Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Ég lýsi hér brtt. við 265. mál, um ábyrgðadeild fiskeldislána. Brtt. er við 5. gr., um að 1. og 2. málsl. orðist svo:
    ,,Fjmrh. skal skipa fimm manna stjórnarnefnd, einn samkvæmt tilnefningu viðskrh., einn samkvæmt tilnefningu landbrh. og þrjá án tilnefningar og skal formaður skipaður úr þeirra hópi. Jafnframt skulu skipaðir fimm varamenn með sama hætti.``
    Það kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. hér áðan að svipaðri tillögu var lýst í fjh.- og viðskn. á sínum tíma og ótilgreindur meiri hluti nefndarinnar, eins og hann orðaði það, féllst ekki á að sú tillaga yrði flutt. Tillagan var þó á þeim tíma með öðrum hætti en sú sem hér er lögð til. Á þeim tíma var tillagan þess eðlis að áfram skyldi haldið sig við þriggja manna stjórnarnefnd, þ.e. formaður yrði skipaður af fjmrh. en síðan kæmu hinir tveir frá ráðherra bankamála og sá þriðji frá þeim ráðherra sem fer með fiskeldismál. Tillagan var með öðrum orðum allt annars eðlis. Hún hlaut ekki meiri hluta innan stjórnarliðsins og það varð samkomulag um að ef ekki yrði meiri hluti innan stjórnarliðsins fyrir breytingum þá yrðu þær breytingar ekki fluttar. Og svo fór um þessa tillögu að hún var ekki flutt við 2. umr. heldur héldu menn sig við óbreytt frv. fjmrh.
    Eftir þær breytingar sem orðið hafa á frv. er greinilegt að miklu meiri sveigja er á þeim möguleikum til ríkisábyrgða en upphaflega var ætlað og greinilegt að um miklu meira samspil banka og Ríkisábyrgðasjóðs verður að ræða en upphaflega var ætlast til. Þeim mun ríkari ástæða sýnist okkur að bankamálaráðherra og fulltrúi þess ráðherra sem fer með fiskeldismál eigi fulltrúa í þeirri nefnd sem veitir þessar ábyrgðir fyrir hönd ríkissjóðs.
    Tillagan er flutt með öðru sniði en gert var upphaflega í nefndinni þar sem hún hlaut ekki meiri hluta. Hún er flutt nú með því sniði að fjmrh. hefur enn
þá meiri hluta sinna manna í þessari nefnd, þ.e. þrír eru skipaðir skv. tilnefningu fjmrh. þannig að eftir sem áður hefur fjmrh. öll tögl og hagldir með það hvernig hann hyggst veita þessar ábyrgðir. Það má segja að fulltrúar bankamálaráðherra og þess ráðherra sem fer með fiskeldismál hafi umræðurétt í þeirri nefnd og tillögurétt en geta að sjálfsögðu verið ofurliði bornir. Okkur finnst skynsamlegt að fulltrúar þessara tveggja aðila eigi sæti í þeirri nefnd sem fer með veitingu þessara ábyrgða og hefur það því verið lagt hér til.