Útvarpslög
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Já, það er rétt sem hæstv. menntmrh. sagði. Það urðu hér langar, harðar og heitar umræður þegar útvarpslög voru rædd og sett á þinginu 1984. Síðan eru liðin sex ár og margt hefur breyst. Þá voru aðstæður aðrar en nú en málið er í reynd jafnmikilvægt í dag, ekki síst vegna þeirrar öru tækniþróunar sem ráðherra vitnaði til áðan og henni fleygir stöðugt fram.
    Í þeim umræðum voru margir uggandi um hag Ríkisútvarpsins, m.a. kvennalistakonur. Þeim blandaðist ekki hugur og blandast ekki hugur enn um þýðingu fjölmiðla í nútímasamfélagi. Almennur þekkingarforði ræðst sífellt meira af starfsemi fjölmiðla og þeir gegna æ stærra hlutverki í skoðanamyndun og félagsmótun almennings. Auk þess eru fjölmiðlar mikilvægur miðill menningar, listsköpunar og afþreyingar. Fjölmiðlar eru því áhrifavaldar á öllum sviðum þjóðfélagsins.
    Einhver fjölmiðlamaður gat þess að sjónvarp ætti að endurspegla þjóðfélagið og var þá að útskýra og verja fréttastefnu. En það er óhjákvæmilegt að sjónvarp og reyndar aðrir fjölmiðlar hafi jafnframt áhrif til breytinga, stöðug áhrif til breytinga á það þjóðfélag sem þeir endurspegla. Það er því afar mikilvægt fyrir alla þá, reyndar fyrir alla í þjóðfélaginu en ekki síst fyrir þá sem leita réttar síns í samfélaginu að láta sig varða síka áhrifavalda. Rödd kvenna hefur verið og er því miður enn of veik í samfélaginu og heyrist allt of lítið og sjaldan í fjölmiðlum, eins og reyndar hefur komið fram á eftirminnilegan hátt í nýlegum könnunum. Enda finna það reyndar allir glöggt sem hafa athyglina vakandi. Í þeim efnum endurspegla fjölmiðlar svo sannarlega veruleikann, en þeir viðhalda honum og þeir breyta honum jafnframt í senn.
    Kvennalistakonum er málið bæði skylt og kært og því lögðum við fram frv. til útvarpslaga á árinu 1984 sem einnig var rætt í þeirri miklu umræðu sem þá fór fram um breytingar á útvarpslögum. Það fjallaði fyrst og fremst um
Ríkisútvarpið og varðveislu þess einkaréttar sem það hafði en var byggt í grundvallaratriðum á valddreifingu, en hún er grundvallaratriði í stefnu og vinnubrögðum Kvennalistans. Ríkisútvarpið er og hefur verið eitt öflugasta menningartæki okkar Íslendinga og hefur lögum samkvæmt miklar menningarlegar skyldur. Menningar- og fjölmiðlastefna Íslendinga hlýtur að byggja á lýðræðislegum grunni.
    Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um frelsi og lýðræði í útvarpsmálum. Því hefur verið haldið fram að frelsi fælist í ótakmarkaðri uppsetningu útvarpsstöðva og ótakmarkaðri móttöku útvarps- og sjónvarpsefnis. En frelsi sem aðeins kveður á um réttindi en ekki skyldur, sem helgar rétt hins sterkari án þess að gæta réttar þess sem minna má sín, er frelsi án ábyrgðar og samræmist vart raunverulegu lýðræði.
    Útvarps- og sjónvarpsrekstur er fjárfrekt fyrirtæki.

Aðeins þeir sem fjármagn hafa eiga þess kost að setja á stofn og reka útvarpsstöðvar. Lýðræði fjármagnsins er ekki það lýðræði sem stjórnarskráin kveður á um og stuðlar ekki að tjáningarfrelsi allra einstaklinga. Og reyndin af því frelsi sem við fengum með setningu útvarpslaganna síðustu hefur á vissan hátt orðið sú að frelsið hefur fært okkur meira af því sama fremur en þá fjölbreytni sem menn trúðu á og boðuð var. Þó má ekki halda því fram of einstrengingslega því að fjölbreytni hefur vissulega fært okkur samkeppni sem hefur orðið Ríkisútvarpinu að ýmsu leyti til góðs. Og það má segja að þrátt fyrir mikla samkeppni þá hafi Ríkisútvarpið dafnað vel, staðið sig vel og það nýtur hylli landsmanna, ef dæma má nokkuð þær kannanir sem gerðar hafa verið á því á hvað fólk horfir og hlustar.
    Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um breytingu á núgildandi útvarpslögum. Í athugasemdum við frv. er rakin tilurð þess og hef ég í raun engu við það að bæta en hefði gjarnan viljað spyrja hverjir það voru sem fjölluðu um frv. af hálfu stjórnarflokkanna sl. sumar þegar önnur nefndin sem sett hafði verið til verka hafði lokið störfum. En hún hafði reyndar fengið mjög skamman tíma til þeirra verka og lá mikið á að skila þeirri vinnu sem þar var unnin. Það væri fróðlegt að vita hverjir hefðu fjallað um frumvarpsdrögin því í samlestri á þeim tillögum sem nefndin skilaði og því frv. sem hér liggur má greinilega sjá að ýmsar breytingar hafa orðið.
    Hæstv. ráðherra rakti helstu nýmæli frv. og vissulega eru þar nýmæli sem ber að taka undir og lofa. Það er til mikilla bóta allt sem þar stendur um átak til að varðveita íslenska tungu og íslenska menningu. Þá vil ég sérstaklega minnast á þýðingarskylduna. Ég vil líka minnast á efni ætlað börnum og ungmennum, að það verði talsett. Og einnig í sambandi við auglýsingarnar, að þær séu á lýtalausu íslensku máli. Allt er þetta til bóta og mætti jafnvel kveða fastara að, þó að ég sé ekki að gagnrýna það sem hér stendur, langt frá því.
    Síðan er ýmislegt annað í þessum nýmælum sem vekur upp spurningar og þá ekki síst hvað varðar rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins. En ég mun víkja nánar að
því síðar. Hæstv. ráðherra gaf okkur upplýsingar um innheimtu afnotagjaldanna en í þessu frv. og athugasemdum eða skýringum við einstakar greinar þess er ekki að finna neinar tölur sem gefa til kynna hvort þeir liðir sem teknir eru frá rekstri Ríkisútvarpsins og þeir liðir, sem eiga að styðja við reksturinn eða standa undir honum, standist á fjárhagslega. Þetta eru tölur sem nefndin þarf vissulega að fara ítarlega og vel ofan í við vinnslu málsins. Ég lýsi því hér með yfir að ég er mjög uggandi um þennan rekstrargrundvöll. Ég hef sjálf og aðrir fulltrúar Kvennalistans haft frammi hér við umræður um lánsfjárlög langar og miklar ræður til þess að tryggja það að aðflutningsgjöldin sem verið hafa einn af megintekjustofnum Ríkisútvarpsins verði ekki tekin og látin renna í ríkisstjóð. Það hefur hæstv.

menntmrh. gert líka meðan hann var óbreyttur þingmaður, ef svo mætti að orði komast, og ég hlýt að efast um það að hann hafi skipt svo rækilega um skoðun að honum standi á sama og hann gæti ekki hagsmuna Ríkisútvarpsins þegar hann leggur fram frv. um breytingu á lögum sem það varða. ( Gripið fram í: Þú átt að segja háttvirtur þingmaður, ekki óbreyttur þingmaður.) Háttvirtur þingmaður.
    En ég vil þá víkja nánar að ýmsum atriðum þessa frv. Það hefur ekki gefist mjög langur tími til að kynna sér þetta mál og það er ekki síst vegna þess að nú dynur yfir okkur hvert stóra, viðamikla málið á fætur öðru sem okkur ber að kynna okkur og ræða um í deildinni og í sameinuðu þingi. Þar eru skýrslur sem koma hver af annarri inn á þingið. Ég hlýt að minnast á það hér í þessari umræðu að þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar. Þau eru satt að segja vítaverð. Nú í annað sinn berst okkur skýrsla umboðsmanns Alþingis. Hún er lögð fram á þinginu, að ég hygg í gær, það á að ræða hana á fimmtudaginn. Með öllum öðrum málum sem hér hafa komið inn síðustu daga, reyndar rétt fyrir helgina, er þetta nær ógerningur þó maður leggi nótt við dag. Og þetta eru vel unnin verk, mörg þeirra, þau eru sannarlega mikilvæg og okkur ber skylda til og við berum ábyrgð á því að kynna okkur þau vel til að geta flutt mál okkar af einhverju viti. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu því að það nær til fleiri mála heldur en þessa sem er auðvitað mjög, mjög mikilvægt mál.
    Ég vil nú ræða lítillega ýmis atriði sem minnst er á í greinum frv. Ég mun ekki gera það tæmandi eða mjög ítarlega en þó get ég ekki látið hjá líða að nefna það sem helst rekur í augun og mér finnst umræðuvert.
    Það er þá í 1. gr. að ég vil lýsa yfir nokkrum áhyggjum vegna kapalkerfanna. Hér er skilgreint að útvarp sé í raun ekki t.d. kapalkerfi í stórri blokk. Það verði að vera samband eða samtenging á milli lóða til þess að um útvarp geti verið að ræða. Nú höfum við einmitt rætt nýlega hér á þinginu og utan þings um það sem getur borist að augum og eyrum, jafnt fullorðinna sem barna í kapalkerfum, m.a. klám. Og mér liggur á að fá að vita hvernig á að hafa eftirlit með því sem þannig er sýnt. Ná engin lög yfir slíkt? Eru það fjarskiptalögin og ná þau þá jafnframt til innihalds og efnis þess sem er sýnt? Og hverjum ber að hafa eftirlit með því?
    Líka vil ég vekja athygli á því að í gervihnattasjónvarpi t.d. --- ég hef nú ekki séð slíkt sjónvarp en mér hefur verið sagt frá því --- eru auglýsingar á áfengi, tóbaki og ýmislegt efni sem nauðsynlegt er auðvitað að íslensk lög nái til ef þetta kemur inn í íslenska landhelgi eða yfirráðasvæði. Ég vildi bera fram fsp. um það. Síðan er hérna smáatriði í síðustu línu 1. gr., getur ekki verið að hér eigi að vitna í 1. tölul. 29. gr.? Ég sá ekki efnislegt samhengi auk þess sem ég fann nú reyndar engan tölulið í hvorugri greininni en efnislega fann ég helst eitthvað sem svaraði til 29. gr. en ekki 19. gr. En þetta er nú

smáatriði.
    Þá vík ég að 2. grein. Þar er fjallað um að fella niður útvarpsréttarnefnd en í stað hennar komi útvarpsnefnd og hún eigi að gegna málskots- eða áfrýjunarhlutverki útvarpsréttarnefndar. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvert skilgreint hlutverk útvarpsnefndar er í raun. Í 2. gr. stendur að hún eigi að vera menntmrn. til ráðuneytis um vafaatriði og ágreiningsmál sem kunna að rísa vegna starfsemi útvarpsstöðva, þar með talið Ríkisútvarpsins. Ber ráðherra að fara eftir úrskurði hennar? Það er fyrsta spurning. Síðan er vitnað til 4. tölul. 3. gr., en þar stendur að nefndin skuli fella úrskurð um kæruefni sem koma fram vegna atriða í dagskrám útvarpa og segir þar að sá úrskurður sé bindandi fyrir málsaðila. Þýðir það sum sé að útvarpsnefnd sé lokastöð fyrir úrskurð í málinu þannig að ráðherra kemur ekki nærri þó hún sé jafnframt ráðherra til ráðuneytis? Þá er annað: Getur þessi útvarpsnefnd haft frumkvæði? Er hún einungis aðili sem bíður eftir að kærur séu lagðar fram eða getur hún sjálf haft frumkvæði að því að kæra eða á hún eða ber henni að hafa eftirlit með efni? Getur hún tekið frumkvæði? Það mætti líka spyrja: Hvers vegna bara þrír menn? En það er mál sem auðvitað þarf að ræða nánar í nefndinni.
    Það má kannski segja að í þessu frv. öllu séu afskipti, og jafnvel mætti segja vald, menntmrh. aukið. Í skýringu við 2. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Það þykir til einföldunar á framkvæmd laganna að menntmrh. taki við hlutverki útvarpsréttarnefndar varðandi leyfisveitingar`` og er byggt á forsendum sem
hæstv. ráðherra skýrði. Það er auðvitað einfaldast að sem fæstir ráði, en mér er spurn í sambandi við þetta hlutverk menntmrh. fyrst ég vék að því núna, það kemur reyndar fram síðar í 3. gr. að leyfið verði veitt viðstöðulaust: Hverjum ber að kanna hvort útvarpsstöð eða þeir sem sækja um leyfi til útvarps uppfylli sett skilyrði? Ekki er það sjálfur menntmrh. sem gerir það væntanlega. Krefst slíkt ekki einhverrar vinnu? Ég spyr. (Gripið fram í.) Já, þetta er bara spurning sem ég varpa fram.
    Síðan er það varðandi 3. gr. Ég held að það sé til mikilla bóta, eins og stendur þar í 3. tölul., að talsetja eigi efni og þá sérstaklega dagskrárefni sem ætlað er börnum og ungmennum. Við ræddum þetta einmitt í umræðu um skýrslu málræktarátaksins hér á dögunum. Það er líka umhugsunarefni sem hæstv. ráðherra vék að í umræðunni, það sem gerist meðal annarra þjóða. Þar er gengið lengra. Þar er ekki bara talsett efni sérstaklega handa þeim sem eru að læra málið, börnum og ungmennum, heldur fullorðnu fólki líka og víða er það þannig að langflest erlent efni er talsett.
    Þá er það varðandi 6. tölul. 3. gr. Ég held að það sé til bóta að hafa hann þarna. Ég tek undir það sem þar er sagt, en vil jafnframt víkja að því síðar þegar ég tala um 8. gr. að það þurfi e.t.v. að kveða fastar að orði um jafnrétti kynjanna og það eigi að koma sérstaklega inn í 8. gr., sem varðar beinar skyldur Ríkisútvarpsins.

    Í sambandi við 7. tölul. er talað um að tilkynna beri menntmrh. hver sé útvarpsstjóri. Mér finnst þetta ástæðulaust. Þarna er verið að ákveða stjórnunarform útvarpsstöðva fyrir fram. Það getur verið að einhver allt annar
ábyrgðaraðili sé fyrir útvarpsstöðina, líkt og ég hygg að geti verið með blöð, að ritstjórar séu ekki ævinlega ábyrgðarmenn. Einhverjir ábyrgðarmenn eða ábyrgðarmaður verður að vera og það verður að vera skýrt hver það er, en það þarf ekki endilega að vera útvarpsstjóri. Enda getur stjórn útvarpsstöðvarinnar verið með ýmsum hætti.
    Síðan vil ég víkja að 4. gr. og þá er það sérstaklega það sem varðar birtingu stjórnmálaauglýsinga síðasta mánuðinn fyrir kosningar. Nýlega hafa verið gerðar breytingar á reglum Ríkisútvarpsins um auglýsingar með tilliti til þeirra kosninga sem nú fara í hönd. Á fundi útvarpsráðs þegar þetta var rætt kom í ljós, og kom reyndar í ljós í bréfi útvarpsstjóra til útvarpsráðs, að Ríkisútvarpið hefur nú þegar sett sér ákveðnar reglur um auglýsingar. Einnig hygg ég að menntmrn. hafi sett ákveðnar reglur um auglýsingar í útvarpi. Eftir því sem ég best fæ séð, og mig langar að vitna, með leyfi hæstv. forseta, þá hljóða þær svo:
    ,,Gæta skal þess stranglega`` --- og nú vitna ég einungis til þess hluta sem á við stjórnmálasamtök --- ,,að auglýsingar frá stjórnmálaflokkum, stjórnmálafélögum eða öðrum skoðanamyndandi samtökum eða auglýsingar í þágu slíkra samtaka séu með öllu lausar við áróður eða árásir. Slíkar auglýsingar mega vera:
    1. Um fund eða aðrar samkomur og má þar nefna fundarstað og tíma, ræðumenn og fundarefni.
    2. Um skrifstofur, heiti skrifstofustaða og símanúmer og leiðbeiningar til kjósenda um kosningu, t.d. utan kjörstaðar.
    3. Auglýsingar um efni blaða og tímarita, bæklinga og bóka skulu vera með öllu lausar við áróður og árásir.``
    Þessu var breytt og kom þá fram bókun frá fulltrúa Kvennalistans Magdalenu Schram, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Bríeti Héðinsdóttur sem ég ætla að fá að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og ég vil að þessar skoðanir komi fram. Þær segja eftirfarandi í sinni bókun:
    ,,Við teljum núgildandi reglur Ríkisútvarpsins um flutning auglýsinga frá stjórnmálaflokkunum fullnægjandi, enda eru þær í samræmi við lög um útvarp og Ríkisútvarp og reglugerð um auglýsingar í útvarpi. Í okkar hugum ræður það úrslitum að í lögum um Ríkisútvarpið og útvarp, 3. liður, 3. gr. og 15. gr. er kveðið á um að haldnar séu í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim skilyrðum laganna teljum við ekki fullnægt með því að leyfa stjórnmálasamtökum að viðra stefnu sína og skoðanir í þar til keyptum auglýsingum. Þvert á móti teljum við slíkt brjóta lýðræðislegar grundvallarreglur. Möguleikar stjórnmálasamtaka á því að kynna stefnumál sín eiga

ekki að vera háðir fjárreiðum þeirra. Tjáningarfrelsi á ekki að vera söluvarningur. Ríkisútvarpinu er ætlað að vera trygging þess frelsis. Jafnframt því sem við greiðum atkvæði gegn tillögum fram komnum um breytingar á núgildandi reglum Ríkisútvarpsins um auglýsingar stjórnmálasamtaka skorum við á útvarpsstjóra að beita sér fyrir því að leitað verði álits viðeigandi aðila á því hvort aðrar útvarpsstöðvar gerist ekki brotlegar við lögin með því að selja stjórnmálasamtökum auglýsingatíma á þann hátt sem gert var fyrir síðustu alþingiskosningar. Virðist ekki síst vanþörf á að fá t.d. úr því skorið hvað löggjafarvaldið á við með hugtakinu lýðræðislegar grundvallarreglur. Vegna orðaskipta hér um eðli auglýsinga á ýmsum varningi annars vegar og auglýsinga
stjórnmálastefna hins vegar óskum við jafnframt að bókuð verði sú skoðun okkar að stjórnmálastefnur eru ekki neysluvarningur og því út í hött að leggja þetta tvennt að jöfnu.``
    Ég tek undir þessa bókun og efni hennar. Mér finnst nauðsynlegt að ákveðnar reglur gildi um það hvernig eigi að standa að stjórnmálaauglýsingum í útvarpi, ekki síst síðasta mánuðinn fyrir kosningar. Nýgerðar breytingar koma til vegna þess að auglýsingar voru ekki í Ríkisútvarpinu fyrir síðustu kosningar á sama hátt og þær voru í sjónvarpinu (RÚV) og á Stöð 2, ef ég man rétt. Þess vegna finnst mér ekki vera heppilegt, eins og stendur hér í 4. gr., með leyfi forseta: ,,Útvarpsstöðvar skulu eigi síðar en einum mánuði fyrir hverjar almennar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna og til forsetakosninga koma sér saman um reglur til að takmarka stjórnmálaauglýsingar. Nái handhafar útvarpsleyfa og Ríkisútvarpið ekki samkomulagi samkvæmt þessari grein skal menntmrn. að höfðu samráði við útvarpsnefnd setja reglur er gildi um birtingu stjórnmálaauglýsinga síðasta mánuðinn fyrir kosningar.`` Einmitt vegna þess að þetta er tekjulind fyrir fjölmiðlana, að fá auglýsingar, jafnt frá stjórnmálaflokkum sem öðrum og stjórnmálaflokkar vilja auglýsa fyrir kosningar, jafnvel upp á krít sumir, þá finnst mér nauðsynlegt að reglurnar séu nú þegar fyrir hendi en menn komi sér ekki saman um, jafnvel eftir hagsmunum pyngjunnar, hvernig eigi að standa að því að takmarka. Þá getur takmörkunin orðið eitthvað allt annað en takmörkun í reynd. Og þá getur hinn fjársterki brotið hinar svokölluðu lýðræðislegu grundvallarreglur sem tilvist Ríkisútvarpsins og annarra útvarpa ættu að byggjast á.
    Síðan er vikið að því sem kallað hefur verið því ljóta orði kostun, sem ég felli mig illa við. Það varðar á hvern hátt staðið er að því að styrkja gerð einstakra dagskrárliða á sviði menningar, fræðslu og íþrótta og þarf auðvitað að skilgreina það nokkuð vel. Ég vil t.d. spyrja, því að ég veit það ekki, hvað er dægurmálaefni? Það stendur að með öllu sé óheimilt að leita styrkja frá utanaðkomandi aðilum vegna gerðar frétta og dægurmálaefnis. Og ef ég les rétt hér, þá stendur ekki í sjálfri lagagreininni að þessir

svokölluðu kostunaraðilar megi ekki hafa áhrif á gerð dagskrárefnis. Það stendur bara í skýringunum með greininni. Og leiðrétti mig einhver ef ég hef ekki rétt fyrir mér. Í skýringunum stendur, með leyfi forseta:
    ,,Áréttað er að utanaðkomandi aðilar geti ekki styrkt gerð frétta- eða dægurmálaefnis. Óheimilt er að kostunaraðilar hafi áhrif á gerð dagskrárefnis.`` Þetta er auðvitað meginatriðið og er í raun efni sem margir fjölmiðlamenn hafa fjallað ítarlega um á undanförnum árum, sérstaklega síðustu missirin. Ég tel að það þurfi að vera góð skilgreining á því og ég tel rétt að þetta komi fram í lagagreininni sjálfri.
    Þá vík ég að 8. gr. sérstaklega sem fjallar um Ríkisútvarpið. Og eins og ég sagði áður tek ég undir áhersluna á innlenda efnið, enda hefur sýnt sig að það er það sem flestir landsmenn horfa og hlusta mest á og er auðvitað drjúgast til að viðhalda þeirri menningu sem við væntanlega öll viljum halda í. Ég vil leggja áherslu á að inn í þessa grein komi skýrari ákvæði um minnihlutahópa og um jafnrétti, jafnrétti í efnisvali, í starfsmannahaldi og jafnrétti milli kynjanna. Síðan vek ég athygli á því sem er orðalagsbreyting. Það mætti ef til vill hnika til orðum í setningunni þar sem stendur: ,,Ríkisútvarpið skal flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og flytja efni á sviði lista, bókmennta, vísinda, trúarbragða, sögu og tónlistar.`` Þó að skemmtunin sé nauðsynleg hefði ég kannski frekar sett listir, bókmenntir, vísindi, trúarbrögð, sögu og tónlist á undan, þó að hitt beri auðvitað ekki að lasta. Þetta er áherslumunur.
    Varðandi útvarpsráð þá er vikið að því lítillega í 9. gr. En síðan er í sömu grein vikið að kennsluútvarpi í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal til þess veitt fé á fjárlögum.
    Nú hefur fræðsluvarp nýlega verið lagt af og ætla ég reyndar að bera sérstaka fyrirspurn fram um það til hæstv. menntmrh. því þar er um að ræða mjög mikilvægt mál og er miður að það skuli hafa lagst af. Hér er stefnuyfirlýsing í þeim efnum en hún nær auðvitað skammt ef ekki er veitt fé til verkanna. Tíminn líður, hæstv. forseti, og ég ætla að reyna að stytta mál mitt en vil þó ekki þurfa að gera það um of í þessu mikilvæga máli.
    Í næstu greinum er fjallað sérstaklega um það stjórnunarform sem vera á í stofnuninni. Þegar Kvennalistinn lagði sitt frv. fram var lögð megináhersla á valddreifingu. Í því frv. sem við lögðum fram reyndum við með valddreifingarhugsjónina að leiðarljósi að gefa starfsmönnum Ríkisútvarpsins meira vægi, höfða til ábyrgðar þeirra og metnaðar í starfi og sniðum stjórnunarform stofnunarinnar eftir því. Við lögðum til í tillögum okkar að útvarpsráð yrði lagt af, það væri óheppilegt að pólitískir aðilar sinntu því hlutverki. Slíkt var ekki verið gert í núgildandi lögum og heldur ekki í þessu frv. og er sjálfsagt að endurskoða okkar hugmyndir eins og allra annarra í þeim efnum. En varðandi stjórnunarformið, þá er mjög mikilvægt að það sé sem lýðræðislegast, að starfsmennirnir komi

þar að og ákvarðanataka sé eins
opinská og nokkur kostur er. Í 13. gr. er vikið að því að útvarpsstjóri annist almennan rekstur, mannaráðningar og stjórn Ríkisútvarpsins. Ég tek sem dæmi, hvers vegna geta ekki viðkomandi deildir staðið að mannaráðningum fyrir sitt starfslið eða til þeirra starfa sem eru í umsjá þeirra? Mér finnst útvarpsstjóri gerður mjög mikilvirkur og ráða miklu með þessum hætti. Án þess að ég efist um hæfni hans til þess að geta ráðið menn til starfa, þá er réttara að hver deild sinni því í raun.
    Ég tek undir það sem kemur fram í 14. gr. (Gripið fram í.) Ég er ekki að reyna að tefja málið, hv. 14. þm. Reykv., ég er að reyna að flýta mér. Ég tek undir það sem kemur fram í 14. gr. þar sem er stigið skref til tímabundinna ráðninga. Ég held að það sé í takt við þá þróun sem hefur verið í þjóðfélaginu og svari þeim kröfum sem eru gerðar nú á dögum.
    Varðandi skipun útvarpsráðs dreg ég í efa að það eigi að vera skipað á þennan hátt. Ég mundi vilja ræða það nánar í nefndinni hvort þessi skipun ætti yfirleitt að vera á þann hátt sem hér er lagt til, en ég dreg í efa að það sé réttlátt að hafa þarna hlutfallskosningu stjórnmálaflokkanna á þingi. Það væri miklu nær að þarna ættu þá aðild öll þau viðhorf sem koma fram í stjórnmálum á Alþingi, þau ættu öll þar fulltrúa ef menn vilja fara þessa leið.
    Varðandi fjármál Ríkisútvarpsins lýsi ég enn og aftur miklum áhyggjum yfir því að þarna er verið að svipta Ríkisútvarpið verulega mikilvægum tekjustofni án þess að í staðinn komi nægilegt fé til að tryggja rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Ég legg megináherslu á að farið verði tölulega í þetta eins vel og kostur gefst til þess að búa þannig um hnútana að Ríkisútvarpið geti í raun staðið undir þeim rekstri sem við förum fram á að það sinni í þeim lögum sem um það gilda og þeim breytingum sem hér eru lagðar til.
    Ég vil þá víkja að V. kaflanum þar sem fjallað er um ábyrgð á útvarpsefni. Þar er talað um varðveislu útvarpsefnis og þó að ég sé nú þeirrar gerðar að mér hætti til að vilja varðveita allt og jafnvel fleira en góðu hófi gegnir, að því er mörgum þykir, þá vil ég leggja ríka áherslu á að það verði nánar skilgreint, og jafnvel fleiri aðilar komi þar að að ákveða hvað á að varðveita til framtíðar en hér er gert ráð fyrir. Í 30. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp) skal varðveita myndir, plötur og hljómbönd eftir því sem útvarpsstjóri ákveður í samráði við þjóðskjalavörð.``
    Þessir tveir aðilar eru allra góðra gjalda verðir. En ég efast um að þeir hafi víðsýni til að meta allt það fjölbreytilega efni sem nauðsyn er að geyma til framtíðar. Mig langar að nefna tvö dæmi sem ég veit um og þau eru eflaust miklu fleiri:
    Erlendir fjölmiðlamenn hafa mikið sóst eftir að fá efni frá kvennafrídeginum einstaka árið 1975. Hann er reyndar ekki alveg einstakur því að hann var endurtekinn árið 1985. En því miður er nánast ekkert efni til, því hefur öllu verið hent, bæði hjá blaðaljósmyndurum og líka hjá sjónvarpi. Það er

hverfandi lítið myndefni til nema í fórum einstaklinga sem voru á ferli þennan dag og er það mjög miður. Síðan veit ég til þess að miklu efni hefur verið hent af viðtölum við Halldór Kiljan Laxness og fleiri skáld og fræðimenn og konur sem hefði verið mikill akkur í að eiga til framtíðar. Ég legg því ríka áherslu á að þarna komi fleiri aðilar að til að tryggja að það sem getur reynst mikilvægt í framtíðinni, þó að slíkt sé erfitt að meta, það verði varðveitt.
    Það eru ýmis önnur atriði sem ég hefði kosið að ræða hér en ég ætla ekki að tefja tímann lengur. Ég vona að frv. fái ítarlega umfjöllun í nefndinni. Þarna er margt sem má nýta til að bæta þau lög sem fyrir eru en það varðar geysilega miklu að þetta verk sé vel unnið og vel að því staðið. Svo mikilvæg mál er um að ræða, svo miklir áhrifavaldar í daglegu lífi allra landsmanna eru fjölmiðlarnir og útvarpið þá sérstaklega. Ég mun, ásamt kvennalistakonum, vinna að því að gera ýmsar brtt. við þetta frv. og vona að þær fái jákvæða og góða umfjöllun í nefndinni því sannarlega finnst okkur þetta vera hið mikilvægasta mál og skipta öllu hvernig að því er staðið.