Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði að frv. sem hér er til meðferðar væri liður í víðtækum breytingum á kerfi menntamálanna sem fram hefði farið á síðustu missirum. Það væri verið að skerða vald ráðherra, það væri verið að flytja verkefni frá menntmrn., styrkja sjálfstæði skólanna, fækka skriffinnskuverkefnunum. Allt er þetta ánægjulegt og ber vott um að verið er að hverfa frá ríkisafskiptum til frjálsræðis, frá miðstýringu til valddreifingar.
    Við heyrum um þessar mundir mikið um slíka atburði. Vindarnir blása í þessa átt víðar en hér á landi, og það er ánægjulegt að vita til þess að við finnum fyrir því hér.
    Hæstv. ráðherra sagði að nefnd sú sem undirbúið hefði þessi mál hefði starfað í fjögur ár. Ég skal láta það ósagt hvort þessar hugmyndir um valddreifingu og fráhvarf frá ríkisafskiptum séu mál sem ráðherra hefur sjálfur haft frumkvæði að. En ég ætla að hann hafi tekið og fallist á þær skoðanir og stefnumótun sem þessi nefnd hefur unnið að á sl. fjórum árum. Þó að hlutur nefndarinnar kunni að vera mikill, og er hann sjálfsagt mikill í þessu efni, er hlutur ráðherra einnig mikill. Ég vil ekki gera lítið úr því að hann skuli hafa fallist á þessar tillögur sem byggja á þessum grundvallarhugmyndum sem ég vék að.
    Hæstv. ráðherra skýrði frv. sem hér liggur fyrir og sagðist vænta þess að hv. deild tæki því vel. Ég vil strax segja það, og í raun og veru stóð ég upp fyrst og fremst til þess að segja það, að ég vil að þessu frv. sé tekið vel. Ég tel að það stefni í rétta átt og sé framför frá því sem við höfum búið við.
    Hæstv. ráðherra vék að því hvaða ágætismenn hefðu unnið að undirbúningi þessa máls, og ég veit að þar hefur verið vel unnið undir forsæti Þóris Einarssonar og hinna valinkunnu manna sem störfuðu með honum.
    Í grg. með frv. segir að tillögurnar byggist einkum á þrennu. Í fyrsta lagi þeim breytingum sem í reynd hafa orðið á stjórnskipulaginu. Í öðru lagi þeim markmiðum sem stjórnsýslunefndin telur að hafa beri í huga við skipulagsbreytingar. Og í þriðja lagi þeim álitamálum og gagnrýni sem fram hefur komið í umræðum hennar við deildarforseta.
    Ég ætla, og mér sýnist það við athugun á frv., að það sem hér er fyrst talið upp sé megingrundvöllur frv., að það sé byggt á breytingum sem í framkvæmd hafi þegar orðið og þyki rétt að lögfesta með því móti sem gerð er tillaga um með þessu frv. Frv. er þó ekki þýðingarminna fyrir það þó að það sé byggt að miklu leyti á því sem þegar er orðið eða hefur verið stefnt að í framkvæmd því að það er frá mínu sjónarmiði ekki veikleiki frv. heldur styrkleiki að það skuli vera byggt á haldgóðri reynslu.
    Hæstv. ráðherra skýrði skilmerkilega í hverju aðalbreytingar þessa frv. frá núgildandi lögum lægju og ég skal ekki fara að fjölyrða um það eða endurtaka neitt af því sem hæstv. ráðherra sagði. Þarna er, eins og hann sagði, í fyrsta lagi um það að ræða að efla

sjálfstæði háskóladeilda. Það hlýtur að vera af hinu góða og menn hafa, að ég ætla, lengi viljað stefna að því.
    Í öðru lagi er aðalatriði frv. að lögbinda starfsnefndir háskólaráðs. Þar er um að ræða nefndir sem hafa starfað á undanförnum missirum og árum en rétt þykir að lögbinda starfsemi nefndanna.
    Í þriðja lagi er skipting stjórnsýslu Háskólans í framkvæmdasvið. Það orkar ekki tvímælis að rétt er að hafa sem gleggstar reglur um það efni.
    Og þá er það aðalatriði, í fjórða lagi, sem hæstv. ráðherra vék að, að treysta sjálfstæði Háskólans með lýðræðislegu stjórnskipulagi og sveigjanleika í starfsháttum eins og það hefur verið orðað. Það er þessi grundvallarstefna og grundvallarviðhorf sem ráðherra lýsti skilmerkilega og lagði áherslu á hve mikilvæg væru.
    Hæstv. ráðherra sagði að kostnaðurinn af frv. væri óverulegur. Ég hafði nú látið mér koma til hugar að orða það svo, áður en ráðherrann sagði þetta, að kostnaðurinn væri enginn. En þar sem gerð er grein fyrir kostnaðinum í grg. með frv. er þetta orðalag viðhaft sem ráðherrann gerði, að kostnaður af þessum breytingum væri óverulegur. Þar er gerð skilmerkileg grein fyrir því hvað um er að ræða sem gæti aukið rekstrarkostnað Háskólans. En það getur ekki verið mikið. Það hlýtur að vera rétt sem hæstv. ráðherra sagði að það væri óverulegt vegna þess að um er að ræða að leggja niður sex embætti, þ.e. embætti byggingarstjóra, kennslustjóra, aðstoðarháskólaritara, starfsmannastjóra, háskólaritara og ráðgjafa rektors í byggingarmálum. Í staðinn fyrir þessar stöður sem lagðar eru niður er gert ráð fyrir að komi nýjar stöður, framkvæmdastjóri bygginga- og tæknisviðs, framkvæmdastjóri kennslusviðs, framkvæmdastjóri samskiptasviðs, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs og framkvæmdastjóri fjármálasviðs.
    Ég tel, og vildi lýsa þeirri skoðun minni, að þetta sé ekki til bóta. Hér er í raun og veru einungis um að ræða breytingar á nöfnum á stöðum. Mikið kann ég betur við að tala um byggingastjóra en framkvæmdastjóra bygginga- og
tæknisviðs. Mikið kann ég betur við að tala um kennslustjóra en framkvæmdastjóra kennslusviðs. Þá tek ég nafnið aðstoðarháskólaritari fram yfir framkvæmdastjóri samskiptasviðs. Og mikið þykir mér starfsmannastjóri betra orð og það fara betur í munni en framkvæmdastjóri starfsmannasviðs. Þá tala ég ekki um að háskólaritari er betra orð en framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.
    Ég held að þetta orki ekki tvímælis. En þetta eru nú meiri sviðin. Þetta minnir mann á sviðaveislu eða eitthvað slíkt. En af því að ég á ekki setu í menntmn. vildi ég benda á þetta og leggja til að menn haldi sig við gömlu starfsheitin en ekki séu tekin upp þessi nýju starfsheiti sem þarna er gert ráð fyrir. Þetta er ekki neitt aðalatriði í þessu máli og ég hefði raunar ekki vikið að því hér nema vegna þess að ég á ekki setu í menntmn. og get þess vegna ekki tekið málið

þar upp eða bent á þetta þar.
    Eins og ég hef sagt hef ég talið að skipulagsbreytingar og það sem í þá átt horfir í þessum efnum í frv. sé allt í rétta átt. Mér virðist það. En ég get ekki að því gert að mér kemur til hugar að þó að sjálfsagt sé að efla sjálfstæði hinna einstöku deilda þarf líka að gæta þess að háskólarektor hafi sem gleggsta yfirsýn yfir allar deildirnar. Því hefur mér komið til hugar að betur færi á því að gert væri ráð fyrir sérstöku embætti háskólaritara, sem bæri þetta gamla ágæta nafn, og hann væri staðgengill rektors og honum til aðstoðar við yfirstjórn Háskólans til þess að háskólarektor geti haft sem best vald og besta yfirsýn yfir allt stjórnsýslusviðið en sé ekki í þeim efnum háður einstökum deildarstjórum hverjum á sínu sviði.
    Ég hef hér aðeins minnst á nokkur atriði, eiginlega til þess að undirstrika það sem ég sagði í upphafi, að ég fagna frv. og tel að því eigi að taka vel. Önnur atriði sem ég hef ekki minnst á sýnast mér flest horfa til bóta þó að sum minni háttar atriði að mínu áliti kunni að orka tvímælis. En ég skal ekki fara út í það frekar hérna.