Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ummæla hv. 1. þm. Suðurl. Ég vil fullvissa hv. 1. þm. Suðurl. um að við alþýðuflokksmenn erum enn eftir sem áður miklir aðhaldsmenn í því er snertir veitingu á ríkisábyrgðum. Ég held að sú afstaða okkar hafi komið mjög skýrt fram við 2. umr. og við atkvæðagreiðslu sem fram fór eftir 2. umr. um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Þar var um að ræða að auka allverulega möguleika á því að veita ríkisábyrgðir. Alþýðuflokksmenn stóðu ekki að samþykktum þeim sem þar voru gerðar um að auka möguleikana. Hins vegar sýndist mér flestallir ef ekki allir þm. Sjálfstfl. standa mjög þétt að því að vilja veita auknar ríkisábyrgðir. Þannig að ef spurningin kemur upp hverjir eru aðhaldsmenn í þessum efnum geta menn horft til þess hvaða afstöðu menn tóku í þeirri atkvæðagreiðslu.
    Það er hins vegar rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að fagráðherrar aðrir en fjmrh. hafa ríka tilhneigingu til að standa að sínum málaflokki og gæta þar oft og tíðum ekki hagsmuna ríkissjóðs. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ég hins vegar sé ekki að fulltrúi bankamálaráðherra verði beinlínis málsvari viðkomandi viðskiptabanka þegar kemur til veitingar á ábyrgðum á þessu sviði. Fulltrúi fiskeldisráðherra kynni að hafa aðra afstöðu. Það má vel vera.
    Eins og kom glögglega í ljós hjá hv. 18. þm. Reykv. hér áðan hefur fjmrh. meiri hluta í þessari nefnd og öll tögl og hagldir og getur stjórnað því sem hann vill stjórna og ráðið málinu eins og hann vill, að það nái fram að ganga. Þannig að við því grundvallaratriði er ekki hróflað á neinn hátt.