Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra að sá orðrómur sem ég hafði heyrt um ætlun stjórnvalda í sambandi við mat á íbúðaþörf úti á landsbyggðinni hefur ekki við rök að styðjast. Þá liggur það ljóst fyrir og þá þarf ekki frekar að tala um það, en þetta er orðrómur sem hefur gengið.
    Ég hlýt, herra forseti, að vekja athygli á því í fyrsta lagi að hæstv. félmrh. gerði ekki neina frekari tilraun til þess að útskýra hvernig hann ætlaði að standa vörð um fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins og fjárhag Byggingarsjóðs verkamanna. Það liggur auðvitað í augum uppi að ráðherra stefnir að því með sinnuleysi sínu að meiri hlutinn brjóti niður fjárhag beggja þessara sjóða. Það er eins og áður að það mun koma í hlut Sjálfstfl. þegar hann kemst aftur til valda að rétta við fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins og fjárhag Byggingarsjóðs verkamanna. Þetta er ekki í fyrsta skiptið. Þetta er svona venjuleg aðferð vinstri manna. Ég minntist áðan á það hvernig vinstri menn hafa farið með þessa sjóði. Ég minntist á hvernig farið er með Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Við getum haldið áfram. Það er verið að tala um að éta innan úr ýmsum öðrum opinberum fyrirtækjum. Við sjáum hvernig farið er með Vegasjóð. Við sjáum hvernig þessi stjórn fer eyðandi eldi um allt það sem búið er að reyna að rækta og byggja upp á liðnum árum.
    Ég kom samt ekki upp til þess að ræða þetta heldur hitt, þá óskammfeilni eða ósannindi húsnæðisráðherrans að halda því fram að það sé verri kostur fyrir einstaklinga að kaupa verkamannabústað en fara yfir í það félagslega kerfi sem ráðherrann er að búa til. Nú ætla ég að leggja fyrir ráðherrann dæmi og biðja hann að svara því hvort dæmið sé rétt reiknað eða ekki.
    Ég hringdi áðan upp í verkamannabústaði í Reykjavík og spurði: Hvað kosta þriggja herbergja íbúðir? Og mér var sagt að endursöluíbúðir kostuðu 3,9 millj.
kr. en nýjar íbúðir kostuðu 5,9 millj. kr. Ef hjón sem eiga tvö börn, og eiga þar af leiðandi rétt á því að kaupa þriggja herbergja íbúð í verkamannabústað, festa kaup á slíkum bústað og fá, eins og altítt er um þá sem verst eru settir, lán til þriggja ára til að brúa bilið og til að komast yfir íbúðina, þá er greiðslubyrði á ári vegna þeirra 390 þús. kr. sem hjónin þurfa að greiða á þessum þrem árum 130 þús. kr. Vextir af láninu sem falla til eru 39 þús. kr. eða samtals 169 þús. kr. Húsnæðisbætur eru 110 þús. kr. Mismunur er 59 þús. kr. sem falla á 12 mánuði, tæpar 5 þús. kr. á mánuði. Ætlar hæstv. ráðherra að bjóða upp á betri kost með sínu félagslega kerfi?
    Við skulum halda aðeins áfram. Þetta eru fyrstu þrjú árin. Síðan koma næstu þrjú ár. Þá hafa þessar 390 þús. kr. verið greiddar. Eftir standa 3 millj. 510 þús., miðað við óbreytt verðlag. Árleg afborgun af því verður 88 þús. kr., vextir 35 þús. kr., samtals 123 þús. kr., húsnæðisbætur 110 þús. kr. Eftir standa 13 þús. kr., 1000 kr. rúmar á mánuði. Ætlar

húsnæðisráðherrann að bjóða upp á eitthvað betra í sínu kerfi?
    Við getum tekið nýju íbúðina. Hún kostar 5,9 millj. kr. Vextir 59 þús. kr. Þriðjungur af 590 þús. kr. er 197 þús. kr. eða samtals 256 þús. kr., mínus húsnæðisbætur 110 þús., 145 þús. kr. eða rétt ríflega 12 þús. kr. á mánuði fyrstu þrjú árin en í staðinn fær viðkomandi að fara inn í nýja íbúð. Næstu þrjú ár á eftir lækkar greiðslan með sama hætti niður í 6--7 þús. kr. á mánuði. Er húsnæðisráðherrann að bjóða upp á betri kosti? Er hugmyndin, samkvæmt því kerfi sem hér liggur fyrir, að endurgjaldið fyrir að fara inn í 6 millj. kr. íbúð eigi að vera minna en 15 þús. kr. á mánuði til að byrja með og eigi að vera minna en 6--7 þús. kr. síðan næstu þrjú ár á eftir? Og ef endurgjaldið verður minna, erum við þá að tala um jöfnuð í kjörum landsmanna? Ég spyr.
    Auðvitað sagði ráðherra ósatt. En það er á hinn bóginn merkilegt, eins og ég hef vakið athygli á áður, að það skuli vera ráðherra Alþfl. sem gengur fram fyrir skjöldu til þess að brjóta niður verkamannabústaðina hér í Reykjavík, eignaríbúðir hins fátæka verkamanns. Kannski það verði næsti draumur Alþfl. að brjóta niður styttuna af Héðni Valdimarssyni sem stendur við Hringbraut, sem minnir einmitt á þá stefnu sem mörkuð var, að enginn maður hér á Íslandi er í þeirri þröngu stöðu gagnvart heiðarlegum stjórnvöldum að þau unni honum ekki þess að hann fái að eiga sjálfur sína íbúð. Auðvitað hljótum við að reyna að leysa húsnæðismálin á þeim grundvelli. Og auðvitað liggur það alveg ljóst fyrir að sama daginn og búið er að koma krötunum út úr félmrn. verða gerðar ráðstafanir til þess að þeir sem nú eru í þessum svokölluðu félagslegu íbúum fái að festa kaup á þeim og fái að eignast þær. Ekki deginum lengur mun hann standa þessi draumur kratanna, að fólk fái ekkert að eiga.
    Það er kannski dæmigert að þetta frv. skuli rætt núna í sömu svifum og sá fallegi draumur þeirra Ólafs Ragnars og Jóns Baldvins um samstöðu þeirra sósíalisku afla sem nú eru að tapa í Austur-Þýskalandi, hreinræktaðra komma og krata á villigötum, þessi undarlegu samtök sem eru að reyna að bjóða fram hér í Reykjavík. Ég man nú ekki lengur hvað þetta heitir. ( EKJ: Nýr vettvangur.)
Nýr vettvangur. Ég hélt kannski að það mundi heita Ömurlegur vettvangur, sama fyrirbærið. Og enn eitt fyrirbærið höfum við uppi í húsnæðisráðuneytinu, krata sem á þá hugsjón dýrasta að leggja verkamannabústaðakerfið niður. Hugsið ykkur nú hversu lágt menn hafa lagst í þessum flokki. Á sama tíma og út um allar jarðir, víða veröld, blása vindar frjálsræðis í pólitískum, efnahagslegum og fjölskyldulegum skilningi, á sama tíma og fólkið er hvarvetna að reyna að afla sér meira öryggis, þá skulum við núna sitja uppi með húsnæðisráðherra sem er á móti því að verkamaðurinn við höfnina megi eiga sína íbúð. Drottinn minn dýri. En Strandamenn og Suðurnesjamenn, hvað ætli þeir megi gera?
    Ég veit ekki hvort ástæða er til þess að tala meira

um þetta. Það verður, eins og ég sagði, auðvitað farið ofan í það í félmn. hvernig fjárhagur þessara sjóða er. Ég hef fengið upplýsingar um að það verði gert. Ég veit líka eins og ég sagði áðan að fjmrn. er að vinna að úttekt á þessum sjóðum. Við sjáum að félmrh. telur nóg að greiða 150 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins. Svo er hann hissa á því að fólk skuli sækja um félagslega íbúð þegar það þarf að bíða á þriðja ár eftir úrlausn, fólk sem ekki á neina íbúð í almenna kerfinu, á þriðja ár eftir úrlausn. Með þessu erum við að gera kerfið dýrara en ella mundi.
    Auðvitað er það algerlega úreltur hugsunarháttur, þessi forsjárhyggja, að ríkið þurfi endilega að byggja yfir alla á eigin kostnað, teppalagt út í horn og ungt fólk megi hvergi koma að þeim íbúðum sem það ætlar að setjast að í. Auðvitað er þetta úreltur hugsunarháttur. Og auðvitað er sú forsjárhyggja sem lýsir sér í frv. hæstv. húsnæðisráðherra ein skýring á því að kratar treysta sér ekki lengur til að bjóða fram í Reykjavík, ein skýringin á því að þessi flokkur er að hverfa. Og auðvitað er það rétt að leikstjórinn, fulltrúi Alþfl. sem mætti á fundi með okkur hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri, hafði lög að mæla þegar hann sagði að Alþfl. væri eini stjórnmálaflokkurinn hér á landi sem væri reiðubúinn til að leggja sig niður. Og er það ekki sjálfgefið? sagði þá einn nemandinn í hópnum. Er það ekki sjálfgert? Kýs nokkur þennan flokk lengur? Það er a.m.k. deginum ljósara að enginn kýs Alþfl. í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík þegar hann býður alls ekki fram í Reykjavík. Svo aumt er það. Og Kristín Ólafsdóttir, gamall borgarfulltrúi Alþb., á að koma til hjálpar af því að formaður Alþfl. hefur sagt að ekki dugi að bjóða upp á Bjarna einan. Þetta er nú satt að segja orðið hálfömurlegt. En ömurlegast er þó þetta, að kasta frá sér einu af því sem þó gaf Alþfl. á sínum tíma gildi. Það á að setja fram það stefnumark að hver og einn Íslendingur, háttsettur sem lágtsettur, ætti að hafa tök á því og ætti að mega láta þann draum rætast að eignast sitt eigið húsnæði.
    Leiguhúsnæði, leiguhúsnæði. Er það eitthvert sérstakt markmið að búa í leiguhúsnæði? Leiguhúsnæði á vegum ríkisins, leiguhúsnæði á vegum bæjarins, leiguhúsnæði á vegum einhvers Búseta. Hver er þessi Búseti? Ekki var hann fallegur, þessi persónugervingur Búseta sem hér var einu sinni á göngum upp á hvern dag. Maður gat hugsað sér ýmsa myndarlegri en hann, þann persónugerving. Og hvers konar forsjárhyggja er þetta eiginlega? Bara láta fólkið í friði, leyfa því að hafa tök á því að eignast sínar eigin íbúðir. Hinir eru svo margir sem þurfa á félagslegum íbúðum að halda. Það hefur m.a. borgarstjórn Reykjavíkur skilið betur en allir aðrir og reynir að mæta þeim þörfum. En hitt er jafneðlilegt að gefa fólki svigrúm til þess að ráða sér sjálft.