Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um hvort heppilegt sé og æskilegt sé að viðskrh. nefni mann í stjórnarnefnd ábyrgðadeildar fiskeldislána langar mig til þess að taka skýrt fram, einkum vegna orða hv. 1. þm. Suðurl., að embættisskylda hvers ráðherra í ríkisstjórn Íslands er fyrst og síðast að gæta almenningshagsmuna, ekki sérgreinahagsmuna. Þar greinir mig á við hv. 1. þm. Suðurl. Að sjálfsögðu ber hver ráðherra ábyrgð á þeim málaflokki sem honum er falinn og hann gætir hagsmuna þeirrar greinar svo lengi sem þeir fara ekki í bága við almenningshagsmuni. Þetta er fyrsta og síðasta skylda hvers ráðherra í okkar ríkisstjórn. Þess vegna þótti mér það næsta sérkennilegur málflutningur hjá hv. 1. þm. Suðurl. að ráðherra ætti að gæta sérhagsmuna ,,sinna`` greina.
    Rökin fyrir því að það sé heppilegt að hafa þarna fulltrúa fyrir bankamálaráðuneytið eru ákaflega einföld. Ábyrgðadeild fiskeldislána er ætlað óvenjulegt hlutverk þegar um ríkisábyrgðir er að ræða. Hennar starfsemi er komin mjög nálægt því sem er venjuleg fjármögnun á rekstrarfjárþörfum atvinnuvegarins. Þar með er hún farin að liggja við hliðina á starfsemi viðskiptabankanna og það er ekki hagsmunagæsla fyrir þá sem ég held að þarna mætti helst hafa í frammi heldur einfaldlega að gæta þess að Ríkisábyrgðasjóður eða ábyrgðadeild fiskeldislána flækist ekki allt of mikið inn í það sem er eðlileg rekstrarfjármögnun á greininni. Ég tel í þessu felast góð og gild rök, en auðvitað alltaf umdeilanleg.
    Ég er algjörlega sammála hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 1. þm. Reykv. að ábyrgðin á ríkisábyrgðunum á að hvíla alfarið hjá fjmrh. Fyrir því er vel séð í brtt. hv. 5. þm. Norðurl. v. Fjmrh. hefur þarna ráðandi fjölda í stjórninni, enda ætla ég að oft væri um það að ræða að þeir sem þarna kæmu auk fulltrúa fjmrh. væru þar fyrst og fremst til þess að halda til haga tæknilegum sjónarmiðum, annars vegar frá greininni sjálfri, hins vegar frá sjónarmiði viðskiptabankarekstrarins, án þess að vera gæslumenn hagsmuna
lánastofnana. Þar er misskilningur í málinu eins og mér finnst það flutt hér af hv. þingmönnum, hinum fyrsta frá Reykjavík og þeim fyrsta frá Suðurlandi. En ég tel að það megi vel við þá virða að tala af ábyrgð um veitingu ríkisábyrgðanna, einkum og sér í landi þegar þetta á að verða ábyrgð sem ekki er tengd fjárfestingarláni eða einni stórri framkvæmd heldur einhvers konar reglubundin starfsemi vegna rekstrarlána eða tiltekinna, sem kalla mætti, bústofnslána eða fiskeldislána eins og reyndar er nú skilgreint í lagafrv. sjálfu.
    Þetta eru hugleiðingar, virðulegi forseti, sem ég tel að eigi erindi inn í þessar umræður. Ég tel að lokum rétt að benda á að þetta er ekki stærsta málið í því sem við ræðum hér nú. Stærst er spurningin um ábyrgðirnar sjálfar, hvernig um þá hnúta er búið og þar tel ég mikla ástæðu til að ítreka að menn fari varlega en séu þó með raunhæfa leið í málinu.