Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Erindi mitt í ræðustól að þessu sinni er ekki að flytja framsöguræðu fyrir nál. enda hefur hv. nefnd ekki hist á milli umræðna. Hins vegar er full ástæða til þess að skýra brtt. á þskj. 742. Þar eru tvær brtt. við 3. gr. en þær eru hluti af því samkomulagi sem gert var á milli tillögumanna annars vegar og hæstv. fjmrh. hins vegar. Ástæðan fyrir því að þessar brtt. eru fluttar er sú að flm. brtt., sem eru auk mín hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Matthías Bjarnason, afturkölluðu tillögu þess efnis að lengja þann hámarkstíma sem nefndur er í 3. gr. frv. úr 6 árum í 8 ár. Þegar fallið var frá því að flytja þá tillögu þurfti að breyta frumvarpstextanum en það var ekki hægt svo að vit væri í við 2. umr. málsins enda umræðunni lokið þegar samkomulagið var gert. Þess vegna var gripið til þess ráðs, á grundvelli þess samkomulags sem gert var, að flytja þessar tvær brtt. við 3. umr. málsins.
    Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hæstv. ráðherra fyrir það samkomulag sem gert var sem ég held að hafi verið málinu til heilla. Frv. er nú mun sveigjanlegra en það var áður og getur komið að meira gagni. Það er hins vegar alrangt sem haldið hefur verið fram af sumum hv. þm. að hér hafi verið um afgerandi stefnubreytingu að ræða og nú sé tekin upp ríkisábyrgð á lánum vegna fiskeldis. Sú stefna var mótuð af núv. hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkum með framlagningu þessa frv.
    Virðulegur forseti. Mig langar til þess, þar sem búið er að dreifa hér þskj. sem ég veit að hv. flm. Jón Sæmundur Sigurjónsson mun gera grein fyrir hér á eftir, að taka það fram að í hv. nefnd var fjallað nokkuð um skipan stjórnarnefndar ábyrgðadeildar fiskeldislána. Fram kom á fundum nefndarinnar að uppi hefðu verið hugmyndir um að breyta skipaninni á þann veg að hæstv. landbrh. annars vegar og hæstv. viðskrh. hins vegar gætu skipað sinn nefndarmanninn hvor en síðan hæstv. fjmrh. einn. Ég hygg að það sé rétt með farið þegar ég segi frá því að ótiltekinn meiri hl. hv. nefndar féllst ekki á þessi sjónarmið. Og ég vil láta það koma fram nú þegar ég hef tækifæri til í þessari ræðu minni við 3. umr. málsins að ég tel óhyggilegt að breyta því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir.
    Það er einu sinni svo að ríkisábyrgðir hljóta að vera í verkahring hæstv. fjmrh. hverju sinni. Svo tengdar eru ríkisábyrgðir ríkisfjármálunum að nánast er óhugsandi að taka vald af hæstv. ráðherra með þeim hætti sem þessi brtt. á þskj. 768 gerir ráð fyrir. Það er mín skoðun að það sé ekki gott fordæmi að breyta þessu ákvæði því að þá kann svo að fara að sams konar kröfur verði gerðar við önnur tækifæri. Þetta er alls ekki eina tilvikið þar sem um ríkisábyrgð vegna lána til atvinnufyrirtækja er að ræða. Ef við tökum t.d. lán með ríkisábyrgð til fyrirtækja í öðrum greinum má auðvitað hugsa sér að viðkomandi hæstv.

ráðherrar, t.d. ráðherra iðnaðarmála, landbúnaðarmála, sjávarútvegsmála svo að dæmi séu tekin, geri kröfur til þess að eiga aðild að ríkisábyrgðum ef um er að ræða ríkisábyrgðir vegna lána til fyrirtækja í þessum greinum.
    Okkur hefur því miður ekki gefist tækifæri til þess, virðulegur forseti, í þingflokki sjálfstæðismanna að ræða þessa fram komnu brtt. sem nú birtist við 3. umr. málsins. Við vitum að hér er um að ræða deilumál á milli stjórnarflokkanna en því lyktaði með að ákveðið var að hafa frv. eins og það var lagt fram, þ.e. með þeim hætti að hæstv. fjmrh. skipaði alla stjórnarnefndarmenn ábyrgðadeildarinnar. Ég vil fyrir mitt leyti lýsa yfir stuðningi við það sjónarmið að hafa frv. óbreytt í þessu efni. Ég tel að hæstv. fjmrh. eigi að bera fulla og óskoraða ábyrgð á ríkisábyrgðum. Það hefur þegar komið fram í umræðum um þetta mál á fyrri stigum, sér í lagi við 2. umr. málsins, að menn vilja vera íhaldssamir á ríkisábyrgðir og grípa ekki til þeirra nema í neyð eða þegar um tímabundnar ráðstafanir er að ræða sem ómótmælanlega er í þessu tilviki en gert er ráð fyrir að gildistími þessara laga verði til 1999. Og að hvert fyrirtæki getur aðeins fengið ríkisábyrgð í tiltekinn skamman tíma og einungis hámarksábyrgð í enn styttri tíma. Þetta er auðvitað allt gert til þess að þrengja kost hæstv. ráðherra og það er afar skiljanlegt að löggjafinn sé íhaldssamur hvað þetta snertir og enn skiljanlegra að hæstv. fjmrh. hafi lagt mikla áherslu á að hann einn beri óskoraða ábyrgð í þessu efni.
    Þess vegna er það mín skoðun, og get ég þó ekki talað fyrir munn allra sjálfstæðisþingmanna þar sem þetta mál hefur ekki verið rætt í þingflokki okkar en ég hygg að langflestir séu sama sinnis, að það beri að fella þá tillögu sem fram er komin á þskj. 768.