Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í málþóf, en það eru tvö atriði í þessu frv. sem ég vildi fá nánari skýringar á hjá hæstv. félmrh. Það er hér í sambandi við 3. gr., f-lið, (56. gr.). Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á því hjá hæstv. ráðherra, vegna þess að það kemur ekki fram í skýringum með þessari lagagrein, hvað við er átt þar sem segir:
    ,,Í sveitarfélögum með 400 íbúa eða fleiri skal sveitarstjórn skipa fimm manna húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, þrjá kosna af sveitarstjórn og tvo fulltrúa tilnefnda af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu.``
    Á bls. 24 segir um þetta atriði: ,,Rétt þykir að viðhalda því fyrirkomulagi að samtök launafólks eigi hlut í stjórn húsnæðismála í sveitarfélögunum. Því er lagt til að í húsnæðisnefnd sitji tveir fulltrúar stærstu launþegasamtaka í sveitarfélaginu og tveir til vara þannig að tryggt sé að meiri hluti launafólks í sveitarfélaginu eigi fulltrúa í nefndinni. Hvernig þessu verður nánar hagað getur að sjálfsögðu verið mismunandi eftir byggðarlögum.``
    Ég efast um, virðulegi forseti, að það standist að festa í lög jafnloðið ákvæði og þarna kemur fram vegna þess að ekkert segir til um það hverjir skuli tilnefna, hvaða samtök launafólks í sveitarfélaginu skuli tilnefna fulltrúana. Það er sem sagt sett á vald ráðherranna, hæstv. félmrh. á hverjum tíma, að ákveða hverjir skuli vera þóknanlegir. Við sem höfum starfað í verkalýðshreyfingunni vitum, og það er ekkert leyndarmál, að hún er
hápólitísk. Það þekkja allir sem hafa verið í Alþýðusambandinu t.d. og verkalýðshreyfingunni að þar hefur verið ákveðið hlutfall á milli pólitísku flokkanna þannig að í stjórnum stærstu félaganna margra og innan Alþýðusambandsins hefur skiptingin verið mjög nákvæm. Þannig að Alþb. hefur átt sína fulltrúa, Alþfl. sína, sjálfstæðismenn sína og aðrir flokkar eftir atvikum. Ópólitískt eða óháð fólk hefur yfirleitt verið afskipt í sambandi við þátttöku eða aðild t.d. að miðstjórn ASÍ, stjórn BSRB og í mörgum stóru verkalýðsfélaganna. Ef þessi lagagrein á að gilda þá liggur það alveg í augum uppi að þarna á að sniðganga t.d. stærsta verkalýðsfélagið í Reykjavík um tilnefningu fulltrúa í skjóli þess að Verslunarmannafélag Reykjavíkur er ekki samtök heldur félag. Ég vek athygli á því að í því félagi eru um 12 þús. manns. Það fólk sem myndar það félag er stofninn að þeim lífeyrissjóði sem borgar 18% inn í húsnæðismálakerfið á hverju ári. Langsamlega stærsta félagið með framlag inn í húsnæðismálakerfið.
    Ég skora á hæstv. ráðherra að standa hér upp og lýsa því fyrir mér og þingheimi hvort hans hugsun með þessu almenna orðalagi sé sú að t.d. stærsta verkalýðsfélagið í Reykjavík eigi að eiga annan af þessum tveimur fulltrúum. Ef það er ekki, ef hæstv. ráðherra treystir sér ekki til þess að lýsa því yfir, þá veit ég, og það vita allir sem þekkja verklagið innan

verkalýðshreyfingarinnar, hið pólitíska verklag, að með þessu fyrirkomulagi mundu vera tilnefndir tveir fulltrúar í Reykjavík, annar alþýðubandalagsmaður og hinn alþýðuflokksmaður. Ég bið hv. þm. að fylgjast vel með því hvað gerist ef þetta verður að lögum og þetta ákvæði verður inni í lögunum. Ég bið hv. þm. að taka vel eftir því hvað gerist.
    Nú vil ég auðvitað trúa því, vegna þess að ég þekki hæstv. félmrh., að hann hafi þrek til þess, ef þetta ákvæði verður að lögum, að sniðganga hin pólitísku helmingaskipti Alþfl. og Alþb. í þessu tilviki. (Gripið fram í.) Ég segist treysta. En það breytir ekki því grundvallaratriði að lög eiga ekki að vera það almennt orðuð að það sé á valdi ráðherra að framkvæma þau með þeim hætti sem lagagrein, svona orðuð, býður upp á. Hér ætti að vera alveg ótvírætt í lagagreininni hverjir eiga að tilnefna fulltrúa í þessa nefnd, þ.e. það á að tiltaka, þar sem þetta er alveg augljóst mál, hverjir þessir tveir fulltrúar séu, þ.e. hvað stærstu félög á svæðinu skuli tilnefna, því að við skulum svo ekki gleyma öðru: Innan verkalýðshreyfingarinnar eru margs konar samtök. Það eru svæðasamtök og það eru landssamtök. Það er alveg nákvæmlega sama hvernig að þessu er komið, með pólitískum ,,manipúlasjónum`` er það mjög auðvelt verk fyrir bæði hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn að haga málum þannig að þessir svokölluðu fulltrúar samtaka launafólks í sveitarfélögunum, þ.e. stærstu, verði annað hvort krati eða kommi, þ.e. alþýðuflokksmaður eða alþýðubandalagsmaður. ( ÞP: Það er nú erfitt að finna þá.) Virðulegur forseti. Ég held að menn úr öðrum deildum ættu nú ekki að vera að grípa fram í fyrir ræðumanni í efri deild.
    Ég treysti því að hæstv. ráðherra komi hér á eftir og svari þessu atriði. Þetta er mjög þýðingarmikið og einnig munum við auðvitað í nefnd taka þetta til meðferðar og gera það væntanlega skýrara innan nefndarinnar hverjir skuli hafa þennan tilnefningarrétt.
    Ég vil síðan, virðulegur forseti, benda á annað sem ekki hefur verið rætt neitt að ráði og það lýtur að s-lið 3. gr. sem er um 68. gr. í gildandi lögum, í sambandi við lán og lánskjör. Þar segir m.a., með leyfi forseta, varðandi
það hvernig eigi að haga þessum lánum:
    ,,Lán til félagslegra eignaríbúða og til kaupa á kaupleiguíbúðum eru til 43 ára.
    Lán til félagslegra leiguíbúða og til kaupleiguíbúða, sem eru í leigu, eru til 50 ára.``
    Í skýringum um þetta atriði segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Lánstími til leiguíbúða verði lengdur í 50 ár. Lenging lánstíma á leiguíbúðum er lögð til með það í huga að auka vægi leiguíbúða.`` Þarna eru tekin af öll tvímæli um það að megintilgangur frv. er að auka vægi leiguíbúða á kostnað sjálfseignarstefnunnar. Það fer ekki á milli mála.
    Ég tel að þetta ákvæði sé mjög hættulegt gagnvart sjálfseignarstefnunni fyrir utan það að ég tel að gagnvart þeim sem leigja sé þetta óæskilegt ákvæði vegna þess að í þessu felst hvatning til fólks um að

búa í leiguíbúðum en reyna ekki að eiga sínar eigin íbúðir, þ.e. á sjálfseignargrundvelli.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fjölyrða mikið um þetta. Ég undirstrika það sem ég sagði, að tvennt er greinilegt í þessu frv.: Það á að draga úr og eyðileggja sjálfsbjargarviðleitni manna í sambandi við eigin húsnæði og ýta undir leiguíbúðir og það á einnig, sem er ekki síður alvarlegt, að haga málum þannig að meiri hluti stjórnar sveitarfélags, ég nefni sérstaklega Reykjavík, getur lent í minni hluta í sambandi við skipan húsnæðisnefnda með þeim hætti sem ég greindi frá, á sama tíma og verið er að leggja miklar fjárhagslegar skuldbindingar á herðar Reykjavíkur og Reykvíkinga. Tilgangur þessa frv. er svo augljós, en hann er nokkuð í samræmi við það sem áður hefur komið fram í öðrum málum hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég minni á frv. hæstv. heilbr.- og trmrh. í sambandi við stjórn heilsugæslustöðva. Þar kemur fram sama hugsunin, þ.e. að breyta um stjórnskipulag, stjórnunarkerfi heilsugæslustöðva með þeim hætti að meirihlutastjórnir sveitarfélaga skuli lenda í pólitískum minni hluta. Því miður er það sama upp á teningnum í þessu frv. Ég treysti því að hæstv. félmrh. gefi hér á eftir yfirlýsingu sem felur í sér þá tryggingu að alla vega á meðan hún er ráðherra muni það ekki gerast.