Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Flm. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð bara að treysta því að hæstv. fjmrh. komi einhvern tíma seint og um síðir. Það er ekki hægt að draga mikið lengur að ljúka 1. umr. um þetta mál. Við verðum bara að vona það besta.
    Ég vil byrja á því, herra forseti, að þakka þeim sem hafa tekið til máls um þetta frv. Viðbrögð þeirra hafa yfirleitt verið jákvæð þó nokkuð mismunandi séu og hafi þau ekki verið jákvæð hefur afstaða manna oftar byggst á því að þeir hafa ekki lesið frv. en að þeir séu mjög ósammála efnisatriðum þess. En auðvitað er forsendan fyrir því að geta tekið afstöðu til máls að hafa lesið málið áður en farið er að ræða um það. Ég fékk ekki betur heyrt en t.d. hv. 1. þm. Norðurl. v. hefði ekki lesið frv. áður en hann kvaddi sér hér hljóðs. Enda kom fljótlega skýring á því hjá einum flokksbróður hans, hv. þm. Alexander Stefánssyni, sem upplýsti að hv. 1. þm. Norðurl. v. hefði ekki fengist til þess um margra vikna skeið að taka frv. fyrir á þingflokksfundi í sínum flokki til þess að ræða það þangað til loksins að hann varð við tilmælum forsrh. þar um nokkrum dögum áður en átti að mæla fyrir frv. hér á Alþingi. Það var auðheyrt, herra forseti, að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði ekki haft fyrir því að lesa frv. áður en hann lét í ljós skoðun sína á því og er það ekki óalgengt. Hv. þm. er yfirleitt á móti breytingum. Frv. felur ótvírætt í sér breytingar. Það hefur honum verið tjáð. Þess vegna hlýtur hann eðli málsins samkvæmt að vera á móti frv. af því að það hefur breytingar í för með sér og er þá þarflaust fyrir hv. þm. að rekja málið frekar eða kynna sér frekar efni þess.
    Hæstv. heilbrrh. ræddi þetta mál nokkuð síðast þegar það var til umræðu og vakti máls á því, sem satt er og rétt, að í ríkisfjármálum verði að vera nokkur sveigjanleiki. Hæstv. ráðherra varpaði fram tveim spurningum til okkar flm. þessa frv. Fyrri spurning hans laut að málefnum ríkisspítalanna. Lýsti
hann vanda ríkisspítalanna þar sem vantar allverulega upp á að sú fjárhæð sem í fjárlögum hefur verið afgreidd til þeirra nægi til þess að standa undir kostnaði við óbreyttan rekstur og spurði: Hvað á að gera ef aukafjárveitingavaldið er ekki fyrir hendi hjá framkvæmdarvaldinu? Svarið við því er afskaplega auðvelt og einfalt. Það sem hæstv. ráðherra á að gera er að sjálfsögðu að beita sér fyrir því að í frv. til fjáraukalaga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi væru gerðar tillögur um hvernig á þessum vanda skuli taka. Það er að vísu ekki gert og má e.t.v. vera vegna þess að það frv. var frágengið áður en niðurstaða tiltekinnar nefndar, sem var að skoða málefni ríkisspítala, lá fyrir. Þá er næsta verk að beita sér fyrir því að tillit sé tekið til málsins við afgreiðslu Alþingis á fjáraukalagafrv. sem fyrir þinginu liggur. Svarið við spurningu hæstv. ráðherra er því afskaplega einfalt og blasir við allra augum. Til þess eru fjáraukalög flutt á yfirstandandi ári að hægt sé að takast á við vanda, svo sem eins og vanda vanáætlana

sem menn e.t.v. sjá ekki fyrir þegar fjárlög eru afgreidd.
    Það væri, herra forseti, kannski lærdómsríkt að rekja þá sögu hvernig fjvn. og síðan Alþingi stóðu að afgreiðslu launagjalda til ríkisspítalanna í fjárlögum. Ég ætla ekki að gera það hér en það væri kannski ástæða til að gera það til þess að varpa nokkru ljósi á hversu hætt mönnum er við því, jafnvel hinum bestu mönnum, að ganga vísvitandi til þess leiks að skera niður tillögur um óhjákvæmilegar greiðslur við fjárlagagerð í skjóli þess að því verði þá bara kippt í liðinn síðar með aukafjárveitingu. En eins og ég segi, svarið við spurningu hæstv. ráðherra um ríkisspítalana er mjög einfalt. Ef vanáætluð eru launaútgjöld vegna starfsemi spítalans ber honum að sjálfsögðu að beita sér fyrir því að á þeim málum sé tekið við fjáraukalagagerðina. Annaðhvort með því að gera ráð fyrir þeim viðbótarfjármunum sem þarf ellegar þá með því að gera fjárveitingavaldinu og Alþingi grein fyrir því hvað það kostar í rekstri þessara stofnana ef þeim er ætlað að binda sig við þær fjárhæðir sem í fjárlögum eru.
    Hæstv. ráðherra spurði einnig hvað ætti að gera varðandi kostnað vegna sjúkraflutninga sem ekki hefði verið tekið tillit til við gerð fjárlaga. Hvað ætti að gera í slíku vandamáli ef búið væri að taka aukafjárveitingavaldið af hæstv. ráðherra. Svarið við því er auðvitað jafneinfalt og augljóst. Það sem á að gera í því máli er að sjálfsögðu að taka það vandamál upp þegar frv. til fjáraukalaga er lagt fyrir Alþingi. Svona mál á auðvitað að leysa með þeim hætti. Með lögformlegum og eðlilegum hætti með afgreiðslu á Alþingi en ekki með þeim hætti að menn bókstaflega geri ráð fyrir því, jafnvel geri út á það við fjárlagaafgreiðslu, að svona vandamál séu leyst fram hjá Alþingi með aukafjárveitingum hæstv. ríkisstjórnar og komi ekki til kasta Alþingis fyrr en eftir að greiðsla hefur farið fram, eftir að ákvörðun hefur verið tekin og Alþingi þá stillt upp við þann vegg að verða annaðhvort að segja já og samþykkja afgreiðslur hæstv. ríkisstjórnar ellegar segja nei og þá vaknar spurningin hvert framhaldið verður ef Alþingi fellir afgreiðslur hæstv. ríkisstjórnar á greiðslum úr ríkissjóði umfram það sem lög heimila.
    Hæstv. fjmrh. ræddi einnig nokkuð um frv. og lagði fram tillögur í 14 liðum. Mig langar, herra forseti, til að fara aðeins yfir það sem kom fram í hans máli og einnig að segja í stuttu máli álit mitt á tillögum hans.
    Hæstv. fjmrh. sagði að ókosturinn við frv. sem við flyttum um fjárgreiðslur úr ríkissjóði væri sá að þar gerðum við tillögu um að setja öll ríkisútgjöld undir einn og sama hatt og bregðast eins við öllum tegundum og flokkum útgjalda án tillits til þeirrar sérstöðu sem einstaka flokkar kunna að hafa. Það er ekki rétt. Við gerum það einmitt alls ekki. Það kemur ljóslega fram t.d. í sambandi við 3., 4., 7. og ll. gr. að tekið er tillit til misjafnra aðstæðna sem rísa kunna og ekki gert ráð fyrir því að öll útgjöld ríkisins séu sett undir sama hatt. Frv. gerir t.d. ráð fyrir því að

það verði allt öðruvísi tekið á launa- og rekstrarútgjöldum en útgjöldum sem bundin eru tilteknum framkvæmdum verkefna. Þannig að við gerum beinlínis ráð fyrir ólíkri meðferð slíkra útgjaldaflokka.
    Við gerum einnig ráð fyrir því í 11. gr. frv. að þar sé um að ræða tvo nýja útgjaldaliði. Annars vegar útgjaldaliðinn Óviss útgjöld og hins vegar útgjaldaliðinn Ófyrirséð. Undir liðnum Óviss útgjöld skuli ætla fé til þess að mæta áhrifum breyttra verðlagsforsendna á launagjöld og önnur rekstrargjöld ráðuneyta og undir liðnum Ófyrirséð skuli ætlað fé fyrir hvert ráðuneyti til að mæta viðbótarútgjöldum vegna þeirra verkefna og viðfangsefna sem ráðuneytinu eru falin lögum samkvæmt. Við eigum við það t.d. að ef áformað er að taka fyrir tiltekið verkefni sem gerð er kostnaðaráætlun fyrir og svo kemur í ljós að kostnaðurinn við að framkvæma verkið er nokkru meiri en áætlunin í fjárlögum gerði ráð fyrir þá er í 11. gr. gert ráð fyrir því að hægt sé að verja af sérstökum lið er heitir Ófyrirséð til þess að greiða þann viðbótarkostnað. Þarna er um að ræða nýmæli í fjárlagagerð þar sem hægt er að bregðast við slíkum vanda án þess að þurfa að grípa til aukafjárveitinga eða greiðslu án heimilda eins og gert hefur verið til þessa. Við, flm. frv., leggjum sem sagt til að fjárlög bókstaflega geri ráð fyrir því að afgreiða slíka óskipta liði vegna ófyrirséðra atvika sem komið geta upp vegna þeirra verkefna sem vinna á samkvæmt fjárlögum. Það er því algerlega úr lausu lofti gripið, og raunar miklu meira en það, að halda því fram að þetta frv. geri ráð fyrir því að öll ríkisútgjöldin séu sett undir sama hatt og menn eigi að bregðast eins við öllum tegundum útgjalda á fjárlögum. Það er bókstaflega rangt. Það er miklu meira en rangt. Það er öfugmæli hvað varðar þau nýmæli í fjárlögum sem ég hef gert grein fyrir: liðina tvo Ófyrirséð og Óviss útgjöld. Þar er Alþingi að afgreiða lögformlegar heimildir til ríkisvaldsins til þess að bregðast við óvæntum atvikum.
    Hæstv. ráðherra gerði einnig athugasemdir við að 1. gr. kynni að vera nokkuð þröng túlkun á ákvæði 41. gr. stjórnarskrárinnar. Ef menn bera saman 41. gr. stjórnarskrárinnar og 1. málsl. 1. gr. þessa frv. komast menn að raun um það að notuð eru nákvæmlega sömu orðin í báðum tilvikum. Þannig að segja má að 1. mgr. 1. gr. frv. sé tekin stafrétt upp úr stjórnarskránni. Hvernig geta menn þá haldið því fram að þar séu menn að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar varðandi greiðsluheimildir úr ríkissjóði þrengra en stjórnarskráin gerir þegar ákvæðin eru tekin ákvæðin stafrétt upp úr stjórnarskránni og sett inn í 1. gr. frv.? Slík viðbára er að sjálfsögðu algerlega út í hött.
    Hæstv. fjmrh. gerði einnig athugasemdir við það sem stendur í 4. gr. þar sem reynt er að setja fyrirtækjum og sjóðum í B-hluta ríkisreiknings nokkuð þrengra svigrúm en þau hafa haft til þessa. Og hæstv. ráðherra spurði hvort nokkur ástæða væri til þess að takast á við rekstur B-hluta fyrirtækja með þessum hætti, þ.e. fyrirtækja í eign ríkisins, sem rekin eru

með fjárhagslegri ábyrgð stjórnenda þeirra. Um þetta er það að segja að nokkur tvískinnungur hefur ríkt um þessi mál hjá Alþingi og fjárveitingavaldinu. Menn hafa skipt þessum B-hluta fyrirtækjum nánast í tvo hópa. Annars vegar B-hluta fyrirtæki þar sem menn hafa gengið mjög hart eftir því að þau legðu fram áætlanir um rekstur og fjármögnun við afgreiðslu fjárlaga og gengið síðan mjög hart eftir því að fyrirtækin og stjórnendur þeirra stæðu við þær áætlanir. Sem dæmi um slíka stofnun má nefna Póst og síma og RARIK. Menn hafa gert þá kröfu til þessara tveggja stofnana að áður en fjárlög væru afgreidd legðu þær fram allnákvæmar sundurliðanir bæði um væntanleg rekstrarútgjöld, launaútgjöld og annan rekstur og ekki síst varðandi fjárfestingar. Og síðan hafa menn rætt um það og haft um það samráð við þessar stofnanir hvort tekið yrði við fjárlagaafgreiðsluna tillit til allra þeirra fjárfestinga sem fyrirtækin óskuðu eftir eða hvort þeim yrði falið að draga eitthvað úr þeim. Menn hafa síðan árið eftir, þegar niðurstaða liggur fyrir, haft sérstök afskipti af þessum fyrirtækjum hafi það gerst að þau hafi ekki haldið sig innan ramma áætlananna að þessu leyti og t.d. hlaðið upp skuldum við ríkissjóð eða aðra viðskiptaaðila sína.
    Hins vegar hefur allt annar háttur verið hafður á um aðra aðila, t.d. Þjóðleikhúsið, húsnæðismálastjórn og ÁTVR. Gert var ráð fyrir því í fjárlögum sl. árs að húsnæðismálastjórn fjárfesti að mig minnir fyrir 15 eða 17 millj.
kr. Húsnæðismálastjórn fjárfesti hins vegar fyrir hátt á annað hundrað millj. kr. og notaði fé sem hún taldi sig hafa algjör umráð yfir og þyrfti ekki að spyrja einn eða neinn að hvernig hún ráðstafaði. Þetta stingur auðvitað mjög í stúf við þá skilmála sem öðrum B-hluta stofnunum, eins og þeim sem ég nefndi hér áðan, er ætlað að fylgja.
    Það hefur einnig komið fram hjá forstjóra ÁTVR að ef honum og stofnun hans tækist að skila í ríkissjóð því fé sem fjárlög áætluðu að ÁTVR gæti skilað skipti það Alþingi og fjárveitingavaldið engu máli hvernig hann ráðstafaði þeim tekjum sem kynnu að vera umfram það sem áætlað er í fjárlögum að skilað sé í ríkissjóð. Svo við gerum málið einfalt. Ef sem sé fjárlög áætluðu að skil ÁTVR til ríkisins næmu 1,5 milljörðum en tekjur Áfengisverslunarinnar væru hins vegar 1,8 milljarðar skipti það Alþingi, ríkisvaldið og fjárveitingavaldið engu máli hvernig stjórnendur ÁTVR ráðstöfuðu þeim 300 millj. sem umfram hefðu orðið af tekjunum, svo fremi sem því fé væri ráðstafað í þágu stofnunarinnar sjálfrar með húsakaupum, byggingum, lagerbreytingum, innréttingum, bílakaupum eða einhverju öðru.
    Þetta stangast hins vegar algerlega á við þann hátt sem hefur verið á varðandi t.d. Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli. Það hefur alltaf gerst, svo lengi sem ég man, að tekjur Fríhafnarinnar hafi verið allverulega miklu hærri, svo tugum milljóna skipti, en fjárlög gera ráð fyrir. En það hefur alltaf verið ætlast til þess að forstjóri Fríhafnarinnar og stjórnendur

þeirrar stofnunar skiluðu í ríkissjóð öllum þeim tekjum sem af starfsemi Fríhafnarinnar hlytust, gersamlega án tillits til þess hversu miklu meiri þær tekjur væru en áætlað hefði verið í fjárlögum.
    Þarna er sem sé um að ræða nokkurn tvískinnung í afstöðu Alþingis til B-hluta stofnana. Það sem við leggjum hér til í frv. er að sama krafan sé gerð til allra þessara stofnana. Sú krafa að stofnanirnar
haldi sig við áform og áætlanir um fjárfestingu. Og takist þeim að skila meiri tekjum en ráð er fyrir gert þá verði þær ekki umsvifalaust notaðar til fjárfestingar eða til aukinna útgjalda öðruvísi en að réttar heimildir fáist fyrir. Og við gerum einnig tillögu um það í þessu frv. hvernig eigi að reyna að mæta eðlilegum óskum þessara aðila um t.d. nauðsynlegar breytingar á varanlegum rekstrarfjármunum sem sérhver stjórnandi fyrirtækis þarf að gera á árinu, endurnýjun bifreiða og slíks búnaðar, sala varanlegra rekstrarfjármuna sem ekki skila lengur neinum arði og breytingu yfir í aðrar tegundir af varanlegum rekstrarfjármunum eða aðrar eignir sem meiri arði skila. Við reynum einnig að takast á við þann vanda hvernig hægt sé að gera í senn kröfu til stjórnenda B-hluta stofnana og fyrirtækja um að virða þær áætlanir sem þeir sjálfir leggja fyrir Alþingi til samþykktar í fjárlögum og gefa þeim samt sem áður nægilegt svigrúm til þess að geta tekið allar eðlilegar ákvarðanir um breytingar og umbætur í rekstri fyrirtækja þeirra á því ári sem er að líða.
    Hæstv. fjmrh. gerði athugasemd við ákvæði 7. gr. sem hljóðar svo að fjmrh. sé óheimilt án sérstakrar lagaheimildar að fresta greiðslu á stofn- og fjárfestingarframlögum samkvæmt fjárlögum svo og greiðslu hvers konar styrkja nema að fengnu samþykki fjvn. Hæstv. ráðherra sagði að fjárlög væru í eðli sínu heimildarlög, lög um að heimilt væri að greiða úr ríkissjóði en ekki lög um að skylt væri að greiða úr ríkissjóði. Er nú hæstv. ráðherra kominn og er ágætt að halda áfram þar sem ég er staddur í máli mínu nú.
    Um þetta er nokkur ágreiningur og ég vil vísa í því sambandi til skrifa Ólafs heitins Jóhannessonar um þessi efni þar sem um þessi mál má segja að hann slái nokkuð úr og í. Auðvitað er það alveg ljóst að ákvarðanir í fjárlögum um launagreiðslur og greiðslur á öðrum rekstrarkostnaði eru heimildarákvæði. Ákvæði um að heimila tilteknar greiðslur úr ríkissjóði. Hins vegar gegnir nokkuð öðru máli um verklegar framkvæmdir og framlög, t.d. styrki
til einstaklinga og félaga. Hæstv. fjmrh. ræddi um það að þarna ætti ekki heldur að ríkja greiðsluskylda heldur aðeins greiðsluheimild. En ég ítreka það að um þetta er Ólafur Jóhannesson nokkuð tvísaga. Hann segir í öðru orðinu að það sé e.t.v. eðlilegt að hér sé aðeins um greiðsluheimild að ræða en í hinu orðinu að eðlilegt sé að líta á svona framlög sem bundin framlög úr ríkissjóði. Og það er mjög eðlilegt að menn geri það. Skulum við taka sem dæmi félagasamtök sem gera áætlun um rekstur sinn á árinu og fá í upphafi árs í hendur fjárlög frá íslenska ríkinu

sem gera ráð fyrir því að tiltekin greiðsla gangi til félagasamtakanna úr ríkissjóði sem þau síðan byggja áætlanir sínar og skuldbindingar á. Ég held að menn geti verið sammála um það að ekki sé eðlilegt að t.d. eftir mitt ár berist bréf frá hæstv. fjmrh. þar sem standi að hann hafi ákveðið að fresta þessari greiðslu vegna þess að sá aðili sem við á að taka telur sig hafa tryggingu fyrir því að greiðslan gangi fram eftir að hafa fengið samþykkt ákvæði um það í fjárlögum íslenska ríkisins. Sama máli gegnir um ýmsa þætti í verklegum framkvæmdum þar sem t.d. er tekin ákvörðun um það, e.t.v. að höfðu samráði við heilu þingmannahópana, hvað skuli gert skulum við segja í vegagerð á tilteknu ári. Þegar náðst hefur um það samstaða milli bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í þingmannahópi kjördæmanna, þetta
hefur verið tilkynnt og fólkið sem á að njóta góðs af því veit af þessu þá er ekki eðlilegt, nema sérstaklega standi á, að gera ráð fyrir því að framkvæmdarvaldið geti frestað slíkum greiðslum.
    Auðvitað er hægt að hugsa sér að það sé gert ef eitthvað stendur í vegi fyrir því að framkvæmdin gangi fram eða ef tekin er ákvörðun um að skera niður útgjöld og ákvörðunin um frestun þá tekin í samráði við þingmannahóp viðkomandi kjördæmis og með samþykki þeirra eins og oft hefur gerst. En það er ekki eðlilegt að það sé hægt að fresta slíkri greiðslu með einhliða ákvörðun framkvæmdarvaldsins.
    Einmitt þess vegna, hæstv. fjmrh., er ekki rétt að í þessu frv. sé gerð tillaga um það að meðhöndla alla útgjaldaflokka með sama hætti án tillits til þess hvers eðlis þeir eru. Okkar till. er sú að því aðeins sé greiðslu af þessari tegund frestað að haft sé um það samráð við Alþingi eða fjvn. sem bæri þá skylda til, að mínu áliti, ef til hennar væri leitað um t.d. niðurskurð vegna vegaframkvæmda, sem þingkjörinni nefnd að hafa samráð við þingmannahópana um slíkar athafnir.
    Enda væri vandinn ekki mikill ef ekki væri gengið út frá því að framkvæmdarvaldið gæti ekki frestað slíkum greiðslum. Eins og hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson hefur réttilega bent á væri vandinn ekki mikill fyrir þingmenn stjórnarliðs að samþykkja allar útgjaldatillögur stjórnarandstöðu, vera ekkert að koma sér í þá klípu að greiða atkvæði á móti tillögu stjórnarandstöðu um hækkun á fjárveitingum til góðra verkefna í kjördæmum þeirra, vegna þess að fjmrh. mundi bara leiðrétta málið upp á sitt eindæmi síðar. Auðvitað er ekki eðlilegt að gera ráð fyrir því að menn geti gengið til slíkrar fjárlagaafgreiðslu hér á Alþingi að greiða atkvæði með tillögu um auknar fjárveitingar í skjóli þess að fjmrh. kippi því bara í liðinn síðar og fresti greiðslum. Það er miklu eðlilegra að gera ráð fyrir því um greiðslur eins og ég hef nefnt hér, þ.e. styrki til félaga og samtaka og framlög til verklegra framkvæmda, að þar sé um fastmótaða ákvörðun Alþingis að ræða sem þingmenn verða að taka afstöðu til í einstökum atriðum. Hvort þeir samþykki eins og tillagan er lögð fram um, hvort þeir

lækki eða hvort þeir hækki.
    Þá hafa menn gert nokkrar athugasemdir við 2. gr. frv. er varðar kjarasamninga og vilja líta svo á að þar leggi flm. til að allir kjarasamningar, smáir og stórir, sem kunna að skipta tugum á ári hverju, séu jafnan lagðir fyrir Alþingi og ræddir og samþykktir og ekki sé greitt eftir samningum eða við þá staðið að einu eða neinu leyti nema Alþingi sé áður búið um þá að fjalla. Þetta er ekki rétt. Það er ekki þetta sem vakir fyrir flm. þessa frv. Í fylgiskjali I á bls. 10, 11 og 12 í frv. eru rakin í almennum orðum þau atriði sem flm. leggja til grundvallar þessu frv. Þar stendur svo undir liðnum launasamningar:
    ,,Séu gerðir launasamningar, sem ekki rúmast innan launaramma fjárlaga, verði þeir undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Útgjöld vegna slíkra samninga verði síðan lögð fyrir Alþingi til afgreiðslu svo fljótt sem við verður komið.`` Af þessu má ljóslega sjá að það er auðvitað hreinn útúrsnúningur að halda því fram að með þessari till. í 2. gr. séu flm. að gera því skóna að það eigi að bera upp alla launasamninga á vegum ríkisins hér á Alþingi, ræða þá í einstökum atriðum og afgreiða síðan væntanlega í formi þáltill. eða með einhverjum slíkum formlegum hætti.
    Í fjárlögum er yfirleitt gert ráð fyrir því undir óskiptum lið hvaða launabreytingum er áætlað fyrir á fjárlagaárinu. Stundum nægir sá áætlaði útgjaldaliður til þess að standa undir launakostnaði og hækkunum. Það er þó líklega sjaldan sem það gerist. Oftar en ekki nægir sá áætlaði útgjaldaliður ekki og er þá mjög eðlilegt, ekki síst vegna þess að hér er um að ræða einhvern helsta útgjaldaflokk ríkisins, launasamninga og kjaraleg atriði sem þeim eru tengd, þegar farið er fram úr áætlunum fjárlaga um útgjöld vegna slíkra viðfangsefna að það sé leitað til Alþingis aftur um heimild til þess að greiða þau umframútgjöld sem kjarasamningarnir gera ráð fyrir að lagðir séu á ríkissjóð.
    Þetta er, virðulegur forseti, nákvæmlega sama kerfi og ríkir t.d. í Noregi. Þar eru launasamningar samþykktir með fyrirvara um samþykki þingsins. Launasamningarnir eru þar ekki lagðir fram og ræddir frá a til ö heldur eru lagðar fyrir þingið og afgreiddar þær útgjaldahækkanir sem af launasamningunum stafa. Og fyrirvarinn sem gerður er um undirritun slíkra kjarasamninga er fyrirvari um að fjárveitingavaldið staðfesti þau aukaútgjöld sem af samningunum hljótast.
    Nú er það alkunna að kjarasamningar eru iðulega gerðir um annað en beinar launagreiðslur. Kjarasamningar hafa verið gerðir er varða niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir. Kjarasamningar hafa verið gerðir um framlög úr ríkissjóði vegna félagslegra íbúða. Kjarasamningar hafa verið gerðir um framlög úr ríkissjóði vegna annarra félagslegra atriða svo sem eins og almannatrygginga. Hér er oft um að ræða framlög sem nema hundruðum milljóna. Og það er ósköp
eðlilegt að leitað sé til Alþingis um heimild fyrir

slíkum viðbótargreiðslum eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir. Það er ekki eðlilegt að ríkisstjórn geti bundið slíkar greiðslur án fyrirvara um samþykki Alþingis. Það er ekki eðlilegt að hún geti bundið slíkar greiðslur með samningsundirskrift án fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta hefur hins vegar ekkert með það að gera hvort hætta sé á því að Alþingi hnekki gerðum kjarasamningum. Hæstv. fjmrh. skuldbindur að sjálfsögðu ríkissjóð með undirskrift sinni en ef Alþingi er ekki reiðubúið til þess að samþykkja þá útgjaldaaukningu sem slíkir kjarasamningar hefðu í för með sér yrði þingið annaðhvort að bregðast við því með niðurskurði á öðrum sviðum ellegar með annarri tekjuöflun. Þannig að þær viðbárur sem komið hafa fram varðandi 2. gr. eru einnig út í hött.
    Ég vil aðeins í þessu sambandi benda mönnum á bls. 12 í frv. þar sem gerð er grein fyrir því hvaða háttur hafður er á afgreiðslu þessara mála í þjóðþingum nágrannalandanna. Og, herra forseti, þetta er nákvæmlega sami háttur og hæstv. fjmrh. hefur nú. Hann hefur gefið þá yfirlýsingu og staðið við hana að hann hyggist leggja fyrir Alþingi á yfirstandandi fjárlagaári fjáraukalög eftir því sem þurfa þykir. Nú hefur hæstv. fjmrh. undirritað kjarasamninga við aðila vinnumarkaðarins og hefur lagt fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga þar sem meira að segja í fyrirsögninni er vísað til nýgerðra kjarasamninga. Ég held að ég fari rétt með það að þetta heiti: Frumvarp til fjáraukalaga vegna nýgerðra kjarasamninga. ( Forseti: Forseti vill inna hv. ræðumann eftir því hvort hann eigi mikið ósagt í þessu máli. Það bíða okkar mjög mikilvægar atkvæðagreiðslur sem forseti hefur hug á að hraða og vildi því gjarnan fá að heyra svör ræðumanns við þessum spurningum.) Herra forseti, ég á svona 20 mínútur eftir, er reiðubúinn til að gera hlé á ræðu minni nú ef forseti vill. Eða halda áfram eftir því sem hann vill. Hann ræður því að sjálfsögðu. ( Forseti: Forseti þiggur að hv. ræðumaður geri hlé á ræðu sinni núna. Forseti vill taka fram að honum varð á í messunni varðandi hv. 1. þm. Vesturl., sem hafði frestað ræðu sinni á síðasta fundi þegar þetta mál var til umræðu, og biðst velvirðingar á því. En hann mun fá að taka til máls um þetta mál seinna í dag þegar til umræðu verður tekið.)