla aðeins ef þessi minni hluti ver öllu atkvæðamagni á þennan eina mann. Ef hins vegar eru aðeins þrír stjórnarmenn geta rúm 75% hluthafa ráðið þeim öllum ef þeir dreifa öllu atkvæðamagni sínu eins á þessa þrjá menn.``
    Ég held að þetta skýri þessa kosningareglu sem er nú í lögum og frv. fjallar einmitt um að í félögum þar sem eru fleiri en 200 hluthafar skuli einungis þurfa 1 / 10 af hluthöfunum eða þeim sem ráða yfir 10% hlutafjármagnsins til þess að krefjast slíkrar kosningar en nú þarf 1 / 5 eða 20%. Ég held að allir hljóti að sjá að þetta er eðlileg breyting á lögunum og skal ekki um það fjölyrða.