Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta sem fram kom í máli mínu hér áðan. Ég hygg að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur að það mundi auðvelda greiðslubyrði á ýmsan hátt ef greiðslur væru tíðari, þ.e. afborganir og vextir. Upp á þann möguleika er boðið í kaupleigukerfinu, þ.e. að fólk greiði mánaðarlegar greiðslur, hvort sem um leigu eða kaup er að ræða. Og ég hygg líka að það sé kannski kostur sem ætti nokkuð að horfa til vegna þess að hann býður upp á þann möguleika að fólk geti fyrstu árin, þegar illa árar, leigt íbúðina, kannski fyrstu tvö, þrjú eða fjögur árin, og síðan farið út í kaup á sömu íbúð. Ég hygg því að það bjóði upp á marga kosti og þarna er þetta fyrir hendi sem hv. þm. nefndi varðandi mánaðargreiðslurnar.
    Ég hygg að sá talnalegi samanburður sem hér hefur farið fram í þessum ræðustól varðandi leigu á félagslegum íbúðum, á leiguíbúðum sveitarfélaga og afborganir af verkamannabústöðum verði skoðaður sérstaklega í nefnd og sé ekki ástæðu til að karpa um einstakar tölur sem hér hafa komið fram. Þetta fer auðvitað eftir því hvaða forsendur menn gefa sér hverju sinni eins og ég nefndi. Ég mun leggja mitt af mörkum til að nefndin fái þær upplýsingar sem hún þarf á að halda til þess að athuga þetta sérstaklega ef hún svo kýs.
    Varðandi það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson nefndi, þá hef ég nú ekki skoðað þetta frá þeim sjónarhóli hvort þessi skipan mála, varðandi fulltrúa launþegasamtakanna í húsnæðisnefndum, sem þetta frv. kveður á um, gefi sérstaklega tilefni til að ætla að þarna yrði af þessum tveim fulltrúum annars vegar fulltrúi Alþb. og hins vegar fulltrúi Alþfl. Ég held að það sé ekkert sérstakt sem gefi tilefni til þess að ætla það. Hér er nefnt að fulltrúar séu tilnefndir af stærstu samtökum launafólks í hverju sveitarfélagi fyrir sig og ég hygg að það geti orðið eitthvað misjafnt eftir byggðarlögum frá hvaða samtökum þeir koma. Ég hef litið svo á að hér væri verið að ræða um
heildarsamtök launafólks. Ef hv. þm. telur að hér sé eitthvað óskýrt orðalag á ferðinni er ég vissulega tilbúin til þess að skoða betur með honum hvað hægt er að gera til þess að skýra ákvæðið betur þannig að enginn vafi leiki á hvað hér er á ferðinni.